Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 408/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 408/2017

Fimmtudaginn 30. nóvember 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 1. nóvember 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. júní 2017 og rökstuddri 29. júní sama ár, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. júní 2017, var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 29. júní 2017, var umbeðinn rökstuðningur veittur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. nóvember 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Skýringar bárust með tölvupósti 14. nóvember 2017.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi farið utan til náms en stuttu eftir að hann hafi komið aftur til landsins hafi hann eignast barn og því ekki haft tíma til að byggja upp starfsemi út frá sinni þekkingu. Í lok árs 2016 hafi hann farið að vinna í því en á sama tíma orðið atvinnulaus. Kærandi hafi leitað eftir upplýsingum frá starfsmanni Vinnumálastofnunar um möguleika á að stofna félag og fá virðisaukaskattsnúmer samtímis greiðslu atvinnuleysisbóta og fengið vilyrði fyrir því. Kærandi tekur fram að starfsemi hans hafi gengið ágætlega í upphafi en þó ekki eins og hann hafi verið búinn að gera ráð fyrir. Einhverju síðar hafi kærandi síðan fengið þær upplýsingar frá Vinnumálastofnun að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi telur ósanngjarnt að hann þurfi að endurgreiða atvinnuleysisbæturnar vegna mistaka starfsmanna Vinnumálastofnunar og tekur fram að endurgreiðslukrafan komi honum mjög illa og því óski hann eftir aðstoð með málið.

III. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. júní 2017, og rökstuddri 29. júní sama ár, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 29. júní 2017, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með bréfi, mótteknu 1. nóvember 2017. Samkvæmt framangreindu barst kæran úrskurðarnefndinni að liðnum lögboðnum kærufresti.

Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess. Ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga mælir þannig fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 29. júní 2017 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 1. nóvember 2017, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í máli hans. Í skýringum kæranda kemur fram að ástæða þess að hann hafi ekki lagt fram kæru fyrr sé vegna þekkingarleysis hans á reglum varðandi meðferð kærunnar en hann sé hvorki talandi né skrifandi á íslensku. Kærandi telur ámælisvert að honum hafi ekki verið veittar leiðbeiningar um kærufrestinn á hans tungumáli.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru framangreindar ástæður ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt 8. gr. laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er íslenska mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu. Með vísan til þess gerir nefndin ekki athugasemd við að kærandi hafi ekki fengið leiðbeiningar um kærufrest á sínu tungumáli.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta