Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2007 Innviðaráðuneytið

Telur flugöryggi í atvinnuflugi hafa aukist hérlendis

Athuganir sem gerðar hafa verið á vegum Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands á gögnum frá Rannsóknarnefnd flugslysa og Flugmálastjórn Íslands um tíðni flugslysa og alvarlegra flugatvika benda sterklega til þess að flugöryggi í atvinnuflugi hafi aukist hér á landi. Skýrslu um athugunina má sjá á vef Rannsóknarnefndar flugslysa.

Skýrsluna vann Oddgeir Guðmundsson verkfræðinemi og leiðbeinendur voru Ólafur Pétur Pálsson og Birgir Hrafnkelsson. RNF útvegaði gögn og vinnuaðstöðu og Flugmálastjórn aflaði einnig gagna og styrkti verkefnið.

Kannað var hvort flugslysum og alvarlegum flugatvikum hafi fækkað marktækt á síðari árum, mannlegur þáttur í slysum og atvikum er greindur og hann einnig skoðaður út frá reynslu flugmanna og ýmsum fleiri atriðum. Flugi var skipt í þrjá flokka, atvinnuflug, kennsluflug og einkaflug. Undir atvinnuflug í skýrslunni fellur áætlunarflug, þjónustuflug, verkflug og leiguflug.

Könnuð voru gögn frá tímabilinu 1979 til 2003. Fram kemur að fjöldi flugtíma í atvinnuflugi hafi aukist hröðum skrefum á tímabilinu, einkanlega síðustu 10 ár, en hann var undir 50 þúsund árið 1979 en kominn í 225 þúsund flugtíma árið 2003. Kennsluflug og einkaflug hefur hins vegar haldið svipað.

Meðal niðurstaðna skýrsluhöfundar er að fjöldi slysa og alvarlegra atvika hafi verið vel undir meðalfjölda á hverja þúsund flugtíma seinustu fimm árin sem greiningin nær til og telur hann breytinguna tölfræðilega marktæka. Því gefi niðurstöðurnar sterklega til kynna að flugöryggi í atvinnuflugi hafi aukist hér á landi.

Fjöldi atvika í einkaflugi er einnig athugaður á sama hátt en þar er niðurstaðan sú að fjöldi flugslysa og alvarlegra atvika virðist haldast í hendur við heildarfjölda flugtíma á ári hverju. Telja þeir að flugöryggi í einkaflugi hafi staðið í stað árin 1979 til 2003 og sú er einnig niðurstaða þeirra varðandi kennsluflug.

Í skýrslunni er síðan að finna margháttaða greiningu á sambandi tíðni flugslysa og alvarlegra flugatvika og flugtíma, við reynslu á tiltekna tegund og fleira. Þá kemur fram í lokaorðum skýrsluhöfundar að fróðlegt væri að kanna hvort marktækur munur væri á fjölda tilvika á mismunandi flugvöllum landsins, þróun flugumferðaratvika, skiptingu slysa milli mannlegra mistaka og tæknilegra mistaka og hvort árstíðir skipti máli.

Skýrsluna má sjá á vef Rannsóknarnefndar flugslysa.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta