Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 711/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 18. júlí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 711/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24020202

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 27. febrúar 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Georgíu ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2024, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi vegna hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, sbr. d-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. e-lið 1. mgr. 98. gr. sömu laga.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt umbeðið dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 21. janúar 2020 var kæranda fyrst birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann til landsins þar sem hann var staddur hér á landi í ólögmætri dvöl. Var nafn kæranda þá [...]. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. febrúar 2020, var kæranda brottvísað og ákvarðað endurkomubann hingað til lands í tvö ár undir nafninu [...]. Hinn 3. ágúst 2021 var kæranda að nýju birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann til landsins af sömu sökum. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. ágúst 2021, var kæranda brottvísað og honum ákvarðað endurkomubann hingað til lands í fjögur ár. Endurkomubann kæranda hingað til lands og á Schengen-svæðið gildir til 11. ágúst 2025. Kærandi kærði ekki þá ákvörðun til kærunefndar. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-3710/2021 var kæranda gert að sæta gæsluvarðhaldi til 16. ágúst 2021. Var það niðurstaða úrskurðarins að sýnt væri að líkur stæðu til þess að kærandi kæmi sér annars undan framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar og ekki talið að önnur eða vægari úrræði kæmu að haldi, sbr. 4. mgr. 104. gr. og d-liðar 1. mgr. 115. gr. laga um útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Hinn 21. apríl 2023 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara undir nafninu [...]. Hinn 23. apríl 2023 var kærandi handtekinn vegna ólögmætrar dvalar hér á landi. Með úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var af Landsrétti, var kæranda gert að sæta gæsluvarðhaldi til 8. maí 2023. Kærandi var fluttur til Georgíu 4. maí 2023. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. maí 2023, var kæranda brottvísað og honum ákvarðað endurkomubann til landsins í fjögur ár. Með úrskurði kærunefndar nr. 446/2023, dags. 23. ágúst 2023, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Fram kom í úrskurði nefndarinnar að endurkomubann kæranda hefði hafist 4. maí 2023 og er því í gildi til 4. maí 2027.

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar að nýju 25. október 2023. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2024, var umsókn kæranda synjað á grundvelli d-liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga, sbr. e-lið 1. mgr. 98. gr. sömu laga enda lægju fyrir atvik sem valdið gætu því að kæranda yrði meinuð landganga hér á landi. Fyrir lægi að kæranda var vísað brott, sbr. úrskurð kærunefndar nr. 446/2023, og væri hann í endurkomubanni til 23. ágúst 2027. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 27. febrúar 2024. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 27. febrúar 2024, var kæranda veittur frestur til 12. mars 2024 til þess að leggja fram greinargerð vegna málsins. Kærandi lagði ekki fram greinargerð eða frekari gögn vegna málsins.

Samkvæmt tölvubréfi frá Lögreglustjóranum á Suðurlandi, dags. 27. júní 2024, var kærandi í haldi lögreglu vegna gruns um brot gegn lögum um útlendinga.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram greinargerð eða aðrar röksemdir vegna málsins á kærustigi. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun vísar kærandi einkum til hjúskapar síns og tengsla við barn maka kæranda, sem glími við andleg veikindi. Þá kvaðst kærandi ekki hafa gert sér grein fyrir því að honum hafi áður verið brottvísað og að hann væri í endurkomubanni. Kærandi telur úrlausnir stjórnvalda um hans hagsmuni fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gegn sér og fjölskyldu sinni. Þar að auki standi kæranda til boða atvinna hér á landi, hann sé með hreinan sakaferil og óski þess að sameinast fjölskyldu sinni að nýju.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61.-65., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. laganna með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla laganna.

Meðal grunnskilyrða dvalarleyfis er að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að útlendingi verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. d-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga segir m.a. að þau atvik sem geti leitt til synjunar séu ákvæðin um frávísun og brottvísun.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 446/2023, dags. 23. ágúst 2023, var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann í fjögur ár. Í úrskurðinum var tekið fram að þar sem kærandi hefði yfirgefið landið 4. maí 2023 yrði litið svo á að fjögurra ára endurkomubann hefði hafist þann dag, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Þannig er ljóst að fjögurra ára endurkomubann kæranda gildir til 4. maí 2027. Liggja því fyrir atvik sem valdið geta því að kæranda verði meinuð landganga hér á landi, sbr. d-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Kærandi uppfyllir því ekki grunnskilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis, sbr. 55. gr. laganna.

Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Varðandi röksemdir kæranda um hjúskap sinn við íslenskan ríkisborgara var tekin afstaða til þeirrar málsástæðu í úrskurði nefndarinnar nr. 446/2023. Í úrskurðinum kom m.a. fram að þrátt fyrir að kærandi hafi gengið í hjúskap með íslenskum ríkisborgara væri það mat nefndarinnar að brottvísun fæli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, m.a. með hliðsjón af því að hann dveldi hér á landi þrátt fyrir endurkomubann, þá hafi samband hans við maka sinn varað stutt, og hafi hann mátt gera sér grein fyrir að dvöl hans væri ólögmæt. Þar að auki hafi kærandi sterk tengsl við heimaríki en samkvæmt gögnum málsins á hann þrjú börn búsett þar. Enn fremur kemur fram að kæranda væri frjálst að snúa aftur til Íslands að liðnum fjórum árum og maki hans og börn hennar gætu heimsótt kæranda til heimaríkis.

Í úrskurði kærunefndar nr. 446/2023 var kæranda leiðbeint um efni 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar ástæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að endurkomubann kæranda hafi verið fellt niður. Samkvæmt tölvubréfi lögreglu, dags. 27. júní 2024, er kærandi staddur á landinu og hefur því virt að vettugi endurkomubann á Schengen-svæðið. Kann sú háttsemi kæranda að leiða til beitingar úrræða á grundvelli XII. kafla laga um útlendinga og refsiúrræða á grundvelli 116. gr. laga um útlendinga, eftir atvikum.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta