Sumarbúðir fyrir ungmenni með ADHD og/eða einhverfu í Háholti í sumar
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, undirrituðu í dag samning um sumarbúðir í Háholti fyrir ungmenni með ADHD og/eða einhverfu í sumar.
Sumarbúðirnar eru ætlaðar ungmennum á aldrinum 8-18 ára með ADHD og/eða einhverfu greiningu með það að markmiði að fjölga valkostum um afþreyingu fyrir þennan hóp, rjúfa félagslega einangrun þeirra ásamt því að létta álagi af fjölskyldum barna vegna afleiðinga Covid-19.
Sumarbúðirnar verða starfræktar frá júní fram í ágúst í sumar og munu 10-20 ungmenni njóta dvalarinnar saman í eina til tvær vikur í senn. Áætlað er að taka á móti 40-80 ungmennum í Háholti í sumar. Búið er að opna fyrir umsóknir í ævintýrabúðirnar. Hægt er að sækja um hér. Umsóknarfrestur er til og með 31. maí.
Það er einnig búið að opna fyrir umsóknir um sumarstarf í ævintýrabúðunum. Við hvetjum námsmenn til þess að sækja um hjá okkur, sérstaklega innan heilbrigðisgeirans. Þarna er tækifæri til þess að fá dýrmæta reynslu í skemmtilegu og líflegu umhverfi. Hægt er að sækja um hér. Umsóknarfrestur fyrir sumarstarf er til og með 31. maí.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það er virkilega ánægjulegt að vera búinn að skrifa undir þennan samning um sumarbúðirnar í Háholti. Það er staðreynd að viðkvæmir hópar verða fyrir miklum áhrifum vegna Covid-19 faraldursins og óvissan sem fylgir hefur mikil áhrif á börn og ungmenni. Það er dásamlegt að vera hér í Háholti og ég er sannfærður um það að þau börn og ungmenni sem hingað koma í sumar eigi eftir að njóta dvalarinnar.”