Hoppa yfir valmynd
28. mars 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 143/2019 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 28. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 143/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19030008

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I.                    Málsatvik

Þann 21. febrúar 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 4. desember 2018 um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisfangslaus (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 25. febrúar 2019. Þann 4. mars 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar sem og beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð hans. Þann 11. mars 2019 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum. Þá barst viðbótargreinargerð ásamt frekari gögnum frá kæranda þann 15. mars 2019. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði nefndarinnar í máli nr. KNU19030007, dags. 16. mars sl.

Kærandi fer fram á endurupptöku í máli hans á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.                  Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Af hálfu kæranda er því haldið fram að mat stjórnvalda á auðkenni sem og aðstæðum hans hafi verið byggt á ófullnægjandi upplýsingum sem hafi leitt til rangrar niðurstöðu og óski kærandi eftir endurupptöku máls síns vegna þess.

Kærandi heldur því fram að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi ekki sinnt skyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga sem kveði á um skyldu íslenskra stjórnvalda til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Jafnframt heldur kærandi því fram að hann hafi ekki fengið þá réttarvernd sem tryggð er samkvæmt 11. og 13. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi heldur því fram í beiðni sinni að hann hafi ekki fengið aðstoð túlks við komuna til landsins þann 12. apríl 2017 og hafi kærandi því ekki staðfest með undirskrift sinni að rétt hafi verið haft eftir honum í lögregluskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum, en skýrslan hafi eingöngu verið á íslensku. Kærandi hafi í öllum tilfellum þar sem hann hafi notið aðstoðar túlks mótmælt því við íslensk stjórnvöld að hann sé frá Pakistan, en hann sé upprunalega frá Mjanmar. Kærandi kveðst eingöngu hafa verið spurður af lögreglufulltrúanum „Where did you come from?“ og hafi kærandi svarað „Pakistan“, þar sem ferðalag hans hafi hafist þar. Hafi lögreglumaðurinn ályktað að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari án nokkurs samráðs við kæranda.

Gögn hafi verið á reiki um raunverulegt þjóðerni og ríkisfang kæranda og sé kærandi ósammála þeirri staðhæfingu kærunefndar að með tilliti til gagna málsins sé byggt á því að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari. Upplýsingar frá erlendum stjórnvöldum séu margsaga um ríkisfang kæranda og komi það eingöngu fram í gögnum frá Danmörku að kærandi sé talinn pakistanskur ríkisborgari. Eðlilegt hafi verið, að mati kæranda, að íslensk stjórnvöld hefðu óskað eftir frekari upplýsingum frá pakistönskum yfirvöldum til staðfestingar á ríkisfangi kæranda, en Útlendingastofnun hafi fengið samþykki kæranda til að hafa samband við pakistönsk stjórnvöld til að sannreyna ríkisfang hans. Með því að láta hjá líða að kanna með fullnægjandi hætti hvort kærandi sé pakistanskur ríkisborgari hafi stjórnvöld brotið gegn rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10 gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi heldur því fram að íslensk stjórnvöld hafi ekki haft forsendur til að leggja til grundvallar að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari og hafi kærandi því leitað til fyrirtækisins Íslensk erfðagreining þann 6. mars sl. þar sem framkvæmd hafi verið arfgerðargreining á kæranda. Niðurstöðurnar muni skera úr um hvort kærandi sé af pakistönskum uppruna eða ekki. Kærandi heldur því fram að þessar aðgerðir séu til þess fallnar að auka trúverðugleika hans, en með þessu sé kærandi að aðstoða stjórnvöld við að upplýsa mál sitt og gera þeim kleift að taka rétta ákvörðun. Máli sínu til stuðnings hafi kærandi lagt fram frumrit af skólaskírteini sínu ásamt þýðingu frá Pakistan en þar komi fram að kærandi sé fæddur í Rakhine héraði í Mjanmar, íslensk stjórnvöld hafi ekki véfengt umrætt skírteini.

Í ljósi ofangreindra raka sé mikill vafi á því að kærandi sé pakistanskur ríkisborgari og geti íslensk stjórnvöld ekki einhliða, án haldbærra gagna og sannana, komist að þeirri niðurstöðu að svo sé, eins og þau hafi gert hingað til. Kærandi heldur því fram að hann sé ríkisfangslaus róhingi frá Mjanmar.

Kærandi heldur því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði a-d. liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sbr. 2. mgr. 74. gr. sömu laga. Liðnir séu 23 mánuðir frá því að hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi án þess að hafa fengið niðurstöðu í máli sínu, en kröfu hans um beitingu 2. mgr. 74. gr. laganna hafi verið hafnað í úrskurði kærunefndarinnar sem kærandi óskar nú endurupptöku á. Kærandi er ósammála niðurstöðu kærunefndarinnar um að hann uppfylli ekki skilyrði a-d. liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Hvað varðar a-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga heldur kærandi því fram að enginn vafi leiki á hver hann sé enda hafi framburður kæranda um nafn og uppruna haldist óbreyttur frá komu hans til landsins, en kærandi sé ríkisfangslaus í skilningi 39. gr. laga um útlendinga. Með tilliti til leiðbeiningarsjónarmiða í 196.-197. mgr. í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna verði að telja ósanngjarnt að gera þá kröfu til kæranda að leggja fram gögn auðkenni sínu til stuðnings sem og skilríki útgefin af yfirvöldum í Mjanmar. Varðandi d-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga mótmælir kærandi þeirri niðurstöðu kærunefndar að hann hafi ekki veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins og vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU17120008 máli sínu til stuðnings. Í því máli hafi kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að kærandi í því máli hafi uppfyllt skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þrátt fyrir að frásögn hans hafi verið talin ótrúverðug.

Þann 15. mars 2019 barst kærunefnd viðbótargreinargerð kæranda. Kærandi heldur því fram að hann sé ekki með pakistanskt ríkisfang og máli sínu til stuðning vísar kærandi í tölvupóst, dags. 14. mars 2019, frá forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, Kára Stefánssyni, þar sem fram kemur að kærandi sé ekki af pakistönskum uppruna en að öðru leyti séu niðurstöður arfgerðargreiningarinnar ekki afgerandi. Kærandi heldur því fram að umræddur tölvupóstur eyði þeirri óvissu sem hafi ríkt um meint pakistanskt þjóðerni hans. Þá telji kærandi að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi grundvallast á röngum og ófullnægjandi upplýsingum um atvik málsins skv. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi telji ekki síst að með tilkomu hins nýja gagns hafi atvik máls breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin í máli hans, í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt gagninu sé kærandi ekki af pakistönskum uppruna eða þjóðerni, sbr. fyrrgreindan tölvupóst, þar af leiðandi sé hann heldur ekki með pakistanskt ríkisfang, en kærandi sé ríkisfangslaus í skilningi 39. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar í ákvæði pakistanskra laga um ríkisborgararétt frá árinu 1951 og heldur því fram að hann uppfylli ekki skilyrði þeirra. Þar sem kærandi hafi lagt sig allan fram við að aðstoða við að upplýsa um mál sitt uppfylli hann skilyrði a-d. liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því eigi hann að fá dvalarleyfi á grundvelli sama ákvæðis. Að öllu þessu virtu beri stjórnvöldum að endurupptaka mál kæranda með vísan til 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá ítreki kærandi kröfu sína um að stjórnvöld hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þar sem mál kæranda hafi ekki verið nægjanlega upplýst þegar ákvörðun hafi verið tekin jafnframt sem vinnubrögð Útlendingastofnunar feli í sér alvarlegt brot gegn rannsóknarreglunni sem eigi að leiða til ógildingar ákvörðunar stofnunarinnar.

Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að mál hans verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 21. febrúar 2019 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda 25. febrúar 2019. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í úrskurði kærunefndar, dags. 21. febrúar 2019, kemur fram að kærunefnd hafi metið framburð kæranda ótrúverðugan að verulegu eða öllu leyti. Var það mat að verulegu leyti byggt á því innra ósamræmi sem var á framburði hans hér á landi og því ósamræmi sem var á milli framburðar kæranda í þeim löndum sem hann kom til áður en hann kom til Íslands og þess sem hann hefur haldið fram hér á landi. Ósamræmið varðaði fyrst og fremst uppruna kæranda, fæðingardag hans og nafn.

Í tölvupósti frá forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um niðurstöðu arfgerðargreiningar sem kærandi er sagður hafa undirgengist, er fullyrt að kærandi sé ekki af pakistönskum uppruna en að öðru leyti séu niðurstöður arfgerðargreiningarinnar ekki afgerandi. Fullyrðingar í tölvupóstinum eru ekki frekar rökstuddar. Þessar upplýsingar varða ætlaðan erfðafræðilegan uppruna en ekki ríkisfang kæranda. Ennfremur, í ljósi fjölbreyttrar samsetningar þess hóps sem hefur pakistanskt ríkisfang telur kærunefnd ljóst að ofangreindur tölvupóstur hafi ekki þýðingu fyrir beiðni kæranda að því marki að skilyrði endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga gætu talist uppfyllt.

Kærandi vísar til þess að túlkun við skýrslutöku hjá lögreglu hafi verið ábótavant. Kærunefnd telur að skýrslutakan og skráning hennar kunni að hafa verið ófullnægjandi. Af þeim sökum var ekki byggt á henni í forsendum niðurstöðu kærunefndar að öðru leyti en því að vísað var til þess að af henni hefði mátti ráða að kærandi væri frá Pakistan, en þær upplýsingar voru í samræmi við framburð kæranda hjá dönskum stjórnvöldum. Því er ljóst að sá ágalli sem kann að hafa verið á skýrslutökunni hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu kærunefndar.

Þá telur kærunefnd að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku ekki gefa til kynna að þær upplýsingar sem kærunefnd byggði á þegar hún synjaði kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu ófullnægjandi eða rangar. Kærunefnd telur að enn leiki sami vafi á því hver kærandi sé, sbr. b-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá hafa framlögð gögn ekki raskað öðrum forsendum niðurstöðu kærunefndar um þennan þátt. Varðandi þá staðhæfingu kæranda að mál hans skuli fá sömu niðurstöðu og mál kærunefndar nr. KNU17120008 þá er það mat kærunefndar með tilliti til gagna málsins að þær einstaklingsbundnu aðstæður sem niðurstaða umrædds máls var byggð á séu ekki sambærilegar aðstæðum í máli kæranda.

Kærunefnd telur að ekkert í gögnum málsins raski því mati kærunefndar sem fram kemur í úrskurði hennar, dags. 21. febrúar 2019, að frásögn kæranda hafi verið að verulegu eða öllu leyti ótrúverðug. Að teknu tilliti til alls framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 21. febrúar 2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var birtur, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Ívar Örn Ívarsson                                                                                            Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta