Hoppa yfir valmynd
10. maí 2009 Forsætisráðuneytið

Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar 2009

Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar á PDF-formi

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er mynduð um að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika og leita þjóðarsamstöðu um leið Íslands til endurreisnar – nýjan stöðugleikasáttmála.

Ríkisstjórnin er mynduð á grundvelli góðs samstarfs flokkanna tveggja í fráfarandi ríkisstjórn. Á ríflega 80 dögum hefur verið lagður grunnur að því að hægt verði að snúa vörn í sókn á flestum sviðum, þrátt fyrir gríðarlega erfiðar aðstæður í íslensku samfélagi og alþjóðlegu efnahagslífi.

Í nýafstöðnum kosningum veitti meirihluti kjósenda jafnaðarmönnum og félagshyggjufólki skýrt umboð til að halda áfram og leiða til öndvegis ný gildi jöfnuðar, félagslegs réttlætis, samhjálpar, sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsis, siðbótar og lýðræðis. Ný ríkisstjórn starfar með þessi gildi að leiðarljósi í því skyni að skapa norrænt velferðarsamfélag á Íslandi, þar sem almannahagsmunir eru teknir fram yfir sérhagsmuni. Lykilverkefnið er að endurreisa traust í íslensku samfélagi og orðspor Íslands á alþjóðavettvangi.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum. Ríkisstjórnin mun kappkosta að byggja upp á Íslandi opið og skapandi umhverfi sem stenst samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar í Evrópu, bæði að því er varðar efnahag og lífsgæði. Í þeim efnum horfum við sérstaklega til frændþjóða okkar á Norðurlöndum.

Framhald verður á miklum efnahagsþrengingum um allan heim og ljóst að ástandið kann að versna áður en það batnar aftur. Einnig liggur fyrir að efnahagur þjóðarinnar mun ekki lagast af sjálfu sér – til þess þarf samfélagið að vinna saman að því að leysa vandann. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum, og í réttu hlutfalli við getu. Þessi ríkisstjórn mun ekki velta vandanum yfir á þá verst settu í samfélaginu, né leggja byrðarnar á börnin okkar með því að skjóta vandanum á frest. Eftir fremsta megni verður staðinn vörður um kjör lágtekjufólks og þá sem við erfiðastar aðstæður búa og byrðunum dreift með sanngirni, jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi.

Gangi áætlanir ríkisstjórnarinnar í efnahags- og ríkisfjármálum eftir eru góðar líkur á að hagvöxtur verði orðinn viðunandi, verðbólga lág, gengi stöðugt og atvinnuleysi hafi dregist verulega saman við lok kjörtímabilsins. Samhliða endurreisninni er mikilvægt að unnið sé markvisst að því í samvinnu allrar þjóðarinnar að leggja grunn að nýrri sókn í íslensku atvinnulífi og betra samfélagi, samfélagi sem mun skipa sér í fremstu röð í verðmætasköpun, velmegun, velferð og sönnum lífgæðum.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ætlar sér að verða norræn velferðarstjórn í besta skilningi þess orðs.

Efnahagsmál

Meginverkefni efnahagsmála eru að ná aftur jafnvægi í rekstri ríkissjóðs, endurreisa fjármálakerfið, ná þjóðarsátt um lykilmarkmið og viðamiklar efnahagsráðstafanir og sátt við nágrannalönd eftir hrun íslenska fjármálakerfisins. Þessi verkefni þarf að vinna til að koma efnahags- og atvinnulífi hið fyrsta upp úr núverandi öldudal, skapa þjóðhagslegan stöðugleika að nýju og endurheimta traust á landið í alþjóðasamfélaginu. Þá er einnig mikilvægt að ljúka sem allra fyrst samningum vegna innstæðutrygginga við nágrannaríki, uppgjöri á milli gömlu og nýju bankanna. Þessi atriði eru forsenda þess að Ísland öðlist á ný aðgang að erlendum lánamörkuðum.

Hornsteinar efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eru trúverðug efnahagsáætlun og stefnumörkun í ríkisfjármálum til fjögurra ára sem miðar að hallalausum ríkisfjárlögum á ásættanlegum tíma, auk samstarf við aðila vinnumarkaðarins um nýjan stöðugleikasáttmála.

Til að tryggja markvissa framkvæmd efnahagsaðgerða stjórnvalda og endurnýja traust á fjármálakerfi landsins mun ríkisstjórnin ráðast í skipulagsbreytingar í stjórnkerfinu, m.a. með stofnun sérstaks efnhags- og viðskiptaráðuneytis. Peningastefnunefnd Seðlabankans verður falið að fara yfir kosti og galla þess að breyta peningastefnunni, meta kosti þjóðarinnar í gjaldmiðilsmálum og gera tillögu til stjórnvalda með hliðsjón af því mati. Jafnframt verður óskað eftir mati Seðlabankans á því hvernig best verði dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi.

Til að fjármálakerfið endurheimti traust innanlands og utan þarf að herða fjármálaeftirlit, gefa því auknar heimildir til að fylgja eftir athugunum sínum og ábendingum og rýmka heimildir þess og annarra eftirlitsstofnana til að skýra opinberlega frá athugasemdum sínum. Setja þarf reglur sem takmarka útlán banka á uppgangstímum og skylda þá til að leggja fyrir þegar vel gengur. Herða þarf reglur um miklar lánveitingar til eins og sama aðila og um lán til tengdra aðila. Setja þarf afgerandi skorður við því að hér geti aftur þróast kaupaukakerfi í fjármálastofnunum sem leiðir til mikillar áhættusækni.

Forsætisráðherra mun einnig láta vinna yfirlit um stöðu og þróun á lykilstærðum í samfélags- og efnhagsmálum til að skilgreina nánar þann vanda sem við er að glíma og framtíðarvalkosti, s.s. í ríkisfjármálum, gjaldmiðilsmálum, atvinnulífi, húsnæðismálum, jafnréttismálum, byggðamálum, löggæslumálum auk annarra mikilvægra samfélagsmála. Til verksins verða m.a. kvaddar fagstofnanir og sérfræðingar úr háskóla- og rannsóknasamfélaginu. Slíkt stöðumat felur í sér mikilvæga viðmiðun til að meta árangur næstu ára í ljósi þróunar síðustu ára og þess sem gerst hefur.

Ríkisstjórnin mun gera það sem í hennar valdi stendur til að tryggja öfluga og skilvirka efnahagsbrotarannsókn og að bæði henni og niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið verði fylgt eftir af fullum heilindum. Réttar og greinargóðar upplýsingar um stöðuna og réttlátt og heiðarlegt uppgjör við þá peningjahyggju sem leiddi til hrunsins eru mikilvæg forsenda þess að íslenskt samfélag geti sameinast á ný og beint kröftum sínum að því að byggja upp til framtíðar.

Erfiðari aðstæður í umhverfinu

Ljóst er að aðstæður á heimsvísu hafa enn breyst til hins verra frá haustdögum. Þannig hafa hagvaxtarhorfur á þessu ári og næsta versnað jafnt og þétt eftir því sem liðið hefur á árið. Nýleg spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir nú ráð fyrir að framleiðsla í iðnríkjum dragist saman um tæp 4% á þessu ári en standi í stað á árinu 2010. Þessar tölur eru samstíga við nýjar áætlanir frá ESB, okkar helsta mótaðila í utanríkisviðskiptum þar sem reiknað er með svipuðum samdrætti 2009 og áframhaldandi lítilsháttar samdrætti á árinu 2010. Þá er í fyrsta skipti frá lokum síðari heimstyrjaldar gert ráð fyrir samdrætti heimsframleiðslunnar. Enginn vafi er að þessi slæmu skilyrði í hagkerfi heimsins munu að einhverju leyti dýpka þann samdrátt sem hér verður og tefja að hagvöxtur verði á ný hér á landi. Þessa sér þegar stað í þróun úflutningsverðs á helstu afurðum og eftirspurn eftir þeim.

Breið samstaða um stöðugleikamarkmið

Mikilvægustu verkefni ríkissstjórnarinnar næstu 100 dagana í efnahagsmálum eru á sviði ríkisfjármála, bankamála og að greiða úr skuldavanda fyrirtækja og heimila. Skapa þarf forsendur fyrir áframhaldandi og hraðri lækkun vaxta og vinna markvisst að því að draga úr höftum í gjaldeyrisviðskiptum. Markmiðið er að skapa skilyrði til hagvaxtar þegar á næsta ári. Þessi verkefni styðja hvert annað og tengjast með margvíslegum hætti. Trúverðug stefna í ríkisfjármálum er nauðsynleg til að treysta bankakerfið, styðja gengi krónunnar og skapa forsendur fyrir eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum.

Jafnframt mun ríkisstjórnin marka skýra eigendastefnu þar sem fram komi framtíðaráherslur ríkisins sem eiganda bankanna og hvernig henni verður framfylgt. Markmið þess er að styrkja faglegan, gagnsæjan og traustan grunn undir aðkomu hins opinbera að atvinnulífinu. Meðal annars verði kveðið á um hvernig eignarhaldi bankanna verður hagað, hugsanlegri eignaraðild erlendra kröfuhafa og sýn á dreift eignarhald á bönkunum til framtíðar. Þá yrði kveðið á um auglýsingar á stöðum bankastjóra og faglega yfirstjórn þeirra. Þá þarf að gæta þess að yfirtaka ríkisbanka á einstökum fyrirtækjum skekki ekki samkeppnisstöðu á markaði. Tryggt verður að unnið verði eftir faglegu og gagnsæju ferli við sölu þeirra.

Ríkisstjórnin fagnar frumkvæði aðila almenna vinnumarkaðarins og stéttarfélaga opinberra starfsmanna að samráði og samstöðu með ríki og sveitarfélögum um stöðugleikasáttmála. Ríkisstjórnin lítur á það sem forgangsmál við stjórn efnahagsmála að ná breiðri samstöðu um markvissa áætlun í efnahags-, kjara- og félagsmálum á þeim grunni sem þegar hefur verið lagður í sameiginlegri vinnu ofangreindra aðila.

Ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna til viðræðna um þau meginmarkmið sem sett hafa verið fram í ofangreindu samstarfi og vill beita sér fyrir breiðri sátt um að þau geti orðið grunnur að nýjum efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á Íslandi. Í því felst meðal annars að ná samstöðu um:

  • Áætlun um að skapa skilyrði fyrir afnámi gjaldeyrishafta og hraða lækkun vaxta.
  • Hagstæð rekstrarskilyrði fyrir fyrirtæki þannig að störf verði varin og aðstæður skapaðar fyrir fjölgun þeirra á ný.
  • Markmið í ríkisfjármálum í samræmi við sameiginlega áætlun stjórnvalda og AGS.
  • Að verja velferðarkerfið eins og kostur er.

Ljóst er að ofangreind markmið nást ekki án þess að með samstilltu átaki takist að ná góðum og jöfnum hagvexti. Til að það sé unnt þarf að:

  • Auka traust og trú á íslenskt efnahagslíf.
  • Örva innlendar fjárfestingar í atvinnulífinu.
  • Stuðla að beinum erlendum fjárfestingum.
  • Koma á eðlilegum lánaviðskiptum við erlenda banka.

Ríkisfjármál

Lykill að endurreisn íslensks efnahagslífs felst í víðtækum aðgerðum á sviði ríkisfjármála með það að markmiði að mæta hinu mikla tekjufalli sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna efnahagshrunsins og þeim miklu skuldum sem það skilur eftir sig.

Beita verður ríkisfjármálum til að verja grunnvelferðarkerfið og auka kjarajöfnuð um leið og staðið er undir fjárhagsskuldbindingum ríkissjóðs og stutt eftir megni við baráttuna við atvinnuleysi og nýja sókn í atvinnulífi um allt land.

Kannaðir verði kostir til aukinnar tekjuöflunar ríkissjóðs í samráði við hagsmunaaðila og með hliðsjón af reynslu þeirra landa sem glímt hafa við svipaða erfiðleika. Lykilatriði er að aukin skattheimta leggist frekar á þá sem betur eru í stakk búnir til að bera auknar byrðar en verði þó ekki til þess að draga úr möguleikum fólks til að vinna sig út úr þeim erfiðleikum sem framundan eru. Áfram verði unnið markvisst að því starfi sem hófst með samstarfi stjórnarflokkanna að koma í veg fyrir skattaundandrátt.

Gripið verði strax til fyrstu aðgerða í ríkisfjármálum. Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar á sviði ríkisfjármála verður jafnframt gerð áætlunar um stefnu í ríkisfjármálum til næstu fjögurra ára. Sú áætlun marki útlínur þess verkefnis sem framundan er, jafnt í lækkun ríkisútgjalda og aukinni tekjuöflun. Miðað er við að jafnvægi náist í ríkisfjármálin eigi síðar en 2013. Í áætluninni verður þess gætt að vernda mikilvæga þætti félagslegrar þjónustu og stefnt er að því að á áætlunartímabilinu verði frumgjöld ríkissjóðs, þ.e. útgjöld án vaxtagjalda, ekki hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en verið hefur á undanförnum árum þrátt fyrir mikinn samdrátt landsframleiðslunnar. Gert verði ráð fyrir að skattbyrðin verði svipuð eða lægri á áætlunartímabilinu en hún hefur verið á síðustu árum og verði í skrefum aðlöguð útgjaldastigi ríkissjóðs. Áætlun um jafnvægi í ríkisfjármálum verði kynnt opinberlega í sumarbyrjun og þá rædd m.a. við aðila vinnumarkaðarins.

Gerðar verða breytingar á undirbúningi og eftirfylgni fjárlaga. Eftirlit með framkvæmd fjárlaga verður styrkt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir eyðslu umfram fjárheimildir.

Sett verður á fót verkefnisstjórn í ríkisfjármálum, undir forystu ráðherranefndar, sem hafi að markmiði að samræma hagræðingaraðgerðir og skilgreina forgangsverkefni almannaþjónustunnar, í samráði við veitendur og fulltrúa notenda opinberrar þjónustu.

Við ákvarðanir um útgjaldaramma til næstu fjögurra ára verði byggt á þeirri forgangsröðun og lögð áhersla á samstöðu um brýn velferðarverkefni, verndun starfa, kynjajafnrétti og áhrif á byggðirnar. Kynjuð hagstjórn verður höfð að leiðarljósi við fjárlagagerð og efnahagsstjórn.

Byggt verði á bestu þekkingu við allar ákvarðanir á hverju fagsviði um sig og fagfólk og notendur kallað til samráðs í sparnaðaraðgerðum.

Áhættumat verði ávallt lagt til grundvallar ákvörðunum um niðurskurð og sameiningu stofnana og þess freistað að leggja mat á hættu á auknum kostnaði til lengri tíma litið.

Árangursmat verði styrkt í hinu opinbera kerfi til að auðvelda ákvarðanir um forgangsröðun.

Ekki verði beitt flötum niðurskurði en þess í stað teknar markvissar ákvarðanir um sparnað og hagræðingu.
Sett verða ný markmið um opinber innkaup til að ná fram aukinni hagkvæmni og sparnaði.

Efnt verði til víðtæks sparnaðarátaks í ríkiskerfinu öllu, með þátttöku starfsmanna, stjórnenda og notenda opinberrar þjónustu. Sett verði á fót sparnaðarteymi sem vinni með öllum ráðuneytum og undirstofnunum að hagræðingaraðgerðum, jafnt innan einstakra stofnana og með tilfærslu verkefna milli stofnana og þvert á ábyrgðarsvið ráðuneyta.

Gætt verði ítrasta aðhalds í rekstri ríkisins, þóknanir fyrir nefndir verði lækkaðar eða lagðar af, hömlur verði settar á aðkeypta ráðgjafaþjónustu og sú stefna mörkuð að engin ríkislaun verði hærri en laun forsætisráðherra. Settar verða samræmdar reglur allra ráðuneyta um niðurskurð á ferða-, risnu- og bifreiðakostnaði. Sjálfstæðum hlutafélögum í eigu ríkisins verði settar skýrar reglur um launastefnu og útgjaldastefnu í þessum anda.

Markmið ríkisstjórnarinnar er að laga rekstur ríkisins að gjörbreyttum efnahagslegum raunveruleika. Fyrri ráðstafanir í átt til markaðs- og einkavæðingar opinberra verkefna og þjónustu verði endurskoðaðar ef það getur leitt til minni kostnaðar. Fara þarf yfir kostnað ríkissjóðs við  ýmsa samninga sem gerðir hafa verið, t.d. vegna húsnæðismála ríkisins, og þeir endurmetnir í ljósi aðstæðna. Stefnt verði að því að útgjöld atvinnulífs og sveitarfélaga vegna eftirlits og ýmissa reglugerðaákvæða verði lækkuð.

Úrlausn á skuldavanda fyrirtækja

Frumvarp um eignaumsýslufélag verður lagt fyrir Alþingi að nýju á vorþingi. Ríkisstjórnin mun jafnframt beita sér fyrir því að ríkisbankarnir móti samræmda áætlun um hvernig brugðist verði við skuldavanda fyrirtækja. Leiðarljós hennar á að vera að skuldameðferð fyrirtækja verði skjót, réttlát, gegnsæ og hagkvæm og í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar reglur. Meginsjónarmið við úrlausn skuldavanda fyrirtækjanna er að bankarnir sjálfir sjái um úrvinnslu mála. Leggja þarf áherslu á að leysa fyrst vanda raunverulegra rekstarfélaga til að draga úr skaða í efnahagsstarfsemi og lágmarka atvinnuleysi. Markmið ríkisstjórnarinnar er að aðgerðir gagnvart öllum smærri og meðalstórum fyrirtækjum liggi fyrir í síðasta lagi í septemberlok.

Greiðslu- og skuldavandi heimila

Djúp niðursveifla í kjölfar bankahrunsins hefur skapað misgengi á milli greiðslubyrði og greiðslugetu margra heimila í landinu. Þetta misgengi verður að leiðrétta með lækkun á greiðslubyrði þeirra sem verst standa þar til verðmætasköpun atvinnulífsins tekur aftur að aukast. Markmið ríkisstjórnarinnar er að koma í veg fyrir að tímabundinn greiðsluvandi leiði til vanskila og gjaldþrots, svo sem með hækkuðum og breyttum vaxtabótum og húsaleigubótum. Lykilatriði er að tryggja húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga. Greiðslujöfnun sem nú nær bæði til verðtryggðra og gengistryggðra lána gerir kleift að laga greiðslubyrði að lækkandi tekjum. Þá gera ný lög um greiðsluaðlögun sem samþykkt voru á síðasta þingi það mögulegt að taka á vanda þar sem fyrirsjáanlegt er að greiðslu- og skuldabyrði verði  skuldurum ofviða til lengri tíma litið.  Loks gera frystingar greiðslna sem eru í boði hjá lánastofnunum heimilum kleift að bregðast við bráðavanda vegna skyndilegs tekjumissis. Ofangreindum úrræðum þarf að fylgja fast eftir.

  • Efnt verður til sérstaks kynningarátaks á þeim úrræðum sem heimilum í erfiðleikum standa þegar til boða.
  • Ráðgjafarstofa heimilanna verði efld enn frekar ef þörf krefur til að eyða biðlistum eftir viðtölum og aðstoð við endurskipulagningu á fjárhag heimila og fólks í vanda. Sérstaklega verði hugað að aðgengi íbúa á landsbyggðinni að þjónustu Ráðgjafarstöðvarinnar. 
  • Skuldastaða heimila, greiðslu- og framfærslugeta verði til stöðugs endurmats sem og nauðsynlegar aðgerðir til að koma til móts við heimili í vanda.
  • Heildarmat á þörf fyrir frekari aðgerðir og tillögur í því efni verði unnar í kjölfar úttektar Seðlabanka Íslands á skuldum og tekjum heimila sem áætlað er að liggi fyrir í síðari hluta maímánaðar. Ákvarðanir um frekari aðgerðir og tillögur verði teknar í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Varanleg velferð

Heilbrigt velferðarkerfi og baráttan gegn langtímaatvinnuleysi eru mikilvægar forsendur fyrir farsælli enduruppbyggingu samfélagsins. Mikilvægasta verkefni velferðarþjónustunnar og leiðarljós við forgangsröðun í núverandi aðstæðum er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna þeirra, sem og þeirra sem lakast standa í samfélaginu. Ríkisstjórnin lítur á það sem forgangsmál að tryggja að afleiðingar efnahagssamdráttarins leiði ekki til þess að húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga sé ógnað. Velferðarmálin snúast um öfluga heilbrigðisþjónustu fyrir alla, sterkt almannatryggingakerfi og tryggt húsnæði. 

Til að tryggja betri nýtingu fjármuna í velferðarþjónustu þarf með skipulegum hætti að samþætta úrræði þvert á stofnanir og stjórnsýslustig. Lögð verður áhersla á mikilvægi samráðs og samvinnu allra sem koma að velferð fólksins í landinu og að litið verði til velferðarvaktarinnar sem fyrirmyndar í þeim efnum.

Heilbrigðisþjónustan verður tekin til endurskoðunar með heildstæðri stefnumörkun. Markmiðið er að draga úr kostnaði við heilbrigðisþjónustuna og nýta fé skynsamlega. Í endurskoðuninni er nauðsynlegt að leiða saman heilbrigðisstarfsmenn, sjúklingasamtök og sérfræðinga til að skipuleggja og ná sátt um örugga heilbrigðisþjónustu um allt land.

Markmið allra endurbóta í heilbrigðisþjónustu og almannatryggingakerfi eiga að vera jöfnuður, gott aðgengi, gæði, öryggi og hagkvæmni.

Félagslegum afleiðingum atvinnuleysis og fjárhagsvanda fólks verður mætt með markvissu samstarfi og samráði milli ríkis, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka.

Beitt verði félagslegum úrræðum til að hindra langvarandi afleiðingar kreppunnar. Áhersla verði lögð á heilsueflingu sem forvörn gegn sjúkdómum og leið til að auka lífsgæði.

Veitt verði heilbrigðisþjónusta við hæfi á viðeigandi þjónustustigi, óháð efnahag og búsetu.
Hlutverk sveitarfélaga í velferðarþjónustu við börn, fatlað fólk, aldraða og fjölskyldur verði aukið með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

Heilsugæslan um land allt verði sett í öndvegi sem fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu.  
Aðgerðaráætlun í málefnum barna- og ungmenna verði fylgt eftir.

Stefnt verði að því að fólk geti búið heima eins lengi og kostur og vilji er til, meðal annars með því að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun. Staðið verði við framkvæmdaáætlun um ný hjúkrunarrými fyrir aldraða.

Lokið verði við endurskoðun almannatryggingakerfisins, með það að markmiði að gera það einfaldara og réttlátara og koma í veg fyrir víxlverkanir. Stefnt verði að því að sameina stofnanir á sviði almannatrygginga og vinnumála í eina stofnun um vinnu og velferð.  Samhliða verði hugað að nýskipan örorku- og endurhæfingarmála þar sem litið verði til möguleika og getu en ekki eingöngu til sjúkdómsgreiningar og færniskerðingar.

Aukin áhersla verður lögð á endurhæfingu lífeyrisþega til að tryggja virka þátttöku þeirra, meðal annars með því að innleiða  samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra.

Litið verði til þeirra möguleika sem felast í heilsutengdri ferðaþjónustu með það að markmiði að nýta þá þekkingu og kraft sem býr í íslenska heilbrigðiskerfinu og styrkja um leið stoðir þess.

Mikilvægt er að allir hafi möguleika á öruggu húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína.

Innleidd verði ný skipan húsnæðismála til að búa almenningi sambærilegt öryggi og valkosti í húsnæðismálum og á hinum Norðurlöndunum. Markmiðið er að fólk í húsnæðisleit eigi valkosti með eignar-, leigu- og búseturéttaríbúðum, hvort sem það þarfnast húsnæðis í fyrsta sinn eða síðar á lífsleiðinni.

Mismunandi búsetuformum verði gert jafnhátt undir höfði.

Staðinn verði vörður um Íbúðalánasjóð, sjálfseignarfélög og frjáls félagasamtök sem tryggja hagstætt húsnæði.

Dregið verði úr vægi verðtryggingar í lánaviðskiptum samhliða auknu framboði óverðtryggðra íbúðalána.

Menntun að leiðarljósi

Menntun, vísindi og menning eru mikilvægir þættir í endurreisn Íslands. Skapandi og gagnrýnin hugsun og aukin áhersla á lýðræði og mannréttindi skipa mikilvægan sess í menntun þjóðarinnar. Hlutverk skólastarfs er meðal annars að virkja börn og ungmenni til virkrar þátttöku í samfélaginu. Leggja þarf áherslu á rannsóknarsjóði sem eru mikilvægir fyrir framþróun vísinda og tækni á Íslandi. Hlúa verður að menningarstarfsemi um allt land með áherslu á íslenska frumsköpun. Stór hluti af því að efla menntun, vísindi og menningu er að tryggja jafnrétti til náms og huga að velferð barna og ungs fólks.

Mikilvægt er að standa vörð um menntunarstig þjóðarinnar.  Gjaldfrjáls grunnmenntun er lykill að félagslegu jafnrétti og velgengni þjóðarinnar til lengri tíma litið.

Leitast verður við að tryggja velferð og vellíðan barna og ungmenna í leik- og grunnskólum með öflugu samstarfi ríkis og sveitarfélaga og verður áfram staðið við hugmyndafræði skóla án aðgreiningar.

Framfærslugrunnur LÍN verði endurskoðaður með það að markmiði að hækka hann í áföngum og núverandi ábyrgðarmannakerfi afnumið strax á sumarþingi.

Tryggja þarf öfluga fullorðinsfræðslu, þ.m.t. íslenskukennslu fyrir útlendinga, og hvetja atvinnulausa til að sækja sér frekara nám við hæfi.

Námskrá fyrir öll skólastig verður endurmótuð meðal annars með það að markmiði að efla skapandi og gagnrýna hugsun í allri menntun og efla lýðræðisvitund.

Endurmeta þarf, eftir öran vöxt á háskólastiginu, skipulag og rekstur háskólanna, samstarfsmöguleika, innviði og fjármögnun, námsframboð og aukna möguleika á fjarnámi í háskólum landsins Mikilvægt er að sú vinna fari fram í samráði hins opinbera og háskólasamfélagsins.

Staðinn verður vörður um samkeppnissjóði og áfram tryggt öflugt rannsóknastarf í landinu.

Mótuð verði menningarstefna til framtíðar í samráði við listamenn og aðra þá sem starfa að menningarmálum.

Hafin verði vinna við að innleiða tillögur um íslenska málstefnu.

Ríkisstjórnin mun vinna með hagsmunaaðilum að undirbúningi á viðurkenningu táknmálsins á kjörtímabilinu. Tekin verði ákvörðun um með hvaða hætti táknmálið verði viðurkennt og hvað felist í slíkri viðurkenningu.

Atvinnumál

Meginverkefni ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum verður að draga úr atvinnuleysi með markvissum aðgerðum, útrýma langtímaatvinnuleysi og skapa traustari grundvöll fyrir íslenskt atvinnulíf til framtíðar.  Áhersla verður lögð á fjölbreytt atvinnulíf, jafnan en stöðugan hagvöxt, nýsköpun og sjálfbæra nýtingu til lands og sjávar.

Ríkisstjórnin tekur í arf atvinnuleysi í sögulegu hámarki og atvinnulíf í miklum þrengingum í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Ef ekkert verður að gert munu þúsundir Íslendinga verða óvirkir á vinnumarkaði um langa hríð með alvarlegum félagslegum afleiðingum. Mikilvægt er að fólk hafi tækifæri til að nýta hæfileika sína, þekkingu og metnað og að virkja vinnufúsar hendur með fjölbreyttum vinnumarkaðsúrræðum og menntun. Brýnt er að verja störf  samhliða því sem gripið verði til aðgerða til að störfum fjölgi. Allar aðgerðir taka mið af ólíkri stöðu kynjanna og mismunandi áhrifum á byggðir landsins.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að mótuð verði heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland, byggð á jafnræði atvinnugreina, jafnrétti kynjanna, heilbrigðum viðskiptaháttum og grænni atvinnuuppbyggingu í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.  Jafnframt verði hugað að samkeppnishæfi íslensks atvinnulífs í alþjóðlegum samanburði. Stefnan verði útfærð í formlegu samráði stjórnvalda, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins, og háskólasamfélagsins.

Bráðaaðgerðir gegn atvinnuleysi

Nú þegar hefur ríkisstjórnin ráðist í brýnar aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi sem skila eiga 6000 ársverkum á næstu mánuðum og misserum. Því til viðbótar verður efnt til fjölþætts átaks til atvinnusköpunar sem felur m.a. í sér eftirfarandi aðgerðir:

  1. Efld verði úrræði Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands þar sem fyrirtæki geta ráðið fólk af atvinnuleysisskrá tímabundið með stuðningi Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þar má nefna samninga um starfsþjálfun, reynsluráðningu, nám sem vinnumarkaðsaðgerð, atvinnutengda endurhæfingu, þróun eigin viðskiptahugmyndar, frumkvöðlastarf innan fyrirtækja og sérstök tímabundin átaksverkefni.
  2. Opinberir sjóðir og samkeppnissjóðir leggi sitt af mörkum til atvinnusköpunar með því að taka mið af fjölgun starfa við ráðstöfun fjármagns án þess þó að slaka á faglegum kröfum.
  3. Umhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja verði bætt með lagfæringu á skattalögum til þess að ívilna megi vegna rannsókna og þróunar. Auk þess verði tímabundið veittur frádráttur frá skatti vegna fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.
  4. Við innkaup ríkisins, þar á meðal vistvæn innkaup, verði m.a. horft til þess að styðja við bakið á innlendri atvinnustarfsemi og nýsköpun.
  5. Forgangsröðun verkefna hjá ríkinu verði í þágu mannaflsfrekra framkvæmda, s.s. viðhalds opinberra bygginga. Þar verði sérstaklega hugað að bættu aðgengi að opinberum byggingum um allt land. Leitað verði leiða til að flýta hönnun opinberra mannvirkja.
  6. Staðinn verði vörður um opinber störf, ekki síst í velferðarþjónustu og menntastofnunum, og í því skyni gripið til aðgerða sem auka kjarajöfnuð hjá ríkinu og fyrirtækjum og stofnunum í eigu þess.
  7. Sköpuð verði ný atvinnutækifæri fyrir ungt fólk t.d. með því að efla Nýsköpunarsjóð námsmanna og ýta úr vör sumarverkefnum fyrir framhaldsskólanema.
  8. Ríkið efni til samstarfs við sveitarfélög, félagasamtök og Vinnumálastofnun um að sköpuð verði fleiri sumarstörf við umhverfisvæn verkefni, s.s. landgræðslu og uppbyggingu í kringum ferðamannastaði.
  9. Reglum LÍN verði breytt til að auðvelda námsmönnum sem koma af vinnumarkaði sem vilja hefja nám í stað virkrar atvinnuleitar að fá námslán til framfærslu.
  10. Sérstök áhersla verði lögð á að koma í veg fyrir að langtímaatvinnuleysi skjóti rótum með því að virkja fjölþætt úrræði Vinnumálastofnunar og stuðla að endurmenntun atvinnuleitenda.

Sóknarstefna til framtíðar

  1. Ríkisstjórnin mun efna til víðtæks samráðs undir forystu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar. Markmiðið er að kalla fram sameiginlega framtíðarsýn og að samþættar verði áætlanir í samgöngumálum, fjarskiptamálum, ferðamálum og byggðaáætlanir auk áætlana um eflingu sveitarstjórnarstigsins og ýmsa vaxtarsamninga og aðra opinbera stefnumótun og framkvæmdaáætlanir sem ætla má að komi til endurskoðunar í kjölfar efnhagshrunsins.
  2. Ríkisstjórnin vill efla græna atvinnustarfsemi, þar með talin verkefni þar sem hrein endurnýjanleg orka er nýtt á sjálfbæran hátt til verðmæta- og atvinnusköpunar. Lögð verði áhersla á að kortleggja sóknarfæri Íslands í umhverfisvænum iðnaði og ýta undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum og hagstæðu orkuverði.
  3. Ríkisstjórnin vill efla rannsóknir, þróun og framleiðslu á innlendu vistvænu eldsneyti og fjölga fjölorkustöðvum.  Stefnt verði að því að Ísland geti á komandi árum orðið leiðandi í tilraunum og framleiðslu á vistvænum orkugjöfum, m.a. með stuðningi við rannsóknir, þróun og uppbyggingu innviða.
  4. Ríkisstjórnin mun standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar og standa vörð um störf í matvælaiðnaði. Íslenskur landbúnaður verði efldur með áherslu á fullvinnslu afurða og markaðssókn innanlands sem utan. Stuðningskerfi landbúnaðarins verði endurskoðað með áherslu á að auðvelda nýliðun. Svigrúm bænda til heimaframleiðslu, vöruþróunar og heimasölu með upprunamerkingum verði aukið og nýtt til sóknar í ferðaþjónustu. Átak verði gert í lífrænni ræktun og bændum tryggður aðlögunarstuðningur skipti þeir úr hefðbundinni ræktun yfir í lífræna.
  5. Eflt verði stuðningsnet atvinnuþróunar, rannsókna og nýsköpunar, m.a. með uppbyggingu sjóða, atvinnuþróunarfélaga og frumkvöðlastarfs um land allt.
  6. Efld verði markaðssókn í ferðaþjónustu með sameiningu landkynningarmála undir merkjum nýrrar Íslandsstofu. Lögð verði áhersla á frekari uppbyggingu ferðamannastaða og heilsársferðaþjónustu. Stuðlað verði að auknum rannsóknum, þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu. Aukin rækt verði lögð við uppbyggingu og markaðssetningu menningarferðaþjónustu og íslenskrar matargerðarlistar.
  7. Nýttir verði möguleikar Íslands á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu með því að nýta hreina náttúru og heilbrigða ímynd landsins til að efla ferðaþjónustu í tengslum við leirböð, heilsurækt, endurhæfingu og almenna lífsstílsbreytingu.
  8. Rekstur og uppbygging þjóðgarða verði efld einsog aðstæður leyfa og þar með stutt við atvinnuuppbyggingu, s.s. í ferðaþjónustu á landsbyggðinni, samhliða náttúruvernd.
  9. Ráðist verði í markaðssókn erlendis á sviði lista, menningar, hönnunar og hugvitsgreina.  Stutt verði við bakið á nýsköpunarverkefnum.
  10. Lögð verði áhersla á endurvinnslu og endurnýtingu í því augnamiði að skapa störf og verðmæti.
  11. Stuðlað verði að betri orkunýtingu, svo sem með uppbyggingu iðngarða og iðjuvera, garðyrkjustöðva, endurvinnslu og annarrar starfsemi sem nýtir gufuafl sjálfbærra jarðvarmavirkjana.
  12. Leitað verði samstarfs við aðila vinnumarkaðarins um virkar vinnumarkaðsaðgerðir til að sporna gegn atvinnuleysi, þar sem m.a. verði metnir kostir þess að stytta vinnuvikuna og bjóða sveigjanleg starfslok fyrir þá sem það kjósa.

Fiskveiðar

Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. Veiðiheimildir skulu ákvarðast af nýtingarstefnu sem byggist á aflareglu hverju sinni. Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem framundan er. Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.

Þjóðareign og mannréttindi

Með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá verði undirstrikað að fiskistofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar. Úthlutun aflaheimilda er tímabundinn afnotaréttur og myndar ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum.

Bregðast þarf frekar við áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, m.a. með því að gæta atvinnufrelsis og að tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind.

Brýnar aðgerðir

  1. Knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.
  2. Takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára.
  3. Stofna auðlindasjóð sem fer með ráðstöfun fiskveiðiréttinda í eigu þjóðarinnar. Arður af rekstri sjóðsins renni til atvinnuuppbyggingar.
  4. Vernda grunnslóð. Kannaðir verði möguleikar þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er með það að markmiði að treysta grunnslóðina sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvænni veiði.
  5. Skipa ráðgefandi hópa útgerðarmanna og sjómanna varðandi veiðiráðgjöf og nýtingu sjávarauðlinda og ástand í lífríki sjávar.
  6. Heimila frjálsar handfæraveiðar smábáta yfir sumarmánuðina.

Endurskoðun laga um fiskveiðar

Lög um stjórn fiskveiða verði endurskoðuð í heild með það að markmiði að:

  1. stuðla að vernd fiskistofna
  2. stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar
  3. treysta atvinnu
  4. efla byggð í landinu
  5. skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar
  6. leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.

Endurskoðunin mun verða unnin í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og miðað við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun taki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010. Skipaður verði starfshópur er vinni að endurskoðuninni og kalli til samráðs hagsmunaaðila og sérfræðinga.

Vistvænar veiðar – rannsóknir o.fl.

  1. Ríkisstjórnin telur brýnt að treysta í sessi siðræn viðhorf í umgengni við hafið og auðlindir sjávar í ljósi þess að maðurinn er hluti af náttúrunni og verður að umgangast hana af ábyrgð.
  2. Nýta þarf krafta sjómanna og útgerðarmanna í hafrannsóknum til að efla gagnasöfnun og rannsóknarverkefni sem þeir eru þátttakendur í.
  3. Kortleggja vel menntun og fræðslu í sjávarútvegi með það að markmiði að auka menntunarstig í greininni.
  4. Íslendingar áskilja sér hér eftir sem hingað til rétt til nýtingar sjávarauðlinda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum. Forsendur fyrir veiðum og nýtingu sjávarspendýra, sela og hvala, verði endurmetnar frá grunni með tilliti til sjálfbærni og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið í heild sem og alþjóðlegra skuldbindinga og ímyndar Íslands.

Umhverfi og auðlindir

Standa þarf vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum. Einn af hornsteinum umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar er að þær séu nýttar með sjálfbærum hætti. Stjórnarskrá lýðveldisins þarf að breyta svo að hún verði grundvöllur umhverfisverndar til framtíðar. Stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum byggir á meginreglum umhverfisréttar, svo sem varúðarreglunni og mengunarbótarreglunni, eins og þær eru skilgreindar í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. Umhverfisvernd sem hefur sjálfbæra þróun samfélags og efnhags að leiðarljósi er sá grunnur sem ný atvinnu- og auðlindastefna stjórnarinnar byggir á. Þannig eru tekin mikilvæg skref í átt til hins nýja græna hagkerfis sem skilar jöfnum vexti, og tryggir að ekki sé gengið á höfuðstól auðlindanna.

Náttúruvernd verði hafin til vegs og staða hennar innan stjórnarráðsins styrkt til muna. Náttúruverndarlög verði endurskoðuð, verndarákvæði treyst og almannaréttur tryggður. Sérstaklega skal hugað að náttúruvernd strandsvæða og verndunar svæða í sjó.

Friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað og friðun þess lokið hið fyrsta. Ný náttúruverndaráætlun til 2013 verði afgreidd á vorþingi.

Rekstur og uppbygging þjóðgarða og friðlýstra svæða verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að sameina stjórn þeirra, styrkja stöðu þeirra og styðja við fjölbreytta atvinnuuppbyggingu um allt land.

Kannaður verði grundvöllur þess að leggja á umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu sem renni til uppbyggingar þjóðgarða og annarra fjölsóttra og friðlýstra áningarstaða ferðamanna og til eflingar ferðaþjónustu.

Vatnatilskipun ESB verði innleidd og aðlöguð íslenskum aðstæðum með því að lokið verði við frumarp til nýrra vatnalaga, sem tryggi verndun og sjálfbæra nýtingu ferskvatns og skilgreini aðgang að vatni sem grundvallarmannréttindi.

Lokið verði við aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúslofttegunda um 50-75% til 2050, með tímasettum og tölulegum markmiðum, eigi síðar en vorið 2010. Í áætluninni verði lögð sérstök áhersla á samdrátt í losun frá samgöngum og fiskiskipum.

Verðleggja losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda og gera viðskipti með þær möguleg.

Ný skipulags- og mannvirkjalög verði lögð fram á Alþingi að höfðu samráði við sveitarfélög. Þar verði kveðið á um landsskipulagsstefnu, sem mótuð verður í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, þar sem litið verði til landsins sem einnar heildar.

Áhersla verði lögð á að marka  stefnu  um líffræðilegan fjölbreytileika og vernd búsvæða tegunda, með það að markmiði að tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni vistkerfa á landi, í sjó og vötnum.

Staðfesta Landslagssáttmála Evrópu með það að markmiði að vernda landslagsheildir og ósnortin víðerni.

Endurskoða lög og reglur um sorphirðu og endurvinnslu með þarfir almennings og umhverfis að leiðarljósi, svo markmið um minni urðun og meiri endurvinnslu náist.

Unnin verði áætlun um sjálfbærar samgöngur í samvinnu við sveitarfélögin, með það að markmiði að draga úr þörf fyrir einkabílinn. Í slíkri stefnu verði  almenningssamgöngur um allt land stórefldar og fólki auðveldað að komast leiðar sinnar gangandi eða á reiðhjóli. Almenningssamgöngur verði sjálfsagður hluti samgönguáætlunar.

Innleiðingu Árósasamningsins í íslenskan rétt verði hraðað og nauðsynlegar lagabreytingar kynntar á haustþingi 2009.

Efla fræðslu til almennings og fyrirtækja um vistvæn innkaup, umhverfismerkta vöru og gildi sjálfbærrar neyslu, með það að markmiði að nýsamþykkt vistvæn innkaupastefna hins opinbera nái tryggri fótfestu í samfélaginu öllu.

Tryggja að erfðabreytt matvæli séu merkt þannig að neytendum sé ljóst innihald matvæla við innkaup.

Mótuð verði heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkgjafar leysi innflutta orku af hólmi. Við orkuframleiðslu með vatnsafli og jarðvarma verði gætt varúðar- og verndarsjónarmiða. Orkustefnan styðji við fjölbreytt atvinnulíf, með áherslu á uppbyggingu vistvæns hátækniiðnaðar. Í orkustefnu verði sjálfbær nýting höfð að leiðarljósi sem forðast m.a. ágenga nýtingu á jarðhitasvæðum.

Ísland standi við loftslagsskuldbindingar sínar og leggi fram metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum fyrir alþjóðlega loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn í desember 2009.

Gerð verði áætlun um orkusparnað, jafnt fyrir atvinnufyrirtæki og heimili.

Lögð er rík áhersla á að ljúka gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem allra fyrst og hún verði lögð fyrir Alþingi á vetri komanda og fái lögformlega stöðu í stjórnkerfinu. Engar frekari ákvarðandir tengdar virkjun Neðri-hluta Þjórsár verði teknar þar til rammaáætlun liggur fyrir.

Stuðlað verði að gagnsæi í orkusölusamningum og leitað leiða til að aflétta leynd af orkuverði til erlendra stóriðjufyrirtækja.  Stefnt verði að jafnræði í verðlagningu raforku í ólíkum atvinnugreinum.

Lýðræði og mannréttindi

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum. Aukin áhersla verður lögð á mannréttindafræðslu og  kvenfrelsi.

  • Settar verði siðareglur fyrir ríkisstjórn og stjórnsýsluna. Lög um fjármál stjórnmálaflokka verði yfirfarin og endurskoðuð í ljósi reynslunnar.
  • Frumvarp um stjórnlagaþing – þjóðfund – verður lagt fram á vorþingi. Kosið verði til þingsins í síðasta lagi samhliða sveitarstjórnarkosningum 2010. Við undirbúning málsins og í aðdraganda kosninganna verði gengist fyrir víðtækri samfélagsumræðu um helstu álitamál og viðfangsefni við endurskoðun stjórnarskrárinnar. 
  • Lagt fram frumvarp um persónukjör og haft samráð við sveitarfélög um útfærslu þess í tengslum við komandi sveitarstjórnarkosningar.
  • Stefnt verði að eflingu Alþingis, m.a. með endurskoðun ákvæða í þingskapalögum um eftirlitshlutverk þingsins og að lokið verði þeirri vinnu sem hafin er um endurskoðun laga um ráðherraábyrgð og landsdóm.
  • Lög um skipan hæstaréttardómara og héraðsdómara verði endurskoðuð.
  • Sett verði almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.
  • Heildstæð lög um fjölmiðla verði sett þar sem ritstjórnarlegt sjálfstæði og réttur blaðamanna eru tryggð.
  • Sveitarfélög verði efld með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga á sviði málefna fatlaðra, aldraðra og heilbrigðisþjónustu. Samskiptareglur ríkis og sveitarfélaga verði bundnar í lög til að stuðla að öguðum og formföstum samskiptum. Efnahagssamráð ríkis og sveitarfélag verði eflt. Sett verði á stofn tekjustofnanefnd sem hafi það hlutverk að vinna tillögu um breikkun og styrkingu tekjustofna sveitarfélaga. Unnar verði tillögur að eflingu lýðræðis á sveitarstjórnarstigi í samvinnu við sveitarfélög og samráði við íbúa um land allt. Auk þess verði sett ákvæði um gerð siðareglna á sveitarstjórnarstigi.
  • Undirbúnar verði breytingar á kosningalögum með það að markmiði að jafna vægi atkvæða og koma til móts við ábendingar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu um framkvæmd kosninga.
  • Upplýsingalög verði endurskoðuð og aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum aukið.
  • Mannréttindasamningar sem Ísland hefur undirritað og fullgilt verði leiddir í lög ásamt því að gerð verði áætlun í mannréttindamálum að norrænni fyrirmynd. Mannréttindafræðsla efld á öllum skólastigum.
  • Málaflokkur jafnréttismála fái aukið vægi innan stjórnkerfisins. Jafnréttisstofa verði efld og sjálfstæði hennar aukið.
  • Jafnréttismál flytjist í forsætisráðuneytið. Áhrif kvenna í endurreisninni verði tryggð. Því mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að jafna hlutfall kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og grípa til sértækra aðgerða sé þess þörf. Jafnframt verði kynjasjónarmið höfð að leiðarljósi í aðgerðum til atvinnusköpunar, svo þær gagnist bæði körlum og konum með fjölbreyttan bakgrunn.
  • Ríkisstjórnin grípi til aðgerða til að útrýma kynbundnum launamun í samvinnu við hagsmunasamtök og aðila vinnumarkaðarins. Lokið verði gerð jafnréttisstaðla á kjörtímabilinu  og starf jafnréttisfulltrúa ráðuneyta verður eflt. Unnið verður úr tillögum jafréttisvaktarinnar.
  • Ríkisstjórnin grípi til aðgerða til að útrýma kynbundnu ofbeldi, m.a. með lögfestingu austurrísku leiðarinnar þannig að ofbeldismenn verði fjarlægðir af heimilum sínum og banni við nektardansi. Aðgerðaáætlun gegn mansali, kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi verður fylgt eftir. Sérstaklega verði hugað að forvarnar- og viðbragðsáætlun til að bregðast við auknu heimilisofbeldi samhliða versnandi efnahagsástandi.
  • Ein hjúskaparlög verði lögfest. Hugað verði að réttarbótum í málefnum trans-gender fólks í samræmi við ábendingar Umboðsmanns Alþingis.
  • Rík áhersla verður lögð á að tryggja rétt og þátttöku fólks af erlendum uppruna og lög um hælisleitendur verði endurskoðuð. Ný lög sett um málefni innflytjenda.

Utanríkis- og Evrópumál

Ríkisstjórnin leggur áherslu á sjálfstæða íslenska utanríkisstefnu. Þær miklu breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum á sviði utanríkis- og öryggismála, og ná einnig til viðskipta, stjórnmála og umhverfismála, kalla á nýja sýn og nýja nálgun í utanríkismálum. Ríkisstjórnin vill kappkosta að alþjóðasamfélagið stuðli með nýjum hætti að sameiginlegu öryggi, beiti sér fyrir nýjum reglum um fjármagnsmarkaði og aðgerðir gegn spillingu, geri nýjan loftslagssáttmála, tryggi að alþjóðalög gildi um málefni norðurslóða og sameinist um nauðsynlegar og sanngjarnar aðgerðir til að vinna bug á heimskreppunni.

Norrænt samstarf verður áfram einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu en einnig verður lögð áhersla á Evrópumál, norðurslóðasamstarf og sjálfbæra nýtingu auðlinda og alþjóðlega samvinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra. Meðal meginverkefna utanríkisþjónustunnar á næstu árum verður að endurheimta orðspor Íslands á alþjóðavettvangi, byggja upp ímynd lands og þjóðar á grundvelli þekkingar okkar, menningar og mannauðs og styðja við markaðssókn íslenskra fyrirtækja.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á baráttu fyrir mannréttindum og kvenfrelsi, friði og afvopnun og gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu og hungursneyð, m.a. með markvissri þróunaraðstoð. Framlag Íslands til friðargæslu í heiminum verður fyrst og fremst á sviði sáttaumleitana, uppbyggingar borgaralegra stofnana, jafnréttis- og mannúðarmála.

Áfram verður unnið á grundvelli nýrra laga um þróunarsamvinnu og aðgerðaáætlana í víðtæku samráði við félagasamtök og fræðasamfélagið. Íslendingar sýni metnað við stefnumörkun á sviði þróunarsamvinnu og nýti sérþekkingu sína til raunhæfra verkefna í þróunarlöndum.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að nýr alþjóðlegur loftslagssamningur verði samþykktur í Kaupmannahöfn og leggi sitt af mörkum með því að flytja út þekkingu sína og reynslu af endurnýjanlegum orkugjöfum.

Málefni norðurslóða verða forgangsmál og viðfangsefni svæðisins þarf að leysa á grundvelli gildandi alþjóðasamninga, alþjóðastofnana og svæðasamstarfs. Áhersla verði lögð á að vernda viðkvæmt lífríki svæðisins, sjálfbæra nýtingu auðlinda og aukið samstarf á Norðurlöndum um viðbúnað gegn umhverfisvá og slysum á norðurhöfum, leit og björgun.

Áfram verði unnið að mótun öryggisstefnu Íslands á grundvelli eigin hættumats í nánu samstarfi við nágrannaþjóðir og önnur bandalagsríki. Varnarmálastofnun verði endurskoðuð, sem og loftrýmisgæsla, í samræmi við áherslur í áhættumatsskýrslu fyrir Ísland.  Unnið verði á grundvelli víðtæks öryggishugtaks og áhersla lögð á sameiginlegt alþjóðlegt öryggi.

Áhersla verði lögð á að byggja upp pólitísk tengsl við heimastjórn Palestínu og að Íslendingar styðji sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstætt ríki þeirra og styðji áfram Friðarráð palestínskra og ísraelskra kvenna.

Ísland verði boðið fram sem vettvangur fyrir friðarumræðu, þar á meðal fyrir alþjóðlegar ráðstefnur og fundi fræðimanna og stjórnmálaleiðtoga um þau efni.

Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í  þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Utanríkisráðherra mun leggja fram á  Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi. Stuðningur stjórnvalda við samninginn þegar hann liggur fyrir er háður ýmsum fyrirvörum um niðurstöðuna út frá hagsmunum Íslendinga í sjávarútvegs-, landbúnaðar-, byggða- og gjaldmiðilsmálum, í umhverfis- og auðlindamálum og um almannaþjónustu. Víðtækt samráð verður á vettvangi Alþingis og við hagsmunaaðila um samningsmarkmið og umræðugrundvöll viðræðnanna. Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna líkt og var í Noregi á sínum tíma. 

Ísland verður friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og íslensk stjórnvöld munu beita sér fyrir kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi.

Stjórnkerfisumbætur

Ríkisstjórnin mun gera umtalsverðar stjórnkerfisbreytingar og umbætur í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Víðtækt samráð verður haft við starfsfólk, almenning og hagsmunaaðila og leitast við að skapa almennan skilning og samstöðu um nauðsyn þessara breytinga. Í kjölfar efnahagshrunsins er nauðsynlegt að endurmeta forgangsröðun í stjórnsýslunni í samræmi við verkefnin framundan.

Auk umbóta á stjórnsýslu atvinnuvega og nýsköpunar, auðlinda- og efnahagsstjórnunar er lögð sérstök áhersla á umbætur á sviði mannréttindamála og lýðræðisþróunar sem og að vanda  stjórnsýsluhætti og efla traust almennings á stofnunum hins opinbera.

Lögð er til í þessu skyni fækkun ráðuneyta í áföngum úr tólf í níu, ný forgangsröðun þar sem þess er þörf og breytt verkaskipting þar sem færð eru saman verkefni til að ná sem mestum samlegðaráhrifum. Lögð er áhersla á vandaðan undirbúning breytinganna. Verkefnisstjórnun er á hendi forsætisráðherra.

Forsætisráðuneyti fær aukið forystu-, verkstjórnar- og samræmingarhlutverk m.a. með stýringu samráðsnefnda ráðherra. Ennfremur verður settur á fót fastur samstarfsvettvangur stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins og önnur lykilhagsmunasamtök um þróun íslensks samfélags. Ráðuneytið mun stýra stefnumörkun á sviði stjórnsýsluumbóta og –þróunar, þróunar lýðræðis og stjórnskipunar, samkeppnishæfni Íslands og jafnréttis kynjanna. Ennfremur verður lagasamræming innan Stjórnarráðsins efld undir forystu þess. Til að ofangreindar breytingar verði markvissari verður starfsemi ráðuneytisins endurskipulögð til að halda utan um umbótaverkefni annars vegar og verkefnisstjórn um samfélagsþróun hins vegar.

Í nýju efnahags- og viðskiptaráðuneyti verður almenn hagstjórn, lagaumgjörð og eftirlit með fjármálamarkaði, mat á þróun og horfum í efnahagsmálum. Ennfremur verða þar málefni er tengjast umgjörð íslensks viðskiptalífs.

Nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti tekur til allra atvinnugreina (utan opinbera geirans og fjármálamarkaðarins), nýsköpunar og þróunar innan þeirra. Þar verða teknar ákvarðanir um nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti fær auk þeirra verkefna sem fyrir eru lykilhlutverk varðandi rannsóknir, nýtingarstefnu, ráðgjöf og verndun á sviði auðlindamála. Þangað flyst ennfremur umsýsla Rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Til fjármálaráðuneytis færist öll eignaumsýsla ríkisins, en hún er nú dreifð á mörg ráðuneyti, þmt. jarðir og eignir á varnar- og öryggissvæðum. Í fjármálaráðuneyti verður í samráði við forsætisráðuneyti aukin áhersla á framkvæmd og mat á árangri stjórnsýsluumbóta.

Nýtt ráðuneyti mennta- og menningarmála fær auk fyrri verkefna umsjón menningarstofnana og verkefna er nú heyra undir forsætisráðuneyti.

Utanríkisráðuneyti fær aukið hlutverk á sviði alþjóðlegra viðskipta- og fjárfestingasamninga, auk þess sem Norðurlandaskrifstofa flyst þangað.

Nýtt ráðuneyti sveitastjórna, samgöngu og byggðaþróunar fær til viðbótar við fyrri verkefni aukið vægi varðandi eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem tengist m.a. tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga, auk stefnumótunar á sviði byggðaþróunar.

Í nýju ráðuneyti mannréttinda og dómsmála verður til viðbótar við verkefni sem fyrir eru, lögð áhersla á verkefni á sviði lýð- og mannréttinda auk þess sem öll framkvæmd almennra kosninga færist þangað, en hún er nú dreifð á þrjú ráðuneyti. Þangað færast ennfremur neytendamál.

Heilbrigðisráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti verða óbreytt að öðru leyti en því að stefnt er að því að auka samvinnu milli ráðuneytanna um verkefni sem heyra undir bæði ráðuneyti. Heimahjúkrun og öll þjónusta við aldraða á hjúkrunarheimilum færist til félags- og tryggingingamálaráðuneytis. Stefnt er að því að málefni aldraðra og fatlaðra færist til sveitarfélaga jafnhliða því að ráðuneytin sameinast.

Fyrir lok kjörtímabilsins er gert ráð fyrir því að lögfest verði sameining samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytis og mannréttinda- og dómsmálaráðuneytis í nýju innanríkisráðuneyti.

Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar á PDF-formi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta