Hoppa yfir valmynd
7. desember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 497/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 7. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 497/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110029

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 8. nóvember 2022 kærði […], fd. […] , ríkisborgari Kína ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. nóvember 2022, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi vegna náms á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga.

Af kæru kæranda má ráða að hún krefjist þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 65. eða 69., sbr. 70. gr. laga um útlendinga. Ráða má að til vara sé þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka mál hennar til meðferðar á ný.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 8. júlí 2022 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi vegna náms á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga. Kærandi kom hingað til lands 26. ágúst 2022 ásamt eiginmanni sínum og tveimur uppkomnum börnum þeirra. Í umsókn kæranda um dvalarleyfi kom fram að henni hafi ekki borist staðfesting frá Háskóla Íslands en fengi hún ekki inngöngu í skólann myndi hún dvelja á Íslandi með eiginmanni sínum þar sem hann hygðist jafnframt stunda nám við Háskóla Íslands. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi ekki inngöngu í Háskóla Íslands vegna efasemda um fullnægjandi enskukunnáttu hennar. Kærandi hóf í staðinn íslenskunám hjá Múltikúlti málamiðstöð og 8. september 2022 barst Útlendingastofnun staðfesting þess efnis.

Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga synjað með vísan til þess að íslenskunám hjá Múltikúlti málamiðstöð væri ekki nám á háskólastigi. Auk þess var vísað til þess að í ákvæðinu kæmi fram að sá sem sæki einstök námskeið teldist ekki stunda fullt nám í skilningi ákvæðisins. Var kærandi því ekki talin uppfylla skilyrði 1. og 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Þá var kæranda gert að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku ákvörðunar Útlendingastofnunar, sbr. 1. og 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga þar sem hún væri ríkisborgari Kína og þyrfti vegabréfsáritun til landgöngu á Íslandi samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga. Var athygli kæranda jafnframt vakin á því að dvöl umfram 15 daga væri ólögmæt og gæti leitt til brottvísunar og endurkomubanns, sbr. 98. og 101. gr. laga um útlendinga. Hin kærða ákvörðun barst kæranda með ábyrgðarpósti 7. nóvember 2022. Kærunefnd barst kæra kæranda ásamt fylgiskjölum 8. nóvember 2022. Greinargerð kæranda barst kærunefnd ásamt fylgiskjölum 11. nóvember 2022. Viðbótargögn bárust kærunefnd 21. nóvember 2022. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Hinn 14. nóvember 2022 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að þegar hún hafi lagt fram umsókn sína um dvalarleyfi hafi hún tekið fram að fengi hún ekki inngöngu í Háskóla Íslands myndi hún vilja dvelja hér á landi sem maki eiginmanns síns þar sem hann hefði fengið útgefið dvalarleyfi vegna náms samkvæmt 65. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi því gert ráð fyrir því að Útlendingastofnun myndi afgreiða umsóknir þeirra saman og horfa til þess við afgreiðslu máls hennar að maki hennar væri nemandi við Háskóla Íslands. Þá hafi Útlendingastofnun ranglega haldið því fram að kærandi þyrfti vegabréfsáritun til Íslands og annarra aðildarríkja Schengen-svæðisins þar sem hún væri ríkisborgari Kína. Kærandi sé handhafi HKSAR (e. Hong Kong Special Administrative Region) vegabréfs og á vefsíðu Útlendingastofnunar komi fram að handhafar slíkra vegabréfa séu undanþegnir kröfu um vegarbréfsáritun til Íslands og sé heimilt að dvelja hér á landi í allt að 90 daga á hverju 180 daga tímabili. Sömu upplýsingar komi fram á vefsíðu Schengen-samstarfsins. Jafnframt hafi Útlendingastofnun ranglega haldið því fram að kærandi hafi komið til Íslands 15. ágúst 2022, en hún hafi hins vegar komið til Íslands frá Brussel 26. ágúst 2022. Kærandi hafi lagt fram öll gögn sem Útlendingastofnun hafi óskað eftir að undanskilinni staðfestingu á inngöngu í Háskóla Íslands. Hún hafi verið gift eiginmanni sínum í rúm 25 ár og hann stundi nú fullt nám við Háskóla Íslands. Þau búi saman í íbúð í Reykjavík, auk þess sem synir þeirra, 20 og 25 ára, búi einnig í Reykjavík.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í ákvæði 65. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi vegna náms. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að veita útlendingi sem ætlar að stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi enda sé hann eldri en 18 ára og fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi. Fullt nám sé samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fari á vinnustöðum, eða annað það nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Sá sem sæki einstök námskeið teljist ekki stunda fullt nám.

Samkvæmt umsókn kæranda sótti hún um dvalarleyfi vegna náms á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga þar sem hún hugðist stunda nám við Háskóla Íslands. Þegar kærandi lagði fram umsóknina hafði hún ekki fengið inngöngu í námið. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi ekki fengið inngöngu í skólann vegna efasemda um enskukunnáttu hennar. Kærandi kvaðst í kjölfarið hafa hafið íslenskunámskeið hjá Múltikúlti málamiðstöð og lagði hún m.a. fram staðfestingu frá miðstöðinni, dags. 31. ágúst 2022, um að hún hafi hafið íslenskunám sem stæði frá 29. ágúst 2022 til 14. október 2022. Eins og að framan greinir telst fullt nám samkvæmt ákvæði 65. gr. laga um útlendinga vera samfellt nám á háskólastigi. Jafnframt kemur fram í ákvæðinu að einstök námskeið teljist ekki vera fullt nám. Með vísan til þess að kærandi stundar ekki nám á háskólastigi heldur sækir einstakt íslenskunámskeið er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 65. gr. laga um útlendinga um dvalarleyfi vegna náms.

Kærandi byggði á því til vara að fengi hún ekki inngöngu í Háskóla Íslands myndi hún fylgja eiginmanni sínum til Íslands sem maki hans þar sem hann hygðist einnig stunda nám við Háskóla Íslands. Má ráða að kærandi hafi með því óskað eftir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar á grundvelli 69. gr. laga um útlendinga, sbr. 70. gr. sömu laga. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis samkvæmt 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis samkvæmt 58. gr. geti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla laganna. Í 2. málsl. sama ákvæðis segir að til nánustu aðstandenda teljist maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stundi framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna.

Eins og áður greinir gerði kærandi athugasemdir við að ekki hafi verið tekin afstaða til kröfu hennar um fjölskyldusameiningu í ákvörðun Útlendingastofnunar. Í umsókn hennar hafi hún tilgreint að tilgangur dvalar hennar hér á landi væri einkum nám en til vara fjölskyldusameining. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var aftur á móti eingöngu leyst úr því hvort kærandi ætti rétt á dvalarleyfi vegna náms.

Af lögum um útlendinga leiðir að einstaklingur getur fengið dvalarleyfi á mismunandi lagagrundvelli þar sem hver tegund dvalarleyfis er háð sérstökum skilyrðum og getur haft mismunandi réttaráhrif. Sami einstaklingur getur uppfyllt skilyrði fleiri en einnar tegundar dvalarleyfis enda getur dvöl einstaklings í landi haft fleiri en einn tilgang. Þegar Útlendingastofnun berst umsókn um dvalarleyfi ber stofnuninni að taka hana til efnislegrar meðferðar nema heimilt sé að frávísa umsókninni í heild eða að hluta. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi sótti um dvalarleyfi á tvenns konar grundvelli. Ákvörðun Útlendingastofnunar tekur aftur á móti eingöngu til þess þáttar umsóknar hennar er lýtur að dvalarleyfi vegna náms. Að mati kærunefndar bar Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar í heild sinni. Samkvæmt gögnum málsins fékk eiginmaður kæranda útgefið dvalarleyfi 8. september 2022 en ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda var tekin 3. nóvember 2022. Hefði að mati kærunefndar verið ástæða til að vinna umsóknirnar samhliða hvorri annarri og taka afstöðu til þess hvort kærandi ætti hugsanlega rétt til fjölskyldusameiningar í ljósi þess að eiginmaður hennar hafði þegar fengið útgefið dvalarleyfi hér á landi. Þá bendir kærunefnd á að samkvæmt leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, ber Útlendingastofnun að veita umsækjanda um dvalarleyfi nauðsynlegar upplýsingar svo hann geti gætt hagsmuna sinna við meðferð málsins. Ef umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði dvalarleyfis á þeim grundvelli sem umsókn hans nær til ber Útlendingastofnun að eigin frumkvæði að leiðbeina honum um að hann kunni að geta reist umsókn sína á öðrum grundvelli, ef stofnunin býr yfir upplýsingum um að svo kunni að vera.

Samkvæmt tölvubréfi frá Útlendingastofnun til kærunefndar fékk eiginmaður kæranda útgefið dvalarleyfi á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga 8. september 2022 þar sem hann stundar nám í íslensku sem annað mál (e. Icelandic as a Second Language) við Háskóla Íslands. Eins og áður greinir heimilar ákvæði 69. gr. laga um útlendinga fjölskyldusameiningu við aðstandendur eingöngu í þeim tilfellum sem aðstandandi stundar framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi. Samkvæmt gögnum málsins stundar eiginmaður kæranda hagnýtt nám í íslensku sem annað mál, en samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Háskóla Íslands eru tvær námsleiðir í boði í náminu, þ.e. annars vegar BA-nám og hins vegar hagnýtt nám. Ekki er um að ræða framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám eða rannsóknir líkt og ákvæði 69. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Með vísan til þess er það niðurstaða kærunefndar að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar samkvæmt 69. gr. laga um útlendinga, sbr. 70. gr. sömu laga, séu ekki uppfyllt. Er því ljóst að framangreindur annmarki á málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafði ekki áhrif á efnislega niðurstöðu í máli hennar og er því ekki ástæða til þess að ógilda ákvörðun stofnunarinnar á þeim grundvelli og senda til nýrrar meðferðar.

Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar

Kærunefnd gerir athugasemd við þá ákvörðun Útlendingastofnunar um að frávísa kæranda frá landinu. Kærandi lagði fram HKSAR (e. Hong Kong Special Administrative Region) vegabréf sem samkvæmt I. kafla viðauka 9 við reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022 veitir undanþágu frá skyldu til að hafa vegabréfsáritun við komu til Íslands. Með vísan til þess er ljóst að kærandi hefur heimild til að dvelja hér á landi og á yfirráðasvæði aðildarríkja Schengen-samstarfsins í allt að 90 daga á hverju 180 daga tímabili, sbr. 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, og var kærandi í löglegri dvöl hér á landi þegar ákvörðun Útlendingastofnunar var tekin. Voru því ekki forsendur fyrir því af hálfu Útlendingastofnunar að vísa kæranda frá landinu.

V.            Samantekt og leiðbeiningar

Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 65. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis vegna náms. Jafnframt eru skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar samkvæmt 69. gr. laga um útlendinga ekki uppfyllt, sbr. 70. gr. sömu laga.

Kærandi hefur dvalið á Schengen-svæðinu frá 26. ágúst 2022. Þegar þessi úrskurður, dags. 7. desember 2022, er kveðinn upp hefur kærandi dvalið hér á landi í rúma 100 daga. Þar sem kærandi hefur dvalið hér á landi lengur en henni er heimilt samkvæmt 49. gr. laga um útlendinga ber henni að yfirgefa landið. Er lagt fyrir kæranda að yfirgefa landið innan 15 daga og senda Útlendingastofnun upplýsingar um brottför sína af landinu. Yfirgefi kærandi ekki landið kann það að leiða til þess að henni verði brottvísað samkvæmt a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og ákveðið endurkomubann. 

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Bjarnveig Eiríksdóttir


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta