Ísland bætir frammistöðu sína við innleiðingar
Innleiðingahalli Íslands hvað varðar EES-tilskipanir er nú 1,8 prósent en var í maí 2017 2,2 prósent. Ísland er þó enn í neðsta sæti þegar innleiðingarhalli EES-ríkjanna er tekinn saman.
Frammistöðumat Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá því í maí 2017 fram í nóvember sama ár var kynnt í dag, 6. apríl. Þar er gerð grein fyrir árangri EES-ríkjanna innan EFTA við innleiðingu EES-gerða. Þá er lögð sérstök áhersla á innleiðingu tilskipana, en hægt er að bera þær upplýsingar saman við innleiðingu ESB-ríkja, en það sama á ekki við um innleiðingu reglugerða.
Samkvæmt yfirliti ESA er Ísland eina EES-ríkið innan EFTA sem hefur bætt frammistöðu sína frá því í maí 2017 þegar kemur að innleiðingu á tilskipunum. Ísland er þó enn í neðsta sæti þegar innleiðingarhalli EES-ríkjanna er tekinn saman yfir umrætt tímabil.
Innleiðingarhalli Íslands var í maí 2017 2,2 prósent en er nú orðinn 1,8 prósent þar sem fimmtán tilskipanir hafa ekki verið innleiddar að fullu á réttum tíma. Í Noregi jókst innleiðingarhalli frá síðasta frammistöðumati og fór hann úr 0,2prósent í 0,5 prósent og innleiðingarhalli jókst lítillega hjá Liechtenstein úr 1,2 prósent í 1,3 prósent. Frá ársbyrjun 2011 hefur það verið markmið ESB og ESA að aðildarríkin haldi innleiðingarhallanum undir 0,5 prósent.
Frammistöðumat ESA má nálgast á vefsetri stofnunarinnar.