Hoppa yfir valmynd
23. desember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 11/2019

Hinn 26. nóvember 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 11/2019:

 

Beiðni um endurupptöku

landsréttarmálsins nr. 42/2018:

Ákæruvaldið

gegn

Ingibjörgu Evu Löve

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

I. Inngangur

  1. Með bréfi, dags. 18. júní 2019, hefur Ingibjörg Eva Löve farið þess á leit að landsréttarmálið nr. 42/2018, sem dæmt var í Landsrétti 15. júní 2018, verði endurupptekið. Í bréfinu fer endurupptökubeiðandi þess á leit að réttaráhrifum dómsins verði frestað meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni, sbr. 2. mgr. 230. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
  2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um beiðnina.
  3. Þegar endurupptökunefnd tók málið fyrir 1. júlí 2019 ákvað Haukur Örn Birgisson að víkja sæti í málinu vegna vanhæfis. Varamaður hans var Ása Ólafsdóttir. Á fundi nefndarinnar 15. ágúst sama ár tók Ása sæti Hauks. Á fundinum var bókað að Ingibjörg Benediktsdóttir hafi ákveðið að láta af störfum í nefndinni. Varamaður hennar var Eiríkur Jónsson en hann var skipaður dómari við Landsrétt 16. sama mánaðar. Á fundi nefndarinnar 7. nóvember sama ár var bókað að dómsmálaráðherra hafi skipað Hrefnu Friðriksdóttur sem aðalmann í stað Ingibjargar og Guðmund Sigurðsson sem varamann í stað Eiríks. Á fundinum ákvað Hrefna að víkja sæti í málinu vegna vanhæfis. Á fundi nefndarinnar 20. sama mánaðar tók Guðmundur sæti í nefndinni. Þann 24. febrúar 2020 upplýsti Ása að dómsmálaráðherra hafi sett hana sem landsréttardómara frá 25. sama mánaðar til 30. júní sama ár og því hafi hún ákveðið að víkja sæti í málinu. Þann 9. júlí 2020 skipaði dómsmálaráðherra Guðrúnu Björgu Birgisdóttir til að taka sæti í nefndinni.
  4. Samkvæmt framansögðu skipa nefndina Gizur Bergsteinsson, Guðmundur Sigurðsson og Guðrún Björg Birgisdóttir.

     

    II. Málsatvik

     

  5. Með ákæru 25. ágúst 2017 var endurupptökubeiðandi ákærð fyrir tilraun til manndráps og vörslu fíkniefna og með ákæru 7. september sama ár fyrir brot gegn valdstjórninni. Í fyrri ákærunni var endurupptökubeiðanda og Diðriki Mason gefið að sök að hafa 5. júní 2017 ráðist inn á heimili Bruno John Roy Schelvis (hér eftir nefndur „brotaþoli“) og slegið hann nokkrum sinnum með hafnarboltakylfu sem þau hafi skipst á að beita. Samkvæmt ákærunni komu höggin meðal annars í höfuð brotaþola með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á hnakka, nokkrar skrámur og marbletti á hálsi, vinstri öxl, nokkrar skrámur á hægri handlegg og punktblæðingar í húð á aftanverðum framhandlegg, mar neðan við hægri hnéskel og hruflsár sem og minni hruflsár á ofanverðri rist sömu megin. Þá var endurupptökubeiðanda gefið að sök að hafa á meðan framangreindri atlögu stóð stungið brotaþola með hníf í brjóstkassa með þeim afleiðingum að hann hlaut djúpan skurð yfir fjórða rifbili hægra megin þannig að litlu mátti muna að snerti innri líffæri en stungan lá nálægt slagæð aftan við rifbeinið og hefði getað valdið alvarlegri blæðingu. Samkvæmt ákærunni varðaði háttsemi endurupptökubeiðanda við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en háttsemi meðákærða Diðriks við 2. mgr. 218. gr. sömu laga.
  6. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2017 var endurupptökubeiðandi sakfelld fyrir framangreind brot og gert að sæta fangelsi í fimm ár en til frádráttar refsingu hennar skyldi koma óslitið gæsluvarðhald sem henni hafði verið gert að sæta frá 5. júní 2017. Þá var endurupptökubeiðanda gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 800.000 kr. ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum.
  7. Í samræmi við yfirlýsingu endurupptökubeiðanda um áfrýjun skaut ríkissaksóknari málinu til Hæstaréttar 17. nóvember 2017. Í samræmi við 78. gr. laga nr. 49/2016 um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig) var málið rekið fyrir Landsrétti frá 1. janúar 2018. Fyrir Landsrétti krafðist ákæruvaldið þess að hinn áfrýjaði dómur yrði staðfestur. Endurupptökubeiðandi krafðist aðallega sýknu en til vara að henni yrði gerð vægasta refsing sem lög leyfðu og að refsingin yrði bundin skilorði. Þá krafðist hún þess að skaðabætur til brotaþola yrðu lækkaðar verulega.
  8. Með dómi Landsréttar 15. júní 2018 í málinu nr. 42/2018 var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu endurupptökubeiðanda staðfest með vísan til forsendna dómsins.
  9. Með beiðni 25. júní 2018 óskaði endurupptökubeiðandi eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Með ákvörðun Hæstaréttar 21. ágúst 2018, nr. 2018-154, var beiðni endurupptökubeiðanda hafnað. Taldi rétturinn skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 ekki fullnægt. Þá væru ekki efni til að beita heimild3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu.

     

    III. Beiðni endurupptökubeiðanda

     

  10. Endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína á því að verulegar líkur séu á því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 og að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið sama lagaákvæðis.
  11. Endurupptökubeiðandi kveður sig hafa verið ranglega sakfellda fyrir tilraun til manndráps. Kveður hún ósannað að hún hafi stungið brotaþola eða að ásetningur hennar hafi staðið til þess. Í dómi héraðsdóms, sem Landsréttur hafi staðfest með vísan til forsendna, sé komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi ætlað að beita brotaþola ofbeldi. Sú niðurstaða samræmist ekki því að hún sé fundin sek um tilraun til manndráps. Endurupptökubeiðandi telur að sú niðurstaða dómsins að hún hafi lagt til brotaþola með hníf sem hún bar á sér fullnægi ekki þeim kröfum sem gerðar séu til sönnunar í sakamálum. Í málinu sé óumdeilt að skurðáverki brotaþola hafi ekki verið lífshættulegur. Samkvæmt því sé það ósannað að hún hafi brotið gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
  12. Endurupptökubeiðandi kveður rannsókn lögreglu hafa leitt í ljós að á vettvangi hafi vitnið Ísak verið með vasahníf og vitnið María Rún með skæri en hvorki hnífurinn né skærin hafi verið rannsökuð með tilliti til lífsýna. Telur endurupptökubeiðandi þetta hafa átt að leiða til þess að málinu væri vísað frá héraðsdómi.
  13. Þá finnur endurupptökubeiðandi að því að héraðsdómur hafi ekki vikið að framangreindum atriðum ef frá sé talin reifun á vitnisburði vitnisins Maríu Rúnar um að hún hafi ekki notað skærin. Ekkert sé minnst á að vitnið Ísak hafi viðurkennt hjá lögreglu að hafa dregið upp vasahnífinn. Hafi héraðsdómur átt að sjá til þess að málið væri betur upplýst og láta ákæruvaldið bera hallann af skorti á sönnun í þeim efnum.
  14. Endurupptökubeiðandi bendir á að ekki hafi verið teknar ljósmyndir af áverkum brotaþola. Kveður hún brotaþola hafa hlotið skurðáverka en ekki stunguáverka líkt og staðfest sé í framburði Davíðs Björns Þórissonar læknis. Í þessu sambandi vísar endurupptökubeiðandi til þess að henni og brotaþola beri ekki saman um hvernig hann hafi hlotið skurðáverkann. Þá beri þeim ekki saman um hvort þeirra hafi átt frumkvæði að því að draga upp hnífinn. Því standi aðeins orð brotaþola gegn orðum endurupptökubeiðanda.
  15. Að því er snertir framburð Maríu Rúnar verði að hafa í huga að hún hafi verið orðin kærasta brotaþola þegar hún gaf skýrslu fyrir héraðsdómi en hjá lögreglu hafi hún ekki sagst hafa séð brotaþola stunginn. Fyrir dómi hafi María Rún sagst hafa séð eina hnífsstungu en heyrt um hinar hnífsstungurnar. Telur endurupptökubeiðandi það skjóta skökku við vegna þess að aðeins hafi verið um að ræða einn skurðáverka.
  16. Að því er snertir framburð Ísaks bendir endurupptökubeiðandi á að fyrir dómi hafi hann ekki sagst hafa séð brotaþola stunginn. Hjá lögreglu hafi hann aftur á móti sagst hafa séð brotaþola stunginn tvisvar í bakið.
  17. Endurupptökubeiðandi kveður það alrangt sem fram komi í dóminum að hún og brotaþoli hafi ekki tekist á um hnífinn en það komi fram í skýrslu vitnisins Ísaks og skýrslu meðákærða Diðriks fyrir dómi og framburði brotaþola hjá lögreglu.
  18. Endurupptökubeiðandi kveður það jafnframt rangt sem fram komi í dóminum að vitnin Ísak og Maríu Rún hafi ekki getað blandast inn í átökin með þeim afleiðingum að brotaþoli hafi hlotið áverka á bringu eins og ráða megi af skýrslum þeirra fyrir dómi. Ísak hafi verið blóðugur við handtöku. Þá hafi verið blóð á treyju sem María Rún hafi verið í.
  19. Þá gagnrýnir endurupptökubeiðandi að trúnaður hafi verið lagður á framburð brotaþola í ljósi þess að hann hafi ekki borið á sama veg frá upphafi og hafi þurft aðstoð vitna til að rifja upp atburðina.
  20. Að endingu finnur endurupptökubeiðandi að samningu héraðsdóms en þar hafi framburðir endurupptökubeiðanda og vitna hjá lögreglu verið raktir umfram tilefni. Þá finnur hún að því að neitun hennar hafi ekki verið borin skýrlega undir brotaþola.

     

    IV. Umsögn ríkissaksóknara

     

  21. Með bréfi, dags. 19. desember 2019, sendi ríkissaksóknari athugasemdir sínar í tilefni af beiðni endurupptökubeiðanda. Kvaðst ríkissaksóknari vísa til hjálagðrar umsagnar sinnar í tilefni af beiðni endurupptökubeiðanda um áfrýjunarleyfi þar sem hún hafi teflt fram og fengið umfjöllun Hæstaréttar um þau meginatriði sem beiðni hennar sé byggð á. Væri einsýnt að hafna bæri beiðninni.
  22. Í umsögn ríkissaksóknara til Hæstaréttar, dags. 17. júlí 2018, er vísað til þess að við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti hafi endurupptökubeiðandi og brotaþoli gefið viðbótarskýrslur og hafi sá framburður í öllum meginatriðum verið samhljóða framburði þeirra fyrir héraðsdómi. Jafnframt hafi verið hlýtt á hluta af framburði vitnisins Maríu Rúnar fyrir héraðsdómi.
  23. Vegna beiðni endurupptökubeiðanda um áfrýjunarleyfi tók ríkissaksóknari fram að vitnið María Rún hafi í framburði sínum fyrir héraðsdómi ekki getað staðfest að skærin hafi verið blóðug. Þá hafi vitnið María Mey heldur ekki getað staðfest að vitnið María Rún hafi verið með blóðug skæri. Ríkissaksóknari kvað ekki hafi farið fram nákvæma mælingu á breidd og dýpt þess skurðar sem brotaþoli hafi hlotið á brjóstkassa. Samkvæmt áliti Davíðs Björns Þórissonar læknis hafi skurðurinn verið 2 sm á breidd og 2-3 sm á dýpt. Að því er snertir þann hníf sem endurupptökubeiðandi hafi borið þá hafi mesta breidd blaðsins verið 2,5 sm og blaðlengd 9 sm. Kvað ríkissaksóknari breidd hnífsoddsins augljóslega vera mun minni en 2,5 sm og blaðið ná mestri breidd þegar komið væri upp að miðju þess. 

    V. Niðurstaða

  24. Samkvæmt 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 getur endurupptökunefnd leyft að mál sem dæmt hefur verið í Landsrétti eða Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 228. gr. laganna. Í 1. mgr. 228. gr. segir að nú hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur sé liðinn og geti þá endurupptökunefnd orðið við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, um að málið verði endurupptekið ef einhverju þeirra skilyrða, sem nánar eru tilgreind í stafliðum a til d, er fullnægt.
  25. Þau skilyrði sem koma fram í stafliðum a til d eru svohljóðandi:
    1. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
    2. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
    3. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
    4. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
  26. Eins og áður greinir er beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku byggð á því að við meðferð málsins hafi ekki verið sýnt fram á að hún hafi stungið brotaþola í brjóstið með þeim hníf sem hún hafði meðferðis umrætt kvöld. Telur hún að skurðáverka brotaþola megi rekja til afskipta vitnisins Ísaks eða vitnisins Maríu Rúnar en ekki hafi verið samræmi í framburði þeirra fyrir dómi og hjá lögreglu. Telur hún að það hafi verið mistök lögreglu að láta ekki rannsaka lífsýni á vasahníf sem Ísak beitti í átökunum og skærum sem María Rún hafði meðferðis. Þá sé það alrangt að hún og brotaþoli hafi ekki tekist á um hnífinn. Hvað sem þessu líði sé það ósannað að hún hafi haft ásetning til að bana brotaþola.
  27. Fyrir héraðsdómi bar endurupptökubeiðandi að hún og brotaþoli hafi átt í ástarsambandi en á þessum tíma hafi því verið lokið. Hafi endurupptökubeiðandi reiðst þegar vitnið María Rún hafi svarað í síma brotaþola og ekki viljað gefa henni samband við hann. Kvaðst hún hafa farið heim til brotaþola í þeim tilgangi að hræða hann. Hafi hún farið bakdyramegin inn í húsið og þannig komist inn á gang sem hafi legið að innri hurð íbúðarinnar. Kvað hún eitthvað hafa „snappað“ í höfðinu á sér þegar brotaþoli hafi opnað dyr íbúðarinnar og hún þá slegið hann í höfuðið með hafnarboltakylfu. Í kjölfarið hafi komið til átaka á milli þeirra á ganginum. Kvað hún brotaþola hafa hrint sér og hún endað með því að sparka honum frá sér svo hún gæti staðið upp. Brotaþoli hafi þá otað að henni þeim hníf sem hún hafi haft meðferðis en hún gripið um hnífinn og náð honum. Við það hafi hún skorið sig. Dómfelldi Diðrik hafi þá komið að og slegið hönd hennar í vegginn. Það hafi hann ekki þurft að gera því hún hafi aldrei ætlað sér að nota hnífinn. Þegar hún hafi litið niður hafi hún ekkert séð nema blóð og þegar hún hafi litið upp hafi brotaþoli verið „allur út í blóði“. Í kjölfarið hafi hún reynt að koma sér í burtu en það næsta sem hún viti sé að lögregla skipi henni að gefast upp og færa hendur fyrir aftan bak. Aðspurð kvaðst hún sig og brotaþola hafa verið ein á ganginum og tók fram að hún hafi ekki séð blóð á brotaþola fyrr en eftir að hún náði af honum hnífnum. Kvað hún dómfellda Diðrik hafa verið fyrir utan húsið.
  28. Fyrir héraðsdómi bar dómfelldi Diðrik að hann hafi klemmt hurðina inn í íbúðina til þess að varna því að fleiri kæmu út á meðan átökum endurupptökubeiðanda og brotaþola stæði. Þegar allir hafi verið komnir fyrir utan húsið hafi hann heyrt einhvern segja „hnífur“ og þá séð endurupptökubeiðanda liggja á bakinu og sparka frá sér. Kvaðst dómfelldi Diðrik þá hafa gripið í hönd hennar, slegið henni utan í vegg og síðan kastað hnífnum í átt að steingirðingu. Kvað hann endurupptökubeiðanda hafa ríghaldið í hnífinn. Aðspurður kvað hann endurupptökubeiðanda hafa legið þegar þetta hafi átt sér stað. Kvað hann þetta hafa verið fyrir utan húsið og enga aðra hafa reynt að ná af henni hnífnum.
  29. Fyrir héraðsdómi kvað brotaþoli samband sitt og endurupptökubeiðanda hafi verið stormasamt. Kvað hann endurupptökubeiðanda hafa hringt í sig umrætt kvöld og hann sagt henni að sambandinu væri lokið. Kvaðst hann hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Þegar hann hann opnað dyrnar að íbúð sinni hafi hann verið laminn með hafnarboltakylfu. Hann hafi þá ýtt endurupptökubeiðanda út og lent í átökum við dómfellda Diðrik. Við það hafi hann brotið á sér fingurinn. Kvaðst hann muna eftir því að endurupptökubeiðandi hafi verið með hníf og að hann hafi manað hana til að stinga sig. Hún hafi stungið hann beint í brjóstkassann. Þetta hafi verið á gangi fyrir framan íbúðina. Í kjölfarið hafi hann hlaupið á eftir Diðriki út. Kvaðst hann þá hafa séð Maríu Rún ofan á Evu sem hafi haldið í hnífinn. Hann hafi þá rifið Maríu Rún ofan af Evu og skipað henni að fara. Síðan hafi þau öll þrjú verið í íbúðinni, þ.e. hann sjálfur, endurupptökubeiðandi og dómfelldi Diðrik. Lögregla hafi í framhaldi af því komið á vettvang.
  30. Fyrir héraðsdómi bar vitnið María Rún að hún hafi séð brotaþola stunginn. Aðspurð hvort brotaþoli hafi verið stunginn á gangi fyrir framan íbúðina svaraði hún því játandi. Kvað vitnið endurupptökubeiðanda í kjölfarið hafi hlaupið að henni með hnífinn á lofti. Kvaðst vitnið einhvern veginn hafa náð að hlaupa út úr húsinu. Þegar hún hafi verið komin út hafi hún ekki talið sig geta skilið brotaþola eftir blóðugan og hlaupið aftur inn. Endurupptökubeiðandi hafi þá ráðist að henni á nýjan leik og hún þá hlaupið út þar sem þær hafi lent í slagsmálum. Fyrir héraðsdómi var sérstaklega borinn undir vitnið framburður hennar hjá lögreglu þar sem hún kvaðst ekki hafa séð brotaþola stunginn. Jafnframt var hún spurð út í ósamræmi milli þess hvar á ganginum brotaþoli segðist hafa verið stunginn og hvar hún segði hann hafa verið stunginn. Kvaðst hún muna atburði betur núna en fyrir lögreglu þar sem hún hafi verið með óráði þegar hún var handtekin.
  31. Fyrir héraðsdómi bar vitnið Ísak að þegar brotaþoli hafi opnað dyr íbúðarinnar hafi hafnaboltakylfa flogið í andlitið á honum. Í kjölfarið hafi komið til áfloga milli nokkurra aðila sem hann kvaðst ekki muna vel eftir. Lýsti vitnið því svo að endurupptökubeiðandi hafi að endingu staðið ein inn í stofu íbúðarinnar og brotaþoli verið á gangi hennar. Endurupptökubeiðandi hafi þá reynt að stinga vitnið en það skellt hurðinni á hana. Vitnið hafi síðan tekið utan um endurupptökubeiðanda, farið með hana út þar sem hann hafi verið ofan á henni og haldið í þá hönd sem hún hafi haldið um hnífinn. Kvaðst vitnið dómfellda Diðrik síðan hafa komið og tekið hnífinn af henni á meðan hann hafi haldið endurupptökubeiðanda.
  32. Fyrir héraðsdómi bar vitnið María Mey að hún hafi verið á gangi og séð hvar karlmaður hafi legið ofan á annarri manneskju fyrir utan íbúðina. Karlmaðurinn hafi hrópað á vitnið að það yrði að hjálpa sér og sagt „hún stakk hann“. Á meðan hún hafi hringt í lögregluna hafi fólk farið inn í og komið út úr íbúðinni. Kona sem hafi komið út hafi hrópað „hvar er kylfan mín“ og karl sem hafi verið með henni hafi sagst hafa falið hana bak við bíl. Síðan hafi konan hrópað „hvar er hnífurinn minn“. Konan hafi vafið handklæði utan um höndina á sér og byrjað að lemja í rúðu á glugga íbúðarinnar. Hún hafi síðan bankað á rúður og opnað glugga á íbúðinni og farið inn um hann.
  33. Þá gaf skýrslu Davíð Björn Þórisson læknir. Lýsti vitnið því að skurðurinn á brjósti brotaþola hafi verið 2-3 sm djúpur og 2 sm langur mælt með auga. Kvað vitnið litlu hafa munað að stungan væri lífshótandi því hún gengi nærri slagæð og lunga brotaþola. Svaraði vitnið því játandi að hending ein hafi ráðið að ekki fór verr. Aðspurt kvaðst vitnið ekki geta sagt til um hvort sárið væri stungu- eða skurðsár.
  34. Fyrir héraðsdómi gáfu fleiri vitni skýrslu en óþarft er að rekja framburði þeirra hér.
  35. Héraðsdómur taldi framburð endurupptökubeiðanda ótrúverðugan og að hvati heimsóknar hennar hafi verið afbrýðisemi eða reiði. Taldi dómurinn því sannað að ásetningur hennar hafi staðið til að beita brotaþola ofbeldi.
  36. Að því er snerti mat á sönnunargildi framburða tók héraðsdómur fram að allir hlutaðeigandi hafi verið undir verulegum áhrifum fíkniefna. Því væri ljóst að skynjun þeirra allra og minni hafi að einhverju leyti verið skert eða brenglað eins og þau sjálf hafi borið um.
  37. Að því er snertir þá atlögu endurupptökubeiðanda sem var talin fela í sér tilraun til manndráps segir orðrétt í dóminum:

    „Ekki verður fullyrt annað en að hnífur, sem ágreiningslaust er að ákærða átti og bar jafnan á sér, hafi fyrst sést eftir að til átaka kom á milli ákærðu og brotaþola. Heldur ákærða því fram að hún hafi ekki vitað fyrr en brotaþoli otaði hnífnum að henni og hafi hún þá reynt að ná honum, sem hafi að lokum tekist. Hafi ákærði Diðrik í kjölfarið afvopnað hana og taldi hún hugsanlegt að hnífurinn hefði farið í brotaþola í þessum átökum. Brotaþoli bar á hinn bóginn að ákærða hefði otað hnífnum að honum og hefði hann sagt henni að stinga sig, sem hún hafi gert. Hafi þau þá verið stödd á ganginum framan við útidyr. Ákærði Diðrik kvaðst hafa heyrt kallað „hnífur“ og séð ákærðu með hann í hendinni. Hafi hann þá afvopnað hana. Kvaðst hann ekki muna eftir öðrum nálægt þeim. Bar hann ákveðið að þegar hér var komið sögu hafi ákærða legið á bakinu í útitröppunum. Framburður ákærða Diðriks fær stoð af vitnisburði Ísaks sem kvaðst hafa haldið ákærðu í útitröppunum þar til hún var afvopnuð og kallað eftir hjálp. Kemur það heim og saman við vitnisburð Maríu Meyjar Stefánsdóttur.

    Þegar til framangreinds er litið telur dómurinn framburð ákærðu Ingibjargar Evu ótrúverðugan. Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu kannaðist hún ekki við að hnífur hefði komið við sögu í átökunum að Karlagötu og bar fyrir sig minnisleysi.  Hvarf hún frá þeim framburði síðar og skýrði frá eins og áður er rakið. Að mati dómsins þykir sannað, einkum þegar litið er til ótrúverðugra skýringa hennar, að hún hafi haft hnífinn meðferðis þegar hún fór heim til brotaþola. Þá fær framburður hennar um að brotaþoli hafi otað hnífnum að henni og að þau hafi í kjölfarið tekist á um hnífinn enga stoð í framburði meðákærða eða vitna. Tilteknir áverkar á milli fingra ákærðu styðja þessa frásögn hennar ekki. Ekkert í málinu styður að vitnin Ísak eða María Rún hafi blandast í átökin með þeim hætti að telja megi að þau hafi átt þátt í því að brotaþoli hlaut áverka á bringu.

    Dómurinn metur á hinn bóginn framburð brotaþola trúverðugan en hann hefur borið á sama veg um að ákærða hafi veitt honum áverka með hnífnum, á slysadeild, í skýrslutöku hjá lögreglu og hér fyrir dómi.

    Að framangreindu virtu telur dómurinn sannað að ákærða hafi dregið upp fjaðurhníf sinn og stungið brotaþola innandyra á gangi framan við útidyr en í framhaldinu hafi ákærða verið afvopnuð í útitröppum.

    Þótt ósannað sé að sá ásetningur hafi vaknað hjá ákærðu á fyrri stigum að ráða brotaþola bana var atlaga hennar að honum heiftúðug. Linnti hún ekki látum þó að brotaþoli stæði vopnlaus frammi fyrir henni, þá þegar sár eftir höfuðhöggið sem hún hafði veitt honum. Lagði hún til hans með hnífnum, sem hún vissi að var flugbeittur. Gat henni ekki dulist á verknaðarstundu að mannsbani gæti hlotist af atlögu í brjóstkassa með svo hættulegu vopni. Eins og fram kemur í læknisvottorði og vætti Davíðs B. Þórissonar lá skurðurinn nærri slagæð og lunga og hefði hæglega getað haft í för með sér lífshættulega blæðingu. Verður ákærða því sakfelld fyrir tilraun til manndráps með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut áverka á brjóstkassa eins lýst er í ákæru. Brot ákærðu er rétt heimfært til ákvæða í ákæru.“

  38. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 er heimilt að verða við beiðni manns um endurupptöku sakamáls ef verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Af dómi héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti að þessu leyti með vísan til forsendna, verður ráðið að mat á trúverðugleika framburða brotaþola og endurupptökubeiðanda réð mestu um að endurupptökubeiðandi var talin hafa gerst sek um tilraun til manndráps en framburður hins fyrrnefnda fékk að nokkru leyti stoð í framburði vitna. Í dómi héraðsdóms kemur fram að brotaþoli hafi borið á sama veg á slysadeild, í skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi. Að því er snertir ætlað misræmi á milli framburðar brotaþola á bráðamóttöku annars vegar og hjá lögreglu og fyrir dómi hins vegar er til þess að líta að ekki var um formlega skýrslutöku að ræða en þegar brotaþoli kvaðst ekki vita hver hafi stungið hann var hann illa áttaðar og hafði verið lagður inn á bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss.
  39. Í beiðni sinni bendir endurupptökubeiðandi á að henni og brotaþola beri ekki saman um hvort þeirra hafi átt frumkvæði að því að draga upp hnífinn. Af þessu tilefni skal tekið fram að lög nr. 88/2008 gera ráð fyrir að dómari meti sönnunargildi framburðar ákærða, þar á meðal trúverðugleika hans, sbr. 115. gr. laganna. Þá er gert ráð fyrir því í 7. mgr. 122. gr. sömu laga að við skýrslugjöf vitnis leiti dómari eftir þörfum vitneskju um atriði sem varða mat á trúverðugleika þess. Ákvæði XXXIV. kafla laganna gera aftur á móti ekki ráð fyrir að endurupptökunefnd endurmeti trúverðugleika framburða ákærðu og vitna fyrir dómi. Í dómi héraðsdóms var framburður brotaþola metinn trúverðugur. Þrátt fyrir að í dóminum sé ekki tekin bein afstaða til þess hvernig endurupptökubeiðandi bar sig að þegar hún stakk brotaþola verður ekki talið að vegna þessa hafi verið leiddar verulegar líkur að því að sönnunargögn hafi verið rangt metin þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins.
  40. Í framburði endurupptökubeiðanda fyrir dómi kvaðst hún ekki hafa séð að brotaþoli væri blóðugur fyrr en hún eftir að hún náði af honum hníf sem hún átti. Kvað hún það hafa átt sér stað á gangi sem sé fyrir framan íbúð hans. Með hliðsjón af þessu og þegar litið er til annars vegar framburðar brotaþola um að það hafi verið á ganginum sem endurupptökubeiðandi lagði til hans með hnífnum og hins vegar framburðar endurupptökubeiðanda um að þau hafi verið ein á ganginum er þau tókust á um hnífinn verður ekki talið að verulegur líkur hafi verið leiddar að því að vitnin Ísak eða María Rún hafi átt hlut að máli.
  41. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að verulegar líkar hafi verið leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.
  42. Af gögnum málsins verður heldur ekki séð að meðferð málsins hafi verið haldin verulegum göllum svo sem endurupptökubeiðandi heldur fram. Eru þær ástæður sem endurupptökubeiðandi vísar til með öllu haldlausar. Samkvæmt því verður ekki talið að skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 sé uppfyllt.
  43. Með vísan til þessa verður beiðni um endurupptöku landsréttarmálsins nr. 42/2018 hafnað.
  44. Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á afgreiðslu máls þessa en þær helgast af tíðum og ófyrirséðum breytingum á skipan nefndarinnar.

Úrskurðarorð

Beiðni Ingibjargar Evu Löve um endurupptöku landsréttarmálsins nr. 42/2018, sem dæmt var í Landsrétti 15. júní 2018, er hafnað.

Gizur Bergsteinsson

Guðmundur Sigurðsson

Guðrún Björg Bjarnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta