Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2007

Fimmtudaginn, 12. júlí 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 3. apríl 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 30. mars 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 24. mars 2007 um að synja kæranda um breytingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Kærð er sú ákvörðun, sem mér barst með bréfi frá Fæðingarorlofssjóði dagsettu 24. mars 2007, að neita mér um leiðréttingargreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Ég hafði sent inn endurupptökubeiðni í kjölfar breytingar á reglugerð nr. 1056/2004 en mér var hafnað með þeim rökum að ég hefði fengið ofgreitt úr sjóðnum þar sem ég hefði verið í 25% starfi eða meira á móti fæðingarorlofi með eldra barni á 24 mánaða viðmiðunartímabili.

Ég tel ákvörðunina ekki á rökum reista þar sem ég var ekki í neinu starfi meðan ég var í fæðingarorlofi. Þegar ég hafði samband við Fæðingarorlofssjóð og gerði grein fyrir því fékk ég þau svör að hugsanlega væri litið svo á að ég hefði verið í starfi á sama tíma og ég var í fæðingarorlofi ef ég hefði fengið greiðslur frá vinnuveitanda og Fæðingarorlofssjóði í sama mánuði s.s. ef orlof hefði ekki hafíst fyrsta dag mánaðar.

í mínu tilfelli á það við þ.e. ég tók fæðingarorlof í tvennu lagi, annars vegar eina viku við fæðingu barns 18. október 2004 og svo aftur frá 15. ágúst til 31. september 2005. í báðum tilfellum fékk ég aðeins greitt úr Fæðingarorlofssjóði fyrir þær vikur sem ég var í orlofi og á meðan fékk ég ekki greiðslur frá vinnuveitenda. í október 2004 fékk ég sem sagt greidda eina viku úr Fæðingarorlofssjóði og þrjár vikur frá vinnuveitenda, í ágúst 2005 fékk ég greiddar tvær vikur frá vinnuveitenda og tvær vikur frá Fæðingarorlofssjóði sem og fjórara vikur í september 2005. Af framansögðu get ég ekki séð að ég hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði.

Mér finnst órökrétt ef útreikningar Fæðingarorlofssjóðs eru á þann veg að allir þeir sem ekki hefja töku fæðingarorlofs fyrsta dag mánaðar teljist fá ofgreitt úr sjóðnum. Sérstaklega finnast mér þetta fráleit viðmið ef ætlun er að hefja orlof við fæðingu barns því ekki er raunin sú að öll börn fæðist fyrsta dag hvers mánaðar. “

 

Með bréfi, dagsettu 4. apríl 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 27. apríl 2007. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs á endurupptökubeiðni kæranda í kjölfar reglugerðarbreytingar nr. 123/2007 er breytti reglugerð nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með endurupptökubeiðni, dags. 27. febrúar 2007, sem móttekin var 7. mars 2007, óskaði kærandi eftir að Fæðingarorlofssjóður endurskoðaði útreikning á greiðslum til sín vegna barns hans sem fæddist 20. september 2006, sbr. greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 28. september 2006. Kærandi hafði áður verið í fæðingarorlofi vegna eldra barns að hluta til á árunum 2004 – 2005.

Í málinu lágu fyrir upplýsingar frá ríkisskattstjóra auk eldri gagna frá umsækjanda vegna umsóknar hans sem ákvörðuð var með framangreindri greiðsluáætlun til kæranda, dags. 28. september 2006.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 7. mars 2007, var honum tilkynnt að beiðni hans um endurupptöku hafi verið móttekin. Þann 24. mars 2007 var honum sent bréf þar sem fram kom að við endurreikning hafi komið í ljós að hann hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann hafi verið í meira en 25% starfi á móti fæðingarorlofi með eldra barni á 24 mánaða viðmiðunartímabilinu og að ekki yrði höfð uppi endurkrafa þar sem hann hafi verið í góðri trú þegar hann þáði greiðslurnar. Með synjunarbréfinu var sent staðlað bréf/leiðbeiningar til að útskýra nánar ákvarðanir Fæðingarorlofssjóðs við endurupptökubeiðnum.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Enn fremur segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Barn kæranda er fætt þann 20. september 2006 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans árin 2004 og 2005 fyrir þá mánuði sem hann var í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á árunum 2004 og 2005 og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í staðgreiðsluskránni kemur fram að kærandi þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði fyrir október 2004 alls X kr. og á sama tíma var hann með laun frá B og D samtals X kr. Í kæru kemur fram að kærandi hafi einungis tekið eina viku í fæðingarorlofi í október 2004 og þegið greiðslu fyrir þrjár vikur frá vinnuveitanda. Samkvæmt því og þeim launum er hann þáði er ljóst að hann vann a.m.k. 25% starf eða meira í október 2004. Á árinu 2005 þáði kærandi greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði í ágúst og september alls X kr. Á sama tíma þáði hann greiðslur frá B og E alls X kr. Í kæru kemur fram að kærandi hafi fengið tvær vikur greiddar frá vinnuveitanda í ágúst og fjórar vikur í september. Af þessu má ljóst vera að kærandi var einnig í a.m.k. 25% starfi í ágúst og september 2005.

Samkvæmt greiðsluáætlun dags. 28. september 2006 var kærandi með X kr. í meðaltekjur á mánuði fyrir árin 2004 – 2005 og eru 80% af því X kr. á mánuði. Hluti af þessari upphæð eru greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Ef greiðslum Fæðingarorlofssjóðs er sleppt kemur í ljós að meðaltekjur kæranda fyrir umrædd ár lækka í X kr. á mánuði og eru 80% af því X kr. á mánuði. Samkvæmt þessu voru meðaltekjur kæranda reiknaðar hærri á greiðsluáætlun, dags. 28. september 2006 en hann var í raun með þar sem greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði hækkuðu meðaltalslaun. Kærandi hefur því fengið hærri greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði með barni því er fæddist 20. september 2006 en hann hefði átt að fá. Þar sem kærandi var í góðri trú er hann þáði greiðslurnar verður ekki höfð uppi endurkrafa á hann.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að áðurnefnt bréf Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 24. mars 2007, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 7. maí 2007, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs í tilefni af endurupptökubeiðni kæranda í kjölfar setningar reglugerðar nr. 123/2007 um breytingu á reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Ágreiningur er um rétt kæranda til frekari greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 sem gilti við fæðingu barns kæranda þann 20. september 2006 töldust greiðslur sem koma til skv. a-d liðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar til launa auk launa og annarra þóknana samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Samkvæmt a. lið 2. mgr. 3. gr. telst einnig til þátttöku á vinnumarkaði orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti.

Barn kæranda er fætt 20. september 2006. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði árin 2004 og 2005, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004.

Af hálfu félagsmálaráðuneytisins var fallist á það álit umboðsmanns að lokamálsliður 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 hefði ekki næga lagastoð og var ákvæðið fellt niður með reglugerð nr. 123/2007. Samkvæmt því var afnumin sú regla að greiðslur sem koma til skv. a-d liðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar þ.m.t. greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði yrðu lagðar til grundvallar við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi. Jafnframt var tekin ákvörðun um að Fæðingarorlofssjóður tæki upp þau mál sem ákvörðuð höfðu verið á grundvelli ákvæðisins þegar foreldri hafði fengið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á tveggja ára tímabili útreiknings meðaltals heildarlauna.

Með vísan til 2. mgr. 13. gr. ffl. og þess sem að framan er rakið hefur það verið mat úrskurðarnefndarinnar að við endurútreikning meðaltals heildarlauna skuli ekki reiknaðar þær greiðslur sem foreldri fékk úr Fæðingarorlofssjóði vegna fyrra fæðingarorlofs og ekki þeir mánuðir sem vinnuframlag þess nemur ekki a.m.k. 25% starfshlutfalli.

Kærandi fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í október 2004 og í ágúst og september 2005 samtals X kr. á grundvelli útreiknings samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. og þágildandi 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Með hliðsjón af því sem fram kemur um launatekjur kæranda í október 2004 og ágúst og september 2005 telur úrskurðarnefndin ekki staðfest að kærandi hafi verið utan vinnumarkaðar í þeim mánuðum í skilningi 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um frekari greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna beiðni um endurupptöku máls kæranda staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja um frekari greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta