Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2007 Innviðaráðuneytið

Reykjavíkurflugvöllur á mjög góðum stað frá sjónarhóli flugsamgangna og flugrekenda

Skýrsla samráðsnefndar samgönguráðherra og borgarstjóra um úttekt á framtíðarkostum Reykjavíkurflugvallar verður tilbúin í lok næstu viku og stefnt að birtingu hennar þá. Meðal helstu niðurstaðna nefndarinnar er að núverandi flugvöllur í Vatnsmýri sé á góðum stað fyrir flugsamgöngur en að flugvallarsvæðið sé dýrmætt sem byggingarland.

Verkefni nefndarinnar var að vinna flugtæknilega, rekstrarlega og skipulagslega úttekt á Reykjavíkurflugvelli og fékk hún innlenda og erlenda aðila til að vinna ákveðin svið úttektarinnar.

Grunnkosturinn er núverandi flugvöllur óbreyttur nema hvað norðaustur-suðvestur braut verður lögð niður. Aðrir kostir sem athugaðir voru eru þrjár tillögur um breytta legu flugbrauta í Vatnsmýri, sem nefndir eru A-kostir. Nýting vallarins er talin geta verið 98% eða hin sama og núverandi völlur með tveimur brautum. Í þessum kostum er gert ráð fyrir nýjum flugvelli í Afstapahrauni fyrir einka- og kennsluflug. Þrír aðrir kostir eru nefndir B-kostir: Nýir flugvellir á Hólmsheiði eða Lönguskerjum eða að innanlandsflug yrði eingöngu rekið frá Keflavíkurflugvelli. Nýting flugvallar á Hólmsheiði er talin geta orðið 95% en er óviss þar sem rannsóknir hafa ekki farið fram. Á Lönguskerjum er nýting talin verða 98%. Ekki er gert ráð fyrir byggingu flugvallar í Afstapahrauni nema innanlandsflugið flytjist til Keflavíkurflugvallar. Í því tilviki er gert ráð fyrir nýjum varaflugvelli á Bakka í Landeyjum.

Helstu niðurstöður úttektarinnar eru eftirfarandi:

  1. Núverandi flugvöllur er á mjög góðum stað frá sjónarmiði flugsamgangna og flugrekenda. Starfrækja má flugvöllinn með góðum árangri þó að brautum sé fækkað úr þremur í tvær og flugvallarsvæðið minnkað nokkuð.
  1. Flugvöllur með einungis einni braut er ekki nothæf lausn vegna mikils og breytilegs vindafars sem ríkir á svæðinu.
  1. Flugvallarsvæðið í Vatnsmýrinni er mjög dýrmætt sem byggingarland vegna staðsetningar.
  1. Þjóðhagslegir útreikningar sýna að B-kostirnir skila miklum ábata, mun meiri en A-kostirnir.
  1. Hólmsheiði kemur þjóðhagslega best út samkvæmt kostnaðar- og ábatagreiningu og þar er hagur hagsmunaaðila í allgóðu jafnvægi þó að nokkur kostnaður leggist á íbúa landsbyggðarinnar og flugrekendur. Gera verður fyrirvara um þennan kost að því er varðar nýtingu flugvallarins vegna hæðar í landi, 135 metrar, og nálægðar við fjöll en rannsóknir á áhrifum þessara þátta á veðurfar og flugskilyrði skortir.
  1. Örlítið minni þjóðhagslegur ábati er af því að nýta Keflavíkurflugvöll en Hólmsheiði til innanlandsflugs. Útkoma hagsmunaaðila er á hinn bóginn í meira ójafnvægi og verða íbúar landsbyggðarinnar fyrir umtalsverðum kostnaði. Þetta er lakasti kosturinn fyrir flugrekendur. Þessi kostur veldur umtalsverðri afturför í flugsamgöngum innanlands og er talinn geta valdið 19,4% fækkun farþega í innanlandsflugi.
  1. Löngusker sýna minnstan þjóðhagslegan ábata af B-kostunum, 11-13% minni ábata en hinir. Þessi kostur gefur lökustu útkomuna fyrir ríkissjóð en hagur annarra hagsmunaaðila er í góðu jafnvægi. Hér skortir einnig veðurfarsathuganir en líklegt er að veðurfar á Lönguskerjum sé svipað og í Vatnsmýrinni. Umhverfisáhrif eru margvísleg í þessum kosti og gætu umhverfismál orðið umfangsmikil og tímafrek.

Í niðurstöðum sínum bendir nefndin á að brýnt sé að marka stefnu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Óvissa um framtíð vallarins komi hagsmunaaðilum illa og henni verði að eyða. Bent er á að ákvörðun um staðsetningu einkaflugs og æfingaflugs verði ekki tekin fyrr en stefnumörkunin liggi fyrir. Rannsaka beri til hlítar ný flugvallarstæði á Lönguskerjum og Hólmsheiði með tilliti til veðurfars og flugskilyrða. Vegna langs rannsóknartíma, sem gæti verið allt að fimm árum, ætti að taka báða staðina fyrir samtímis. Veðurfarsrannsóknir eru hafnar að nokkru leyti á Hólmsheiði.

Um samgöngumiðstöð í Vatnsmýri segir í skýrslunni að bygging hennar sé brýn og vel gerleg þótt óvissu gæti um framtíð flugvallar í Vatnsmýri. Sú óvissa kalli á vandaðan undirbúning og mikinn sveigjanleika í byggingunni.

Tekið er fram í skýrslu nefndarinnar að henni hafi ekki verið falið að koma með tillögu um ákveðna lausn eða lausnir heldur að búa til grundvöll fyrir formlegar viðræður aðila um framtíð flugstarfsemi í Vatnsmýri.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta