Efling samfélags í Vestmannaeyjum – ráðherra skipar starfshóp
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem er falið að vinna tillögur um framgang mála í Vestmannaeyjum, sem heyra undir málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, með það að markmiði að efla samfélagið.
Er starfshópnum falið að leggja fram tillögur er snúa að bættu orkuöryggi svæðisins hvað varðar dreifi- og flutningskerfi raforku og kanna möguleika á aukinni orkuöflun innan svæðisins. Jafnframt á hópurinn að leggja fram tillögur um eflingu hringrásarhagkerfisins, menningarminjar og náttúrutengda innviðauppbyggingu, sem og með hvaða hætti verði stuðlað að grænni atvinnuuppbyggingu í Vestmannaeyjum.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Sveitarstjórnarfólk í Vestmannaeyjum hefur kallað eftir fullnægjandi orkuöryggi fyrir samfélagið. Til að tryggja örugg búsetuskilyrði í Vestmannaeyjum og styrkja samkeppnisstöðu sveitarfélagsins þarf að tryggja örugga innviði til framtíðar, þar með talið raforkuinnviði og stuðla að fjárfestingum á svæðinu til uppbyggingar á grænni atvinnustarfsemi. Stjórnvöld, sveitastjórnarfólk, samfélagið og atvinnulífið í Eyjum þurfa að taka höndum saman við mótun slíkra hugmynda og það er von mín að tillögur starfshópsins verði lóð á þær vogarskálar.“
Starfshópinn skipa:
Árni Sigfússon, fyrrverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sem er formaður hópsins,
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum,
Gísli Stefánsson, bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum.