Ályktun Íslands um mannréttindaástand á Filippseyjum samþykkt
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag ályktun sem Ísland hafði lagt fram í ráðinu um stöðu mannréttindamála á Filippseyjum. Með samþykkt ályktunarinnar lýsir mannréttindaráðið formlega yfir áhyggjum af ástandinu á Filippseyjum, hvetur stjórnvöld í landinu til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga og draga þá til ábyrgðar sem hafa staðið fyrir slíku.
Enn fremur er farið fram á að stjórnvöld á Filippseyjum sýni skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, sem og stofnunum mannréttindaráðsins, fullan samstarfsvilja. Loks er mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna falið að standa fyrir skýrslugerð um stöðu mannréttindamála á Filippseyjum og leggja fyrir mannréttindaráðið að ári liðnu.
Atkvæðagreiðslunni lyktaði þannig að 18 studdu ályktunina, 15 sátu hjá og 14 voru á móti. Er þetta í fyrsta skipti sem Ísland lætur að sér kveða með þessum hætti í ráðinu og í fyrsta skipti sem ályktun er samþykkt á þessum vettvangi um stöðu mannréttinda á Filippseyjum.
„Með því að leggja fram þessa ályktun var Ísland að fylgja eftir fyrra frumkvæði sínu. Það er afar mikilvægt enda hefur það sýnt sig að ástand mannréttindamála í Filippseyjum hefur farið stigversnandi. Mannréttindi eru hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands og við hétum því þegar við tókum sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna að setja mark okkar á starfsemi ráðsins og láta til okkar taka þar sem þörf er á. Það höfum við gert meðal annars í málefnum Filippseyja, sem og gagnvart Sádi-Arabíu. Ég er ánægður með niðurstöðuna í dag og tel að með samþykkt þessarar ályktunar sé mannréttindaráðið að standa undir nafni sem helsti vettvangur umræðu um mannréttindamál í heiminum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Alls voru þrjátíu og fimm ríki meðflytjendur að þessari ályktun Íslands. Tildrög ályktunarinnar eru þau að Ísland hefur á síðustu tveimur árum þrívegis flutt sameiginlega yfirlýsingu í mannréttindaráðinu fyrir hönd fjölda ríkja um mannréttindaástandið á Filippseyjum, einkum í tengslum við aftökur án dóms og laga sem stjórnvöld hafa réttlætt á grundvelli svokallaðs stríðs gegn eiturlyfjum.