Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Synjun á endurnýjun rekstrarleyfis í flokki II

Mánudaginn 30. nóvember 2020 var í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu

kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

Stjórnsýslukæra

Með bréfi dags. 16. ágúst 2019 bar [A] fram kæru f.h. [B ehf.] (hér eftir kærandi), vegna ákvörðunar Sýslumannsins á Suðurlandi (hér eftir sýslumaður) frá 23. maí 2019 um að synja umsókn um endurnýjað rekstrarleyfi fyrir gististað í fl. II að [C]. Stjórnsýslukæran er byggð á kæruheimild í 26. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, og 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Kæran barst innan kærufrests.

Kröfur

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi.

Málsatvik

Þann 16. desember 2014 veitti sýslumaður kæranda tímabundið rekstrarleyfi fyrir gististað í fl. II að [C]. Leyfið var gefið út til fjögurra ára frá útgáfu þess með gildistíma til 16. desember 2018.

Upphaf þess máls sem hér er til meðferðar má rekja til umsóknar kæranda, dags. 21. mars 2019, um útgáfu nýs rekstrarleyfis vegna sömu starfsemi.

Umsóknin fór í lögbundið umsagnarferli skv. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Með umsögn dags. 3. apríl 2019 lagðist umhverfis- og tæknisvið Uppsveita gegn útgáfu leyfisins með vísan til þess að umrædd leyfisveiting samræmdist ekki stefnu gildandi skipulags.

Með umsögn dags. 9. apríl 2019 lagðist sveitarstjórn gegn útgáfu leyfisins á þeim grundvelli að lóðin að [C] væri skipulögð sem frístundabyggð en ekki viðskipta- og þjónustulóð.

Þann 4. apríl 2019 kom kærandi á framfæri athugasemdum við sýslumann vegna afgreiðslu málsins hjá sveitarstjórn. Í rökstuðningi kæranda kom fram að hann teldi umsögn sveitarfélags stangast á við fyrri umsögn sem gefin var vegna fyrri leyfisumsóknar kæranda frá árinu 2014. Engin breyting hefði hins vegar átt sér stað á skipulagi lóðarinnar frá því að eldri umsögn var veitt. Því bæri sýslumanni að hafa umsögn sveitarfélagsins að engu.

Sýslumaður óskaði eftir afstöðu Grímsnes- og Grafningshrepps til athugasemda kæranda með bréfi dags. 30. apríl 2019.

Með bréfi dags. 16. maí 2019 áréttaði sveitarfélagið afstöðu sína um að umsókn kæranda samræmdist ekki aðalskipulagi sveitarfélagsins og að eldri umsögn frá árinu 2014 hafi verið efnislega röng og í andstöðu við 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007.

Þann 23. maí 2019 synjaði sýslumaður umsókn kæranda um rekstrarleyfi með vísan til fyrirliggjandi umsagna.

Þann 16. ágúst 2019 barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu stjórnsýslukæra vegna synjunar sýslumanns á umræddri umsókn.

Með bréfi dags. 10. október 2019 óskaði ráðuneytið umsagnar sýslumanns um kæruna. Þá fór ráðuneytið fram á að fá send gögn málsins.

Umsögn sýslumanns ásamt málsgögnum bárust með bréfi, dags. 11. mars 2020. Umsögn sýslumanns var send kæranda til athugasemda með bréfi dags. 30. apríl 2020.

Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

Málið hefur hlotið umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og málið er tekið til úrskurðar.

Sjónarmið kæranda

Í kæru er það rakið að kærandi hafi áður fengið útgefið rekstrarleyfi þann 16. desember 2014 vegna gististaðar í fl. II vegna umræddrar fasteignar. Í umsögn sveitarstjórnar sem aflað var við meðferð málsins dags. 2. apríl 2014 hafi ekki verið gerðar athugasemdir við útgáfu fyrra rekstrarleyfis.

Kærandi vísar til upplýsinga sem fram komu á sveitarstjórnarfundi dags. 4. mars 2015 vegna afgreiðslu annars máls. Þar komi m.a. fram það mat sveitarstjórnar að heimilt sé að leigja út sumarhús í skipulögðum sumarhúsahverfum í heild sinni.

Kærandi telur að umrædd yfirlýsing sé ígildi stjórnvaldsfyrirmæla þar sem sveitarstjórn hafi í raun sett þá reglu að heimilt sé að leigja út sumarhús í skipulögðum sumarhúsahverfum. Þá hafi sveitarfélagið einnig veitt jákvæðar umsagnir í sambærilegum málum. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til dagsettra fundargerða sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps. Umræddar fundargerðir eru ritaðar á tímabilinu frá 21. ágúst 2013 til 18. janúar 2017.

Kærandi vísar til þess að engar breytingar hafi orðið á skipulagi umræddrar lóðar frá því að hann fékk fyrst útgefið rekstrarleyfi þann 16. desember 2014. Af þeim sökum telur kærandi að önnur umsögn sveitarfélagsins hafi ekki verið veitt lögum samkvæmt. Kærandi bendir á að sveitarfélagið hafi lagt fasteignagjöld á umrædda fasteign líkt og um atvinnustarfsemi sé að ræða. Að framangreindu virtu sé ekki unnt að álykta annað en hin nýja umsögn sveitarfélagsins hafi ekki verið í samræmi við lög þar að lútandi.

Kærandi vísar til neikvæðrar umsagnar sveitarfélagsins í öðru máli dags. 19. febrúar 2015 þar sem sveitarfélag lagðist gegn útgáfu rekstrarleyfis í máli sem varðaði afmarkaðan hluta fasteignar. Í umsögn sveitarfélagsins vegna málsins komi hins vegar fram að það hafi verið mat sveitarstjórnar að heimilt sé að leigja út sumarhús í sumarhúsahverfum í heild sinni.

Í kæru er vísað til þess að skv. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 komi fram að óheimilt sé að gefa út rekstrarleyfi ef einhver umsagnaraðili leggst gegn útgáfu þess. Kærandi telur hins vegar að umsögn sveitarfélagsins hafi verið ólögmæt og því að engu hafandi.

Kærandi bendir á að umsögn sveitarfélagsins hafi verið í ósamræmi við eldri umsögn vegna umsóknar kæranda um rekstrarleyfi frá árinu 2014. Með vísan til fyrri afstöðu sveitarfélagsins og úrlausn í sambærilegum málum telur kærandi að sýslumanni hefði borið að rannsaka málið sérstaklega.

Þá telur kærandi að sýslumanni hefði borið að kalla eftir frekari rökstuðningi frá lögbundnum umsagnaraðilum. Í því samhengi vísar kærandi til skýrleikakröfu 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 þar sem fram komi að umsagnir skuli vera skýrar og rökstuddar. Kærandi telur aftur á móti að fyrirliggjandi neikvæðar umsagnir uppfylli ekki þann áskilnað enda sé þar ekki að finna tilvísun í lagaákvæði.

Kærandi telur að umsögn sveitarfélagsins vegna andmæla sinna við ákvörðun sýslumanns hafi verið ófullnægjandi og samræmist ekki jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi vísar til þess að umrædd umsögn beri með sér að sveitarstjórn viðurkenni að stefnubreyting hafi átt sér stað þegar lög nr. 67/2016, um breytingar á lögum nr. 85/2007, tóku gildi þann 1. janúar 2017. Umræddar lagabreytingar fólu m.a. í sér að rekstrarleyfi urðu nú ótímabundin í stað þess að vera gefin út á fjögurra ára fresti. Í umræddri umsögn komi fram að sveitarfélagið hafi ekki veitt jákvæða umsögn líkt og kærandi hafi vísað til frá gildistöku umræddra laga.

Kærandi bendir hins vegar á að engar breytingar hafi átt sér stað á skipulagi lóðarinnar. Í ljósi þess telur kærandi að slík umskipti séu ólögmæt af hálfu sveitarstjórnarinnar.

Kærandi vísar til 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Þá vísar kærandi til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga en í jafnræðisreglunni felst að sambærileg mál skuli leysa með sambærilegum hætti. Þá feli reglan jafnframt í sér að við úrlausn máls skuli byggt á málefnalegum sjónarmiðum.

Með vísan til framangreinds telur kærandi að umsókn hans um rekstrarleyfi hefði átt að hljóta sambærilega afgreiðslu og fyrri umsókn hans vegna sömu starfsemi á árinu 2014.

Í ljósi þess að engar breytingar hafi átt sér stað á skipulagi lóðarinnar telur kærandi að umrædd sinnaskipti sveitarstjórnar virðist fyrst og fremst byggjast á því að sveitarstjórn hafi verið ósátt við lagabreytingar þær sem áttu sér stað þann 1. janúar 2017 með gildistöku laga nr. 67/2016.

Þá telur kærandi að umsögn sveitarfélagsins sé einkennileg í ljósi þess að álagning fasteignagjalda af hálfu sveitarfélagsins vegna umræddar fasteignar miðist við c. lið. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga en umrædd flokkun vísar til mannvirkja sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu. Þykir kæranda skjóta skökku við að sveitarfélagið skattleggi umrætt mannvirki til notkunar í ferðaþjónustu en neiti jafnframt að veita jákvæða umsögn til slíks rekstrar.

Sjónarmið sýslumanns

Með bréfi dags. 10. október 2019 óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumanns ásamt málsgögnum. Umsögn sýslumanns barst ráðuneytinu þann 11. mars 2020.

Í umsögn sýslumanns kemur fram að embættið hafi þann 29. mars 2019 móttekið umsókn kæranda um leyfi til reksturs gististaðar í fl. II. að [C].

Umsóknin hafi í kjölfarið farið í lögbundið umsagnarferli skv. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 og 26. og 27. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Jákvæðar umsagnir hafi borist frá Vinnueftirliti Suðurlands og lögreglu. Hins vegar hafi umsagnir skipulags- og byggingafulltrúa og Grímsnes- og Grafningshrepps verið neikvæðar.

Í rökstuðningi skipulags- og byggingafulltrúa dags. 3. apríl 2019 hafi komið fram:

„Lagst er gegn útgáfu rekstrarleyfis á grundvelli laga nr. 85/2007 í flokki II að [C] á þeim grundvelli að leyfisveiting samræmist ekki stefnu gildandi skipulags.“

Í rökstuðningi Grímsnes- og Grafningshrepps dags. 9. apríl 2019 segir:

„Sveitarstjórn veitir neikvæða umsögn þar sem lóðin er skipulögð sem frístundabyggð en ekki viðskipta- og þjónustulóð“

 

Í umsögn sýslumanns kemur fram að kærandi hafi komið á framfæri athugasemdum til sýslumanns vegna afgreiðslu sveitarstjórnar sama dag og hún lá fyrir. Í rökstuðningi kæranda komi m.a. fram að hann teldi umsögnina stangast á við umsögn sem gefin var vegna leyfisumsóknar árið 2014 og engin breyting hafi verið gerð á skipulagi frá því að sú umsögn var veitt. Með vísan til þess bæri sýslumanni að hafa neikvæða umsögn sveitarfélagsins að engu þar sem hún væri ólögmæt og veita kæranda rekstrarleyfi.

Þann 30. apríl 2019 hafi sýslumaður óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til framkominna athugasemda kæranda.

Þann 16. maí 2019 kom Óskar Sigurðsson hrl. á framfæri afstöðu sveitarfélagsins vegna erindis kæranda. Í erindinu var áréttuð fyrri afstaða sveitarfélagsins um að umsókn um leyfi til sölu gistingar að [C] samræmdist ekki aðalskipulagi sveitarfélagsins. Umsögn sem veitt hafi verið árið 2014 hafi verið í andstöðu við 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 án undangenginnar skipulagsbreytingar. Jafnframt byggði sveitarfélagið á því að fyrri afgreiðslur sveitarfélagsins vegna umsagna um rekstrarleyfi gætu ekki skapað réttmætar væntingar hjá umsækjanda þar sem slík afgreiðsla væri í ósamræmi við lög.

Sýslumaður bendir á að leyfisveitanda sé skylt að leita umsagna lögbundinna umsagnaraðila skv. 10. gr. laga nr. 45/2007 og 26. gr. og 27. gr. reglugerðar nr. 1277/2016.

Sýslumaður bendir á að skv. 2. gr. laga nr. 85/2007 er markmið laganna að tryggja allsherjarreglu í starfsemi veitinga- og gististaða og við skemmtanahald og stuðla að stöðugleika í rekstri, sem og að starfsemi falli að skipulagi viðkomandi sveitarfélags hverju sinni. Í 1. tölul. 4. mgr. 10. gr. laganna komi fram að sveitarfélag skuli m.a. staðfesta að starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála, að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu og að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.

Þá vísar sýslumaður til 27. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 sem fjalli um efni umsagna. Í umræddu ákvæði komi m.a. fram að sveitarstjórn skuli staðfesta að staðsetning staðar sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag kveði á um. Þá skuli byggingarfulltrúi veita umsögn um hvort viðkomandi mannvirki uppfylli kröfur laga um mannvirki og annarra laga, reglugerða og samþykkta er byggingarmál varða. Sýslumaður bendir þó á að ekki sé um tæmandi talningu að ræða.

Sýslumaður bendir á að synjun umsóknar kæranda grundvallast á neikvæðum umsögnum en skv. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 er leyfisveitanda óheimilt að gefa út rekstrarleyfi ef einhver umsagnaraðila leggst gegn útgáfu þess.

Sýslumaður telur að óumdeilt sé í málinu að lóðin að [C] sé staðsett í skipulagðri frístundabyggð. Afstaða sveitarfélagsins byggi því á því skipulagi sem sett hefur verið á grundvelli laga og hlotið hefur staðfestingu.

Sýslumaður bendir á að kærandi hafi áður fengið útgefið rekstrarleyfi til sölu gistingar að [C] þann 16. desember 2014. Það rekstrarleyfi hafi runnið út 16. desember 2018. Í því samhengi hafi kæranda hafi því verið nauðsynlegt að sækja um rekstrarleyfi að nýju til að halda gistirekstri áfram. Það sé afstaða sveitarfélagsins að fyrri afgreiðsla sem fólst í því að veita jákvæða umsögn við meðferð umsóknar kæranda frá árinu 2014 hafi verið röng. Það sé afstaða sveitarfélagsins að samkvæmt aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 og hluteigandi deiliskipulagi sé ekki heimilt að reka gististað í skipulagðri frístundabyggð. Ákvörðun sveitarfélagsins árið 2014 um að veita jákvæða umsögn hafi því ekki verið í samræmi við gildandi skipulag.

Í umsögn sýslumanns kemur fram að með lögum nr. 67/2016 hafi lögum nr. 85/2007 verið breytt. Breytingarnar hafi m.a. falið í sér breytingu á gildistíma rekstrarleyfa. Í gildistíð eldri laga hafi leyfin verið veitt til fjögurra ára í senn og mögulegt að sækja um endurnýjun að þeim tíma liðnum. Jafnframt hafi verið felld úr gildi ákvæði í lögunum sem snéru að endurnýjun leyfa. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til þágildandi laga nr. 85/2007 var kveðið á um að leyfisveitandi þyrfti ekki að leita umsagnar umsagnaraðila ef starfsemi væri óbreytt og engar athugasemdir hefðu borist vegna hennar á leyfistíma. Heimilt hafi verið að endurnýja rekstrarleyfi með sömu skilmálum án þess að leita umsagna að nýju.

Sýslumaður bendir á að eftir að áðurnefnd lagabreyting tók gildi þann 1. janúar 2017 þurfa allir umsækjendur að sækja um nýtt leyfi að loknum gildistíma, óháð því hvort þeir hafi áður verið með rekstrarleyfi í gildi . Umsækjendur þurfa því að uppfylla þau skilyrði sem gilda á umsóknardegi fyrir útgáfu leyfis, m.a. að starfsemi samræmist skipulagi.

Sýslumaður telur sig ekki hafa heimild til að taka efnislega afstöðu til ákvarðana umsagnaraðila eða hafa þær að engu. Þá telur sýslumaður að umsagnaraðilar hafi rökstutt umsagnir sínar,

Sýslumaður vísar til þess að skv. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 er leyfisveitanda óheimilt að gefa út rekstrarleyfi ef einhver lögbundinna umsagnaraðila leggst gegn útgáfu þess og eru slíkar umsagnir bindandi fyrir leyfisveitanda. Í því samhengi vísar sýslumaður m.a. til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. janúar 2020 í máli nr. (E-461/2019).

Að öðru leiti ítrekar sýslumaður fyrri afstöðu sína og telur að afgreiðsla málsins hafi verið í samræmi við ákvæði laga nr. 85/2007 líkt og að framan er rakið.

Forsendur og niðurstaða

Sem fyrr greinir synjaði sýslumaður umsókn kæranda um leyfi til reksturs gististaðar í fl. II að [C]  þann 23. maí 2019. Ráðuneytinu barst stjórnsýslukæra 16. ágúst 2019.

Sýslumaður veitti umsögn um kæruna með bréfi, dags. 11. mars 2020. Var umsögn sýslumanns send kæranda til athugasemda með bréfi dags. 30. apríl 2020.

Frekari athugasemdir hafa ekki borist.

Að mati ráðuneytisins telst málið nægilega upplýst og tækt til úrskurðar.

Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, er sýslumanni skylt að leita umsagna lögbundinna umsagnaraðila við úrvinnslu umsókna um rekstrarleyfi. Í 5. mgr. 10. gr. laganna segir að sýslumanni sé óheimilt að gefa út rekstrarleyfi leggist einhver umsagnaraðili gegn útgáfu þess. Eru umsagnir bindandi fyrir leyfisveitanda sbr. 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um sama efni. 

Samkvæmt gögnum málsins grundvallast synjun sýslumanns á neikvæðri umsögn sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps og skipulags- og byggingafulltrúa sveitarfélagsins.

Um hlutverk umsagnaraðila er fjallað í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007. Samkvæmt ákvæðinu er hlutverk sveitarstjórnar m.a. að staðfesta að fyrirhuguð starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála. Í 2. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 kemur fram að sveitarstjórn skuli staðfesta að staðsetning staðar sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélags kveður á um.

Í málinu liggur fyrir að skipulags- og byggingarfulltrúi lagðist gegn útgáfu leyfisins þann 3. apríl 2019 á þeim grundvelli að leyfisveiting samræmdist ekki stefnu gildandi skipulags.

Þá liggur fyrir að sveitarstjórn lagðist gegn útgáfu leyfisins þann 9. apríl 2019 með vísan til þess að umrædd lóð sé skipulögð sem frístundabyggð en ekki þjónustulóð.

Í kæru er m.a. byggt á því að líta beri á fyrri framkvæmd og yfirlýsingar sveitarstjórnar um að heimilt sé að leigja út sumarhús í skipulögðum sumarhúsum sem ígildi stjórnvaldsfyrirmæla. Þá hafi sveitarfélagið einnig veitt jákvæðar umsagnir í sambærilegum málum. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til dagsettra fundargerða sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps. Umræddar fundargerðir eru ritaðar á tímabilinu frá 21. ágúst 2013 til 18. janúar 2017. Kærandi telur brot á jafnræðisreglu felast í því að umsókn hans hafi ekki verið afgreidd með sambærilegum hætti líkt og önnur sambærileg mál. Þá vísar kærandi einnig til þess að fyrri umsókn hans um rekstrarleyfi fyrir sömu starfsemi hafi hlotið jákvæða afgreiðslu á árinu 2014.

Í málinu liggur fyrir afstaða sveitarfélagsins um að umsögn sveitarfélagsins vegna leyfisumsóknar kæranda frá árinu 2014 hafi verið efnislega röng. Það sé afstaða sveitarfélagsins að samkvæmt aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 og hluteigandi deiliskipulagi sé ekki heimilt að reka gististað í skipulagðri frístundabyggð. Ákvörðun sveitarfélagsins árið 2014 um að veita jákvæða umsögn hafi því ekki verið í samræmi við gildandi skipulag.

Þá byggir sveitarfélagið jafnframt á því að fyrri afgreiðslur sveitarfélagsins vegna umsagna um rekstrarleyfi geti ekki skapað umsækjanda réttmætar væntingar um jákvæða umsögn þar sem slík afgreiðsla væri í ósamræmi við lög.

Í umsögn sveitarfélagsins dags. 16. maí 2019 um athugasemdir kæranda kemur fram að sveitarfélagið hafi ekki veitt jákvæða umsögn í sambærilegum málum frá því að lög nr. 67/2016 um breytingar á lögum nr. 85/2007 tóku gildi þann 1. janúar 2017.

Þær jákvæðu umsagnir sem kærandi vísar til í kæru sinni virðast tengjast umsóknum sem bárust sýslumanni fyrir gildistöku umræddra laga.

Af þeim sökum telur ráðuneytið ekki sýnt að afgreiðsla málsins hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.

Í lögum nr. 67/2016 sem fólu í sér breytingar á þágildandi lögum nr. 85/2007 er að finna bráðabirgðaákvæði sem kveður á um öll rekstrarleyfi sem gefin hafi verið út í gildistíð eldri laga haldi gildi sínu fram að endurnýjun. Þegar leyfi hefur runnið út skal sækja um nýtt leyfi á grundvelli núgildandi laga.

Líkt og fram hefur komið er leyfisveitanda óheimilt að veita rekstrarleyfi ef einhver lögbundinna umsagnaraðila leggst gegn útgáfu þess sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007. Eru umsagnir bindandi fyrir leyfisveitanda sbr. 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016.

Að öllu framangreindu virtu, og með hliðsjón af fyrirliggjandi umsögnum og hlutverki umsagnaraðila, telur ráðuneytið að ekkert hafi komið fram í máli þessu sem hróflað hafi við fyrirliggjandi mati lögbundinna umsagnaraðila.

Með vísan til alls framangreinds telur ráðuneytið ákvörðun sýslumanns, um að synja umsókn kæranda um útgáfu rekstrarleyfis vegna gististaðar í flokki II að [C], lögmæta.

Vegna mikilla anna hefur dregist að úrskurða í máli þessu og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 23. maí 2019, um að synja umsókn kæranda um útgáfu rekstrarleyfis vegna gististaðar í fl. II að [C] er staðfest.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta