Hoppa yfir valmynd
11. september 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Einfalt aðgengi að greiðsluupplýsingum á opnirreikningar.is

Aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins batnar með vefnum opnirreikningar.is sem hleypt hefur verið af stokkunum. Þar er hægt að skoða yfirlit yfir greidda reikninga úr bókhaldi ráðuneyta nálægt rauntíma, en vefurinn er uppfærður mánaðarlega.

Opnum reikningum er ætlað að veita einfalda og skýra mynd af viðskiptum ráðuneyta með því að birta yfirlit yfir greidda reikninga. Hægt er að skoða viðskiptin út frá stofnunum, birgjum, tegund kostnaðar og tímasetningu. Fyrsti birtingarmánuðurinn er ágúst 2017.

Þetta skref í átt til aukins aðgengis að fjárhagsupplýsingum er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um bætt viðmót og aðgengi að stjórnsýslu.

Gert er ráð fyrir að stofnanir í A-hluta ríkissjóðs komi inn í verkefnið í áföngum. Þegar verkefnið verður að fullu komið til framkvæmda nemur heildarumfang upplýsinga á vefnum um 45 milljörðum króna á ári.

Mánaðarlegt bókhald birt

Þá er unnið að því að birta mánaðarlegt bókhald ríkisins, ráðuneyta og stofnana með skýrum og myndrænum hætti. Með þeirri birtingu verður hægt að skoða gjöld og tekjur út frá ráðuneytum, stofnunum eða málefnasviðum, allt niður á einstök verkefni. Hægt verður að skoða raunútgjöld og bera saman við áætluð útgjöld í fjárlögum ársins. Er sú birting aukin þjónusta við almenning frá því að ríkisreikningur.is var opnaður árið 2014, en þar er birt sundurliðun á tekjum og gjöldum ríkisins eftir árum og nær birtingin aftur til ársins 2004.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta