UNICEF fagnar hækkun kjarnaframlaga frá íslenskum stjórnvöldum
„Á sama tíma og fjölmargar þjóðir hafa dregið saman í framlögum sínum til þróunarsamvinnu er fagnaðarefni að sjá íslensk stjórnvöld fara fram með góðu fordæmi og bæta í þetta mikilvæga starf svo um munar, nú þegar þörfin hefur aldrei verið meiri. Það sem Ísland skortir í stærð bætum við upp með kjarki og góðu fordæmi. Það er óskandi að önnur ríki taki eftir. Við erum afar þakklát þessari hækkun framlaga enda vitum við hversu mikilvægur stuðningurinn er fyrir börn í viðkvæmri stöðu á þessum vályndu tímum,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda sem kynnt var í síðustu viku að hækka kjarnaframlög til áherslustofnana í þróunarsamvinnu.
Í frétt UNICEF segir að kjarnaframlög sem þessi séu gríðarlega mikilvæg fyrir stofnanir eins og UNICEF og gefi þeim svigrúm til að bregðast við aðkallandi aðstæðum á sem skilvirkastan hátt. „Kjarnaframlög eru mikilvæg fyrir UNICEF þar sem þau gera okkur kleift að bregðast hratt við neyðartilvikum, stækka lífsbjargandi verkefni og vera brautryðjendur í nýjum lausnum sem hjálpa okkur að mæta þörfum barna og samfélaga þeirra, frá fæðingu til unglingsára. UNICEF er þakklátt samstarfsaðilum eins og Íslandi fyrir framlagið í reglubundin verkefni, sem gerir okkur kleift að ná sem mestum árangri fyrir öll börn,“ segir Karin Hulshof, aðstoðarframkvæmdastjóri UNICEF.
Í frétt UNICEF er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra að starf UNICEF sé mikilvægara en nokkru sinni. „Ísland er stoltur bakhjarl UNICEF og það er okkur mikil ánægja að tilkynna um aukin kjarnaframlög til stofnunarinnar. Með sífellt flóknari áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir og börn og ungmenni fara ekki síst varhluta af er það starf sem UNICEF innir af hendi mikilvægara en nokkru sinni fyrr.“
Hvað eru kjarnaframlög?
„UNICEF er skilgreind sem ein af fjórum lykilstofnunum utanríkisráðuneytisins í marghliða þróunarsamvinnu Íslands og er samstarf íslenska ríkisins við UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, afar gott og náið. Íslenska ríkið er álitið fyrirmyndarstyrktaraðili UNICEF vegna hárra kjarnaframlaga og mikils stuðnings miðað við höfðatölu. Kjarnaframlög eru ekki eyrnamerkt ákveðnum verkefnum og því gerir hátt hlutfall þeirra UNICEF kleift að sinna þróunar- og hjálparstarfi á svæðum sem eru ekki endilega í kastljósi fjölmiðla og umheimsins.
Þegar lögð eru saman framlög ríkisins til kjarnaverkefna og sértækra verkefna UNICEF auk framlaga Heimsforeldra, fyrirtækja og almennings til landsnefndar UNICEF á Íslandi er Ísland einn stærsti styrktaraðili UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á heimsvísu miðað við höfðatölu. Það er staðreynd sem Íslendingar geta verið afar stoltir af,“ segir í fréttinni.
Þrjár helstu áherslustofnanir Íslands í þróunarsamvinnu innan Sameinuðu þjóðanna eru UNICEF, UN Women og UNFPA, Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna.