Hoppa yfir valmynd
4. september 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 4. september 2012

Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Björg Bjarnadóttir til. af KÍ, Ellý Þorsteinsdóttir varamaður Stellu K. Víðisdóttur tiln. af Reykjavíkurborg, Guðrún Eyjólfsdóttir til. af SA., Garðar Hilmarssonar, tiln. af BSRB,  Ásta S. Helgadóttir Umboðsmaður skuldara,  Elín Rósa Finnbogadóttir varamaður Alexöndru Þórlindsdóttur, tiln. af innanríkisráðuneyti, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossinum á Íslands og Fanney Karlsdóttir varamaður Kristjáns,  Gyða Hjartardóttir  tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hrefna K. Óskarsdóttir, tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Gissur Péturssonar, án tiln., Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir varam. Landlæknis, Unnar Stefánsson tiln. af Landssambandi aldraðra, Valgerður Halldórsdóttir tiln. af BHM,  Vilborg Oddsdóttir tiln. af Biskupsstofu,  Þórhildur Þorleifsdóttur án tiln. Lovísa Lilliendahl, verkefnisstjóri velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum, og  Ingibjörg Broddadóttir.

1. Kynning á niðurstöðum könnunar velferðarvaktarinnar á velferð barna í erfiðri stöðu

Berglind Stefánsdóttir, sem er ljúka mastersnámi í sálfræði, kynnti niðurstöður tveggja kannana frá sumrum 2011 og 2012. Kannanirnar voru unnar af sumarstarfsmönnum sem tóku þátt í átaksverkefnum Vinnumálastofnunar. Í könnuninni frá 2011 voru spurningar sendar öllum grunnskólum landsins, öllum heilsugæslustöðvunum og öllum barnaverndarnefndum í landinu þar sem leitað var svara um velferð barna sem bjuggu við alvarlegan vanda fyrir kreppu. Niðurstöður úr þessari könnun voru á þá á leið að  grunnskólar með um 40% grunnskólabarna landsins töldu börnin búa við erfiðari stöðu eftir kreppu, heilsugæslustöðvar þar sem 84% barna búa töldu svo vera og barnaverndarnefndir þar sem 77 % barna landsins búa. Velferðarvaktin ýtti úr vör nýrri könnun sumarið 2012 þar sem þrír rýnihópar voru settir saman af fagfólki frá  skólum, heilsugæslu og barnaverndarnefndum. Einn hópur kom saman í Grafarvogi í Reykjavík, einn í Hafnarfirði og einn í Árborg og var  markmiðið að varpa skýrara ljósi á niðurstöður fyrri könnunar.  Þrjú meginþemu birtust í rýnihópunum, breytt þjónusta opinberra aðila, "týndir hópar" meðal annars vegna úrræðaleysis og verri andleg líðan. Meðal helstu niðurstaðna var eftirfarandi:

  • Kallað er eftir heildrænni sýn fyrir málaflokk barna og barnafjölskyldna.
  • Tryggja ber að fæðingarorlof sé nýtt af báðum foreldrum.
  • Efla þarf sjálfstæði einstaklingslins svo fólk geti ráðið ráðum sínu og bjargað sér sjálf án frekari styrkja eða bóta.
  • Kerfið þykir ekki nægjanlega hvetjandi.
  • Samvinnu kerfa er standa að þjónustu við börn þykir ábótavant.
  • Stuðningur við börn í skólum þykir misjafn milli svæða.
  • Mikil eftirspurn er eftir sál- og geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn.

2. Áfangaskýrsla Suðurnesjavaktarinnar

Lovísa Lilliendahl verkefnastjóri Suðurnesjavaktarinnar kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar:

  • Dregið hefur meira úr atvinnuleysi á Suðurnesjum en á öðrum landsvæðum en er sem fyrr langmest á Suðurnesjum. Í maí 2012 mældist atvinnuleysi á svæðinu 9,4% en var 12,1% á sama tíma árið 2011. Á landinu öllu mælist atvinnuleysi 5,6% en var 7,4% á sama tíma árið 2011. Einstaklingar á Suðunesjum yngri en 30 ára eru 39% af þeim sem eru á atvinnuleysisskrá.
  • Hlutfall heimila í vanskilum er hæst á Suðurnesjum en rúmlega 16% íbúa á Suðurnesjum yfir 18 ára aldri eiga í alvarlegum vanskilum. Næst á eftir Suðurnesjum kemur Suðurland með 9,7% og höfuðborgarsvæðið með 9,5%.
  • Hlutfall íbúa sem fá ráðgjöf eða fara í greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara er hæst á Suðurnesjum samanborið við landið allt.
  • Eignir Íbúðalánasjóðs eru flestar á Suðurnesjum eða samtals 579. Næstflestar eignir sjóðsins eru á höfuðborgarsvæðinu eða 352 talsins.
  • Hlutfall íbúa á Suðurnesjum með háskólamenntun er 17,7% en landsmeðaltal er 33%.
  • Mikil aukning hefur orðið á málum í forvarnar- og meðferðarteymi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
  • Hlutfall öryrkja er hæst á Suðurnesjum eða 9,8% á meðan landsmeðaltal er 7,4%.
  • Mikil fjölgun hefur orðið á sprotafyrirtækjum á Ásbrú en í frumkvöðlasetrinu Eldey eru nú starfrækt 18 sprotafyrirtæki.

Stjórnvöld hafa ýtt ýmsum mótvægisaðgerðum úr vör á svæðinu svo sem

  • Formlegt samstarfi sveitarfélaga á Suðurnesjum á sviði velferðarmála með stofnun Suðurnesjavaktarinnar.
  • Menntaverkefni á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem miðar að því að efla menntun á Suðurnesjum.
  • Stofnað hefur verið atvinnuþróunarfélag sem vinnur að fjölbreyttum verkefnum á sviði atvinnu- og byggðaþróunar auk verkefna á sviði nýsköpunar.
  • Umboðsmaður skuldara opnaði útibú á svæðinu.
  • Sýslumaðurinn í Keflavík hlaut styrk til þess að gera rannsókn á orsökum nauðungarsala á Suðurnesjum.

Einnig má nefna:

  • Þróun nýrra atvinnu- og námstækifæra með úrræðum á borð við Atvinnutorg, Vinnandi vegur og Nám er vinnandi vegur. Fjölbrautaskóli Suðurnesja mun bjóða upp á sérstaka námsleið fyrir einstaklinga sem standa ekki vel að vígi að loknum grunnskóla og hafa ekki áhuga á hefðbundnu bóklegu námi.
  • Fræðsluskrifstofan í Reykjanesbæ vinnur að verkefninu Framtíðarsýn sem miðar að bættum námsárangri í Reykjanesbæ og nágrannasveitarfélögunum.
  • Fjölbreytt og öflug virkni- og starfsendurhæfingarúrræði fyrir fólk á öllum aldri og með ólíkan bakgrunn.
  • Skimunarverkefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Vinnumálastofnunar sem miðar að því að skima fyrir heilsufarslegum vandamálum meðal atvinnulausra einstaklinga. Þeim einstaklingum sem reynast vera í áhættuhópi er vísað í viðtal hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

3. Staða atvinnumála. Starfið framundan

Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar fjallaði meðal annars um horfur á vinnumarkaði, þróun atvinnuleysis og útgjöld atvinnuleysistryggingasjóðs. Atvinnuleysi hefur farið lækkandi undanfarin misseri. Það reis hæst 8-8.1% árin 2009 og 2010 en fór niður í 7.4% 2011.  Í ár stefnir í 5.7% atvinnuleysi, en nokkur óvissa er um þróun þess í framhaldi. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur störfum á vinnumarkaði fjölgað nokkuð á árinu 2012 miðað við sama tímabíl undanfarinna ára. Heldur hefur dregið úr nettó brottflutningi Íslendinga, bæði vegna fækkunar brottfluttra og fjölgunar aðfluttra. Nettóbrottflutningar útlendinga virðast aukast ef mið er tekið af tölum fyrstu 6 mánuði 2012, bæði vegna fækkunar aðfluttra og fjölgunar brottfluttra. Atvinnuleysi er umtalsvert  meira meðal erlendra ríkisborgara en íslenskra ríkisborgara.

Gert er ráð fyrir að atvinnulausum fækki, en þeir voru um 8.700 á skrá Vinnumálastofnunar í lok júlí síðast liðinn og 8.400 sé miðað við vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar á sama tíma. Menntunarstig þeirra sem eru á  atvinnuleysisskrá er fjölbreytt, en yfir 20% þeirra hefur lokið iðnnámi eða starfstengdu framhaldsnámi og tæp 20% eru háskólamenntaðir. Framundan er að leggja meiri rækt við að sinna erlendum ríkisborgurum á atvinnuleysisskrá.

Sjá nánari upplýsingar hér: Atvinnuhorfur og þjónusta við útlendinga

3. Önnur mál

Stefnt er að óbreyttum fundartíma velferðarvaktarinnar í vetur.

Stefnt er að því að áfangaskýrsla vaktarinnar 2012 komi út í nóvember næst komandi.

Fundargerð ritaði  Ingibjörg Broddadóttir.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta