Ræða breytingar á framtíðarskipan samgöngustofnana
Ýmsar ástæður eru fyrir umfjöllun um þessar breytingar. Með samgönguáætlun var mótuð ný framtíðarsýn þar sem litið er á samgöngugreinarnar þrjár, land, sjó og loft, sem eina heild með sameiginleg markmið. Þá hefur ríkisrekstur tekið miklum breytingum undanfarin ár og alþjóðlegar skuldbindingar hafa aukist. Einnig eru ríkar kröfur á sviði samgöngumála um óháða og gagnsæja stjórnsýslu með aðskilnaði stjórnsýslu og framkvæmda. Þá er það yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að gera þurfi umtalsverðar umbætur á stjórnkerfinu til að nýta takmarkaða fjármuni betur og efnahagsörðugleikar þrýsta einnig á um að starfsemi ríkisins sé endurskoðuð.
Í byrjun ársins skipaði ráðherra tvær nefndir og var annarri þeirra falið að meta kosti og galla þess að sameina opinberu hlutafélögin Flugstoðir og Keflavíkurflugvöll. Hinni nefndinni var falið að leggja fram tillögur að framtíðarskipan stofnana samgöngumála, nánar tiltekið úttekt og tillögu að hlutverki og verkefnum Siglingastofnunar Íslands, Umferðarstofu og Vegagerðar. Síðar var Flugmálastjórn einnig tekin til skoðunar í þeirri nefnd.
Nefndirnar hafa báðar skilað tillögum sínum til ráðherra sem kynnir þær nú í viðkomandi stofnunum. Í gær hélt ráðherra fund með starfsmönnum Keflavíkurflugvallar ohf. og í dag með starfsmönnum Flugstoða ohf. þar sem möguleg sameining var rædd. Þá hefur ráðherra í dag fundað í Siglingastofnun og hjá Vegagerðinni og á morgun eru áætlaðir fundir hjá Umferðarstofu og Flugmálastjórn.
Kristján L. Möller hefur flutt ávarp á fundunum og síðan hafa formenn nefndanna, Jón Karl Ólafsson, forstjóri Primera Air, og Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna, kynnt helstu tillögur sinna nefnda. Í framhaldi af því hafa farið fram umræður og hafa starfsmenn komið fram með margs konar gagnlegar og jákvæðar ábendingar og vangaveltur.
Næstu skref segir ráðherra vera nánari útfærslu á tillögunum í samráði við starfsmenn og forráðamenn viðkomandi stofnana.
Fjölmenni var á fundi með starfsmönnum Vegagerðarinnar sem fram fór í Reykjavík en starfsstöðvar út um landið fylgdust með fundinum með fjarfundabúnaði.