Múlakvísl brúuð á 96 klukkustundum
Bráðabirgðabrúin yfir Múlakvísl var opnuð á hádegi í gær og umferð hleypt á Hringveginn. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði við það tækifæri að starfsmenn Vegagerðinnar hefðu unnið afrek og þakkað þeim og lögreglu, almannavörum og björgunarsveitum sem ferjuðu fólk yfir ána og veittu margvíslega aðstoð.
Brúarvinnuflokkar, verktakar sem komið hafa að verkinu, björgunarsveitarmenn og aðrir í ferjuflutningum gengu fylktu liði yfir nýju brúna rúmlega tólf í gær, laugardag. Aðeins var þá liðin vika frá því að hlaup hreif brúna frá 1990 með sér og einungis vika frá því að brúarsérfræðingar Vegagerðarinnar ákváðu hvernig staðið yrði að verkinu, hvar brúin yrði og fleira. Mest allt efni sem fór í brúna var til í fórum Vegagerðarinnar.
Brúarsmíðin sjálft hófst þegar fyrsti undirstöðustaurinn var rekinn niður síðastliðið mánudagskvöld. Smíðinni lauk á föstudag og hafði þá staðið í 96 klukkustundir og þá var ánni þá beint undir brúna og unnið við vegtengingar og varnargarða. Tveir brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar smíðuðu brúna og nokkrir aðrir starfsmenn hennar sáu um hönnun og skipulag, alls kringum 40 manns. Þá voru verktakar fengnir til að vinna við varnargarðana.
Brúin er 155 metra löng stálbitabrú sem reist er á tréstaurum og með timburgólfi. Hún er einbreið og því er hámarkshraði lækkaður við brúna í 50 km á klukkustund. Brúin er örlítið ofar í ánni en sú sem fór í hlaupinu. Gert er ráð fyrir að ný brú verði síðan smíðuð og að verkið verði boðið út síðar á árinu.
Sveinn Þórðarson og Guðmundur Sigurðsson eru verkstjórar brúarvinnuflokkanna og Einar Hafliðason og Rögnvaldur Gunnarsson stýrðu hönnun og framkvæmd verksins í heild í samráði við Hrein Haraldsson vegamálastjóra. Starfsmenn Vegagerðarinnar lögðu nótt við dag við verkið og var komið upp margs konar aðstöðu við brúna fyrir starfsmenn.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Össur Skarphéðinsson, starfandi iðnaðarráðherra sem fer einnig með ferðamál, tóku á móti brúarvinnuflokkunum og þeim sem sinntu þjónustu við flutningana við vesturenda brúarinnar og óku síðan fyrstir manna yfir brúna. Umferðinni var síðan hleypt á og var verkinu þar með lokið nema hvað unnið verður við að styrkja varnargarðana við brúna og veginn næstu daga.
Grillveisla
Vegagerðin bauð til grillveislu í kjölfarið þar sem vegamálastjóri og ráðherrarnir fluttu ávörp og þakkaði vegamálastjóri sínu fólki við vel unnið verk. Ögmundur Jónasson sagði að þegar á laugardagsmorgninum eftir hlaupið hefði verið ákveðið að vinna við bráðabirgðabrú myndi standa dag og nótt og undirbúningur verksins hefði byrjað þá strax. Sagði hann brúarvinnuflokka og tæknimenn Vegagerðarinnar hafa lokið verkinu á mettíma, mun fyrr en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir, og sýndi það vel hversu öflugir og mikilvægir brúarvinnuflokkarnir væru og hægt að ganga að þeim fyrirvaralaust þegar óvæntir atburðir krefðust.
Sveitarfélögin Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur sem liggja að Múlakvísl fagna opnun hringvegarins og þakka Vegagerðinni og starfsmönnum hennar fyrir snör handtök. Segja þau Hringveginn lífæð sveitarfélaganna. Opnunin sé mikill léttir fyrir þá sem búi og starfi á svæðinu. Einnig vilja sveitarfélögin koma á framfæri þakklæti til allra þeirra fjölmörgu björgunarsveitarmanna og annarra sem stóðu langar vaktir við að ferja fólk og farartæki yfir Múlakvísl við erfiðar aðstæður. Samtök ferðaþjónustunnar fagna einnig opnun Hringvegarins.
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri var einnig ánægður með sína menn og stoltur af góðu verki þeirra.
Nokkrir bílar biðu beggja vegna Múlakvíslar um hádegið og streymdu síðan yfir.