Nr. 458/2022 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 17. nóvember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 458/2022
í stjórnsýslumálum nr. KNU22110010, KNU22110011, KNU22110012 og KNU22110013
Beiðni um frestun framkvæmdar í málum [...], [...],[...] og [...]
-
Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 397/2021, dags. 26. ágúst 2021, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 8. apríl 2021, um að taka umsóknir einstaklinga er kveðast heita [...], vera fædd [...] (hér eftir A), [...], vera fæddur [...] (hér eftir B), [...], vera fædd [...] (hér eftir C) og [...], vera fædd [...] (hér eftir D), ríkisborgarar Íraks, um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum 30. ágúst 2021. Hinn 6. september 2021 lögðu kærendur fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar og endurupptöku málanna. Beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa og endurupptöku var synjað af kærunefnd 4. nóvember 2021. Hinn 9. desember 2021 lögðu kærendur fram beiðni um endurupptöku að nýju. Var þeirri beiðni synjað af kærunefnd 3. febrúar 2022. Hinn 2. nóvember 2022 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun framkvæmdar. Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd ásamt syni A. Úrskurður fjölskyldunnar varðandi beiðni þeirra um frestun framkvæmdar var unnin samhliða og kveðnir upp samdægurs, sbr. úrskurð nr. 457/2022. Samkvæmt gögnum málsins var kærendum vísað frá landinu í fylgd lögreglu 3. nóvember 2022.
Beiðni kærenda um frestun á framkvæmd á máli þeirra er reist á grundvelli 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
-
Málsástæður og rök kærenda
Í beiðni kærenda kemur fram að stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi komið að heimili þeirra og tilkynnt þeim fyrirvaralaust að þau væru handtekin vegna flutnings til Grikklands. Fjölskyldan hafi stefnt málum sínum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og aðalmeðferð verði um miðjan mánuðinn. Kærendur óska þess að kærunefnd útlendingamála fresti framkvæmd svo þau geti gefið þar aðilaskýrslu, sbr. lokamálsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
-
Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um frestun framkvæmdar stjórnsýslumála
Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 26. ágúst 2021. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsókna kærenda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærendur hefðu slík tengsl við landið að nærtækast væri að þau fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Fyrir liggur að kærendur voru flutt úr landi af stoðdeild ríkislögreglustjóra 3. nóvember 2022. Þar sem flutningur kærenda hefur þegar verið framkvæmdur er kröfu kærenda um frestun á framkvæmd vísað frá.
Úrskurðarorð:
Kröfu kærenda um frestun framkvæmdar er vísað frá.
The appellants’ request to suspend the implementation of the decision of Immigration Appeals Board is dismissed.
Þorsteinn Gunnarsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Sandra Hlíf Ocares