Hoppa yfir valmynd
20. september 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 262/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 262/2023

Mánudaginn 20. september 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 25. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. maí 2023 um að samþykkja að greiða styrk vegna kaupa á bifreið að frádreginni eldri uppbót vegna kaupa á bifreið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk 9. nóvember 2021 samþykkta uppbót vegna bifreiðakaupa að fjárhæð 360.000 kr. Kærandi sótti um styrk til kaupa á bifreið með rafrænni umsókn, móttekinni 26. september 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. október 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að um tímabundið ástand væri að ræða. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. mál nr. 563/2022. Úrskurður var kveðinn upp þann 3. apríl 2023 og var niðurstaðan sú að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins var felld úr gildi og fallist var á að kærandi uppfyllti skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um verulega hreyfihömlun. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. maí 2023, var samþykkt að greiða kæranda styrk til bifreiðakaupa en honum var jafnframt tilkynnt að þar sem að ekki væru liðin fimm ár frá síðustu greiðslu yrði fyrri uppbót sem greidd hafi verið dregin frá fjárhæð styrksins.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. maí 2023. Með bréfi, dags. 7. júní 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. júní 2023, fór Tryggingastofnun ríkisins fram á afmörkun kæruefnisins. Með bréfi, dags. 16. júní 2023, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir efnislegri greinargerð vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar um fjárhæð styrks. Með bréfi, dags. 22. júní 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. júní 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því hann hafi fengið bifreiðastyrk eftir að hafa verið neitað um slíkt áður, en þá ákvörðun hafi hann kært. Samkvæmt úrskurðinum eigi kærandi rétt á 1.440.000 kr. bifreiðastyrk. Þann 9. nóvember 2021 hafi kærandi fengið styrk fjárhæð 360.000 kr. Sú upphæð hafi verið dregin af þeim styrk sem hafi fengið þann 8. maí 2023. Bifreiðastyrkurinn sé því 1.080.000 kr. Kærandi eigi erfitt með að sætta sig við þá kröfu Tryggingstofnunar að bifreiðin sem hann kaupi megi ekki vera undir 1.440.000 kr. Kærandi hafi þess vegna nú þegar þurft að taka rándýrt lán til að ná þessum 360.000 kr. til að uppfylla kröfu Tryggingstofnunar. Kærandi hafi á sínum tíma keypt gamla bifreið eftir að hafa fengið bifreiðastyrk að fjárhæð 360.000 kr. frá Tryggingastofnun þann 9. nóvember 2021. Þessi bifreið hafi dugað í rúmt ár en þá hafi vélin gefið sig og hann hafi látið farga honum og sent Tryggingastofnun vottorð um þá förgun. Það sem kærandi skilji ekki sé hvers vegna styrkurinn lækki um 360.000 kr. og síðan þurfi hann að bæta við 360.000 kr. til að geta keypt sér aðra bifreið. Kærandi spyr hvers vegna hafi hann ekki getað keypt bifreið fyrir þann bifreyðastyrk sem eftir sé eða 1.080.000 kr.

Kærandi fari hér fram að þessi krafa verði felld niður. Að vísu hafi kærandi þegar keypt sér bifreið og hafi notað styrkinn og lánið sem hann hafi þurft að taka. Kærandi hafi verið án bifreiðar í nokkra mánuði og hafi ekki getað beðið lengur.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi óski eftir því að krafa á hendur honum verði felld niður.

Í kæru komi fram að Tryggingastofnun leggi þá kröfu á einstaklinga að bifreið sem keypt sé fyrir bifreiðastyrk samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð megi ekki kosta undir 1.440.000 kr. Í 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða komi fram að upphæð styrksins sé 1.440.000 kr.

Kærandi hafi fengið styrk samkvæmt 10. gr. laga um félagslega aðstoð að fjárhæð 1.080.000 í maí 2023. Þann 1. desember 2021 hafi hann fengið greidda uppbót samkvæmt 1. mgr. 10. gr. sömu laga að fjárhæð 360.000 kr. Líkt og fram komi í kæru þá hafi kærandi móttekið styrkinn og keypt bifreiðina B.

Ekki sé minnst á það í lögum eða reglugerð er varði styrki til kaupa á bifreið á að bifreið verði að kosta 1.440.000 kr. til þess að einstaklingur fái greiddan styrk. Sú upphæð sé einungis það hámark sem einstaklingur geti fengið greitt. Sé kaupverð bifreiðar lægra en 1.440.000 kr., þá sé greidd tilsvarandi lægri upphæð til einstaklings.

Kærð stjórnvaldsákvörðun varði þá ákvörðun að greiða kæranda styrk samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Kærandi hafi þegar notað þann styrk til kaupa á bifreið. Engin útistandandi krafa á kæranda sé hjá Tryggingastofnun er varði styrkinn eða kaup á bifreið. Af þeim sökum sé óskað eftir því að málinu verði vísað frá, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem engin ný ákvörðun hafi verið tekin. Verði málinu ekki vísað frá, sé óskað eftir því að það verði afmarkað hver hin kæranlega ákvörðun sé.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. júní 2023, kemur fram að kæran varði ákvörðun um upphæð styrks til kaupa á bifreið, samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi hafi átt rétt á hærri upphæð en greidd hafi verið til hans í maí 2023.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Í reglugerð nr. 905/2021 komi fram að við mat á þörf fyrir uppbætur og styrki samkvæmt reglugerðinni skuli fyrst og fremst líta á bifreið sem hjálpartæki hreyfihamlaðra.

Í 6. gr. reglugerðarinnar segi að heimilt sé að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem greiðsluþegi sé talinn þurfa nauðsynlega á að halda. Fjárhæð uppbótarinnar sé 360.000 kr.

Í 7. gr. reglugerðarinnar segi að heimilt sé að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti, til dæmis að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður. Í 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar segi að fjárhæð styrksins sé 1.440.000 kr.

Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar segi að hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót samkvæmt 6. gr. og sjúkdómsástand hans versni þannig að hann uppfylli skilyrði styrks samkvæmt 7. gr. sé heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og styrks. Styrkur og uppbót geti þó samtals aldrei verið hærri en 1.440.000 kr. á fimm ára fresti.

Í 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar segi að kaupverð bifreiðar skuli ekki vera lægra en fjárhæð uppbótar eða styrks vegna bifreiðakaupa samkvæmt reglugerðinni að teknu tilliti til niðurfellds vörugjalds þegar það eigi við.

Í 11. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um hvenær heimilt sé að endurnýja umsókn. Í 1. mgr. ákvæðisins segi að heimilt sé að veita uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings. Í 2. mgr. segi að þegar styrkir séu veittir samkvæmt 7. og 8. gr. reglugerðarinnar þá sé heimilt að víkja frá tímamörkum samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins eyðileggist bifreið á tímabilinu. Þó sé eingöngu heimilt að víkja frá tímamörkum 1. mgr. þegar um styrk samkvæmt 7. gr. sé að ræða hafi bifreiðin verið tólf ára eða yngri þegar hún hafi eyðilagst. Í ákvæðinu sé ekki minnst á bifreiðar sem keyptar hafa verið með uppbót.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi fyrst sótt um styrk til kaupa á bifreið þann 26. september 2022. Þann 8. október 2022 hafi mati á hreyfihömlun kæranda verið hafnað. Kærandi hafi sent inn nýtt læknisvottorð þann 14. nóvember 2022, en hreyfihömlunarmati hafi aftur verið synjað af Tryggingastofnun þann 22. nóvember 2022. Þann 25. nóvember 2022 hafi Tryggingastofnun einnig synjað kæranda um uppbót til kaupa á bifreið þar sem kærandi hafði fengið uppbót greidda í desember 2021 og því hafi fimm ár ekki verið liðin frá síðustu greiðslu.

Kærandi hafi kært þá ákvörðun Tryggingastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í framhaldinu hafi nefndin tekið málið fyrir og fellt úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar og vísað málinu aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Þann 8. maí 2023 hafi Tryggingastofnun samþykkt að greiða kæranda styrk vegna bifreiðakaupa. Í bréfinu komi fram að kærandi fengi greiddan styrk að fjárhæð 1.080.000 kr. sem væri mismunur á styrk og upphæð greiddrar uppbótar, en hann hafi fengið greidda uppbót að fjárhæð 360.000 kr. þann 1. desember 2021 og því væru ekki liðin fimm ár frá þeirri greiðslu. Sú ákvörðun hafi verið kærð.

Í málinu sé ekki deilt um hvort kærandi hafi átt rétt á styrk til kaupa á bifreið, enda hafi styrkur þegar verið greiddur út til kæranda eftir að slíkt mál hafi verið tekið fyrir af úrskurðarnefnd velferðarmála. Ekki þyki þörf á því að fara yfir feril málsins áður en úrskurðað hafi verið í máli nr. 563/2022. Í kjölfar úrskurðarins hafi kæranda verið greiddur út styrkur að fjárhæð 1.080.000 kr. samkvæmt bréfi, dags. 8. maí 2023.

Í kæru komi fram að kærandi eigi erfitt með að sætta sig við að Tryggingastofnun setji þá kröfu að bifreiðin sem hann kaupi megi ekki kosta minna en 1.440.000 kr. Af þeim sökum hafi hann tekið lán til að ná þessum 360.000 kr. sem upp á hafi vantað. Kærandi hafi þegar fengið 360.000 kr. vegna uppbótar til kaupa á bifreið 1. desember 2021 og hafi því ekki átt rétt á fullum styrk, heldur hafi hann fengið greiddar 1.080.000 kr. Í kæru komi fram að kærandi skilji ekki hvers vegna styrkurinn hafi lækkað um 360.000 kr. en hann hafi sjálfur þurft að bæta við 360.000 kr. til þess að geta keypt sér aðra bifreið. Þá spyr hann af hverju hann geti ekki keypt sér bifreið fyrir þá upphæð sem eftir hafi verið, þ.e. 1.080.000 kr. Í framhaldinu hafi kærandi óskað þess að sú krafa yrði felld niður. Hann hafi þó þegar keypt sér bifreið og notað til þess styrkinn og lán sem hann hafi tekið.

Í lögum eða reglugerð er varða styrk til kaupa á bifreið sé hvergi minnst á að bifreið verði að kosta 1.440.000 kr. til þess að einstaklingur fái greiddan styrk. Sú upphæð sé einungis það hámark sem einstaklingur geti fengið greitt. Sé kaupverð bifreiðar lægra en 1.440.000 kr., þá sé greidd tilsvarandi lægri upphæð til einstaklings, ef verið sé að greiða út fullan styrk. Í 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 905/2021 segi að kaupverð bifreiðar skuli ekki vera lægra en fjárhæð uppbótar eða styrks vegna bifreiðakaupa.

Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 905/2021 komi fram að hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar og ástand hans versni svo sá hinn sami uppfylli skilyrði styrks samkvæmt 7. gr. þá fái einstaklingurinn mismun á fjárhæð uppbótar og styrks, en sú fjárhæð verði aldrei hærri en 1.440.000 kr. á fimm ára fresti. Þar sem kærandi hafði þegar fengið greidda uppbót í desember 2021 og ekki hafi verið liðin fimm ár frá þeirri greiðslu, þá hafi kærandi ekki átt rétt á því að fá fullan styrk, þ.e. 1.440.000 kr.

Í bréfi til kæranda, dags. 8. maí 2023, segi að kaupverð bifreiðar verði að vera að minnsta kosti 1.440.000 kr. Sú framsetning geti verið villandi og beðist sé velvirðingar á því. Mismunur á uppbót og styrk sé 1.080.000 kr. Þegar einstaklingur hafi fengið uppbót greidda, og hafi þá þegar keypt bifreið fyrir þá fjárhæð, þá geti sá hinn sami ekki fengið þá upphæð aftur innan fimm ára. Ef einstaklingur velji að kaupa bifreið sem kosti minna en 1.440.000 kr. þá sé mismunurinn sem honum sé greiddur, kaupverð bifreiðar mínus 360.000 kr. Sem dæmi megi taka að ef búið sé að greiða 360.000 kr. í uppbót og síðan sé greiddur styrkur þá verði verðgildi nýrrar bifreiðar að vera hærri en 360.000. Ef verðgildi nýrrar bifreiðar væri 500.000 kr. fengi einstaklingurinn 140.000 kr. í styrk, þ.e. verðgildi nýrrar bifreiðar mínus áður greidd uppbót. Í máli kæranda hafi hann fengið 1.080.000 kr. og hefði hann því ávallt þurft að greiða mismun upp í 1.440.000 kr. Hefði bifreiðin kostað 1.080.000 kr., líkt og kærandi fjalli um í kæru, þá hefði hann ekki getað fengið 1.080.000 kr., heldur kaupverðið mínus áður greidda uppbót (1.080.000 kr. - 360.000 kr. = 720.000 kr.). Þetta sé í samræmi við 9. gr. og 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 905/2021.

Í 2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar segi að heimilt sé að víkja frá tímamörkum 1. mgr. 11. gr. um fimm ára frest, þegar um sé að ræða styrki samkvæmt 7. og 8. gr. reglugerðarinnar ef bifreiðin eyðileggst á tímabilinu. Sú bifreið sem kærandi hafi keypt vegna uppbótar sem hann hafi fengið greidda í desember 2021 hafi eyðilagst, en þar sem hann hafi keypt hana með uppbót samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar, þá eigi 2. mgr. 11. gr. ekki við í máli hans og því ekki heimilt að víkja frá tímamörkum.

Af framangreindu megi sjá að samkvæmt reglugerð nr. 905/2021, sér í lagi 1. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar, hafi kærandi átt rétt á því að fá greiddan styrk að fjárhæð 1.080.000 kr. þar sem hann hafði þegar fengið greidda uppbót. Virðist kærandi ekki mótmæla þessu í kæru. Þá hvíli ekki skylda á einstaklingum að greiða fulla fjárhæð styrks fyrir bifreið, heldur sé sú upphæð aðeins hámark þeirrar upphæðar sem greidd sé. Tryggingastofnun setji því ekki slíka kröfu á einstaklinga og sé engin krafa á hendur kæranda hjá Tryggingastofnun.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda og telji miðað við fyrirliggjandi gögn, að ljóst sé að afgreiðsla málsins hafi verið í samræmi við lög, reglur og góða stjórnsýsluhætti.

Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu þess að kærandi hafi þegar fengið greidda rétta upphæð vegna styrks sem hafi verið staðfest 8. maí 2023 og að engin krafa hvíli á kæranda hjá stofnuninni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. maí 2023 um að samþykkja styrk til kaupa á bifreið samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Í bréfinu kemur fram að þar sem að ekki væru liðin fimm ár frá síðustu greiðslu yrði fyrri uppbót sem greidd hafi verið dregin frá fjárhæð styrksins. Einnig kemur fram að kaupverð bifreiðarinnar verði að vera a.m.k. 1.440.000 kr.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 10. gr. segir í meðal annars svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

[...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða var sett með stoð í 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar er fjallað um þegar sjúkdómsástand hins hreyfihamlaða versnar, ákvæðið er svohljóðandi:

„Hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót skv. 6. gr. og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks skv. 7. gr. er heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og styrks. Styrkur og uppbót geta þó samtals aldrei verið hærri en 1.440.000 kr. á fimm ára fresti.“

Um endurnýjun umsókna er fjallað í 11. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Ákvæðið hljóðar svo:

„Heimilt er að veita uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings.

Þegar um er að ræða styrki skv. 7. og 8. gr. reglugerðar þessarar er heimilt að víkja frá tímamörkum skv. 1. mgr. eyðileggist bifreið á tímabilinu. Þó er eingöngu heimilt að víkja frá tímamörkum 1. mgr. þegar um styrk skv. 7. gr. er að ræða hafi bifreiðin verið tólf ára eða yngri þegar hún eyðilagðist.“

Í 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar segir að kaupverð bifreiðar skuli ekki vera lægra en fjárhæð uppbótar eða styrks vegna bifreiðakaupa samkvæmt reglugerðinni að teknu tilliti til niðurfellds vörugjalds þegar það eigi við.

Meginreglan er sú að einungis er heimilt að veita uppbót/styrk til bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings, sbr. 2. málsl. 1. og 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 905/2021 er kveðið á um að hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót samkvæmt 6. gr. og sjúkdómsástand hans versni þannig að hann uppfylli skilyrði styrks samkvæmt 7. gr. sé heimilt að greiða mismun á fjárhæð styrkjanna. Styrkur og uppbót geti þó aldrei verið hærri en samtals 1.440.000 kr. á fimm ára fresti. Í 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 905/2021 er einnig kveðið á um undanþágu frá þeirri meginreglu að styrkir vegna bifreiðakaupa séu greiddir á fimm ára fresti til sama einstaklingsins í þeim tilvikum þegar bifreið eyðileggst á tímabilinu.

Í málinu liggur fyrir að ástæða þess að kærandi sótti um styrk til kaupa bifreið var versnandi hreyfihömlun hans. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 905/2021 að Tryggingastofnun hafi verið heimilt að draga fyrri uppbót vegna bifreiðakaupa frá, enda voru ekki liðin fimm ár frá veitingu uppbótarinnar. Þá telur úrskurðarnefndin að ráða megi af 1. mgr. 9. gr. og 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar að styrkur og uppbót vegna bifreiðakaupa geti hvorki verið samtals hærri en 1.440.000 kr. né hærri en kaupverð bifreiðar. Þá telur nefndin ljóst að framangreind undanþága 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 905/2021 eigi ekki við í tilviki kæranda.

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að framsetning í bréfi til kæranda, dags. 8. maí 2023, þar sem segi að kaupverð bifreiðar verði að vera að minnsta kosti 1.440.000 kr., geti verið villandi og beðist er velvirðingar á því. Úrskurðarnefndin fellst á að framangreint orðalag hafi verið villandi en hin kærða ákvörðun verði þó ekki felld úr gildi af þeim sökum. 

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. maí 2023 um að draga fyrri uppbót vegna bifreiðakaupa frá samþykktum styrk til bifreiðakaupa staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að draga fyrri uppbót til A, frá samþykktum styrk vegna kaupa á bifreið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta