Hoppa yfir valmynd
10. október 2024 Heilbrigðisráðuneytið

„Tímamót fyrir kvenheilsu“ - Stórfelld lækkun gjalds fyrir brjóstaskimanir

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að lækka almennt gjald fyrir brjóstaskimun úr 6.098 kr. í 500 kr. og tekur breytingin gildi 14. október. Skimun er mikilvæg forsenda snemmgreiningar brjóstakrabbameina og hefur mikinn ávinning fyrir einstaklinga og samfélag. Snemmgreining þýðir einfaldari meðferð, bættar lífslíkur og dregur úr kostnaði heilbrigðiskerfisins.

Willum Þór kynnti ákvörðun sína á fréttamannafundi á Brjóstamiðstöð Landspítala í dag. Hann segir lækkun gjaldsins lið í því markmiði stjórnvalda að efla forvarnir, jafna aðgengi að þjónustu og bæta þannig lýðheilsu: „Með því að lækka komugjaldið, samfara góðri, markvissri fræðslu og með stuðningi og hvatningu atvinnulífsins fyrir þátttöku kvenna í skimunum, stuðlum við að því að konur sjái hvað þetta er mikilvægt og geti forgangsraðað heilsu sinni með því að mæta í skimun.“

Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, yfirlæknir Brjóstamiðstöðvar Landspítala, segir ákvörðun ráðherra vera tímamót fyrir kvenheilsu. Kostnaðurinn hafi verið hindrun fyrir margar konur. Hún telji víst að lækkun gjaldsins muni auka þátttökuna sem sé brýnt til að ná góðum árangri, draga úr dánartíðni vegna brjóstakrabbameins og bæta lífsgæði þeirra sem greinast.

Viðmið fyrir góðum árangri af brjóstaskimunum er 75% þátttaka kvenna á skimunaraldri. Um 75.000 konur eru í þessum hópi hér á landi og var þátttakan 56% árið 2023.

Kostnaður vegna skimana skilar sér margfalt til baka

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið meðal kvenna hér á landi. Árlega greinast um 266 konur með brjóstakrabbamein og um 50 konur látast af völdum þess. Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir ávinning skimana ótvíræðan og því meiri sem þátttakan er betri. „Ávinningurinn er allra; einstaklinga, samfélagsins og heilbrigðiskerfisins. Fjármunir sem varið er í skimanir skila sér margfalt til baka.“

Lýðgrunduð skimun eins og hér um ræðir felst í skimun á heilbrigðum konum. Markmiðið er að greina mein á frumstigi/forstigi áður en einkenna verður vart. Ágúst Ingi leggur áherslu á að finni konur fyrir einhverjum einkennum sem gætu bent til krabbameins eigi þær ekki að bíða eftir reglubundinni skimun, heldur leita tafarlaust til læknis. Sama máli gegni ef konur finna fyrir einkennum þótt þær hafi nýlega farið í skimun.

Meðal viðstaddra á fundinum á Brjóstamiðstöð Landspítala voru Alma Möller landlæknir, Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands, Erna Magnúsdóttir framkvæmdastýra Ljóssins, og Hulda Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Krafts.

 

 

 

  • „Tímamót fyrir kvenheilsu“ - Stórfelld lækkun gjalds fyrir brjóstaskimanir - mynd úr myndasafni númer 1
  • „Tímamót fyrir kvenheilsu“ - Stórfelld lækkun gjalds fyrir brjóstaskimanir - mynd úr myndasafni númer 2
  • „Tímamót fyrir kvenheilsu“ - Stórfelld lækkun gjalds fyrir brjóstaskimanir - mynd úr myndasafni númer 3
  • „Tímamót fyrir kvenheilsu“ - Stórfelld lækkun gjalds fyrir brjóstaskimanir - mynd úr myndasafni númer 4
  • „Tímamót fyrir kvenheilsu“ - Stórfelld lækkun gjalds fyrir brjóstaskimanir - mynd úr myndasafni númer 5
  • „Tímamót fyrir kvenheilsu“ - Stórfelld lækkun gjalds fyrir brjóstaskimanir - mynd úr myndasafni númer 6

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta