Samstarfssamningur um kennslu og rannsóknir í þágu barna með fötlun
Háskóli Íslands og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hafa gert með sér samstarfssamning um kennslu og rannsóknir í þágu barna með fötlun. Samningurinn gildir um samskipti og samvinnu háskólans og greiningarstöðvarinnar um kennslu, rannsóknir og þjálfun í félags- og heilbrigðisvísindagreinum sem kenndar eru við Háskóla Íslands og stundaðar hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni. Samningurinn tekur einnig til samvinnu um þróun þeirrar þjónustu sem veitt er á fagsviðum greiningar og ráðgjafar, þar á meðal endurmenntun starfsfólks.
Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Stefán J. Hreiðarsson, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, undirrituðu samninginn sem gerður er til fimm ára og gildir til ársloka 2015.
Með samningnum er stefnt að því að efla samstarf Háskóla Íslands og Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og nýta sem best sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu samningsaðila. Markmið samningsins eru:
- Að styrkja nýliðun fagfólks í starfi með fötluðum börnum.
- Að tryggja að starfsfólk sem sinnir greiningu, ráðgjöf og framkvæmd úrræða á fagsviðum Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar og nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands hafi greiðan og gagnkvæman aðgang að sérþekkingu.
- Að stuðla að framgangi vísindarannsókna faggreina tengdum greiningu, ráðgjöf og framkvæmd úrræða.