Hoppa yfir valmynd
8. maí 2021

Árangursrík hagsmunagæsla

Ísland aftur undanskilið útflutningseftirliti með bóluefnum

Á fimmtudag birti ESB nýja reglugerð 2021/734 um útflutningseftirlit með bóluefnum við Covid-19 þar sem Ísland var skýrlega undanskilið eftirlitinu ásamt öðrum EES/EFTA-ríkjum. Í rökstuðningi fyrir þessari breytingu er í reglugerðinni vísað á skýran hátt til þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í innri markaðnum á grundvelli EES-samningsins. Felst í því mikilvæg viðurkenning á málflutningi stjórnvalda sem bentu strax á að eftirlitið væri skýrt brot á samningnum og þátttöku okkar í innri markaðnum, enda væri á þeim grundvelli óheimilt að mismuna Íslandi með þessum hætti. Með þessu móti hefur ekki aðeins málflutningur stjórnvalda skilað þeim árangri sem að var stefnt heldur er einnig skjalfest af hálfu framkvæmdastjórnarinnar að það var EES-samningurinn sem réði um það úrslitum og þar með skuldbindingar á grundvelli hans.

Útflutningseftirliti með bóluefnunum var komið á í lok janúar eftir að væntingar um framleiðslu og dreifingu bóluefnis í Evrópu stóðust ekki. Ísland var ásamt öðrum EES/EFTA-ríkjum undanskilið gildissviði reglugerðarinnar í upphafi en þegar það var framlengt í lok mars varð breyting þar á. Utanríkisþjónustan hleypti þá strax af stokkunum herferð bæði gagnvart framkvæmdastjórn, utanríkisþjónustu og aðildarríkjum ESB. Fór hún fram jafnt í Brussel, Reykjavík og höfuðborgum aðildarríkjanna og náði hámarki með fundi utanríkisráðherra og Valdis Dombrovskis viðskiptastjóra ESB 30. apríl sl. Fundinum lauk með því að Dombrovskis sagðist hafa meðtekið sjónarmið utanríkisráðherra og myndi gera forseta framkvæmdastjórnarinnar grein fyrir þeim. Daginn eftir greindi Ursula von der Leyen forsætisráðherra frá því í símtali að Ísland yrði hér eftir skýrt undanþegið eftirlitinu.

Sögulegir leiðtogafundir í Porto

Hápunktur formennsku Portúgals hjá Evrópusambandinu er ráðstefna háttsettra leiðtoga Evrópuríkja og fulltrúa stofnana, aðila vinnumarkaðarins og borgaralegra félagasamtaka sem fram fór í gær og í kjölfarið óformlegur leiðtogafundur sem haldinn var í dag, 8. maí, undir heitinu Social Summit.

Á leiðtogafundinum var afgreidd ályktun um félagslegar hliðar Evrópusamvinnunnar, svokölluð Porto-yfirlýsing. Markmið ráðstefnunnar var að ræða bestu leiðir til að efla félagslegar aðgerðir til að mæta áföllum í kjölfar Covid-19 plágunnar og þeim áskorunum sem Evrópa stendur frammi fyrir vegna umhverfis- og loftslagsmála ásamt breytingum sem stafræn tækniþróun hefur í för með sér.

Félagslega réttindastoðin – European Pillar of Social rights - er hornsteinn þeirrar stefnumótunar sem nú fer fram á vegum Evrópusambandsins og afl þeirra hluta sem gera skal. Félagslega stoðin var upphaflega sett fram árið 2015 og samþykkt á fundi í Gautaborg í nóvember 2017.

Öflugar umræður fóru fram á fundinum sjálfum og í þremur vinnustofum þar sem fjallað var um atvinnu og störf, færni og nýsköpun, velferð og félagslega vernd. Mikil samstaða var á fundinum um mikilvægi félagslegra aðgerða til að tryggja almenn félagsleg réttindi og velferð allra.

Fram kom að öflugur vinnumarkaður er undirstaða þeirra þátta sem skipta mestu máli fyrir velferð þegnanna. Heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á stöðu unga fólksins og margra viðkvæmra hópa á vinnumarkaði. Fram kom að huga þyrfti sérstaklega að fátækt, öryggi barna, kjörum unga fólksins og stöðu kvenna á vinnumarkaði. Aðgerðum hefur verið beitt til að styðja við einstaklinga og fyrirtæki sem eru í vandræðum. Á fundinum kom fram að nú væri mikilvægt að efla atvinnusköpun og renna stoðum undir möguleika fólks til að mæta breyttum forsendum á vinnumarkaði í tengslum við hraðar tæknilegar og lýðfræðilegar breytingar. Í brennidepli eru aðgerðir til að efla hæfni og þekkingu – lykilorðin eru menntun, endurmenntun og símenntun. Sérstaklega var undirstrikuð nauðsyn þess að aðilar vinnumarkaðarins kæmu að borðinu við útfærslu og framkvæmd nauðsynlegra aðgerða.

Á fundinum kom einnig fram mikil eindrægni um mikilvægi samstarfs Evrópuríkjanna til að mæta erfiðleikum í kjölfar Covid-19 og þeim stóru áskorunum sem framundan eru.

Í lokin undirrituðu fulltrúar sameiginlega niðurstöðu um að virkja aðgerðaráætlun félagslegu stoðarinnar og þrjú markmið sem stefnt er að fyrir 2030 sem samþykkt voru 6. mars síðastliðinn. Markmiðin eru:

  1. Að a.m.k. 78% íbúa á aldrinum 20-64 ára hafi atvinnu
  2. Að a.mk. 60% fullorðinna hljóti starfsþjálfun eða endurmenntun á hverju ári
  3. Að þeim sem eru í áhættuhópi vegna fátæktar eða félagslegrar útskúfunar fækki um a.m.k. 15 milljónir manna, þar af a.m.k. 5 milljónir barna.

Sterkur innri markaður styðji viðreisn efnahagslífs í Evrópu

Endurskoðuð iðnaðaráætlun Evrópusambandsins (New Industrial Strategy for Europe) var lögð fram 5. maí s.l.

Tekið skal fram að uppfærða áætlunin tekur fyrst og fremst á áskorunum vegna Covid-19 en er í grunninn óbreytt.  Stefnunni er því sem fyrr ætlað að leiða græna þróun á sviði framleiðslugreina og byggir á Græna sáttmálanum (The European Green Deal) og einnig þeirri stafrænu umbreytingu, sem tengist Stafrænni starfskrá (Digital Future of Europe).

Uppi var orðrómur um ágreining innan framkvæmdastjórnarinnar um framsetninguna en skýringin á lítilsháttar töfum á birtingunni er líklega sú ítarlega gagnaöflun og greining sem fram fór og er birt samhliða áætluninni sjálfri.

Upphaflega stefnan var lögð var fram 10. mars á síðasta ári, eða daginn áður en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti yfir heimsfaraldri vegna Covid-19.

Allt breyttist sem sagt í einu vetfangi og við blöstu hindranir á frjálsri för fólks, varnings og þjónustu auk truflana í framleiðsluferlum og framboði. Þá eru hér nokkrar tölur sem sýna við hvað er að fást:

  • 6,3% samdráttur í efnahagslífi ESB
  • 60% samdráttur í veltu lítilla og meðalstórra fyrirtækja 2020
  • 1,7% fækkun starfsmanna lítilla og meðalstórra fyrirtækja 2020, eða 1,4 milljónir starfa
  • 45% fyrirtækja munu draga úr fjárfestingum 2021

Það kom því ekki á óvart þegar ráðherraráð ESB kallaði eftir því í október s.l. að stefnan yrði uppfærð í ljósi faraldursins og leitast við að hafa hana skýrari en áður. Jafnframt þyrfti að aðlaga lagaramma ESB á sviði samkeppnismála að breyttum veruleika á alþjóðavísu.

Stefnan hvílir á þremur meginstoðum:

  • Þrautseigum innri markaði.
  • Kerfisbundnu óhæði Evrópu.
  • Stuðningskerfi vegna grænnar og stafrænnar byltingar.

Merking hugtaksins „kerfisbundið óhæði“ eða strategic autonomy hefur verið nokkuð á reiki en í þessari stefnu er hún skýr: Evrópa er ekki sjálfri sér næg með mikilvægar vörur og hráefni t.d. til lyfjaframleiðslu og íhluti í tölvur auk ýmissa sjaldgæfra steintegunda, t.d. demanta. Þessi staðreynd kom sér afar illa á meðan faraldurinn stóð sem hæst.

Búið er að skilgreina 137 mikilvægar vörutegundir sem Evrópulönd þurfa að flytja inn frá öðrum svæðum og er helmingur þeirra frá Kína (52%) en þar næst frá Víetnam (11%) og Brasilíu (5%). Sumt má leysa með nýjum fjárfestingum til að tryggja fjölbreyttari framleiðslu en annað, sbr. fágæt náttúruleg hráefni, kallar á aukna endurvinnslu og nýsköpun.

Hvað nýsköpunina varðar er stefnt að því að létta byrðar regluverks og tryggja sanngjarna samkeppnisstöðu nýsköpunarfyrirtækja og frumkvöðlavænt umhverfi. Þarna vega samkeppnis- og ríkisstyrkjareglur þungt.

Samkvæmt áætluninni er hvorki stefnt að því að vernda iðnað sem ekki er samkeppnishæfur né styðja verndarstefnu, heldur skapa réttar aðstæður fyrir frumkvöðla til að koma hugmyndum í framkvæmd og fyrir fyrirtæki af öllum stærðum til að vaxa og dafna.

Þá er hnykkt á því að evrópskur iðnaður megi ekki sofna á verðinum gagnvart ríkjum eða starfsemi utan ESB sem grefur undan sanngjarnri samkeppni á innri markaðinum eða alþjóðlega. Því er ljóst að samkeppnisreglur þurfa með einhverjum hætti að rúma hvort tveggja ríkisaðstoð og samruna stórra fyrirtækja.

Gildistími þessarar iðnaðaráætlunar er út starfstíma framkvæmdastjórnar ESB eða til ársloka 2024. 

Hjá fastanefnd Íslands í Brussel fjallar sérstök teymi um græna og stafræna þróun en einnig er unnið að greiningu ýmissa þátta iðnaðaráætlunarinnar hjá EFTA og í viðkomandi ráðuneytum heima í Reykjavík.

Lagt til atlögu við erlenda ríkisstyrki

Í vikunni lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu um hvernig best væri að hafa eftirlit með “samkeppnishamlandi styrkjum erlendis frá” (e. distortive foreign subsidies). Þá er átt við styrki sem ríki utan ESB veita fyrirtækjum sínum sem síðan undirbjóða fyrirtæki á innri markaði. Með þessu er ESB að vernda fyrirtæki sem eiga uppruna í aðildarríkjum sambandsins (e. home-grown companies) gegn ofurefli erlendra fyrirtækja, ekki síst þeirra sem eru upprunnin í Kína. Þessi tillaga er óaðskiljanlegur þáttur af iðnaðaráætlun ESB sem sagt var frá hér fyrir ofan. Þessi barátta ESB hefur staðið í áratugi og hefur verið mikill þyrnir í augum þeirra sem berjast fyrir sanngjarnari samkeppni erlendis frá. Sú skoðun endurspeglast m.a. í eftirfarandi ummælum Valdis Dobrovskis, varaforseta framkvæmdastjórnar ESB. “They distort markets and provide competitive advantages on the basis of the support received, rather than on the quality and innovativeness of the products concerned.”

Verði fyrrgreind tillaga lögfest mun hún veita bandalaginu vald til að rannsaka stóra samruna hjá fyrirtækjum innan ESB við fyrirtæki utan þess og sömuleiðis opinber útboð þegar í hlut eiga fyrirtæki sem hafa fengið erlenda ríkisstyrki. Þung viðurlagaákvæði er að finna í tillögunni, eins og þau að sekt geti numið allt að 10% af veltu fyrirtækisins sem brýtur reglurnar. ESB eru líka veitt ýmis þvingunarúrræði í tillögunni, s.s. kröfu um endurgreiðslu ríkisstyrkja og tilkynningarskyldu til ESB fari styrkfjárhæð yfir tiltekin fjárhæðarmörk. Sem dæmi má fjárhæðin ekki fara yfir 5 milljónir evra á 3ja ára tímabili, en sé fjárhæðin undir telst styrkurinn ekki samkeppnishamlandi. Bent hefur verið á að þetta hámark sé langt yfir  því viðmiði sem framkvæmdastjórnin setti fyrst fram í áætlun sinni (e. White Paper) fyrir ári síðan sem var 200 þúsund evrur. Gagnrýnendur tillögunnar hafa m.a. bent á að hækkunin sé merki um að ESB sé að hopa vegna hótana Kína en aðrir segja að þarna sé bandalagið að reyna að koma í veg fyrir nýtt “kalt stríð”.

Efasemdir um nýjan staðal fyrir ferðaþjónustu

Ráðgjafanefnd ESB um ferðamál, TAC – Tourism Advisory Committee,
hélt fjarfund fimmtudaginn 6. maí 2021. Um var að ræða framhald af fundi nefndarinnar 20. apríl s.l. þar sem fjallað var um tilllögu framkvæmdastjórnar ESB að samevrópskum staðli, sem ætlað væri að létta undir með ferðaþjónustu í Evrópu, gera reglur um hreinlæti og sóttvarnir sambærilegar á milli landa, og sýnilegar. Þar með yrði Evrópa sem heild traustvekjandi áfangastaður, ekki síst fyrir þá sem koma frá öðrum heimsálfum.

Á milli fundanna gafst ferðamálayfirvöldum aðildarríkjanna færi á að mynda sér skoðun á ávinningi þessa staðals umfram þá staðla/viðmið sem ríkin hafa tekið upp eftir að heimsfaraldurinn skall á.

Þá var nafni staðalsins breytt á milli funda, úr European Tourism Health Seal í
European Tourism Covid-19 Health Seal.

Fundurinn hófst á því að fulltrúi frá spænska staðlaráðinu fór yfir staðalinn, handbókina og fyrirhugaða innleiðingu hans á Spáni. Gert er ráð fyrir að staðallinn (CWA 5643) verði tilbúinn þar í lok maí, innleiddur maí til júní og síðan sýnilegur á öllum ferðamannastöðum.

Ríkin skiptust í tvö horn og lýstu t.d. Austurríki, Danmörk, Finnland, Holland, Pólland, Ungverjaland og Þýskaland yfir að þau myndu halda sig við þann innanlandsstaðal sem þegar er í gildi. Áhugi hjá atvinnugreininni sjálfri væri einnig takmarkaður.

Austurríki og Pólland voru þó á því að eðlilegt væri fyrir þá sem halda utan um staðalinn heima fyrir að fara yfir kröfurnar í nýja staðlinum og uppfæra og aðlaga eftir þörfum.

Búlgaría, Grikkland, Írland, Portúgal og Slóvenía eru einnig með eigin staðal en vilja gjarnan skoða nýja staðalinn í því skyni að taka upp samhliða og/eða uppfæra gildandi staðal. Þó þurfi að skýra nánar kostnað og utanumhald.

Fulltrúi Íslands þakkaði framkvæmdastjórninni fyrir frumkvæðið en kom jafnframt á framfæri því sjónarmiði íslenskra ferðamálayfirvalda að upptaka á nýjum staðli væri ekki heppileg þegar atvinnugreinin sér loks til sólar. Gæti einnig orðið dýr og tímafrek. Ísland myndi því áfram nota staðalinn Clean&Safe sem Landlæknir og Ferðamálastofa hafa verið með í stöðugri þróun og halda utan um.

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta