Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Frumvarp um takmörkun á notkun burðarpoka úr plasti í samráðsferli

Plast á strönd - myndHeidi Orava/norden.org

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um frumvarp vegna breytinga á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með frumvarpinu er innleidd Evróputilskipun er lýtur að því að draga úr notkun á þunnum burðarpokum úr plasti.

Í frumvarpinu er sett fram tillaga að tölulegum markmiðum sem skuli náð varðandi árlega notkun burðarpoka úr plasti. Lagt er til að eigi síðar en 31. desember 2019 skuli árlegt notkunarmagn burðarpoka úr plasti vera 90 á hvern einstakling eða færri og eigi síðar en 31. desember 2025 skal árlegt notkunarmagn vera 40 burðarpokar eða færri.

Þá er lagt til í frumvarpinu að óheimilt verði að afhenda burðarpoka, þ.m.t. burðarpoka úr plasti, án endurgjalds á sölustöðum vara og að gjaldið verði sýnilegt á kassakvittun.

Að lokum er lagt til að óheimilt verði að afhenda burðarpoka úr plasti, hvort sem er með eða án endurgjalds, á sölustöðum vara frá og með 1. júlí 2021.

Frumvarpið er í samræmi við tillögu að aðgerðaáætlun um hvernig draga má úr notkun plasts, bæta endurvinnslu þess og takast á við plastmengun í hafi sem samráðsvettvangur um aðgerðaáætlun í plastmálefnum skilaði til umhverfis- og auðlindaráðherra 1. nóvember 2018. Þar eru lagðar til alls 18 aðgerðir og eru tillögurnar í samráðsferli til 4. desember 2018. Ein af aðgerðunum sem gerð er tillaga um varðar burðapoka úr plasti.

Óskað er eftir því að athugasemdir við frumvarpsdrögin berist í samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 28. nóvember nk.

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir (EES-innleiðing) á Samráðsgátt


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta