Ferðatakmarkanir rýmkaðar í skrefum
Nýjar reglur um sóttkví taka gildi á föstudaginn og gilda til 15. júní. Samkvæmt þeim verður þeim sem koma til landsins áfram skylt að fara í sóttkví í 14 daga, en heimild til að beita vinnusóttkví verður rýmkuð og skýrð nánar. Kjarninn í breytingunni felst í því að skilyrði fyrir vinnusóttkví verða ekki lengur bundin við kerfislega eða efnahagslega mikilvæga starfsemi. Fyrst og fremst verður horft til þess að viðkomandi umgangist ekki aðra meðan á sóttkví stendur eins og nánar verður skýrt í nýjum reglum heilbrigðisráðherra. Stefnt er að því að eigi síðar en 15. júní verði ferðatakmarkanir rýmkaðar til muna með innleiðingu reglna um sýnatöku sem geta komið í stað sóttkvíar við komu fólks til landsins.
„Það er ánægjulegt að geta stigið þessi skref í átt að opnun landsins. Okkar daglega líf færist nú örlítið nær því sem við vorum áður vön. Við verðum að fara varlega, gæta að sóttvörnum og fara í einu og öllu að tilmælum um sóttvarnir. Þannig drögum við úr líkum á bakslagi og færumst áfram í rétta átt, hægt en örugglega“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Gildandi sóttvarnareglur falla úr gildi 15. maí. Samkvæmt þeim er öllum skylt að fara í sóttkví við komuna til landsins. Ákveðnar undanþágur hafa þó verið veittar vegna kerfislega eða efnahagslega mikilvægrar starfsemi þar sem sóttvarnalæknir hefur getað heimilað fólki að sæta sóttkví á vinnustað. Eins og áður segir verður sú heimild rýmkuð og skýrð nánar með nýjum reglum. Heilbrigðisráðherra kynnti áformaðar breytingar á fundi ríkisstjórnar í dag en þær eru í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.
Færeyjar og Grænland ekki lengur skilgreind sem há-áhættusvæði
Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis um að hann taki Grænland og Færeyjar af lista þeirra landa sem skilgreind eru sem há-áhættusvæði. Í þessu felst að engar sóttvarnalegar takmarkanir verða hér á landi gagnvart þeim sem koma hingað frá Færeyjum eða Grænlandi frá 15. maí næstkomandi (uppfært 13.05´20).
Áformaðar breytingar á ferðatakmörkunum 15. júní
Stefnt er að því að eigi síðar en 15. júní næstkomandi taki gildi reglur um sýnatökur sem fela í sér að þeir sem koma til landsins geta komist hjá sóttkví að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Er þá annað hvort um að ræða að viðkomandi láti prófa sig við COVID-19 á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins, eða geti framvísað fullnægjandi vottorði um að sýnataka erlendis hafi leitt í ljós að viðkomandi sé ekki smitaður af kórónaveirunni.
- Reglur um sóttkví og einangrun vegna Covid-19 nr. 443/2020
- Minnisblað sóttvarnalæknis með tillögu að breyttum sóttvarnareglum eftir 15. maí
- Nánar um áformaðar breytingar 15. júní