Nr. 182/2024 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 29. febrúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 182/2024
í stjórnsýslumálum nr. KNU23050079 og KNU23050078
Kæra […],
[…]
og barna þeirra
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 11. maí 2023 kærðu […], fd. […], ríkisborgari Jórdaníu (hér eftir K) og […], fd. […], ríkisborgari Jórdaníu og Palestínu (hér eftir M), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 27. apríl 2023 um að synja kærendum og börnum þeirra, […], fd. […], ríkisborgari Jórdaníu (hér eftir A) og […], fd. […], ríkisborgari Jórdaníu (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim og börnum þeirra verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim og börnum þeirra verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim og börnum þeirra verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefjast kærendur þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka málið til lögmætrar meðferðar að nýju.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi 30. desember 2022 fyrir sig og börn þeirra. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun 6. og 22 febrúar 2023 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 27. apríl 2023, synjaði Útlendingastofnun kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærendum og börnum þeirra var jafnframt brottvísað frá landinu og kærendum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Voru þær ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála 11. maí 2023. Kærunefnd barst greinargerð kærenda 25. maí 2023. Kærunefnd bárust viðbótargögn frá kærendum 13. júlí og 16. ágúst 2023.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsóknir sínar um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki sínu vegna sögusagna um að M hafi skipt um trú og gerst sjía múslimi.
Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur væru ekki flóttamenn og að þeim skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kærenda, kemur fram að þau væru svo ung að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við þau. Fram kom að umsóknir barna kærenda væru grundvallaðar á framburði foreldra þeirra og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að börnum kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis.
Kærendum var brottvísað frá landinu og þeim ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Fram kom að yfirgæfu kærendur landið sjálfviljug innan frests sem þeim hefði verið veittur yrði endurkomubann þeirra fellt niður. Börnum kærenda var brottvísað frá landinu.
Útlendingastofnun tilkynnti kærendum og börnum þeirra jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kærenda
Í sameiginlegri greinargerð til kærunefndar vísa kærendur til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar hvað varðar málsatvik, kröfur og lagarök. Í greinargerð til Útlendingastofnunar kemur fram að fjölskyldan sé múslimatrúar og tilheyri flokki súnní múslima sem séu í miklum meirihluta í Jórdaníu og njóti ágætrar stöðu í landinu. Í Jórdaníu sé almennt leyfilegt að iðka helstu trúarbrögð en óheimilt sé að skipta um trú. Ástæðu flótta fjölskyldunnar frá heimaríki megi rekja til ferðar M til Dúbaí haustið 2021 þar sem hann hafi hitt menn frá Jórdaníu sem hafi tilheyrt flokki sjía múslima. Í kjölfar heimkomu M hafi farið af stað sögusagnir um að hann hafi skipt úr því að vera súnní múslimi yfir í sjía trú. Slíkt sé óheimilt í landinu og álitið mikill glæpur hjá öfgatrúarhópum. Vegna sögusagna hafi fjölskyldunni farið að berast símtöl með hótunum frá ónafngreindum einstaklingum og eitt sinn hafi verið skotið með byssu á bíl fjölskyldunnar. Lögregla hafi verið fengin til að rannsaka málið en ekkert hafi komið út úr þeirri rannsókn. Þá hafi M átt á hættu að verða handtekinn og settur í fangelsi.
Kærendur vísa til skýrslna alþjóðlegra stofnana og mannréttindasamtaka máli sínu til stuðnings. Kærendur telja að þar komi skýrt fram að hvers kyns trúarsmánun og guðlast sé ólögmætt í landinu og að slíkt varði þriggja ára fangelsi. Kærendur byggi á því að víða í heimaríki þeirra sé horft á trúskipti sem guðlast sem geti haft lagalegar afleiðingar, jafnvel þó að lög landsins heimili trúskipti á yfirborðinu. Þá horfi þjóðfélagið í heimaríki þeirra oft niður á þá sem hafa skipt um trú og eigi þeir einstaklingar á hættu að verða fyrir mismunun og ofbeldi.
Aðalkrafa kærenda er sú að þeim og börnum þeirra verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem þau eigi á hættu ofsóknir og áreiti vegna meintra trúarskipta. Þrátt fyrir að fjölskyldan hafi ekki skipt um trú telji áhrifamiklir einstaklingar og yfirvöld í landinu að þau hafi gert það. Ómögulegt sé að vinda ofan af þeim misskilningi og því eigi fjölskyldan á hættu að sæta meðferð sem nái því alvarleikastigi að teljast ofsóknir, sbr. 38. gr. laga um útlendinga. Allt bendi til þess að yfirvöld muni ekki verja þau gegn slíkum ofsóknum og megi jafnvel ætla að þau muni standa að baki ofsóknum. Kærendur telji yfirvöld í heimaríki þeirra ekki geta veitt þeim vernd. Því beri að veita kærendum og börnum þeirra alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Varakrafa kærenda er sú að þeim og börnum þeirra verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamenn hér á landi samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærendur hafi réttmætan ótta við að verða fyrir vanvirðandi og ómannúðlegri meðferð með vísan til heimilda um aðstæður einstaklinga sem hafi skipt um trú í heimaríki þeirra.
Kærendur telji sig ekki geta fengið raunverulega vernd í öðrum landshlutum í Jórdaníu þar sem ofsóknir á hendur kærendum séu af hálfu öfgahópa sem séu staðsettir um allt land. Það sé hvorki raunhæft né sanngjarnt að ætlast til þess að þau setjist að annars staðar í heimaríki sínu. Þá beri að líta til þess að fjölskyldan sé í viðkvæmri stöðu með nýfætt ungbarn.
Þrautarvarakrafa kærenda er sú að þeim og börnum þeirra verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærendur vísa til þess að heimilt sé að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, m.a. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærendur byggja á að sérstaklega þurfi að líta til þeirrar viðkvæmu stöðu sem fjölskyldan sé í með nýfætt ungabarn. Þá beri að líta til þess að K hafi ekki greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu vegna sjúkdóms síns.
Þá telji kærendur að fella beri ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi vegna annmarka á heildarmati á sérstökum og persónulegum aðstæðum barna kærenda. Kærendur gera athugasemdir við takmarkaða umfjöllun í ákvörðunum Útlendingastofnunar um hversu þungbært og hættulegt sé fyrir fjölskylduna að fara með ung börn aftur til heimaríkis þeirra og hvað bíði barna þeirra þar. Kærendur telji að skyldubundið og einstaklingsbundið heildarmat á því hvað sé börnum kærenda fyrir bestu hafi ekki verið fullnægjandi í ákvörðunum Útlendingastofnunar. Einkum hafi verið litið til rétts barnanna til heilbrigðisþjónustu og menntunar en ekki hafi verið metið hvernig umönnun, vernd og öryggi barnanna yrði háttað og viðkvæm staða þeirra. Þá hafi einkum verið litið til skýrslna um almennar aðstæður í Jórdaníu en ekki litið til sérstakra og persónulegra aðstæðna barna kærenda. Kærendur vísa til meginreglu barnaréttar um að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang við alla ákvarðanatöku hvað varðar börn, til athugasemdar nr. 14 frá nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna með skýringum á inntaki 1. mgr. 3. gr. Barnasáttmálans og framangreindrar meginreglu og til máls nefndar um réttindi barna gegn Danmörku nr. 3/2016 máli sínu til stuðnings.
Kærendur vísa almennt til laga um útlendinga, Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. stjórnskipunarlög nr. 33/1944, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 1951, alþjóðasamnings um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979 og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Kærendur telja að með endursendingu þeirra til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telja kærendur að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað jórdönskum vegabréfum fyrir sig og barn sitt, A. Að því virtu hafi það verið mat Útlendingastofnunar að kærendur og A hafi sannað auðkenni sitt með fullnægjandi hætti. Þá kemur fram í gögnum málsins að barn kærenda, B, sé fætt hér á landi. Leggur kærunefnd því til grundvallar, með vísan í lög um jórdanskan ríkisborgarrétt, að kærendur og börn þeirra séu jórdanskir ríkisborgarar.
Við meðferð málsins hefur M greint frá því að vera ríkisborgari Palestínu. Í ákvörðun M lagði Útlendingastofnun ekki til grundvallar að hann væri ríkisborgari Palestínu. Kærunefnd telur hins vegar ekki tilefni til að draga í efa að M sé ríkisborgari Palestínu og leggur til grundvallar við úrlausn málsins að M sé með ríkisfang bæði í Jórdaníu og Palestínu. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var þess getið að K væri ríkisborgari Jórdaníu og Palestínu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun svaraði K því játandi að vera ríkisborgari Jórdaníu og Palestínu. Síðar í viðtalinu óskaði K hins vegar eftir því að leiðrétta svar sitt og greindi frá því að vera ekki ríkisborgari Pelestínu. Kærunefnd leggur því einungis til grundvallar að K sé ríkisborgari Jórdaníu.
Þar sem kærendur og börn þeirra eru ríkisborgarar Jórdaníu og eins og aðstæðum er háttað í máli þessu telur kærunefnd aðeins þörf á að fjalla um aðstæður kærenda og barna þeirra í Jórdaníu, sbr. 2. mgr. A.-liðar 1. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
Réttarstaða barna kærenda
Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.
Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með hagsmuni þess að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.
Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.
Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Jórdaníu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- 2021 Report on International Religious Freedom: Jordan (U.S. Department of State, 2. júní 2022);
- 2022 Country Reports on Human Rights Practices: Jordan (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
- 2022 Report on International Religious Freedom: Jordan (U.S. Department of State, 15. maí 2023);A systematic review on the healthcare system in Jordan; Strengths, weaknesses, and opportunities for improvement (World Journal of Advanced Research and Reviews, 28. júní 2023);
- Amnesty International Report 2022/23 – Jordan (Amnesty International, 28. mars 2023);
- Anti- Shi´ism without the Shi´a: Salifi Sectarianism in Jordan (Jonas Wagemakers, Maydan an online publication of the AbuSulayman Center for Islamic Studies at George Mason University, 17. október 2016);
- Arab Charter on Human Rights (League of Arab States, UN Digital Library. Sótt 19. febrúar 2024);
- Arabic press review: Jordan thwarted Islamis State ´terrorist plot´ (Middle East Eye, 7. júní 2023. Sótt 19. febrúar 2024);
- Comprehensive National plan for Human rights, for the years 2016-2025 (Ministry of Interior, síðast sótt 19. febrúar 2024).
- Freedom in the world 2023 – Jordan (Freedom House, 2023);
- Hver er munurinn á súnnítum og sjíta-múslimum? (Haraldur Ólafsson mannfræðingur, Vísindavefurinn, 7. nóvember 2002. Sótt 19. febrúar 2024);
- Jordan County Commercial Guide – Healthcare (U.S. International Trade Administration, 14. desember 2022. Sótt 19. febrúar 2024);
- Jordan Country Report 2022, (BTI transformation index. Sótt 19. febrúar 2024);
- Jordan´s Encounter with Shiism (Hudson Institute, 17. ágúst 2010);
- Jordan opens its doors to world´s Shia Muslims to visit holy shrines (Shia Waves, 26. September 2022);
- Jordan: Parliament Passes Human Rights Reforms (Human Rights Watch, 4. október 2017);
- Making sense of sectarianism without sects: Quietist Salafi anti-Shia discourse in Jordan (Joas Wagemakers, Mediterranan Politics, 10. mars 2020);
- Pakistan: Differences between Shia and Sunni Muslims; procedure to convert to Shi´ism; the situation and treatment of Shia Muslims by society and authorities, particularly in major cities (Lahore, Islamabad, Karachi, Huderabad); state response (2018-Nóvember 2020) (Immigration and Refugee Board of Canada, 4. desember 2020);
- Palestine and Jordan: Passports issued to stateless Palestinians by the government of Jordan, including procedures, entitlements, differences between Jordanian passports issued to Jordanian nationals and those issued to stateless Palestinians; passports issued to Palestinians by the Palestinian Authority, including requirements and procedures, and entitlements (Flóttamannaráð Kanda, 29. október 2015);
- Report on Citizenship Law: Jordan (European University Institute, febrúar 2022);
- Shia Muslims in the Mideast (Council on Foreign Relations, 16. júní 2006);
- Social security benefits in Jordan (International Labour Organisation. Sótt 19. febrúar 2024);
- The Amman Message (The official website of the Amman Message. Sótt 19. febrúar 2024);
- Summary record of the 2593rd meeting Held at the Palais Wilson, Geneva, on 23 and 24 November 2017, (CERD/C/SR.2592og CERD/C/SR.2593, 29. nóvember 2017);
- The Jordanian Regime Fights the War of Ideas (Hudson Institute, 23. maí 2007);
- Three Jordanian police killed in a raid on militant shooting suspects – police (Reuters, 19. desember 2022);
- World Report 2024 – Jordan (Human Rights Watch, 11. janúar 2024) og
- The World Factbook – Jordan (Central Intelligence Agency, 14. febrúar 2024).
Jórdanía er konungsríki með þingbundinni konungsstjórn með rúmlega 11 milljónir íbúa. Þá fer konungurinn, Abdullah II bin Hussein, með framkvæmdar- og löggjafarvald samkvæmt stjórnarskrá ríkisins. Þann 14. desember 1955 gerðist Jórdanía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1975. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gegn konum árið 1992 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1991. Þá hefur Jórdanía verið aðili að arabíska mannréttindasáttmálanum síðan árið 2004 (e. the Arab Charter of Human Rights).
Samkvæmt mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 annast skrifstofa almannaöryggis (e. Public Security Directorate) almenna löggæslu í ríkinu. Þá deili skrifstofa almannaöryggis, leyniþjónustan (e. General Intelligence Directorate), öryggisstofnun ríkisins (e. Civil Defence Directorate), héraðslögreglan (e. The Gendarmerie) og herinn ábyrgð á innra öryggi ríkisins. Skrifstofa almannaöryggis, leyniþjónustan og héraðslögreglan heyri undir innanríkisráðuneytið en öryggisstofnun ríkisins undir konunginn. Samkvæmt innlendum og alþjóðlegum frjálsum félagasamtökum rannsaki stjórnvöld sjaldan ásakanir um misferli eða spillingu innan lögreglunnar og í þeim tilvikum sem slíkar ásakanir séu rannsakaðar sé sakfellt í fáum málum og lítið sem ekkert gagnsæi varðandi rannsókn og refsingar í slíkum málum. Refsileysi sé útbreitt vandamál í ríkinu en íbúar landsins geti sent inn kvartanir vegna misferlis lögreglu eða spillingar til skrifstofu sem heyri undir skrifstofu almannaöryggis og annist mannréttinda- og gagnsæismál (e. Human Rights and Transparency Office) eða til saksóknara. Þá sé hægt að tilkynna misferli af hálfu héraðslögreglu beint til skrifstofu mannréttinda og gagnsæis. Yfirmaður í leyniþjónustunni taki á móti kvörtunum gegn embættinu og beini þeim áfram til starfsfólks embættisins til rannsóknar. Íbúar landsins geti einnig sent inn kvartanir varðandi brot af hálfu starfsfólks skrifstofu almannaöryggis, héraðslögreglu og leyniþjónustunnar til mannréttindaráðs ríkisins (e. National Center for Human Rights), frjálsra mannréttindasamtaka og ríkissaksóknara. Sérstök deild innan skrifstofu almannaöryggis sjái um að rannsaka ásakanir um spillingu innan lögreglu. Stofnunin rétti yfir starfsfólki sínu fyrir eigin dómstólum, dómurum og saksóknurum. Stjórnvöld hafi ráðið ríkissaksóknara til starfa hjá þessum dómstólum til að bregðast við athugasemdum mannréttindasamtaka. Starfsfólki skrifstofu almannaöryggis beri skylda til að fara á árlegt námskeið varðandi mannréttindi og einnig sé lögboðið að nýir embættismenn undirgangist slíka þjálfun. Samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár ríkisins skuli dómarar vera sjálfstæðir og skuli ekki lúta öðru valdi en lögunum í störfum sínum. Þá kemur einnig fram að dómstólar skuli vera aðgengilegir öllum, óháð ríkisfangi eða uppruna, auk þess sem ýmis mannréttindi séu tryggð í stjórnarskrá.
Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi fyrir árið 2022 er íslam þjóðartrú í Jórdaníu. Rúmlega 97% almennings séu múslimar og nánast allir þeirra séu súnní múslimar. Stjórnarskráin tryggi einnig rétt til að iðka öll trúarbrögð svo framarlega sem þau séu í samræmi við allsherjarreglu og almennt siðgæði. Samkvæmt 6. gr. stjórnarskrár Jórdaníu sé lagt bann við mismunum á réttindum og skyldum einstaklinga á grundvelli þeirrar trúar sem þeir iðka. Um 2% þjóðarinnar séu kristnir en aðrir trúarminnihlutar, s.s. Búddistar, Baháíar, Hindúar og Drúsar séu einnig í Jórdaníu en telji minna en 1% þjóðarinnar. Ríkisstjórn Jórdaníu hafi neitað einhverjum trúarsamtökum m.a. Baháíum og Vottum Jehóva um formlega staðfestingu. Fulltrúar trúarminnihluta, m.a. kristinna og Drúsa, sitji á þingi og starfi sem ráðherrar. Stjórnarskráin fjallar ekki um rétt til trúskipta en það eru engin ákvæði í hegningarlögum, lögum um meðferð sakamála eða almennum lögum sem leggja refsingu við því að skipta um trú. Í hegningarlögum má m.a. finna ákvæði sem leggja refsingu við því að hvetja til haturs, guðlasti gegn Abrahamstrúarbrögðum, að grafa undan yfirvöldum og að sýna borgara á þann hátt sem brýtur gegn reisn þeirra. Samkvæmt ákvæðum hegningarlaga er einnig refsivert að móðga spámanninn Múhameð. Þá eru skrif, ræður og athafnir sem hvetja til trúarátaka refsiverðar. Eins geta yfirvöld sótt til saka einstaklinga sem reyna að hvetja múslima til trúskipta undir ákvæðum hegningarlaga um að hvetja til trúarátaka eða að skaða einingu landsins. Einkaréttarleg málefni múslima falla undir sjaría dómstóla. Samkvæmt sjaría lögum eru múslimar sem skipta um trú enn álitnir múslimar og falla undir sjaría löggjöf en þeir eru taldir hafa afneitað trúnni.
Framangreindar heimildir greina frá því að múslimar skiptist í tvær meginfylkingar, súnníta og sjíta. Súnna þýði erfikenning, hin rétta kenning sem Múhameð lét skrá á Kóraninn eftir opinberun sem hann fékk frá Allah, hinum eina guði. Súnnítar styðjist við ýmis ummæli, svonefnd hadith, sem höfð séu eftir Múhameð en séu ekki í Kóraninum. Sjítar styðjist einnig við hugmyndir sem ekki sé að finna í Kóraninum, til dæmis hina svokölluðu imama sem komi fram með nokkru millibili og túlki orð Kóransins. Upphaflega hafi deilur um hver skyldi verða eftirmaður Múhameðs valdið skiptingu í þessar tvær fylkingar fyrir um 1400 árum. Í dag felist munur á milli trúarhópanna helst í því hvernig þeir biðji bænir. Sjía múslimar haldi höndum niður með hliðum í stað þess að spenna greipar á meðan þeir biðji. Þá hafi sjía múslimar hendur niður með hliðum þegar þeir standi upp á meðan þeir biðji á meðan súnní múslimar krosslegi þær yfir brjóst sér. Þá telji súnní múslimar að þeir eigi að biðja fimm sinnum á dag en sjía múslimar sameini þessar fimm bænastundir í þrjár bænastundir á dag. Heimildir hermi að það sé engin formleg athöfn að skipta yfir í sjía trúarhóp múslima en í kjölfar trúskipta sé algengt að einstaklingar fari að venja komur sínar í moskur sjía og á hátíðir sjía.
Samkvæmt grein Hudson Institute frá 2010 jók leyniþjónusta Jórdaníu á undanförnum árum eftirlit með sjía múslimum sem bjuggu í Jórdaníu, þ.m.t. írökskum flóttamönnum. Leyniþjónustan hafi framkvæmt húsleitir, handtökur og yfirheyrslur sem beint hafi verið að sjía múslimum. Í kjölfar þess hafi sjía múslimar í auknum mæli farið að fela trú sína. Helstu ástæður þessa eftirlits hafi m.a. verið áhyggjur leyniþjónustunnar af því að mikil aukning í trúskiptum milli súnní og sjía hópa múslima hafi getað valdið þjóðernis- og trúardeilum sem hefðu verið að aukast í heimi múslima og Araba. Yfirvöld hafi viljað forðast slíkar deilur eftir að hafa séð deilur í Írak, Pakistan, Afganistan og öðrum löndum þar sem meirihluti íbúa hafi verið múslimar. Þá hafi leyniþjónustan haft áhyggjur af trúarlegum og stjórnmálalegum áhrifum Íranska ríkisins á sjía múslima í Jórdaníu og einstaklinga sem nýlega hefðu skipt um trú yfir í sjía þar í landi. Einkum hafi áhyggjur beinst að vaxandi áhrifum Hezbollah hópsins, tengsl hópsins við Hamas og stuðning hans frá Múslimska bræðralaginu. Jórdönsk yfirvöld hafi haft áhyggjur af því að aukin ítök róttækra samtaka gætu raskað friði í Mið Austurlöndum. Jórdanska leyniþjónustan hafi byggt upp ítarlegan gagnagrunn með upplýsingum um íraska sjía múslima sem hafi haft uppi öfgafulla tilburði og verið í nánum tengslum við leyniþjónustu og stofnanir hersins í Íran. Einstaklingar sem hafi skipt um trú og gerst sjía múslimar hafi því reglulega verið teknir til rannsóknar og eftirlit haft með þeim til að koma í veg fyrir trúboð. Þá hafi heimildir innan leyniþjónustunnar staðfest að einstaklingum sem hafi stundað trúboð og hvatt til trúskipta yfir í sjía trú hafi verið vísað úr landi. Eldri heimildir, m.a. the Amman Message, bera þó einnig með sér að jórdönsk stjórnvöld líti á alla einstaklinga sem iðka íslamska trú sem múslima sama hvaða kenningu innan íslam þeir fylgi og telji að meira sé sameiginlegt með mismunandi trúarkenningum íslam en greini þær að. Samkvæmt grein J. Wagemakers í Mediterranean Politics hafi jórdönsk yfirvöld viljað boða hófsama og viðurkennda íslamska trú og hafi sett á fót stofnanir til að sameina alla múslima. The Amman Message hafi verið hluti af baráttu jórdanskra stjórnvalda til að vinna gegn svokölluðu takfiri (bannfæringu) á meðal róttækra íslamstrúar einstaklinga með því að viðurkenna allar kenningar íslam. Þó hafi framangreind Amman Message ekki tekið til svokallaðra öfga sjía múslima.
Nýjar og nýlegri heimildir um trúfrelsi í Jórdaníu, m.a. skýrsla bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi fyrir árið 2022 sem fjallað er um hér að framan og eins skýrsla bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi fyrir árið 2021, greina nánast eingöngu frá afleiðingum trúskipta frá íslam yfir í önnur trúarbrögð en ekki á milli súnní og sjía hópa múslima. Heimildirnar bera því með sér að á undanförnum árum hafi ekki verið uppi sérstök vandamál fyrir einstaklinga sem hafi skipt um trú og tilheyri nú hópi sjía múslima og að yfirvöld í Jórdaníu hafi minnkað eftirlit og afskipti af þeim. Þá bera nýlegar fréttir með sér að yfirvöld hafi mildast í afstöðu sinni til trúariðkunar sjía múslima í Jórdaníu með því að opna landið fyrir sjía múslimskum pílagrímum, sem heimsækja heilaga staði. Af grein Hudson Institute frá 2007 má leiða að stöðugleiki í stjórnkerfi Jórdaníu hafi staðið ógn af ofbeldishneigðum íslömskum öfgatrúarhópum þ.á.m. þeim sem aðhyllist takfiri hugmyndafræði í langan tíma og að jórdönsk stjórnvöld hafi barist gegn þeim í fjölda ára. Þá bera nýlegar fréttir með sér að yfirvöld hafi varið sjía múslima fyrir árásum íslamskra öfgahópa, m.a. Takfiri hópnum.
Samkvæmt mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 veitir stjórnarskrá Jórdaníu konum og mönnum jöfn réttindi. Önnur löggjöf veiti hins vegar ekki alltaf sömu lagalegu stöðu, réttindi og erfðarétt til kvenna og manna. Konur standi ekki lagalega jafnfætis mönnum á tilteknum sviðum, m.a. hvað varði skilnað, forræði yfir börnum, ríkisborgararétt, stöðu á vinnumarkaði og einnig í sumum tilvikum í gildi vitnisburðar þeirra að sjaría lögum. Jórdönsk félagasamtök, sem séu að hluta til opinber samtök, haldi úti hjálparsíma þar sem tekið sé við kvörtunum vegna mismununar. Nítján kvartanir hafi borist í hjálparsímann árið 2022. Konur verði einnig fyrir mismunun á vinnumarkaði. Til að bregðast við því hafi vinnumálaráðherra sett á fót embætti til að vinna úr kvörtunum vegna mismununar á vinnustöðum frá kvenkyns og karlkyns starfsmönnum. Frjáls félagasamtök hafi gagnrýnt að ekki séu lagaákvæði um fæðingarorlof, dagvistunarúrræði og jafnan rétt kvenna til heilbrigðistrygginga fyrir kvenkyns starfsmenn. Í Jórdaníu eru borgaraleg hjónabönd ekki heimil. Allar hjónavígslur þurfi að fara fram samkvæmt samþykktum trúarlegum hefðum. Karlmenn sem iðki íslamska trú megi giftast konum sem iðki aðra trú, en konur sem séu múslimar megi ekki giftast mönnum sem séu ekki múslimar. Konur geti einungis sótt um skilnað í afmörkuðum tilvikum þ.e. ef eiginmaður þeirra hefur yfirgefið þær, misnotað þær eða með því að eiginkonan afsali sér fjárhagslegum réttindum. Í öðrum tilvikum þurfi samþykki eiginmanns að koma til svo að skilnaður geti gengið í gegn. Þá geti börn ekki fengið jórdanskan ríkisborgararétt frá mæðrum sínum heldur einungis feðrum. Samkvæmt lögum hafi feður lagalegt forræði yfir börnum en mæður hafi lagalega skyldu til að sjá um börn sín. Feður hafi ákvörðunarvald varðandi menntun, búsetu og trúarlegt uppeldi barna sinna og einungis feður geti sótt um vegabréf fyrir börn sín.
Samkvæmt mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 fullgilti Jórdanía Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna árið 2016. Menntun í Jórdaníu sé skyldubundin frá sex til 16 ára aldurs og gjaldfrjáls til 18 ára aldurs. Nýleg lög leggi sekt á foreldra við því ef börn þeirra hætta í skóla. Í september 2022 hafi þingið samþykkt fyrstu barnaréttarlögin sem tryggi grundvallarréttindi barna, m.a. gegn misnotkun. Í lögunum séu lögfestar sumar þær skuldbindingar sem Jórdanía hafi gengist undir samkvæmt Barnamálasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Lögin taki m.a. til réttinda er varða heilsu og menntun og leggi þá skyldu á lækna og kennara að tilkynna misnotkun gegn börnum til yfirvalda. Lögin geri félagsmálaráðuneytið (e. The Ministry of Social Development) og aðra hagsmunaaðila ábyrga fyrir því að undirbúa stefnur til að tryggja réttindi barna. Menntamálaráðuneytið beri ábyrgð á því að koma í veg fyrir brottfall barna úr skólum, að tryggja gæði menntunar og sjá til þess að það séu nægir kennarar og ráðgjafar í menntastofnunum. Önnur löggjöf leggur einnig refsingar við misnotkun á börnum, t.d. sé dauðadómur refsing fyrir nauðgun á barni undir fimmtán ára aldri. Lágmarksaldur fyrir hjónaband sé 18 ára en börn allt niður í 16 ára gömul geti gengið í hjónaband með samþykki forráðamanns og dómara.
Samkvæmt umfjöllun bandarísku alþjóðalegu viðskiptastofnunarinnar (e. International Trade Administration) er Jórdanía leiðandi í veitingu heilbrigðisþjónustu á svæðisvísu. Árið 2020 hafi 9% af vergri landsframleiðslu verið varið í heilbrigðisþjónustu sem sé hátt í samanburði við önnur lönd. Það séu 122 sjúkrahús, þ.a. 70 einkarekin sjúkrahús, en 51% sjúkrarýma séu á ríkisreknum sjúkrahúsum. Þörf á heilbrigðisþjónustu hafi aukist vegna fólksfjölgunar, áhrifa Covid-19 og aukningar á sýrlenskum flóttamönnum í Jórdaníu og því hafi ríkisstjórn Jórdaníu sett það í forgang að auka heilbrigðisþjónustu í ríkinu. Jórdanía fái talsverða fjárhagslega aðstoð frá alþjóðastofnunum sem fari að hluta til í veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá leiti einnig ríkisborgarar nágrannaríkja Jórdaníu og aðildarríkja í Samstarfsráði Arabaríkjanna við Persaflóa eftir heilbrigðisþjónustu í Jórdaníu vegna styttri biðtíma og góðs aðgengis að gæða læknisþjónustu á góðu verði. Samkvæmt Alþjóðabankanum er Jórdanía í fyrsta sæti yfir ríki á MENA svæðinu (e. Middle East and North Africa region) fyrir gæði heilbrigðisþjónustu og helsti staður þar sem ríkisborgarar þriðju ríkja leituðu eftir heilbrigðisþjónustu. Læknar í Jórdaníu séu almennt menntaðir í vesturlöndum og virtir og árið 2019 hafi heilbrigðisráðuneytið bannað innflutning á notuðum eða endurnýttum lækningatækjum í öllum heilbrigðisgeirum. Í Jórdaníu er krafist USFDA, CE merkinga eða japanskrar vottunar á öllum innfluttum lækningatækjum. Aðrar heimildir sýna að það sé hátt hlutfall lækna á hvern íbúa í Jórdaníu og gæði sértækrar heilbrigðisþjónustu séu mjög góð en að meðal annars þyrfti að bæta úr grunnheilbrigðisþjónustu á dreifbýlissvæðum og háum kostnaði sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu. Þá hafi mikil aukning flóttamanna aukið álag á heilbrigðiskerfið.
Af framangreindum gögnum, m.a. skýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn mismunun frá nóvember 2017, má ráða að stjórnvöld í Jórdaníu hafi gert umbætur á mannréttindavernd í ríkinu, þ. á m. vernd þeirra sem séu af öðrum uppruna en jórdönskum. Ríkið hafi m.a. sett sér, í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, mannréttindaáætlun fyrir tímabilið 2016 til 2025 og hafi um þriðjungi þeirrar áætlunar nú þegar verið framfylgt. Hafi þessar umbætur m.a. falist í að hegningarlög, lög um saka- og einkamál hafi verið uppfærð með það að marki að tryggja mannréttindi allra óháð uppruna. Þá hafi verið gripið til aðgerða til þess að sporna við kynþáttarhatri innan stofnana sem hafi m.a. falist í námskeiðum á vegum dómsmálaráðuneytisins og jórdanskra dómstóla fyrir lögregluþjóna og starfsmenn dómstólanna. Viðfangsefni námskeiðanna hafi m.a. verið fræðsla um hegningarlög, mannréttindi, valdeflingu kvenna og hlutverk dómara í því að tryggja einstaklingum sanngjarna og réttláta málsmeðferð.
Í 29. gr. arabíska mannréttindasáttmálans sem Jórdanía er aðili að kemur fram að allir eigi rétt á ríkisfangi og megi engan með geðþótta eða ólögmætum hætti svipta ríkisfangi sínu. Í lögum um ríkisfang nr. 6 frá 1954 (síðast breytt 1987) er að finna ákvæði um réttindi til ríkisfangs í Jórdaníu. Í 3. gr. laganna kemur fram að jórdanskur ríkisborgari telst sá vera sem hafi öðlast jórdanskt ríkisfang eða jórdanskt vegabréf samkvæmt jórdönskum ríkisborgaralögum, 1928, með áorðnum breytingum, lögum nr. 6 frá 1954 eða þessum lögum; sérhver einstaklingur sem eigi föður með jórdanskt ríkisfang og sérhver einstaklingur sem fæddur sé í Hashemítaríkinu Jórdaníu af móður sem sé með jórdanskt ríkisfang og föður af óþekktu ríkisfangi eða ríkisfangslauss föður eða sem ekki hefur tengsl við hana. Í 4. gr. laganna kemur fram að sérhver Arabi sem hafi dvalið samfellt í Hashemítaríkinu Jórdaníu í a.m.k. 15 ár geti öðlast jórdanskt ríkisfang, samkvæmt ákvörðun ráðherraráðsins að tillögu innanríkisráðherra, afsali hann sér upprunalegu ríkisfangi sínu og lög lands hans heimili honum að gera það, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í 9. gr. laganna kemur fram að börn jórdansks manns verði jórdönsk hvar sem þau fæðist. Í 4. kafla laganna eru ákvæði um afsal ríkisfangs. Fram kemur í 15. gr. laganna að sérhver Jórdaníumaður geti með samþykki ráðherraráðsins afsalað sér jórdönsku ríkisfangi og öðlast ríkisfang erlends ríkis. Þá kemur fram í 16. gr. að allir Jórdaníubúar geti afsalað sér jórdönsku ríkisfangi og öðlast ríkisfang arabísks ríkis. Í a-lið 17. gr. kemur fram að Jórdaníumaður sem öðlast ríkisfang erlends ríkis geti haldið jórdönsku ríkisfangi sínu nema hann afsali sér því í samræmi við ákvæði laganna. Í 5. kafla laganna eru ákvæði um missi jórdansks ríkisfangs. Í 1. mgr. 18. gr. kemur fram að hver sá sem gangi í herþjónustu í erlendu ríki án fyrirfram leyfis eða leyfis Jórdaníu ráðherraráðsins og neiti að yfirgefa það þegar ríkisstjórn Hashemíska konungsríkisins Jórdaníu fyrirskipi það skuli missa ríkisfang sitt. Í 2. mgr. 18. gr. kemur fram að ráðherraráðið geti, að fengnu samþykki hans hátign, lýst því yfir að Jórdaníumaður hafi misst jórdanskt ríkisfang gangi hann í opinbera þjónustu erlends ríkis og neiti að yfirgefa þjónustuna þrátt fyrir tilmæli jórdanskra yfirvalda; gangi hann í þjónustu óvinaríkis eða fremji eða reyni að fremja verknað sem talið er stofna friði og öryggi ríkisins í hættu.
Í svari kanadíska flóttamannaráðsins við upplýsingabeiðni til ráðsins um jórdönsk vegabréf, frá október 2015, er vísað til þess að samkvæmt heimildum fjölmiðilsins Jerusalem Post séu PA (Palestinian Authority) vegabréf „í meginatriðum ferðaskilríki og kveði ekki á um að handhafi sé ríkisborgari Palestínu". Samkvæmt aðgengilegum upplýsingum á veraldarvefnum gefur jórdanska ríkið út tvenns konar vegabréf. Annars vegar sé um að ræða venjulegt vegabréf með landsnúmeri sem gefið sé út til jórdanskra ríkisborgara sem séu með öll jórdönsk ríkisfangsréttindi. Hins vegar sé um að ræða venjulegt vegabréf án landsnúmers. Sé slíkt vegabréf gefið út til Palestínumanna sem búi í Jórdaníu, Austur-Jerúsalem, Vesturbakkanum og Gaza-ströndinni til að ferðast til útlanda og byrji það á bókstafnum T fyrir "Tímabundið".
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Mat á trúverðugleika frásagnar kærenda er byggt á endurritum af viðtölum þeirra hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kærenda.
Kærendur byggja umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki vegna sögusagna um að þau séu sjía múslimar. M hafi af þeim sökum verið handtekinn og yfirheyrður af leyniþjónustunni og hótað fangelsisrefsingu og sviptingu jórdansks ríkisborgararéttar hans. Þá hafi M borist hótanir frá ótilgreindum aðilum vegna framangreindra sögusagna og skotið hafi verið á bíl M.
Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindu kærendur frá því að tilheyra hvorki stjórnmálaflokki né vera virk í þágu tiltekins málsstaðar. Þá greindu kærendur frá því að þau tilheyri hvorki minnihlutahópi né sérstöku þjóðarbroti í heimaríki sínu.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi M frá því að því að vera súnní múslimi. M greindi frá því að hann hafi farið til Dúbaí í viku í nóvember 2020 að hitta fjölskyldumeðlim, X, sem sé sjía múslimi og búsettur í Bandaríkjunum. Þegar hann hafi verið í Dúbaí hafi hann séð á Facebook að vinir hans frá Jórdaníu hafi einnig verið í Dúbaí og þeir hafi ákveðið að hittast. M hafi farið að hitta vini sína ásamt X. M og vinir hans hafi farið að tala um trú og M hafi sagt að hann hefði ekkert á móti sjía múslimum. Það hafi ekki farið vel í vini hans. M hafi farið aftur til Jórdaníu og lífið hafi gengið sinn vanagang næstu sjö mánuði. Þá hafi komið til hans einstaklingur sem hann þekkti sem hafi sagt honum að fólk skrafaði um að hann væri sjía múslimi og þau áliti sjía ekki vera múslima. Hann greindi frá því að honum hafi borist hótanir í tvígang vegna þessa þar sem einstaklingur sem hann þekkti hafi komið til hans og komið skilaboðum á framfæri við hann. Hótanir hafi verið þess efnis að M væri sjía múslimi, að það sé ekki trú og að hann ætti skilið að deyja. M hafi ekki tekið hótununum alvarlega og því ekki leitað til lögreglu vegna þeirra. M greindi frá því að ef stjórnvöld í heimaríki hans telji fólk vera sjía múslima þá séu þeir fangelsaðir í fjögur ár og að það sé hættulegt að skipta úr því að vera súnní múslimi í að vera sjía múslimi í Jórdaníu. M greindi frá því að leyniþjónustan hafi hringt í hann í júlí 2022 og viljað ræða við hann. Hann hafi farið þrisvar sinnum til leyniþjónustunnar. Í fyrri tvö skiptin hafi ekki verið rætt við M en í þriðja skipti hafi verið tekið viðtal við hann. M hafi verið margspurður um hvort hann væri sjía múslimi sem hann hafi svarað neitandi. Fulltrúar leyniþjónustunnar sem tekið hafi viðtal við M hafi fullyrt að hann væri sjía múslimi, hann hafi neitað því en greint frá því að hann hefði ekkert á móti sjía múslimum. Þá hafi fulltrúar leyniþjónustunnar sagt að hann væri ekki jórdanskur ríkisborgari að upplagi, að þeir myndu taka af honum vegabréfið hans og senda hann aftur til Palestínu. Eftir fimm til sex tíma hafi hann farið aftur heim. Í september 2022 hafi M vaknað eina nóttina við hróp og byssuskot en hann hafi ekki athugað með það. Þegar hann hafi farið af stað til vinnu morguninn eftir hafi hann séð að skotið hafi verið með byssu á framrúðu bíls hans. Í kjölfarið hafi hann tekið mynd af framrúðunni og farið til lögreglunnar. Hann hafi gefið skýrslu á lögreglustöðinni. Lögreglan hafi rannsakað málið, séð far eftir byssukúlu í framrúðunni en þeir hafi ekkert getað gert meira því að M vissi ekki hverjir höfðu verið að verki. M sagðist telja að einstaklingar sem hafi verið að hóta honum hafi skotið á bíl hans, en að hann væri ekki viss. Hann teldi að þetta hafi verið meðlimir ólöglegs öfgatrúarhóps sem kalli sig Takfiri. Hópurinn hafi aðsetur um öll miðausturlönd en að það sé lítill hópur í Jórdaníu. Þeir ráðist gegn öllum sem geri eitthvað í andstöðu við íslamska trú. M greindi frá því að lögreglan myndi aðstoða hann ef að þeir vissu hverjir það væru sem væru að hóta honum og myndu handtaka þá. Lögreglan þyrfti að að mati M að handataka allan hópinn til að veita honum vernd. Kvaðst M ekki hafa orðið fyrir öðrum óþægindum eða vandamálum vegna þessa. M greindi frá því að hann hafi ákveðið að flýja frá Jórdaníu í kjölfar þess að skotið hafi verið á bíl hans í september 2022 og fjölskyldan hafi yfirgefið landið í desember 2022.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi K frá því að hún hafi farið til fjölskyldu sinnar í Jerúsalem í nóvember 2020 og M hafi farið til Dúbaí að hitta vin sinn sem sé sjía múslimi. Í Dúbaí hafi fólk séð M með vini sínum, að hann hafi verið í góðu sambandi við sjía múslima og það hafi ekki truflað hann. Þegar þetta fólk hafi komið aftur til Jórdaníu hafi það borið það út að M væri sjía múslimi. Eftir að M hafi komið aftur til Jórdaníu hafi fólk sagt við M að hann væri sjía múslimi en hann hafi neitað því. K greindi frá því að í kjölfarið hafi M farið að berast mikið af hótunum símleiðis sem hún taldi vera frá öfgafólki. Hótunarsímtöl til M hafi valdið henni vanlíðan og þau hafi lifað í ótta og verið hrædd í hvert skipti sem síminn hafi hringt. Hún kvað þetta öfgafólk hafa verið að reyna stjórna fólki með reglum og að það hafi ekki verið neitt frelsi í Jórdaníu. K greindi frá því að hún hafi fundið fyrir fordómum í samfélaginu. Þegar hún hafi talað við sjía múslima og þar sem hún hafi ekki borið slæðu þá hafi öfgafólk sagt að hún væri sjía múslimi. K greindi frá því að eiginmaður hennar hafi verið boðaður til leyniþjónustunnar þrisvar sinnum, og í þriðja skipti hafi hann verið yfirheyrður í meira en fjórar klukkustundir. K kvað sér ekki hafa borist hótanir og að hún hafi ekki verið boðuð í viðtal hjá leyniþjónustunni. Hún kvaðst óttast að snúa aftur til baka til Jórdaníu þar sem samfélagið myndi telja þau sjía múslima því þau hafi flúið heimaríki sitt. Hún telji yfirvöld ekki geta veitt þeim aðstoð þar sem yfirvöld, leyniþjónustan og öfgafólk séu um alla Jórdaníu.
Kærendur lögðu fram afrit af skjali sem þau kveða vera lögregluskýrslu. Skjalið sem er dagsett 7. september 2022, ber með sér að vera gefið út af Öryggismálaráði dómsmálaráðuneytis Jórdaníu. Í því kemur fram að M hafi komið til lögreglunnar og tilkynnt að skotið hafi verið úr byssu á framrúðu á bíl hans. M hafi heyrt öskur og skothljóð nóttina áður en hann hafi ekki athugað hvað gengi á vegna ótta um líf sitt. Eftir að lögreglan hafi rannsakað málið væri niðurstaðan sú að skot úr 9 mm skotvopni hafi valdið skemmdum á rúðunni. Enginn hafi verið ákærður eða dæmdur fyrir verknaðinn þar sem M hafi ekki kært tiltekinn einstakling fyrir verkið og sönnunargögn hafi ekki leitt í ljós hver hafi verið að verki. Málinu hafi því verið vísað til glæparannsóknardeildar til eftirfylgni. Þá lögðu kærendur fram mynd af framrúðu á bifreið með skemmd eftir högg.
Kærunefnd telur ýmislegt í frásögn kærenda draga úr trúverðugleika þeirra, m.a. misræmi á milli frásagna M og K. Misræmið tengist einkum því hvenær þeim hafi fyrst borist hótanir, hvernig þeim hafi borist þær og hversu oft. M greindi frá því að lífið hafi gengið sinn vanagang í sjö mánuði eftir að hann hafi komið til baka frá Dúbaí en þá hafi hótanir borist. K greindi frá því að fólk hafi farið að ræða um trúskipti eiginmanns hennar áður en hann hafi snúið aftur til baka frá Dúbaí og að hótanir hafi byrjað að berast þegar hann hafi komið aftur þaðan til Jórdaníu. M greindi frá því að einstaklingur sem hann hafi þekkt hafi greint honum frá hótunum ótilgreindra einstaklinga í eigin persónu í tvígang. M kvaðst ekki hafa orðið fyrir neinum öðrum vandræðum vegna trúskipta í starfi eða frá nágrönnum, en leyniþjónustan hafi haft samband við hann í júlí 2022. K greindi hins vegar frá því að M hafi fengið mikið af hótunum í síma, hún hafi heyrt þær og orðið hrædd. Þá dregur það einnig úr trúverðugleika frásagna kærenda að þau hafa greint frá því að þau óttist yfirvöld í kjölfar þess að M hafi verið boðaður til viðtals hjá leyniþjónustunni en hafi nokkrum mánuðum síðar leitað eftir aðstoð lögregluyfirvalda þegar skotið hafi verið á bíl M fyrir utan heimili þeirra og M hafi greint frá því að hann telji lögreglu geta veitt þeim aðstoð vegna hótana og áreitis samfélagsins.
Í ljósi landaheimilda telur kærunefnd þó ekki hægt að útiloka að M hafi verið fenginn í viðtal hjá leyniþjónustunni vegna mögulegra tengsla við sjía múslima eða mögulegra trúskipta. Þá er ekki hægt að útiloka að M hafi borist hótanir frá ótilgreindum aðilum sem geti tengst sögusögnum þess efnis að hann hafi skipt um trú.
Kærendur hafa greint frá því að vera súnní múslimar en ekki sjía múslimar og telja að vegna sögusagna yrði það ógerningur að vinda ofan af þeim misskilningi ef þau myndu snúa aftur til heimaríkis. Heimildir bera með sér að nokkur munur sé á trúariðkun súnní og sjía múslima, m.a. fjöldi bæna sem þeir biðja dag hvern og hvernig hópar fagni tilteknum hátíðum. Því verður ekki annað ráðið en að kærendur geti með trúariðkun sinni sýnt fram á að þau tilheyri hópi súnní múslima í heimaríki sínu.
Kærendur hafa borið fyrir sig að hafa orðið fyrir og að þau eigi á hættu ofsóknir yfirvalda vegna meintra trúskipta snúi þau aftur til heimaríkis. Stjórnarskrá Jórdaníu tryggir rétt til að iðka hvers konar trúarbrögð svo framarlega sem þau séu í samræmi við allsherjarreglu og almennt siðgæði og leggur bann við því að mismuna einstaklingum hvað varðar réttindi þeirra og skyldur eftir því hvaða trú þeir iðka. Stjórnarskráin fjallar ekki um rétt til trúskipta en engin ákvæði eru í hegningarlögum, lögum um meðferð sakamála eða öðrum almennum lögum sem leggja refsingu við því að skipta um trú. Eldri heimildir bera með sér að á árunum í kringum 2010 hafi leyniþjónusta Jórdaníu farið að fylgjast betur með sjía múslimum í Jórdaníu og hafi framkvæmt húsleitir, handtökur og yfirheyrslur í þeim tilgangi. Ástæður þessa eftirlits hafi m.a. verið áhyggjur leyniþjónustu af því að mikil aukning í trúskiptum milli súnní og sjía hópa múslima gæti valdið þjóðernis- og trúardeilum. Yfirvöld hafi viljað forðast slíkar deilur sem höfðu þá átt sér stað í auknum mæli í nágrannaríkjum Jórdaníu. Nýlegri heimildir fjalla lítið eða ekkert um aðstæður og meðferð einstaklinga sem skipt hafa frá því að vera súnní múslimar yfir í sjía. Benda heimildir ekki til þess að framangreindur hópur hafi staðið frammi fyrir sérstökum erfiðleikum undanfarin ár í Jórdaníu. Heimildir benda til þess að jórdanska ríkið hafi almennt álitið og boðað að allir einstaklingar sem iðki íslamska trú séu múslimar sama hvaða kenningu íslam þeir fylgja. Stjórnvöld hafi auk þess nýlega opnað landið fyrir sjía múslimskum pílagrímum og varið sjía múslima sem séu búsettir í Jórdaníu gegn árásum öfgatrúarhópalíkt og aðra borgara ríkisins.
Af frásögn kærenda má ráða að M hafi verið boðaður í viðtal hjá leyniþjónustu í júlí 2022. Hann hafi mætt til leyniþjónustunnar þrisvar sinnum en einungis í þriðja skiptið hafi viðtal farið fram sem stóð í nokkrar klukkustundir. Þá hafi M farið aftur heim til sín. Af frásögn kærenda verður ekki ráðið að leyniþjónustan í Jórdaníu hafi haft aftur samband við M eða að viðtal hans hjá leyniþjónustunni hafi haft frekari afleiðingar áður en kærendur flúðu heimaríki sitt í desember 2022. Þá bera gögn málsins með sér að kærendur hafi getað leitað til lögregluyfirvalda eftir framangreint viðtal án vandkvæða.
Við meðferð málsins hefur M lagt fram jórdanskt vegabréf með landsnúmeri sem ber með sér að hann hafi fullgilt jórdanskt vegabréf. Samkvæmt framangreindum landaupplýsingum verður jórdanskur ríkisborgari ekki sviptur ríkisborgararétti sínum nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, svo sem að viðkomandi gangi í herþjónustu eða aðra þjónustu erlends ríkis og neiti að yfirgefa hana að fyrirskipan jórdanskra yfirvalda eða reyni að fremja verknað sem talið er stofna friði og öryggi ríkisins í hættu. Ekkert í gögnum málsins eða framburði kærenda gefur til kynna að slíkt hafi verið eða sé fyrir hendi í máli þeirra og að M eigi á hættu sviptingu ríkisborgararéttar í Jórdaníu.
Þá hafa kærendur borið fyrir sig að M hafi borist hótanir frá ótilgreindum einstaklingum og að það hafi verið skotið í framrúðu á bíl M vegna meintra trúarskipta. M hafi talið það stafa frá ólöglegum öfgatrúarhópi sem gangi undir nafninu Takfiri. Samkvæmt frásögn kærenda leituðu þau til lögreglu þegar skotið var á bíl M. Gögn málsins bera með sér að lögregla hafi rannsakað málið og að málinu hafi verið vísað til rannsóknardeildar til eftirfylgni. Þá má ráða af frásögn M í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann telji sig geta fengið aðstoð frá lögreglunni vegna hótana og annars áreitis. Þá benda framangreindar heimildir til að að lögregluyfirvöld í Jórdaníu bregðist við starfsemi öfgahópa á borð við Takfiri í heimaríki kærenda og hafi barist gegn starfsemi slíkra öfgahópa í nokkurn tíma. Af framangreindu verður ekki annað ráðið en að kærendur geti fengið lögregluvernd gegn áreiti og hótnum annara aðila í heimaríki sínu ef þörf er á.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því þau hafi áður en þau flúðu heimaríki sitt upplifað mismunun, áreiti eða ofbeldi af hálfu stjórnvalda eða annarra aðila sem nái því alvarleikastigi að fela í sér ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. og 4. gr. 38. gr. laganna. Ekkert í frásögn kærenda eða í gögnum málsins bendir til þess að kærendur hafi sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi þau og börn þeirra aftur til heimaríkis. Þá verður ekki annað ráðið en að kærendur geti leitað aðstoðar stjórnvalda í Jórdaníu gerist þess þörf.
Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal, við mat skv. 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Útlendingastofnun taldi ekki ástæðu til að taka viðtal við börn kærenda vegna ungs aldurs þeirra. Leggur kærunefnd mat á hagsmuni A og B samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum málsins og framangreindum aðstæðum í heimaríki þeirra. Að mati kærunefndar var sjónarmiðum barnanna A og B nægilega komið á framfæri með framburði kærenda og hagsmunagæslu talsmanns. Kærunefnd telur að teknu tilliti til ákvæða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskrar löggjafar um barnavernd, að engin rök standi í vegi fyrir því að A og B fylgi foreldrum sínum aftur til heimaríkis.
Þau börn sem hér um ræðir eru í fylgd foreldra sinna sem eru almennt heilsuhraust og vinnufær og njóta börnin stuðnings þeirra. Líkt og áður greinir standa A og B til boða gjaldfrjáls grunnskólamenntun í heimaríki sínu. Þá bera gögn málsins með sér að kærendur hafi getað leitað sér læknisþjónustu í Jórdaníu og fengið hana. Þá hafi nýlega verið sett lög sem vernda grundvallarréttindi barn í Jórdaníu. Einstaklingsbundnar aðstæður barna kærenda eru ekki með þeim hætti að þau teljist í hættu við endursendingu til heimaríkis. Þá bendir ekkert til þess að börnum kærenda verði mismunað eða þau útilokuð frá réttindum sem almennt bjóðast börnum í Jórdaníu.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau og börn þeirra hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37.gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 4. mgr. 38. gr. laganna.
Kærendur og börn þeirra uppfylla því ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kærenda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærendur sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærendur verða þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kærenda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má ráða að viðvarandi mannréttindabrot eigi sér ekki stað í Jórdaníu eða að yfirvöld þar í landi hafi ekki vilja eða getu til að veita þegnum sínum vernd. Þá er hvorki stríð í landinu né útbreidd vopnuð átök. Þá er það jafnframt mat kærunefndar með vísan til trúverðugleikamats og gagna málsins að ekkert gefi tilefni til að ætla að sérstakar aðstæður kærenda og barna þeirra leiði til þess að þau eigi á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð snúi þau til baka til heimaríkis.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefnd að aðstæður kærenda og barna þeirra þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Kærendur og börn þeirra uppfylla því ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi m.a. til erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu og þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, kemur m.a. fram að með erfiðum almennum aðstæðum sé vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki sem ekki séu staðbundin, svo sem vegna langvarandi stríðsátaka. Þá kemur fram að erfiðar almennar aðstæður taki að jafnaði ekki til neyðar af efnahagslegum rótum eða náttúruhamfara, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Eigi það m.a. við þegar í heimaríki viðkomandi ríki óðaverðbólga, atvinnuleysi í ríkinu sé mikið eða lágmarkslaun dugi ekki fyrir framfærslu. Með vísan til fyrri umfjöllunar um aðstæður kærenda og barna þeirra og aðstæður í heimaríki þeirra er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að almennar aðstæður sem bíði kærenda og barna þeirra í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.
Kærendur byggja kröfu sína um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á því að vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu með ungt barn og að þau hafi ekki aðgengi að heilbrigðisþjónustu í Jórdaníu.
Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.
Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga og athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi K frá því að vera með sykursýki og að hún þurfi lyf vegna þess. Hún hafi verið greind með sykursýki í Palestínu fyrir 15 árum síðan en í Jórdaníu hafi verið lítið eftirlit. Hún hafi byrjað að sprauta sig fyrir um 8 árum en hafi síðar verið sagt að hætta að sprauta sig og fengið lyfið metaformin í staðinn. Hún greindi frá því að hafa farið til læknis mánaðarlega í Jórdaníu. Læknir hafi gefið henni lyfið metaformin eftir að hafa framkvæmt sykurrannsókn. Þó hafi læknar skrifað upp á lyf sem hún hafi þurft til að sprauta sig með þegar hún hafi óskað eftir því. Það hafi verið auðvelt að fá metaformin en ekki lyfið sem notað var til að sprauta sig þar sem það hafi ekki alltaf verið til í apótekunum. Þegar K hafi verið barnshafandi hafi hún verið með lágan blóðþrýsting og blóðlítil. K lagði fram læknisvottorð frá heilsugæslunni í Efstaleiti þar sem fram kemur að hún þjáist af andlegri vanlíðan, hafi áhyggjur af börnum sínum og eigi erfitt með svefn. Mat heimilislæknis sé að K þjáist af þunglyndi og kvíða, hún þurfi að komast til sálfræðings og að K sé tilbúin að fara á geðlyf. K fékk ávísað lyfinu sopram. Fram kemur að K sé á lyfinu metaformin við sykursýki og að nýlegar prufur vegna þessa séu í lagi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi M frá því að líkamleg og andleg heilsa hans væri betri hér á Íslandi. Hann greindi frá því að í Jórdaníu hafi verið spítalar og heilbrigðisþjónusta en ekki hafi verið hugað vel að heilsu þeirra og þau hafi ekki verið með sjúkratryggingu. Kærendur greindu frá því að börn þeirra væru við góða heilsu en það væri grunur um að B væri með sykursýki og að það væri verið að fylgjast með því.
Ekki verður annað séð en að kærendur og börn þeirra séu almennt heilsuhraust. Þá bera gögn málsins með sér að þau hafi getað leitað sér læknisaðstoðar í heimaríki og fengið hana og að K hafi haft aðgengi að þeim lyfjum sem hún tekur hér við sykursýki. Að framangreindu virtu verður ekki talið að kærendur og börn þeirra þarfnist meðferðar sem sé svo sérhæfð að þau geti einungis hlotið hana hérlendis né að rof á henni yrði til tjóns fyrir kærendur og börn þeirra verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis. Verður því ekki séð að kærendur og börn þeirra hafi sýnt fram á ríka þörf á vernd af heilbrigðisástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindu kærendur frá því að hafa orðið fyrir aðkasti og hótunum vegna sögusagna um að þau væru sjía múslimar og telja sig muna verða fyrir fordómum vegna þess. K greindi frá því að hún hafi ekki verið að vinna í Jórdaníu. Hún taldi sig ekki geta séð fyrir sér í heimaríki sínu og enga aðstoð sé að fá hjá stjórnvöldum þar í landi. M greindi frá því að fjárhagslegar og félagslegar aðstæður hans séu góðar. Hann ætti ekki eignir en skuldaði ekkert. Hann hafi átt ferðaskrifstofu í Jórdaníu. Þá greindi M frá því að eiga fjölskyldu í Jórdaníu sem hann sé í sambandi við. Hann sé hræddur um börnin sín ef eitthvað muni koma fyrir hann og þau þurfi að alast upp án föður. Kærendur lögðu fram skjöl frá Almannatryggingastofnun (e. Social Security Corporation) dagsett 6. og 7. júlí 2023 þess efnis að þau falli ekki undir almannatryggingalög og fái neinar greiðslur frá almannatryggingum.
Af gögnum málsins má ráða að kærendur séu almennt heilsuhraust og vinnufær. Kærendur hafa greint frá því að eiga fjölskyldu í Jórdaníu og að hafa rekið sitt eigið fyrirtæki. Þau skjöl sem kærendur lögðu fram þess efnis að falla ekki undir almannatryggingalög eru dagsett eftir að þau flúðu frá Jórdaníu og á meðan þau voru búsett hér á landi. Samkvæmt þeim heimildum sem kærunefnd hefur skoðað falla allir starfandi og sjálfstætt starfandi einstaklingar undir almannatryggingalög í landinu við 16 ára aldur og ættu kærendur að falla undir þær tryggingar þegar þau snúa til baka til heimaríkis og hefja störf. Almannatryggingarlöggjöfin tryggir rétt til grundvallarheilbrigðisþjónustu, veikindaorlofsgreiðslna, atvinnuleysisbóta, bóta vegna vinnuslysa og ellilífeyris. Kærendur hafa greint frá því að þau séu súnní múslimar en hafi fyrir misskilning orðið fyrir hótunum og áreiti vegna meintra trúskipta. Í Jórdaníu eru súnní múslimar í miklum meirihluta og ekki útsettir fyrir mismunun eða jaðarsetningu þar í landi. Með vísan til þessa og framangreindrar umfjöllunar telur kærunefnd að félagslegar aðstæður kærenda og barna þeirra við endurkomu til heimaríkis séu ekki með þeim hætti að þær teljist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Við mat á þörf fyrir dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hefur kærunefnd litið sérstaklega til aðstæðna barna í Jórdaníu. Eins og áður greinir er menntun gjaldfrjáls til 18 ára aldurs í Jórdaníu, skólaskylda er á grunnskólastigi. Þá hafa nýverið verið lögfest barnaréttarlög sem tryggja grundvallarréttindi barna hvað varðar heilsu og menntun og settar fram aðgerðir gegn misnotkun auk þess sem önnur lög leggi refsingu við misnotkun á börnum. Hvorki almennar aðstæður í Jórdaníu né einstaklingsbundnar aðstæður barna kærenda í máli þessu eru með þeim hætti að rétt sé að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kærenda og barna þeirra í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau og börn þeirra hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til hagsmuna barna kærenda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og 3. mgr. 25. sömu laga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda og barna þeirra í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann lagði inn umsókn sína dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að uppfylltum skilyrðum 2. og 3. mgr. ákvæðisins. Ef um barn er að ræða skal miða við 16 mánuði.
Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd 30. desember 2022 og á ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga því ekki við.
Athugasemdir kærenda við málsmeðferð Útlendingastofnunar
Kærendur gerðu í greinargerð sinni athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í málum þeirra, svo sem við mat á hagsmunum barna kærenda við endursendingu þeirra til heimaríkis.
Þrátt fyrir að kærunefnd komist í úrskurði þessum að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun hvað varðar stöðu kærenda og barna þeirra hér á landi telur nefndin ástæðu til að gera athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er ekki að finna neina umfjöllum um aðstæður kvenna og barna í Jórdaníu og litla sem enga umfjöllun um aðgengi að heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir að frásögn kærenda og staðreyndir málsins hafi gefið tilefni til þess. Þá vísar Útlendingastofnun í ákvörðun sinni til úrskurðar kærunefndar útlendingamála frá árinu 2020 þar sem fallist hafi verið á ákvörðun Útlendingastofnunar í málinu og þar sem landaheimildir hafi verið í fullu samræmi við þær landaupplýsingar sem Útlendingastofnun leggur til grundvallar í máli kærenda nú. Sú ákvörðun og úrskurður sem hér er vísað í eru frá árinu 2020 en ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra var birtur í apríl árið 2023 og er því að mati kærunefndar fullt tilefni að skoða og vísa til nýrra heimilda um heimaríki kærenda í málum þeirra. Eins og hér stendur sérstaklega á verður þó ekki séð að framangreindur annmarki hafi haft áhrif á efnislega niðurstöðu máls kærenda og barna þeirra og er það mat kærunefndar að nefndin hafi með málsmeðferð sinni bætt úr honum og þykir því ekki ástæða til þess að ógilda ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda af þeim sökum.
Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda og barna þeirra. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda og barna þeirra þangað.
Brottvísun og endurkomubann
Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kærenda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.
Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt gögnum málsins sóttu kærendur um alþjóðlega vernd hér á landi 30. desember 2022 fyrir sig og barn sitt. Eins og að framan greinir hefur umsóknum kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hafa þau því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinni kærðu ákvörðun var réttilega bundinn endir á heimild kærenda og barna þeirra til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa kærendum og börnum þeirra úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana.
Kærendum var í viðtali hjá Útlendingastofnun leiðbeint um að til skoðunar væri að brottvísa þeim og börnum þeirra frá Íslandi og ákvarða kærendum endurkomubann hingað til lands. Var kærendum gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Kærendur kváðust ekki hafa nein tengsl við Ísland eða önnur ríki innan Schengen-svæðisins. Kærendur töldu brottvísun og endurkomubann ósanngjarna ráðstöfun gegn sér og börnum þeirra vegna aðstæðna sem bíði þeirra í heimaríki og að sú ákvörðun myndi takmarka ferðafrelsi þeirra.
Af þeim svörum sem kærendur gáfu um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun þeirra og barna þeirra og endurkomubann kærenda verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð kærenda eða nánustu aðstandenda þeirra, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að kærendur geta komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi þau Ísland innan þess frest sem þeim er gefinn.
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra er þeim brottvísað og kærendum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var kærendum veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið auk þess sem tekið var fram að yfirgefi þau landið sjálfviljug innan þess frests verði endurkomubannið fellt niður.
Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kærenda og barna þeirra til að yfirgefa landið. Endurkomubann kærenda fellur niður yfirgefi kærendur landið sjálfviljug innan framangreinds frests.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana eru ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra staðfestar.
Athygli kærenda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra eru staðfestar. Endurkomubann kærenda verður fellt úr gildi fari þau sjálfviljug frá Íslandi innan 15 daga.
The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their children are affirmed. If the appellants leave Iceland voluntarily within 15 days, the re-entry ban will be revoked.
Þorsteinn Gunnarsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir