Mál nr. 2/2017
Mál nr. 2/2017
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
fjármála- og efnahagsráðuneytinu
Skipun í embætti. Hæfnismat.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið auglýsti 2. júní 2016 laust embætti skrifstofustjóra skrifstofu opinberra fjármála. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að skipa karl í embættið en hún taldi sig vera hæfari en karlinn sem var skipaður. Kærði taldi að á grundvelli umsóknargagna, skýrslu hæfnisnefndar sem mat kæranda og þann sem skipaður var jafn hæfa og viðtala þeirra með ráðherra eftir að skýrslan lá fyrir, hafi hæfasti einstaklingurinn verið skipaður til að gegna embættinu. Kærunefnd taldi að umrædd viðtöl hefðu ekki verið til þess fallin að leiða í ljós að sá er skipaður var hafi verið hæfari til að gegna embættinu en kærandi. Kynjahlutföll í embættum skrifstofustjóra hjá kærða voru konum í óhag. Þar sem hæfnisnefnd hafði talið kæranda vera í það minnsta jafn hæfa og þann er skipaður var taldi kærunefnd jafnréttismála að kærði hefði með skipan í embættið brotið gegn lögum nr. 10/2008.
Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 4. maí 2017 er tekið fyrir mál nr. 2/2017 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
Með kæru, dagsettri 27. janúar 2017, kærði A ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að skipa karl í embætti skrifstofustjóra opinberra fjármála. Kærandi telur að með ráðningunni hafi ráðuneytið brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 31. janúar 2017. Kærði fékk í tvígang framlengdan frest til að skila greinargerð í málinu, en hún barst með bréfi, dagsettu 9. mars 2017, og var kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 10. mars 2017.
Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 15. mars 2017, með athugasemdum við greinargerð kærða og var bréfið kynnt kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 15. mars 2017.
Með tölvupósti kærða 4. apríl 2017 bárust athugasemdir hans, dagsettar sama dag. Voru athugasemdirnar sendar kæranda til kynningar með bréfi kærunefndar, dags. 4. apríl 2017.
Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
MÁLAVEXTIR
Kærði auglýsti þann 2. júní 2016 laust til umsóknar embætti skrifstofustjóra skrifstofu opinberra fjármála á Starfatorgi, í Lögbirtingablaðinu og á heimasíðu Capacent.
Í auglýsingu kom fram að skrifstofa opinberra fjármála undirbúi stefnumörkun í fjármálum hins opinbera og setningu heildarmarkmiða varðandi þróun ríkisfjármála til skemmri og lengri tíma, í samræmi við áherslur stjórnvalda á hverjum tíma. Skrifstofan beri ábyrgð á samhæfingu fjármálastefnu ríkis og sveitarfélaga og málefnum sem varða fjárhag ríkisaðila. Þar sé gerð langtímaáætlun í ríkisfjármálum sem byggist á greiningu og spám um þróun tekna, gjalda, lánsfjárþarfar og skulda, í samvinnu við yfirstjórn og aðrar skrifstofur ráðuneytisins. Helstu verkefni á skrifstofunni séu yfirumsjón með gerð fjármálastefnu og árlegrar fjármálaáætlunar fyrir hið opinbera í heild og að hafa forystu um undirbúning frumvarps til fjárlaga í samræmi við ný lög um opinber fjármál, nr. 123/2015. Skrifstofan samhæfi starf sem fram fari í öðrum ráðuneytum vegna undirbúnings fjármálastefnu, fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps á grundvelli grunngilda sem séu skilgreind í lögum um opinber fjármál, sem séu sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi. Þá yfirfari skrifstofan áhrifamat ráðuneyta vegna stjórnarfrumvarpa og reglugerða, og leggi mat á samninga og aðrar skuldbindingar ríkisaðila sem nái yfir lengri tíma en fjárlagaárið. Þá fari fram á vegum skrifstofunnar greiningar, rannsóknir og smíði reiknilíkana til að meta og auka skilvirkni og ráðdeild í opinberum rekstri. Skrifstofan taki þátt í alþjóðlegu samstarfi um opinber fjármál. Loks er tekið fram að yfir standi innleiðing nýrra laga um opinber fjármál sem feli í sér verulegar breytingar og tækifæri. Fjármála- og efnahagsráðuneytið leiði þær breytingar og um sé að ræða lykilstöðu í því ferli.
Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar menntunar- og hæfniskröfur. Þar var áskilið meistarapróf í hagfræði eða sambærileg menntun sem nýtist í starfinu, víðtæk þekking og skilningur á opinberum fjármálum og starfsemi hins opinbera, reynsla af áætlanagerð, greiningarvinnu og gerð reiknilíkana, góðir stjórnunar- og leiðtogahæfileikar, samskiptafærni og uppbyggilegt viðmót. Þá var gerð krafa um gagnrýna og lausnamiðaða hugsun, talnafærni og öguð vinnubrögð, mjög gott vald á íslensku í ræðu og riti og góða enskukunnáttu. Loks var gerð krafa um styrk, þolgæði, frumkvæði og metnað til að sýna árangur.
Umsóknarfrestur rann út 20. júní 2016 og tveimur dögum síðar var umsækjendum tilkynnt um skipan sérstakrar hæfnisnefndar sem var ætlað að leggja sjálfstætt mat á umsóknir og umsækjendur, sbr. 19. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, og reglur nr. 393/2012, um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands.
Alls bárust 13 umsóknir, sex frá konum og sjö frá körlum, og var ákveðið að kalla fjóra umsækjendur í viðtöl, eina konu og þrjá karla. Kærandi var þar á meðal. Að þeim viðtölum loknum voru þeir tveir umsækjendur, sem höfðu skorað hæst samkvæmt mati hæfnisnefndarinnar, kærandi og sá sem skipaður var, boðaðir í viðtal hjá ráðherra. Að því loknu var ákveðið að skipa karlinn í embættið.
Með bréfi kærða, dagsettu 29. ágúst 2016, var tilkynnt um skipan karlsins í stöðuna og sú niðurstaða sögð í samræmi við niðurstöðu hæfnisnefndar. Kærandi fór fram á rökstuðning vegna skipunarinnar ásamt því að fá aðgang að öllum gögnum sem málið varðar með bréfi, dagsettu 2. september 2016. Kærði svaraði með tölvubréfi, dagsettu 14. september 2016, þar sem veittur var rökstuðningur og gögn afhent. Hinn 18. september 2016 óskaði kærandi eftir frekari upplýsingum. Svar kærða með viðbótarupplýsingum barst 29. september 2016.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
Í kæru kemur fram að kærandi telji sig hafa töluvert meiri og víðtækari reynslu en sá sem skipaður var og að hún hafi þar af leiðandi verið hæfasti umsækjandinn um embættið. Telur kærandi að rökstuðningur kærða fyrir skipuninni sé verulega gallaður en hann hafi einkum byggst á áliti hæfnisnefndar. Hæfnisnefndinni hafi hins vegar mistekist að framkvæma heildstætt mat á umsækjendum svo sem skylt sé að gera. Hafi kærða mátt vera það ljóst að skipun umsækjanda sem hafi jafn stutta starfsreynslu í samanburði við marga aðra umsækjendur gæti falið í sér brot á ákvæðum jafnréttislaga sem og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Einkum sé þetta mikilvægt í ljósi þess að sá sem skipaður var hafi verið innanhússmaður hjá kærða og að aðalatriðið í rökstuðningi hæfnisnefndar fyrir ráðningunni hafi verið frammistaða í viðtali ásamt hástemmdri umsögn yfirmanns hans hjá kærða. Þannig hafi þessi atriði rutt úr vegi öðrum veigameiri sjónarmiðum, svo sem meiri stjórnunarreynslu, reynslu af starfsmannaábyrgð, rekstri og starfsemi opinberra stofnana og félagasamtaka. Þá blasi við að skipunin sé í blóra við ákvæði laga nr. 10/2008 þar sem verulega hallar á konur í stjórnunarstöðum hjá kærða.
Kærandi heldur því fram að um kerfislega villu sé að ræða í aðferðafræði nefndarinnar, þ.e. viðmið og einkunnagjöf við fyrsta mat og annað mat sé annmörkum háð svo leiði til skakkrar niðurstöðu.
Í fyrsta áfanga ráðningarferlis, svonefndu fyrsta mati, hafi að sögn nefndarinnar verið stuðst við sömu viðmið við mat á umsóknum og tilgreind hafi verið í auglýsingu um stöðuna, svo sem menntun, reynslu og fleira, sem nefndin hafi talið að megi meta á grundvelli skriflegra gagna umsækjenda. Athygli veki að þremur viðmiðum sem tilgreind voru í auglýsingu hafi verið sleppt við þetta mat en þeir séu stjórnunar- og leiðtogahæfileikar ásamt samskiptafærni og uppbyggilegu viðmóti, gagnrýnin og lausnamiðuð hugsun, talnafærni og öguð vinnubrögð, styrkur, þolgæði, frumkvæði og metnaður til að sýna árangur.
Kærandi gerir athugasemd við að öll framangreind viðmið, sem lúti að stjórnunarhæfileikum með einum eða öðrum hætti og birtist meðal annars í starfsreynslu, skuli vera undanskilin í skilgreiningu í fyrsta mati nefndarinnar. Þessi ákvörðun nefndarinnar hafi valdið því að komist sé hjá því að meta stjórnunarreynslu og aðra starfsreynslu umsækjenda til einkunnar í innbyrðis samanburði. Þetta hafi verið gert þrátt fyrir að umræddir þættir séu tilgreindir sérstaklega í auglýsingu, af augljósum ástæðum. Auglýst hafi verið eftir einstaklingi til að stýra skrifstofu þar sem unnin séu flókin og vandasöm verkefni og starfi um tugur einstaklinga. Reynsla og hæfileikar við stjórnun auk þess að hafa reynslu af flóknum og erfiðum verkefnum á öðrum vettvangi hljóti því að vera mikilvæg við mat á hæfni umsækjanda um embættið. Þetta hafi augljóslega verið til hagsbóta fyrir þann sem hafi orðið fyrir valinu og rýri einkunn kæranda að sama skapi í innbyrðis samanburði. Að vísu hafi eitthvað tillit verið tekið til þessa viðmiðs í öðru mati nefndarinnar en útilokað sé að átta sig á einkunnagjöf í því mati, svo sem síðar sé vikið að.
Kærandi telur að ætla mætti að sú aðferð nefndarinnar að undanskilja stjórnunar- og leiðtogahæfileika og reynslu í fyrsta mati hafi byggt á þeim skilningi að ekki hafi verið unnt að meta þennan þátt á grundvelli skriflegra gagna umsækjenda. Þeirri niðurstöðu andmælir kærandi með þeim rökum að það sé vel þekkt staðreynd að sá þáttur sem hafi mesta forspárgildið um framtíðarhegðun einstaklings sé hegðun hans í fortíðinni. Af þeim sökum verði framangreindir þættir fyrst og fremst metnir af frammistöðu umsækjanda í fortíðinni og hafi skrifleg gögn umsækjenda augljóslega að geyma bestu upplýsingarnar um þetta atriði. Þannig komi fram í skriflegum gögnum að kærandi hafi reynst farsæll stjórnandi og sé með mikla reynslu af úrlausn flókinna og vandasamra verkefna. Sá sem skipaður var hafi á hinn bóginn enga stjórnunarreynslu utan þess að gegna hlutverki staðgengils skrifstofustjóra í takmarkaðan tíma. Á sínum tíma hafi kærandi einnig gegnt sama hlutverki en það sem upp úr standi sé að hún hafi lengi verið framkvæmdastjóri stéttarfélagsins X og stýrt þar rekstri og starfsmannamálum, borið ábyrgð á að hrinda í framkvæmd stefnu stéttarfélagsins í áratug og notið til þess trausts fjögurra stjórna stéttarfélagsins og tveggja formanna á starfstíma sínum.
Jafnframt mótmælir kærandi einkunnagjöf í að minnsta kosti tveimur þáttum. Sá fyrri sé augljós og varði mat á því skilyrði að umsækjandi skuli búa yfir góðu valdi á íslensku máli í ræðu og riti. Fram hafi komið í umsókn þess sem skipaður var, að hann teldi sig hafa „mikla reynslu af framsetningu upplýsinga í bundnu máli, svo sem með árlegum skrifum í frumvarp til fjárlaga og skrifum í fjögurra ára áætlun í ríkisfjármálum“. Óþarft sé að fjölyrða um þá staðreynd að kærði birtir aldrei upplýsingar í bundnu máli. Þrátt fyrir þetta hafi hann fengið fullt hús í einkunnagjöf eða jafn háa einkunn og kærandi.
Kærandi gerir einnig athugasemd við að umsækjendur hafi fengið jafna einkunn fyrir þáttinn „víðtæk þekking og skilningur á opinberum fjármálum og starfsemi hins opinbera“. Vandséð sé á hverju slík einkunnagjöf hafi byggst í ljósi þess að kærandi hafi mun lengri starfsaldur sem meðal annars taki til starfa hjá kærða, Reykjavíkurborg og heildarsamtökum opinberra starfsmanna. Ætla megi að reynsla kæranda af vinnumarkaðsmálum og málefnum sveitarfélaga og samskipta þeirra við ríkisvaldið hafi fært kæranda víðtækari þekkingu á starfsemi hins opinbera fremur en starfsreynsla sem hafi einskorðast við stjórnarráðið í nokkur ár.
Kærandi telur annan áfanga í ráðningarferli hæfnisnefndar jafnvel enn gallaðri en fyrri áfanga. Svo virðist sem öll viðmið er tilgreind hafi verið í auglýsingu um stöðuna hafi verið notuð í þessum áfanga. Ekki sé ljóst hvers vegna sömu viðmið og búið hafi verið að meta í fyrsta mati hafi nú verið endurmetin og alls ekki sé ljóst hvaða forsendur hafi legið til grundvallar einkunnagjöf í þessum áfanga. Þannig séu dæmi um að kærandi hafi í fyrri áfanga hlotið sömu einkunn fyrir tiltekinn hæfnisþátt og sá sem skipaður var en lakari einkunn fyrir sama hæfnisþátt í síðari áfanga án þess að með nokkru móti finnist skýring á því. Þetta sé þeim mun bagalegra þar sem þetta eigi einmitt við um þann þátt sem að mati kærða hafi vegið þyngst við ráðninguna.
Í rökstuðningi kærða hafi komið fram að sá sem skipaður var hafi staðið framar öðrum umsækjendum er varði þekkingu og skilning á opinberum fjármálum og starfsemi hins opinbera, enda þótt einkunnir þeirra beggja hafi verið metnar jafnar í fyrsta mati eins og áður sé getið. Þá hafi hann jafnframt fengið flest stig fyrir styrk og þolgæði, frumkvæði, metnað til að sýna árangur og öguð vinnubrögð. Þetta hafi verið í samræmi við einkunnagjöf í seinna mati en vandinn sé hins vegar sá að forsendur einkunnagjafarinnar séu ógagnsæjar með öllu og því engin leið að átta sig á henni. Í bréfi kæranda til kærða hafi hún óskað sérstaklega eftir upplýsingum um forsendur umræddrar einkunnagjafar en án árangurs. Virðist því sem forsendur fyrir framangreindu mati séu ekki til þrátt fyrir að þær hafi skipt höfuðmáli við endanlegt mat á umsækjendum.
Í áliti nefndarmanna um einstaka umsækjendur veki athygli að formaður nefndarinnar einn hafi tekið afgerandi afstöðu með þeim umsækjanda sem skipaður var. Svo virðist að í þeim efnum hafi hann einkum lagt umsögn skrifstofustjóra hjá kærða og yfirmanns þess sem skipaður var til grundvallar, en sá sé enn fremur fyrrverandi samstarfsmaður formanns hæfnisnefndarinnar. Báðar umsagnirnar, yfirmannsins sem og formanns nefndarinnar, hafi einkennst af hástemmdum lýsingum sem stappi nærri því að vera ómálefnalegar, til dæmis hafi ungur aldur þess sem skipaður var og reynsluleysi í stjórnun jafnvel verið talið honum til tekna í samanburði við aðra.
Hvað varði hina efnislegu ákvörðun telur kærandi að í rökstuðningi með kærunni hafi verið sýnt fram á galla í aðferðafræði og við einkunnagjöf sem útiloki að fullnægjandi rök séu fyrir þeirri niðurstöðu að sá sem skipaður var hafi meiri hæfni til að gegna henni en kærandi. Raunar telur kærandi að stjórnunarreynsla hennar ásamt víðtækari þátttöku á vinnumarkaði hefði átt að veita kæranda umtalsvert forskot við heildstæðan samanburð á umsóknum. Í versta falli hefði hæfnisnefnd með réttu átt að leggja umsóknir þeirra tveggja að jöfnu. Hefði þá átt að gæta sérstaklega að ákvæðum laga nr. 10/2008, einkum ákvæða 1. mgr. 18. gr., um skyldu til að leggja sérstaka áherslu á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum þar sem verulega halli á konur í stjórnunarstöðum hjá kærða. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu kærða starfi ráðuneytið sem ein heild og skiptist í fimm skrifstofur, tvö svið og sérstaka einingu. Stjórnendur þessara átta skipulagsheilda séu fimm karlar og þrjár konur. Eftir því sem kærandi komist næst sé ein af þessum þremur konum sett í forföllum karlkyns skrifstofustjóra, en ekki skipuð í embættið.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
Kærði greinir frá því að skipuð hafi verið þriggja manna hæfnisnefnd, sbr. 18. og 19. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, til meta hæfi umsækjenda um embættið og skila skýrslu til ráðherra sem skipaði í embættið. Um störf nefndarinnar gildi reglur nr. 393/2012, um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands. Hafi nefndinni verið ætlað að leggja sjálfstætt mat á umsóknir og umsækjendur. Í skýrslu nefndarinnar hafi matsferlið verið rakið ítarlega.
Vegna mats á skriflegum umsóknargögnum umsækjenda hafi verið skilgreind sjö matsviðmið sem hafi verið byggð á auglýsingu um embættið. Skilgreind hafi verið vægi einstakra matsviðmiða og forsendur einkunnagjafar sem hafi verið gefnar á skalanum 0–4. Markmið fyrsta mats hafi verið að vinna forsendur fyrir ákvörðun um hvaða umsækjendur skyldu boðaðir í viðtal.
Samkvæmt mati nefndarinnar hafi fjórir umsækjendur uppfyllt hæfniskröfurnar. Kærði hafi verið upplýstur um niðurstöðu fyrsta mats og að ráðgert hefði verið að boða þá umsækjendur í viðtal hjá nefndinni, sem þátt í öðrum matshluta nefndarinnar. Kærði hafi ekki gert athugasemdir. Hafi þeir því næst verið boðaðir í viðtal hjá hæfnisnefndinni, með stöðluðum spurningum sem hafi tekið mið af forsendum í auglýsingu um embættið. Leitast hafi verið við að meta alla hæfnisþættina sem fram hafi komið í auglýsingunni. Að loknum viðtölum hafi það verið mat nefnarinnar að kærandi og sá sem skipaður var hafi búið yfir meiri reynslu og þekkingu til að gegna embættinu en hinir tveir umsækjendurnir.
Þann 11. ágúst 2016 hafi tveir efstu umsækjendurnir samkvæmt mati hæfnisnefndar verið boðaðir í viðtal hjá ráðherra. Viðtölin hafi ekki verið stöðluð með sama hætti og í tilviki hæfnisnefndar, en stuðst hafi verið við samræmdan spurningaramma og farið yfir sömu efnisþætti hjá báðum umsækjendum. Í mati ráðherra hafi verið lögð rík áhersla á það sjónarmið að sá sem gegni embættinu hafi mjög góða þekkingu á opinberum fjármálum sem séu kjarnaverkefni skrifstofunnar. Viðtölin hafi stutt það sem fram komi í skýrslu nefndarinnar um þekkingu og bakgrunn umsækjendanna.
Kærði bendir á að samkvæmt 19. gr. laga nr. 115/2011 og reglum nr. 393/2012 sé hæfnisnefndum ætlað að meta umsækjendur út frá hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum og sé mat nefndarinnar ráðgefandi fyrir ráðherra við skipun í embætti, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Eftir sem áður sé það ráðherra sem beri ábyrgð á ráðningarferlinu. Þótt niðurstaða nefndarinnar sé ráðgefandi verði að ætla að veigamiklar hlutlægar og málefnalegar ástæður verði að vera fyrir hendi ætli ráðherra að horfa fram hjá áliti nefndarinnar, sbr. ummæli í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 115/2011. Álit nefndarinnar geti þó ekki komið í veg fyrir sjálfstætt mat ráðherra heldur verði það hluti af þeim þáttum sem ráðherra byggi mat sitt á.
Hæfnisnefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu eftir fyrsta mat að boða fjóra umsækjendur til viðtals en þeir hafi fengið 2,97 eða hærra af 4 mögulegum. Samræmdur spurningalisti hafi verið lagður fyrir umsækjendur við annað mat og hafi spurningar tekið mið af þeim forsendum sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið. Það hafi verið niðurstaða nefndarinnar að allir fjórir umsækjendur sem boðaðir hafi verið til viðtals hafi uppfyllt þær hæfniskröfur sem tilgreindar hafi verið í auglýsingu um embætti skrifstofustjóra og hæfir til að gegna því. Enn fremur hafi það verið mat nefndarinnar að kærandi og sá sem skipaður var byggju yfir meiri reynslu og þekkingu til að gegna embættinu en hinir tveir umsækjendurnir. Þar hafi vegið þungt fjölbreytt þekking þeirra, skilningur og reynsla á þeim viðfangsefnum sem heyri undir skrifstofu opinberra fjármála.
Í fyrsta mati á skriflegum gögnum hafi sá sem skipaður var fengið 3,82 í einkunn af 4 mögulegum og í heildarmati nefndarinnar eftir viðtal hafi hann hlotið 3,68 í einkunn af 4 mögulegum. Hafi það verið mat nefndarinnar að hann uppfyllti afar vel alla þá hæfnisþætti sem tilgreindir hafi verið í auglýsingu. Í fyrsta mati á skriflegum gögnum hafi kærandi fengið 3,82 í einkunn af 4 mögulegum og í heildarmati nefndarinnar eftir viðtal hafi hún hlotið 3,61 í einkunn af 4 mögulegum. Nefndin hafi talið kæranda uppfylla afar vel alla þá hæfnisþætti sem tilgreindir hafi verið í auglýsingu.
Heildstætt mat hafi því farið fram á umsækjendum hjá nefndinni. Allir umsækjendur hafi verið metnir kerfisbundið, farið hafi verið ítarlega yfir umsóknargögn, jafnræðis gætt og umsækjendur hafi fengið sömu stöðluðu spurningar og verkefni og jafn langan tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Nefndin hafi metið það svo að vegna eðlis starfsins væri hægt að meta á grundvelli einstakra þátta tvo umsækjendur sem hafi uppfyllt afar vel alla þá hæfnisþætti sem tilgreindir hafi verið í auglýsingu. Því hafi komið í hlut veitingarvaldshafa að velja hæfasta umsækjandann út frá málefnalegum og gildum sjónarmiðum.
Í ljósi þess að þeir tveir umsækjendur sem hæstir hafi verið samkvæmt mati nefndarinnar hafi báðir uppfyllt afar vel alla þá hæfnisþætti sem tilgreindir hafi verið í auglýsingu og lítill munur hafi verið á þeim í heildarmati nefndarinnar, þ.e. sá sem skipaður var með 3,68 í einkunn og kærandi með 3,61 í einkunn af 4 mögulegum, hafi verið ákveðið að boða þau bæði í viðtal hjá ráðherra. Viðtölin hafi ekki verið stöðluð með sama hætti og í tilviki hæfnisnefndar, en stuðst hafi verið við samræmdan spurningaramma og farið yfir sömu efnisþætti hjá báðum umsækjendum. Lagt hafi verið sjálfstætt mat á báða umsækjendur á grundvelli heildargagna og þeirrar menntunar og hæfniskrafna sem gerðar hafi verið í auglýsingu. Farið hafi verið heildstætt yfir umsóknargögn, skýrslu hæfnisnefndar og niðurstöður viðtala.
Mat kærða hafi verið að báðir umsækjendur hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar hafi verið til menntunar. Hjá nefndinni hafi báðir umsækjendur fengið fjögur stig vegna þessa þáttar. Báðir umsækjendur hafi einnig fengið fjögur stig fyrir reynslu af áætlanagerð, greiningarvinnu og líkanagerð. Kærði sé sammála þessu mati nefndarinnar. Hvað varði góða stjórnunar- og leiðtogahæfileika, samskiptafærni og uppbyggilegt viðmót hafi kærandi fengið þrjú og hálft stig en sá sem skipaður var þrjú stig. Í skýrslu nefndarinnar hafi komið fram að þrátt fyrir að þann sem skipaður var skorti stjórnunarreynslu, hafi reynt á leiðtogahæfileika hans og samskiptafærni í starfi, meðal annars við að leiða starf vinnuhópa og leiðbeina samstarfsfólki sínu í starfi. Kærði sé sammála því mati sem fram komi í stigagjöf nefndarinnar hvað þennan þátt varði að kærandi búi í þeim efnum að meiri reynslu. Á hitt sé hins vegar að líta að kærandi teljist vart standa það miklu framar hvað þennan þátt varði, að það ráði úrslitum.
Bæði hafi fengið þrjú stig hjá nefndinni vegna kröfu um gott vald á íslensku í ræðu og riti auk góðrar enskukunnáttu. Hvað varði styrk, þolgæði, frumkvæði og metnað til að sýna árangur og öguð vinnubrögð hafi sá sem skipaður var fengið fjögur stig hjá nefndinni en kærandi þrjú stig. Auk þess hafi nefndin gefið þeim sem skipaður var tvö stig vegna lausnamiðaðrar hugsunar en kæranda þrjú stig. Að öllu framangreindu virtu hafi það verið mat kærða að þegar þessir þættir séu vegnir saman hafi verið nokkuð jafnt komið á með þeim. Ekki hafi verið ástæða til að telja annað hinu fremra þegar heildarmat hafi verið lagt á þessa matsþætti.
Auk mats á staðreyndum um menntun, fyrri störf og þekkingu hafi mat kærða ekki síður lotið að þekkingu og skilningi á opinberum fjármálum og beinni frammistöðu í viðtölum sem tekin hafi verið. Í viðtali við þann sem skipaður var hafi komið fram mjög góð þekking hans á opinberum fjármálum. Kröfur sem hafi verið lagðar til grundvallar hafi verið þær sömu í öllu matsferlinu. Fyrirkomulag til að meta hæfni umsækjenda sem ákveðið sé með 19. gr. laga nr. 115/2011 og reglum nr. 393/2012 hafi ekki verið lagað að einum umsækjanda fremur en öðrum og stuðst hafi verið við sama ferli og aðferðafræði fyrir alla. Öllum hafi verið veitt jöfn tækifæri, bæði með því að staðla tímalengd viðtala og með því að hafa viðtölin sjálf stöðluð. Verkefnið hafi verið unnið á eins faglegan og hlutlausan hátt og hægt hafi verið og þar hafi ekki önnur sjónarmið ráðið en þau að meta hvaða umsækjandi hafi verið hæfastur. Það hafi einkum verið í viðtalinu með ráðherra sem hafi skilið á milli kæranda og þess sem skipaður var. Þar hafi verið reynt að draga fram hæfni umsækjenda á því sjónarmiði að sá sem gegndi embættinu hefði mjög góða þekkingu og skilning á opinberum fjármálum og hvernig líklegt væri að sú þekking myndi nýtast kærða. Þekking og skilningur þess sem skipaður var á opinberum fjármálum hafi að mati kærða vegið mjög þungt við mat á því hver hefði verið hæfasti umsækjandinn um embættið enda einn af meginþáttum í menntunar- og hæfniskröfum sem settar hafi verið fram í auglýsingu.
Kærði vekur athygli á því að það sé skylda við val á umsækjendum um störf hjá hinu opinbera að ráða þann einstakling til starfans sem metinn sé hæfastur. Ekki reyni á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í embætti nema talið sé að hún hafi verið ómálefnaleg þannig að telja megi að sú skipan hafi tengst kynferði kæranda. Kærði hafnar því með öllu að slík ómálefnaleg sjónarmið hafi haft áhrif á þá ákvörðun að skipa karlinn í umrætt embætti. Af hálfu kærða hafi matsferlinu verið hagað í samræmi við lög, fyllsta jafnræðis hafi verið gætt milli umsækjenda og hæfni þeirra og reynsla og þekking verið metin með samræmdum og faglegum hætti, meðal annars með aðkomu lögbundinnar hæfnisnefndar. Áður en endanleg ákvörðun hafi verið tekin hafi kærði metið umsóknargögn og skýrslu hæfnisnefndar og tekið viðtöl við þá tvo umsækjendur sem hafi verið hæstir. Það hafi verið mat kærða að sá sem skipaður var hafi verið hæfastur til að gegna embættinu og því ákveðið að skipa hann í embætti skrifstofustjóra skrifstofu opinberra fjármála.
Kærði minnir á að það sé almennt viðurkennt að stjórnvöld hafi allmikið svigrúm til að ákveða við embættisveitingar hvaða sjónarmið séu lögð til grundvallar og til að leggja heildarmat á kosti og eiginleika umsækjenda sem og hæfni þeirra. Þetta eigi ekki síst við í þessu tilviki þar sem um sé að ræða þá skrifstofu ráðuneytisins sem ætlað sé að leiða marga þætti innleiðingar nýrra laga um opinber fjármál en lögin feli í sér verulegar breytingar á því lagaumhverfi sem áður hafi gilt. Embætti skrifstofustjóra opinberra fjármála sé lykilstaða í því ferli. Megi hér vísa til þess sem fram hafi komið í auglýsingu að skrifstofan hafi yfirumsjón með gerð fjármálastefnu og árlegri fjármálaáætlun fyrir hið opinbera í heild og hafi forystu um undirbúning frumvarps til fjárlaga í samræmi við ný lög um opinber fjármál. Jafnframt hafi komið fram að skrifstofan samhæfi starf sem fram fari í öðrum ráðuneytum vegna undirbúnings fjármálastefnu, fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps á grundvelli grunngilda sem séu skilgreind í lögum um opinber fjármál. Það er afstaða kærða að val ráðherra á framangreindu sjónarmiði hafi verið lögmætt og málefnalegt og hæfasti umsækjandinn hafi verið skipaður í embættið á grundvelli þess.
Að lokum staðfestir kærði það sem fram hafi komið hjá kæranda að samkvæmt skipuriti ráðuneytisins skiptist það í fimm skrifstofur, tvö svið og sérstaka einingu. Skrifstofustjórar séu fimm karlar og þrjár konur og sé ein af þremur konum sett tímabundið í forföllum karlkyns skrifstofustjóra. Einnig tekur kærði fram að meðal staðgengla skrifstofustjóra séu fimm konur og þrír karlar.
ATHUGASEMDIR KÆRANDA
Í athugasemdum kæranda bendir hún á að greinargerð kærða hafi einkum fjallað um störf hæfnisnefndar og mat á umsækjendum. Sú umfjöllum hafi fyrst og fremst verið lýsing eða endursögn á niðurstöðum hæfnisnefndarinnar án þess að gerð hafi verið tilraun til að fjalla um þau atriði sem kæran lúti að, þ.e. aðferðafræði og ógagnsærri einkunnagjöf. Þau atriði séu að mati kæranda til þess fallin að sniðganga viðurkennda mælikvarða við mat á umsóknum við skipan í opinberar stöður þar sem menntun og starfsreynsla vegi þyngst. Í fyrri þættinum hafi umsækjendur staðið jafnfætis en í þeim seinni blasi við að starfs- og stjórnunarreynsla kæranda sé langt umfram þá sem sá sem skipaður var búi yfir. Ef allt hefði verið með felldu hefði hið heildstæða mat átt að leiða þessa augljósu staðreynd í ljós.
Í greinargerð kærða hafi verið vísað til niðurstöðu hæfnisnefndar þar sem hafi munað 0,07 stigum á kæranda og þeim sem var skipaður. Nákvæmni einkunnagjafarinnar ætti í sjálfu sér að vekja spurningar um aðferðafræðina. Af greinargerðinni megi síðan ráða að þar sem svo mjótt hafi verið á munum hafi þótt eðlilegt að umsækjendur færu í viðtal hjá ráðherra. Ráðherra hafi ákveðið að leggja áherslu á það sjónarmið að sá sem skipaður var hefði mjög góða þekkingu á opinberum fjármálum.
Kærandi vill að það komi skýrt fram að hún dragi ekki í efa það svigrúm sem veitingarvaldshafi hafi til þess að velja sjónarmið til grundvallar stöðuveitingu enda sé það málefnalegt. Á hinn bóginn leyfi kærandi sér að halda því fram að til viðbótar því að almenn starfs- og stjórnunarreynsla hennar hafi verið vanmetin, hafi hvorki hæfnisnefnd né kærða tekist að sýna fram á að þekking hennar á opinberum fjármálum sé lakari en þess sem skipaður var. Kærandi bendir á að í áliti hæfnisnefndar hafi komið fram að hún hafi kynnt sér mjög vel ný lög um opinber fjármál. Hún kveðst búa yfir lengri starfsreynslu á skrifstofu opinberra fjármála en sá sem skipaður var. Auk þess búi hún yfir starfsreynslu við fjármálastjórnun og fjárhagsáætlunargerð á rekstrarskrifstofu fjármálaráðuneytisins, hjá Reykjavíkurborg og stéttarfélaginu X um margra ára skeið. Vart verði litið framhjá þessari reynslu við mat á þekkingu og skilningi á opinberum fjármálum. Þótt lögin um opinber fjármál hafi að geyma mörg nýmæli og taki heildstætt á umgjörð opinberra fjármála byggi þau engu að síður á fyrri lögum um fjárreiður ríkisins og framkvæmd þeirra sem kærandi gjörþekki. Vandséð sé því í hverju yfirburðir þess sem skipaður var séu fólgnir.
Að lokum tekur kærandi fram að hún hafi átt að fagna farsælum starfsferli sem spanni aldarfjórðung. Kærandi líti þannig á að lög nr. 10/2008 og stjórnsýslulög hafi verið sett til að tryggja að skipan í stöður hjá hinu opinbera eigi ætíð að byggja á verðleikum og að hæfasti einstaklingurinn verði fyrir valinu hverju sinni. Kærandi telur að kærða hafi mistekist að sýna fram á að fjölþætt þekking kæranda á sviði stjórnunar og fjármála standist ekki samjöfnuð við þá reynslu sem sá sem skipaður var í embættið hafi öðlast á stuttum starfsferli.
ATHUGASEMDIR KÆRÐA
Í athugasemdum sínum ítrekar kærði að með lögum nr. 115/2011 hafi í fyrsta sinn verið sett ákvæði um sérstakar ráðgefandi nefndir sem ætlað sé að meta hæfni umsækjanda við skipun í embætti ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í ráðuneytum. Þessu fyrirkomulagi sé ætlað að tryggja samræmi við skipanir þessara embættismanna, meðal annars að byggt sé á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum.
Hér sé því um að ræða lögbundna álitsumleitan sem ætlað sé að veita ráðherra rökstutt álit á því hvaða umsækjendur séu hæfastir, miðað við þau málefnalegu sjónarmið sem leggja beri til grundvallar við skipun í embættið. Ráðherra beri þó eftir sem áður ábyrgð á skipuninni og því að réttilega sé að henni staðið. Enn fremur sé það á valdsviði ráðherra að ákveða á hvaða málefnalegu sjónarmiðum skipunin skuli byggjast og hvert vægi ólíkra sjónarmiða skuli vera. Ráðherra þurfi hins vegar að gæta þess að geta um þau sjónarmið sem mestu máli skipta í auglýsingu um embættið. Það sé hins vegar ekki útilokað að ráðherra geti litið til sjónarmiða sem ekki sé getið í auglýsingu en þá kunni að skapast aukin skylda til rannsóknar máls samkvæmt stjórnsýslulögum.
Kærði mótmælir því sem fram kemur í athugasemdum kæranda að aðferðafræðin og einkunnagjöf hafi verið ógagnsæ og þau atriði hafi verið til þess fallin að sniðganga viðurkennda mælikvarða við mat á umsóknum við skipan í opinberar stöður þar sem menntun og starfsreynsla vegi þyngst. Heildstætt mat hafi farið fram hjá hæfnisnefndinni samkvæmt viðurkenndum mælikvörðum.
Eftir að hæfnisnefndin skili skýrslu beri ráðherra að kynna sér starf nefndarinnar og ganga úr skugga um að rannsókn málsins hafi uppfyllt lagaskyldur, sbr. einkum rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Ganga verði út frá því að ráðherra geti viðhaft viðbótarmálsmeðferð, einkum varðandi þá umsækjendur sem metnir hafi verið hæfastir af nefndinni. Hér séu einkum tvö atriði sem setji ráðherra skorður við viðbótarmálsmeðferð. Í fyrsta lagi hljóti mikið að þurfa að koma til, ákveði ráðherra að meta að nýju sömu atriði og hæfnisnefndin hafi þegar metið þar sem nefndin sé í raun sérfræðilegur álitsgjafi. Hafi nefndin ekki metið með fullnægjandi hætti þau atriði sem fyrir hana hafi verið lögð sé réttast fyrir ráðherra að fela nefndinni að bæta úr þeim annmörkum. Verkefni ráðherra snúi fyrst og fremst að því að meta hvaða sjónarmiðum í skýrslu nefndarinnar hann vilji gefa mesta vægið. Í öðru lagi þurfi ráðherra að gæta fyllsta jafnræðis milli umsækjenda í viðbótarmálsmeðferð sinni. Máli sínu til stuðnings vísar kærði til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. janúar 2014 í máli nr. E-2487/2013.
Kærði ítrekar að eftir að hafa farið heildstætt yfir umsóknargögn, skýrslu hæfnisnefndar og niðurstöðu viðtala, hafi sá sem skipaður var haft mjög góða þekkingu á opinberum fjármálum og hafi viðtal ráðherra við hann og kæranda stutt það, auk þess sem hæfnisnefndin hafi gefið honum í heildarmati fjögur stig fyrir þennan þátt en kæranda þrjú stig. Það hafi því verið mat ráðherra að hann hafi verið hæfasti umsækjandinn þegar horft hafi verið til þess matsþáttar er snúið hafi að þekkingu og skilningi á opinberum fjármálum. Hæfasti umsækjandinn hafi því verið valinn á grundvelli þess málefnalega sjónarmiðs sem lagt hafi verið til grundvallar, sbr. auglýsingu um embættið. Því hafi ekki reynt á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipunina.
NIÐURSTAÐA
Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
Embætti skrifstofustjóra skrifstofu opinberra fjármála hjá kærða var auglýst laust til umsóknar þann 2. júní 2016. Í auglýsingu segir um verkefni skrifstofunnar að hún undirbúi stefnumörkun í fjármálum hins opinbera og setningu heildarmarkmiða varðandi þróun ríkisfjármála til skemmri og lengri tíma, í samræmi við áherslur stjórnvalda á hverjum tíma. Skrifstofan beri ábyrgð á samhæfingu fjármálastefnu ríkis og sveitarfélaga og málefnum sem varða fjárhag ríkisaðila. Þar sé gerð langtímaáætlun í ríkisfjármálum sem byggist á greiningu og spám um þróun tekna, gjalda, lánsfjárþarfar og skulda, í samvinnu við yfirstjórn og aðrar skrifstofur ráðuneytisins. Helstu verkefni á skrifstofunni séu yfirumsjón með gerð fjármálastefnu og árlegrar fjármálaáætlunar fyrir hið opinbera í heild og að hafa forystu um undirbúning frumvarps til fjárlaga í samræmi við ný lög um opinber fjármál. Þá segir að skrifstofan samhæfi starf sem fram fari í öðrum ráðuneytum vegna undirbúnings fjármálastefnu, fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps á grundvelli grunngilda sem séu skilgreind í lögum um opinber fjármál. Skrifstofan yfirfari áhrifamat ráðuneyta vegna stjórnarfrumvarpa og reglugerða, og leggi mat á samninga og aðrar skuldbindingar ríkisaðila sem nái yfir lengri tíma en fjárlagaárið. Þá fari fram á vegum skrifstofunnar greiningar, rannsóknir og smíði reiknilíkana til að meta og auka skilvirkni og ráðdeild í opinberum rekstri. Skrifstofan taki þátt í alþjóðlegu samstarfi um opinber fjármál. Loks er tekið fram að yfir standi innleiðing nýrra laga um opinber fjármál sem feli í sér verulegar breytingar og tækifæri. Kærði leiði þær breytingar og um sé að ræða lykilstöðu í því ferli.
Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar menntunar- og hæfniskröfur. Þar var áskilið meistarapróf í hagfræði eða sambærileg menntun sem nýtist í starfinu, víðtæk þekking og skilningur á opinberum fjármálum og starfsemi hins opinbera, reynsla af áætlanagerð, greiningarvinnu og gerð reiknilíkana, góðir stjórnunar- og leiðtogahæfileikar, samskiptafærni og uppbyggilegt viðmót. Þá var gerð krafa um gagnrýna og lausnamiðaða hugsun, talnafærni og öguð vinnubrögð, mjög gott vald á íslensku í ræðu og riti og góða enskukunnáttu. Loks var gerð krafa um styrk, þolgæði, frumkvæði og metnað til að sýna árangur.
Í samræmi við fyrirmæli 19. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, og 3. gr. reglna nr. 393/2012, um ráðgefandi nefndir til að meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands, skipaði kærði hæfnisnefnd til að meta hæfni 13 umsækjenda um embætti skrifstofustjóra. Nefndin gerði drög að áætlun um ráðningarferli, skilgreindi þau sjö matsviðmið sem komu fram í auglýsingu, vægi þeirra og forsendur einkunnagjafar. Nefndin útbjó einnig drög að samræmdum spurningalista fyrir viðtöl. Svo virðist sem ráðherra hafi ekki staðfest tillögu eða drög nefndarinnar að ráðningaráætlun, sbr. fyrirmæli í 2. mgr. 5. gr. reglna nr. 393/2012. Nefndin boðaði fjóra umsækjendur til viðtals og voru kærandi og sá er skipaður var í þeim hópi. Áður en til viðtala kom gekk nefndin frá hinum samræmda spurningalista þar sem leitast var við að meta alla hæfnisþætti er komu fram í auglýsingu.
Í skýrslu hæfnisnefndar kemur fram að kærandi og sá er skipaður var í embættið séu hæfari til að gegna embættinu en þeir tveir umsækjendur aðrir sem taldir voru uppfylla hæfniskröfur og mættu til viðtals. Í umfjöllun um stigagjöf að loknum viðtölum kemur fram að kærandi hlaut þrjú stig fyrir víðtæka þekkingu og skilning á opinberum fjármálum og starfsemi hins opinbera og sá er skipaður var fjögur stig fyrir sama hæfnisþátt. Í niðurstöðu skýrslunnar segir svo um kæranda og þann er skipaður var að af umsóknargögnum og viðtali við þau komi fram að þau hafi haldgóða þekkingu og skilning á opinberum fjármálum og starfsemi hins opinbera og að umsagnir styðji við það mat. Í skýrslunni kom einnig fram um kæranda að í viðtali hafi komið fram að hún hafi kynnt sér lög um opinber fjármál sem tekið hafi gildi. Sömuleiðis kom fram um þann er skipaður var að hann hafi tekið þátt í innleiðingu nýrra laga um opinber fjármál og þekki þau lög og hlutverk þeirra. Þá hafi hann mótað sér ákveðna sýn á þau verkefni sem séu framundan hjá skrifstofunni. Hæfnisnefndin gerði í niðurstöðu sinni ekki upp á milli kæranda og þess sem skipaður var hvað varðar hæfni til að gegna stöðunni.
Eftir að hæfnisnefnd hafði afhent kærða skýrslu sína ákvað hann að boða kæranda og þann er skipaður var í embættið til viðtals með ráðherra, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglna nr. 393/2012.
Almennt er veitingarvaldshafa veitt nokkuð svigrúm við að velja þau málefnalegu sjónarmið er hann hyggst leggja til grundvallar við ákvörðun um val á hæfasta umsækjanda um embætti. Í tilvikum eins og þeim sem hér um ræðir, þegar fyrir liggur að velja milli tveggja hæfra umsækjenda á grundvelli viðtals, er nauðsynlegt að vandað sé til undirbúnings, til viðtalsins sjálfs og úrvinnslu þess, en að viðtali loknu er brýnt að fyrir liggi gögn er varpað geti ljósi á það mat er fram fer á grundvelli viðtalsins. Þetta var sérlega mikilvægt í því tilfelli sem um ræðir þar sem í drögum að ráðningaráætlun var ekki fjallað um hvaða aðferðir eða viðmið skyldi nota, teldi hæfnisnefndin tvo eða fleiri umsækjendur hæfasta. Við þær aðstæður sem hér voru fyrir hendi, að annar umsækjandinn var starfsmaður kærða en hinn umsækjandinn var í starfi annars staðar, var jafnframt brýnt að jafnræðis væri gætt með umsækjendum.
Af fyrirliggjandi gögnum um viðtölin sést að þau voru ekki stöðluð með sama hætti og viðtölin hjá hæfnisnefnd en kærði hefur lagt fram hjá kærunefndinni spurningaramma er samanstóð af fjórum spurningum eða umræðuefnum. Tvær spurninganna voru til þess fallnar að varpa nánara ljósi á þekkingu umsækjenda á opinberum fjármálum og starfsemi skrifstofu opinberra fjármála, aðrar spurningar vörðuðu stjórnunaraðferðir og mat á persónulegum eiginleikum. Umsækjendurnir tveir virðast ekki hafa fengið sérstaka vitneskju áður en til viðtalanna kom um umræðuefni sem þar yrðu til umfjöllunar eða áherslur í mati. Þá kemur ekki fram í minnispunktum um viðtölin hvort annar hvor umsækjendanna væri talinn hinum fremri hvað hæfni varðar. Að mati kærunefndar jafnréttismála styðja tiltæk gögn um viðtölin ekki þær skýringar kærða sem hann lét í té með rökstuðningi 14. september 2016 að í mati ráðherra hafi verið lögð rík áhersla á þann matsþátt er laut að þekkingu á opinberum fjármálum. Að mati kærunefndar verður í þessum efnum sérstaklega að horfa til þess að efni einnar spurningarinnar fól í sér að þekking á starfsháttum og mannauði gaf þeim forskot sem skipaður var, enda starfsmaður skrifstofunnar.
Þegar allt þetta er virt telur kærunefndin að kærði hafi ekki sýnt fram á með viðhlítandi gögnum að viðtölin með ráðherra hafi leitt í ljós að sá er skipaður var hafi verið hæfari til að gegna embættinu en kærandi. Verður því að leggja til grundvallar þá niðurstöðu hæfnisnefndar að þessir tveir umsækjendur hafi verið jafn hæfir til að gegna embættinu.
Upplýst er að fimm karlar og þrjár konur skipi embætti skrifstofustjóra hjá kærða og að ein kvennanna sé sett tímabundið í forföllum karlkyns skrifstofustjóra. Hallar því á konur hvað varðar skipan í embætti skrifstofustjóra og breytir þar engu þó staðgenglar skrifstofustjóra séu fimm konur og þrír karlar. Eins og að framan greinir var kærandi í það minnsta jafn hæf og sá er skipaður var til að gegna embættinu. Hafa þannig verið leiddar líkur að því að kærði hafi mismunað kæranda á grundvelli kynferðis hennar og þykir kærði ekki hafa sýnt fram á að aðrar ástæður hafi legið þar til grundvallar. Bar því kærða, með vísan til 18. gr. og 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, að skipa umsækjanda af því kyni er á hallaði. Braut kærði með ákvörðun sinni gegn umræddum ákvæðum.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði braut gegn 18. gr. og 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við skipun í embætti skrifstofustjóra kærða 31. ágúst 2016.
Erla S. Árnadóttir
Björn L. Bergsson
Guðrún Björg Birgisdóttir