Bréf norrænna heilbrigðisráðherra um rafræna fylgiseðla með lyfjum afhent í Brussel
Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands í Brussel afhenti í dag, bréf til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að skoðað verði að opna heimild til að notast við rafræna fylgiseðla með lyfjum. Bréfið afhenti hann Vytenis Andriukaitis, framkvæmdastjóra skrifstofu heilsu- og fæðuöryggis Evrópusambandsins (DG SANTE Health and Food Safety). Bréfið er undirritað af Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, fyrir hönd norrænu heilbrigðisráðherranna.
Samkvæmt gildandi reglum Evrópusambandsins skulu lyfjapakkningar innihalda fylgiseðil með viðkomandi lyfi á tungumáli þess lands þar sem lyfið er selt. Fyrirkomulagið felur í sér ýmsa annmarka, ekki síst fyrir lítil málsvæði. Er því þrýst á um að breyta reglunum þannig að ríkjum verði heimilt að nota rafræna fylgiseðla eingöngu.
Rafrænir fylgiseðlar lækka kostnað og auka öryggi
Í bréfinu er rakið að rafrænir fylgiseðlar muni auðvelda sameiginleg lyfjainnkaup tveggja eða fleiri landa og þannig stuðla að lægri kostnaði. Einnig er bent á að rafrænir fylgiseðlar geti aukið öryggi sjúklinga þar sem sjúklingar geti fengið seðilinn á tungumáli sem þeir skilja. Eins sé hægt að uppfæra seðilinn jafnskjótt og þörf er á. Þá verður seðillinn auðveldari aflestrar því hægt verður að m.a. stækka letur og línubil í rafrænum seðli. Í bréfinu er því lýst að meðal fámennra þjóða með eigið tungumál séu annmarkar á núgildandi kerfi, því hár prent- og pökkunarkostnaður geti valdið því að markaðssvæðið verður ekki eins eftirsótt og ella og sum lyf skili sér því ekki inn á markaðinn.
Norræn samvinna
Norræna ráðherranefndin um félags- og heilbrigðismál (MR-S) hefur tekið fyrir málefni rafrænna fylgiseðla með lyfjum og hefur embættismannanefnd ráðsins (EK-S) fylgt málinu eftir á undanförnum misserum á bæði norrænum og evrópskum vettvangi. Bréf norrænu heilbrigðisráðherranna er liður í þeirri eftirfylgni. Ísland gegnir formennsku í norrænu ráðherranefndinni árið 2019. Einn liður í formennskuáætlun Íslands í ár er norrænn fundur um rafræna fylgiseðla sem haldin verður á Íslandi þann 17. október n.k.