Samningur um þjónustu Hugarafls
Félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir milligöngu Vinnumálastofnunar hefur gert nýjan samning við Hugarafl til tveggja ára um að sinna starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga með geðraskanir sem þurfa öflugt utanumhald og eftirfylgd. Sérstök áhersla verður lögð á ungt fólk sem uppfyllir ekki skilyrði fyrir þjónustu lokaðra endurhæfingarúrræða.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar og Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls, undirrituðu samning þessa efnis í dag að viðstöddum félags- og jafnréttismálaráðherra sem sagði samninginn fagnaðarefni: „Það er mikil þörf fyrir þessa þjónustu eins og þegar hefur sýnt sig með fyrri samningi Vinnumálastofnunar og Hugarafls. Hugarafl nýtur mikils stuðnings víða í samfélaginu og því gleðilegt að geta aukið við þessa þjónustu með nýjum samningi“ segir Ásmundur Einar.
Samkvæmt samningnum mun þjónustan einnig standa til boða þeim sem hafa takmörkuð atvinnutækifæri eða standa höllum fæti á vinnumarkaði vegna skorts á grunnmenntun eða annarri hæfni og leita til Hugarafls af sjálfsdáðum.
Gert er ráð fyrir að í hverjum mánuði njóti 41 einstaklingur starfsendurhæfingar hjá Hugarafli að jafnaði. Á hverjum tíma er miðað við að hægt sé að bregðast við og veita þjónustu allt að sextán einstaklingum í bráðum vanda.
Áhersla verður lögð á einstaklingsbundin úrræði sem miðast við að auka starfsgetu fólks og gera því kleift að fara aftur inn á vinnumarkaðinn. Í því felst meðal annars að undirbúa viðkomandi fyrir vinnu, greina atvinnutækifæri hans, aðstoða við atvinnuleit og atvinnuumsóknir, auk tímabundinnar aðstoðar á vinnustað ef með þarf.
Þjónustan skal miða að því að hvetja þátttakendur til aukinnar sjálfseflingar og virkni og lífsgæða og stuðla að því að þeir fái notið sín sem fullgildir þegnar samfélagsins á forsendum eigin getu og styrkleika.
Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls, sagðist við undirritun samkomulagsins í dag fagna þessum tímamótum og vera þakklát þeim sem hefðu gert þennan samning mögulegan: „Með þessu skrefi getur almenningur haldið áfram að leita sér þjónustu án hindranna og einstaklingar sótt sér endurhæfingu á eigin forsendum á leið sinni til bata.“
Samningsfjárhæðin nemur samtals 47.000.000 á ári á samningstímanum.