Hoppa yfir valmynd
21. júní 2018 Innviðaráðuneytið

Erindi á samgönguþingi 21. júní 2018

Samgönguþing 21. júní 2018

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

 

Góðir gestir

Samgöngur eru undirstaða atvinnugreina landsins og eru lykilatriði þegar kemur að uppbyggingu byggða- og atvinnukjarna. Ferðaþjónusta, sjávarútvegur og orkuframleiðsla sem skapa stærstu verðmætin fyrir þjóðarbúið eru allar háðar samgöngum í lofti, láði og legi. Samkeppnishæfni þessara atvinnugreina eiga því mikið undir greiðum samgöngum, hvort sem er innanlands eða á milli landa.

Samgöngurnar sjálfar eru einnig stór og mikilvæg atvinnugrein, nægir þar að nefna að aðeins flugið og tengd starfsemi er talið standa undir hið minnsta fjórðungi landsframleiðslu og skapa tugþúsundir starfa.

Samgöngur skipta sköpum fyrir daglegt líf. Íbúar á landsbyggðinni þurfa að geta reitt sig á greiðar samgöngur en vaxandi samþjöppun grunnþjónustu á stærstu þéttbýlisstöðum ýtir enn frekar undir mikilvægi þeirra. Fólksfjölgun hefur aðallega átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu og í nærliggjandi byggðum. Víða erlendis er þó vaxandi eftirspurn eftir því að búa úti á landi og bendir ýmislegt til að slík þróun sé hafin hér á landi í ríkari mæli ef marka má tölur Hagstofunnar frá janúar 2018.

Samgöngur eru einn mikilvægasti þátturinn í grunnþjónustu ríkisins og hafa útgjöldin að langmestu leyti verið á vegum þess. Á síðustu árum hefur þróun framlaga til vegakerfis verið í öfugu hlutfalli við fjölda notenda og ekna kílómetra á vegunum og þar með hefur hægst á uppbyggingu vegakerfisins.

Afleiðing þessarar þróunar hefur verið að ýmsar brýnar framkvæmdir, m.a. með tilliti til umferðaröryggis, hafa setið á hakanum. Þessu þarf að breyta en eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar er að hraða uppbyggingu í vegamálum til að tryggja umferðaröryggi vegfarenda og treysta fjölbreytt atvinnulíf um land allt. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að við forgangsröðun í vegamálum verði litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða.

Í samgönguáætlun, sem mun verða lögð á Alþingi í haust, verður m.a. horft til fyrrnefndra atriða. Áætlunin sem verður í takt við þær fjárheimildir sem eru til umráða hverju sinni tekur mið af fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem eru hvoru tveggja til 5 ára. Það er liðin tíð að samgönguáætlun sé einhver óskalisti, en hún á að vera raunsæ og tímasett áætlun um samgöngukerfið, sem er lífæð landsins.

Í fjármálaáætlun næstu fimm árin er gert ráð fyrir umtalsverðri aukningu á fjármagni eða 16,5 milljörðum strax á næstu þremur árum. Alls er gert ráð fyrir að 160 milljarðar gætu runnið til vegaframkvæmda á næstu 5 árum (2019-2023).

Umtalsverð aukning í fjárveitingum varð einnig í fjárlögum þessa árs sem eru nú komnir til framkvæmda víðsvegar um landið. Bæði er um að ræða aukna fjármuni til vegaþjónustu og viðhalds vega. Þá samþykkti ríkisstjórnin á vordögum að fjórir milljarðar króna færu aukalega núna strax til brýnna vegaframkvæmda sem snúa að því að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar umhleypinga vetrarins og stóraukinnar umferðar.

Með auknu fjármagni er hægt að setja aukinn kraft í viðhald, styrkingar og ýmsar endurbætur. Aukið fjármagn gefur svigrúm til að forgangsraða og ráðstafa því fjármagni sem er til reiðu og leggja áherslu á brýn verkefni sem setið hafa á hakanum og eru tilbúin til framkvæmda strax. Nú verður hægt að flýta mikilvægum vegabótum um land allt sem ella hefðu þurft að bíða, t.d. á Grindavíkurvegi og Borgarfjarðarvegi.

Ljóst er að síaukinn umferðarþungi knýr á um að ráðist verði enn frekar í fjárfrekar framkvæmdir til að bæta samgöngur og auka öryggi. Þannig óx akstur á vegum um 47% frá árinu 2010 til 2017, þar af langmest síðustu 2 árin.  Þar skipti mestu akstur erlendra ferðamanna sem óku í síðastliðnum ágústmánuði hátt í 120 milljónir kílómetra eða sem nemur fjórðungi af heildarakstri á þjóðvegum landsins.

Ríkið fær tekjur af umferð ökutækja gegnum bifreiða- og eldsneytisgjöld. Þróun tekna hefur verið hlutfallslega neikvæð sem skýrist af því að þau ökutæki sem flutt eru inn eru sífellt sparneytnari og losa minni koltvísýring en áður var. Hlutfall þeirra bifreiða sem ekki nota eldsneyti mun aukast hratt á næstu árum. Loftslagsbreytingar hafa knúið á um jávæða þróun bílaflota landsins í umhverfisvænni átt og mun sú þróun í sífellt meira mæli leiða til þess að gjöld fyrir notendur munu lækka.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið setti á laggirnar nefnd sem fékk það hlutverk að endurskoða skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Benedikt S. Benediktsson sem fór fyrir nefndinni mun kynna niðurstöður hennar  en verkefnið var að skoða núverandi kerfi og leggja fram tillögu að framtíðarstefnu stjórnvalda í þessum efnum.

Góðir gestir

Ljóst er að við stöndum á nokkurs konar krossgötum umbreytinga og því nauðsynlegt að taka umræðu um framtíðarstefnu um fjármögnun vegakerfisins.

Ég hef því ákveðið að setja á laggirnar starfshóp til að koma með tillögur um hvernig flýta megi uppbyggingu greiðra og öruggra samgöngumannvirkja til að mæta auknu álagi á einstaka leiðum.

Verið er að skipa nefnd um fjármögnun í vegakerfinu sem  verður falið að stilla upp sviðsmyndum af svo kölluðu flýtigjaldi fyrir stærri framkvæmdir eins og að brúm og göngum og horfa til annarra landa í þeim efnum.

Í því sambandi hef ég nefnt, sem dæmi, gjaldtöku af einstaka mannvirkjum á þjóðvegi 1. Í þeirri sviðsmynd má hugsa sér nýja brú yfir Ölfusá, nýjan veg um Mýrdal og göng í gegnum Reynisfjall, sem myndi færa umferð frá byggðinni í Vík, nýjan veg um Öxi og nýja leið um Sundabraut, (að ógleymdum Seyðisfjarðargöngum). Staðsetning þessara framkvæmda miðast við að ökumenn hafi valkost að aka aðrar leiðir og eru því ekki bundnir af því að greiða gjöldin. Valið stæði þá á milli nýju leiðarinnar og þeirrar gömlu. Gjaldið yrði að vera hóflegt og tímabundið og innheimt með sjálfvirkum hætti.

Einnig væri útfærsla af tímagjaldi fyrir afnot af vegakerfinu möguleiki. Hægt væri að hugsa sér mismunandi gjald eftir aðgangstíma, til dæmis ársgjald, gjald fyrir samfelldan 2ja mánaða aðgang og samfelldan 10 daga aðgang svo eitthvað sé nefnt.

Helstu kostir eru að gjaldtakan er sjálfvirk og hefur ekki truflandi áhrif á umferð, en hópurinn mun leggja mat á kosti, galla og helstu áhættuþætti. Ég vil ítreka hér að vinnan er að hefjast – leiðir og útfærslur eru allar eftir og ætlunin er að taka umræðuna -í samfélaginu -við pólitíkina. Hér hafa fyrst og fremst verið nefnd dæmi.

Þannig er ekkert til fyrirstöðu að innleiða blandaða leið að einhverju marki og ekkert til fyrirstöðu að taka ákvörðun um að hefja tilteknar framkvæmdir, svo sem við Sundabraut sem er orðin löngu tímabær. Sundabrautin sem auk þess hefur mikla þýðingu fyrir höfuðborgarsvæðið og þróun byggðar á suðvesturhorni landsins mætti fjármagna með sérstakri gjaldtöku nú en taka að auki upp tímagjald á síðari stigum þegar almenn stefnumótun um gjaldtöku af umferð liggur fyrir.

Ef nokkrar slíkar brýnar framkvæmdir á brúm og göngum eru teknar lauslega saman þá gæti fjárþörfin verið á svipaðri stærðargráðu og sú fjárhæð sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun á næstu 5 árum eða um 160 milljarðar.

Hugsa mætti sér að fjármögnun vegakerfisins samanstæði af blandaðri fjármögnun, þ.e. hefðbundinni fjárveitingu og gjaldtöku.

Eigi að síður þá er markmiðið að fjármagn til vegaframkvæmda sem eru á fjárlögum ríkisins hækki og verði um 1,5% af vergri landsframleiðslu – til lengri tíma. Þar með yrði snúið við þróun undanfarinna ára sem hefur einkennst af samdrætti. Ljóst er að umtalsvert átak þarf á næstu árum til að vinna upp samdráttinn og ná upp lagfæringu á vegakerfinu í takt við aukna umferð og notkun.

Góðir gestir

Fjöldi ferðamanna til landsins ýtir einnig undir að flugrekstur hefur færst í aukana sem sjá má á auknum umsvifum á Keflavíkurflugvelli. Það er einkar ánægjulegt og hefur jákvæðan efnahagslegan ávinning í för með sér og er flugstarfsemi nú ein allra stærsta atvinnugrein þjóðarinnar.

Við erum ennþá að læra hvernig nýta megi tækifærin í ferðaþjónustunni og íbúum landsins til góðs. Örðugt hefur reynst að tryggja rekstrargrundvöll flugvallarkerfisins, innanlands. Viðhald og nýframkvæmdir hafa setið á hakanum og lendingarstöðum verið lokað. Þeirri þróun verður að snúa við.

Stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir að mótuð verði eigendastefna fyrir Isavia og unnið verði í því að gera innanlandsflugið að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna. Innanlandsflug þarf að vera mikilvægari hluti af almenningssamgöngum sem við þurfum að tengja betur við alla landshluta og verða hagkvæmari kostur fyrir íbúa landsbyggðanna.

Tvinna þarf samgöngunetið saman og hver hluti þarf að tengjast öðrum í byggðarkjörnum svo hér fái allir sem jafnasta þjónustu. Nýta þarf sóknartækifæri sem fylgja auknum ferðamannastraumi með frekari tengingum innanlandsflugvalla við Keflavíkurflugvöll og beinu flugi á aðra alþjóðaflugvelli landsins. Þarfir farþegans þurfa ávallt að vera í fyrirrúmi þannig að þjónustan verði sem skilvirkust, aðgengi að flugi þarf vera gott og auðvelt fyrir þann sem bókar ferð alla leið, frá A til B.

Þar spilar rekstur innanlandsflugvalla stórt hlutverk en markmiðið er að fjölga farþegum í innanlandsflugi. Notendur, flugrekendur og flugvallarekendur verða að hafa sameiginlega hvata og hagsmuni af fluginu.

Hugmyndin er að alþjóðaflugvellir landsins fari allir undir rekstur Isavia og innanlandsflugið verði eflt með því að niðurgreiða fargjöld íbúa og nemenda með fasta búsetu á afskekktum svæðum til að jafna aðgengi þeirra að þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð. Fyrir almenning þurfa flugfargjöld að lækka svo innanlandsflug verði raunhæfur valkostur. Ég hef talað fyrir því að fara svipaða leið og Skotar hafa farið til að greiða niður farmiðakaup íbúa á landsbyggðinni.

Áskorunin er að auka flugumferð til að efla samgöngur á milli landsbyggða og höfuðborgarsvæðisins og jafna aðgengi íbúa landsins að grunnþjónustu s.s. heilbrigðisþjónustu. Þar gegnir Reykjavíkurflugvöllur mikilvægu hlutverki sem einn af tengipunktum landsbyggðar við þessa þjónustu.

Ljóst er að einnig þarf að bretta upp ermarnar í hafnaframkvæmdum með því að efla hafnabótasjóð. Stálþil eru víða komin til ára sinna. Þá hafa margar hafnir fengið nýtt hlutverk með vaxandi ferðaþjónustu, hvort sem er með skemmtiferðaskipum eða afþreyingu eins og hvalaskoðun eða sjóstöng.  Þá munu loftslagsbreytingar hafa umtalsverð áhrif á hafnir með hækkandi sjávarstöðu og er nú að hefjast vinna við aðlögunaráætlun að þeim miklu breytingum bæði ógnunum en ekki síður tækifærum hér í ráðuneytinu.

Það verður ekki hjá því komist að minnast á vaxandi þátt upplýsingatækninnar í samgöngunum sem snúa í vaxandi mæli að sjálfvirknivæðingu farartækjanna og samskipti þeirra sín á milli, við umhverfið og við inniviðina.

Spennandi tækninýjungar eiga eftir að hafa mikil áhrif á samfélagið. Ég var að koma af ráðherraráðstefnu um sjálfkeyrandi bíla sem var í Gautaborg. Þar kom fram að þróunin sem er vissulega hröð þurfi að vinnast í samvinnu við stjórnvöld, stofnanir, lagaumhverfið og framleiðendur. Hvert og eitt okkar þarf að aðlagast og nýta tæknina til góðs. Nýta tæknina til að fækka umferðarslysum og bæta umferðaröryggi. Þó okkur finnist sjálfkeyrandi bílar ekki vera brýnasta verkefnið í samgöngumálum hér á landi, þá skiptir máli að fylgjast með þróuninni. T.d. eru veðurfarslegar áskoranir hér á landi annars konar en víðast hvar annars staðar.

Á fjarskiptaráðstefnunni í morgun kom fram að fjarskiptin eru grunnurinn að tæknibreytingunum. Fjarskiptin munu bæta öryggi í umferðinni og gera samgöngur skilvirkari og hagkvæmari. En rannsóknir hafa sýnt að allt að 90% umferðarslysa verða vegna mannlegra mistaka.

Þá er hægt að sjá fyrir sér að deilihagkerfið muni koma til með að breyta almenningssamgöngum. Slíkt kallar á að við hugsum öll kerfi upp á nýtt. Við erum á krossgötum og getum byrjað með hreint blað. Við eigum að spyrja okkur að því hvernig viljum við að samgöngur framtíðarinnar verði. Hvernig viljum við að tæknin og sjálfkeyrandi bílar þjóni okkur? Við höfum tækifæri til að svara þeirri spurningu núna og því er mikilvægt að eiga þetta samtal við ykkur.

Góðir gestir

Um leið og ég þakka gott hljóð vil ég á það minnast að í næstu viku mun ég sækja fund í Finnlandi með samgönguráðherrum Norðurlandanna þar sem umræðuefnið verður fjármögnun stærri verkefna í samgöngukerfinu. Við erum því ekki ein í þessum vangaveltum og þurfum að miðla sýn, reynslu og finna lausnir til framtíðar.

Góðar stundir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta