Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2017 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 410/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. júlí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 410/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060007

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 31. maí 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. maí 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd frá [...], synja honum um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Grikklandi og synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga og dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland, sbr. 78. gr. sömu laga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 1., 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. einnig ákvæði 42. gr. sömu laga.

Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Í gögnum málsins greinir að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 28. janúar 2017. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 1. febrúar og 6. apríl 2017 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Þann 23. maí 2017 tók Útlendingastofnun ákvörðun í máli kæranda. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 31. maí 2017. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 29. júní 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi auk þess sem hann hefði fengið útgefið dvalarleyfi á Grikklandi sem gildi til 24. apríl 2019.

Við meðferð málsins bar kærandi m.a. fyrir sig bágar aðstæður í Grikklandi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu legði ekki skyldu á aðildarríki til að sjá öllum sem dvelji innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu á aðildarríki að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum. Var það mat Útlendingastofnunar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur aftur til Grikklands. Þá var kæranda synjað um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Grikklandi þar sem kærandi, sem ríkisborgari [...], gæti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamaður vegna aðstæðna sinna í Grikklandi. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Þá var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga, og dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland, sbr. 78. gr. sömu laga.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Til stuðnings aðalkröfu kæranda segir m.a. í greinargerð að 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði aðeins á um heimild stjórnvalda til að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd, en ekki skyldu. Af hálfu kæranda er einnig byggt á því að vegna aðbúnaðar og aðstæðna hans á Grikklandi myndi endursending þangað brjóta gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einnig 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings varakröfu kæranda, um að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju, vísar kærandi til þess að rannsókn málsins og rökstuðningur hafi ekki verið í samræmi við 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Í 2. mgr. 36. gr. laganna segir að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því.

Heilsufar er einn þeirra þátta sem stjórnvöldum ber að líta til við mat á því hvort aðstæður umsækjanda um alþjóðlega vernd teljist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og mæli þannig með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar. Fara þarf fram heildstætt mat á aðstæðum umsækjanda þar sem litið er til heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um þær aðstæður sem bíða kæranda í viðtökuríki, þ.m.t. hvort sú heilbrigðisþjónusta sem umsækjandi hefur aðgang að í viðtökuríki sé fullnægjandi. Kærunefnd leggur áherslu á að mat á því hvort heilsufar umsækjanda teljist sérstakar ástæður er ekki bundið við skoðun á heilbrigðiskerfi móttökuríkis heldur þarf matið að fara fram á einstaklingsgrundvelli með hliðsjón af atvikum máls. Meðal þeirra atvika sem sérstaklega þarf að líta til eru áhrif flutnings til viðtökuríkis á heilsufar umsækjanda að teknu tilliti til aðstæðna við flutning. Verði niðurstaða heildstæðs mats á atvikum málsins sú að gögn málsins bendi eindregið til þess að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar komi til með að hafa verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu umsækjanda telur kærunefnd að taka beri slíkar umsóknir til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda sé þá öruggt að einstaklingur verði ekki fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð við framkvæmd slíkrar ákvörðunar, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Í 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga segir að við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun tryggja, eins fljótt og kostur er, að fram fari, með aðstoð viðeigandi sérfræðinga, einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. sömu laga. Í athugasemdum við 25. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að með ákvæðinu er tryggt að snemma í málsmeðferð fari fram heildstætt mat á stöðu umsækjanda í þessu tilliti en jafnframt lögð sú skylda á yfirvöld að einskorða ekki slíkt mat við einn tímapunkt og taka tillit til þess ef frekari upplýsingar koma fram á öðrum stigum máls. Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljast einstaklingar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ef þeir, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Sem dæmi um einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu nefnir ákvæðið t.d. fólk með geðraskanir eða geðfötlun og alvarlega veika einstaklinga.

Líkt og fram hefur komið gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið ábótavant þar sem ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga m.a. þar sem í málinu hafi legið fyrir upplýsingar um alvarleg andleg og líkamleg veikindi kæranda. Þrátt fyrir það hafi Útlendingastofnun ekkert gert til að afla læknisvottorðs eða frekari upplýsinga um ástand [...] heilsu kæranda og stofnunin hafi hafnað beiðni talsmanns kæranda um að slíkra gagna yrði aflað.

Í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar kemur fram að í viðtölum stofnunarinnar við kæranda þann 1. febrúar og 6. apríl sl. hafi kærandi lýst því að hann væri með [...]. Í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar varðandi viðkvæma stöðu kæranda kemur fram að stofnunin hafi ekki neinar upplýsingar um að kærandi hafi [...]. Þjónustuteymi stofnunarinnar sé ekki kunnugt um [...] en staðfesti þó að kærandi hafi hitt lækni og sálfræðing hér á landi. Þá hafi kærandi ekki lagt fram nein læknisfræðileg gögn um heilsufar sitt. Það var því mat stofnunarinnar að aðstæður kæranda væru ekki slíkar að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi þeirrar skyldu sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 25. gr. núgildandi laga um útlendinga, um að einstaklingsbundin greining fari fram á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laganna, telur kærunefnd rétt að fram fari slík greining á aðstæðum kæranda. Það er mat kærunefndar að gögn málsins og frásögn kæranda um veikindi hans hafi gefið tilefni til þess að afla þyrfti frekari gagna til þess að taka afstöðu um þetta atriði, þ.e. hvort hann vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafi sérþarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð máls eða geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits. Upplýsingar frá þjónustuteymi Útlendingastofnunar varðandi læknisheimsókn kæranda hér á landi er ekki nægjanlegur grundvöllur til töku ákvörðunar í málinu. Kærunefnd gerir því athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar á málinu. Að mati kærunefndar þurfa frekari gögn að liggja fyrir svo hægt sé að leggja mat á frásögn kæranda varðandi heilsufar hans, þ.m.t. hvort andleg og líkamleg veikindi kæranda hafi áhrif á mat á hvort kærandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sérstaklega í ljósi þess að stofnuninni var kunnugt um að kærandi ætti bókaðan tíma í [...] eða rúmum mánuði áður en ákvörðun var tekin í málinu. Stofnunin hafi þó ekki aflað frekari læknisfræðilegra gagna varðandi [...] né leiðbeint kæranda um mikilvægi þess að leggja fram frekari gögn varðandi heilsufar sitt, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Þá hefði stofnunin einnig þurft að leiðbeina talsmanni kæranda um mikilvægi framlagningar læknisfræðilegra gagna í málinu. Við mat á sérstökum ástæðum í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga geta upplýsingar um líkamlegt og andlegt heilsufar umsækjanda um alþjóðlega vernd verið þýðingarmikil. Í ljósi þess vill kærunefnd benda á að slík gögn geta skipt verulegu máli varðandi heildarmat á aðstæðum og niðurstöðu máls umsækjanda. Þá gerir kærunefnd einnig athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki stuðst við nýjustu tiltæku gögn um aðstæður í Grikklandi. Kærunefnd telur að stofnuninni beri að byggja á nýjustu tiltæku gögnum hverju sinni.

Ljóst er að meginmarkmiðið með kæruheimildum er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að rannsókn hafi ekki verið fullnægjandi og að leiðbeiningarskyldu varðandi gögn hafi verið ábótavant í máli kæranda. Það er jafnframt afstaða nefndarinnar að þegar rökstuðningurinn og gögn málsins eru virt í heild verði ekki lagt til grundvallar af hálfu nefndarinnar að farið hafi fram viðhlítandi mat á hagsmunum kæranda varðandi endursendingu til Grikklands í ljósi þeirra sjónarmiða sem að lögum er skylt að líta til. Nefndin telur að ekki sé sannanlegt að þessir annmarkar hafi í raun ekki haft áhrif á efni ákvörðunarinnar. Verður því ekki, eins og hér stendur á, hjá því komist að fella ákvörðun í máli kæranda úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda aftur til meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli [...], er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný.

The decisions of the Directorate of Immigration in the case of the appellant is vacated. The Directorate of Immigration shall reexamine his applications for asylum in Iceland.

Anna Tryggvadóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta