Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2017 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 423/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 10. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 423/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17050048

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. maí 2017 kærði [...], fd. .[...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. apríl 2016, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. og 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um vernd hér á landi ásamt eiginkonu sinni og barni þeirra.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 16. október 2016. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 21. mars 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 12. apríl 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 26. maí 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 12. júní 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í heimaríki sínu af hendi fyrrverandi kærasta eiginkonu sinnar sem sé háttsettur lögreglumaður í heimabæ þeirra.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi og eiginkona hans séu fædd og uppalin í borginni [...] í [...] og tilheyri minnihluta [...] þar í landi. Kærandi kveður að hann hafi sótt um vernd hér á landi vegna ofsókna, hótana og andlegs og líkamlegs ofbeldis sem hann og eiginkona hans hafi sætt af hendi lögreglumanns sem eiginkona hans hafi átt í ástarsambandi við áður en hún hafi kynnst kæranda. Þá hafi hvorki kærandi né eiginkona hans fengið lögregluvernd þrátt fyrir að hafa leitað aðstoðar yfirvalda margsinnis. Því hafi þau neyðst til að flýja heimaríki sitt, [...].

Eiginkona kæranda hafi kynnst fyrrverandi kærasta sínum árið 2008 en hegðun hans hafi breyst og þróast yfir í andlegt og líkamlegt ofbeldi eftir því sem liðið hafi á sambandið. Eiginkona kæranda hafi kært ofbeldið til lögreglu en enga aðstoð fengið. Í kjölfarið hafi eiginkona kæranda slitið sambandinu við þáverandi kærasta sinn sem hafi haldið áfram að hóta henni og fjölskyldu hennar. Eitt sinn eftir að kærandi hafi kynnst eiginkonu sinni hafi fyrrverandi kærasti hennar komið á vinnustað kæranda og hótað honum. Þá hafi hann veitt kæranda og eiginkonu hans eftirför í brúðkaupsferð þeirra og ráðist á þau með ofbeldi, ásamt tveimur öðrum mönnum. Eiginkona kæranda hafi verið þunguð á þeim tíma en misst fóstur við líkamsárásina og þurft að fara í aðgerð vegna fósturlátsins. Hún hafi orðið þunglynd í kjölfarið og ákveðið að fara í kvennaathvarf (e. safe house) í borginni [...] í [...]. Fyrrverandi kærasti hennar hafi fengið veður af því, komist inn í athvarfið og ráðist á hana. Hafi hún hlotið sjáanlega áverka á vör í kjölfar árásarinnar, sem hún hafi sýnt í viðtali hjá Útlendingastofnun. Í kjölfarið hafi kærandi og eiginkona hans lagt fram kæru hjá lögreglunni í [...] en þau hafi ekki getað kært árásina í [...]. Lögreglan í [...] hafi ekkert aðhafst í kjölfar kærunnar. Skömmu síðar hafi fyrrverandi kærastanum verið vikið frá störfum tímabundið en lögreglan hafi hvorki tilkynnt kæranda né eiginkonu hans um brottvikninguna, heldur hafi þau haft fregnir af henni með öðrum leiðum. Þá viti þau ekki hvers vegna honum hafi verið vikið frá störfum eða hvort það hafi tengst þeirra máli á nokkurn hátt. Hann hafi snúið aftur til starfa nokkrum mánuðum síðar og þá hafi kærandi og eiginkona hans, sem var þunguð, ákveðið að flýja til borgarinnar [...] í [...]. Að ári liðnu hafi fyrrverandi kærastinn birst fyrir utan heimili þeirra og ráðist að þeim og dóttur þeirra með ofbeldi. Eiginkona kæranda hafi gengist undir aðgerð vegna áverka sem hún hafi hlotið við líkamsárásina. Í kjölfarið hafi eiginkona kæranda verið við slæma andlega og líkamlega heilsu og hætt tímabundið í háskólanámi. Hún hafi þó hafið aftur nám í þeim tilgangi að reyna að halda lífi sínu áfram. Dag einn þegar hún hafi verið á leið í skólann hafi fyrrverandi kærastinn ráðist aftur á hana og hafi hún verið send í aðgerð á spítala í höfuðborginni, [...], vegna áverkanna. Í kjölfar síðastnefndu árásarinnar hafi kærandi og eiginkona hans séð sér þann kost vænstan að flýja heimaríki sitt og sækja um alþjóðlega vernd.

Kærandi og eiginkona hans kveða að fyrrverandi kærasti eiginkonunnar sé yfirmaður í lögreglunni í [...] og hafi jafnframt gegnt herþjónustu. Hann hafi fylgst með kæranda og eiginkonu hans og ofsótt þau í skjóli stöðu sinnar innan [...] lögreglunnar. Þá óttist kærandi og eiginkona hans einnig [...] yfirvöld, sem hafi ekki veitt þeim vernd. Spilling og mútur viðgangist alls staðar í [...] en sem yfirmaður í lögreglunni hafi fyrrverandi kærasti eiginkonu kæranda mikil völd. Kærandi telji að snúi hann og fjölskylda hans aftur til [...] muni ofsóknirnar halda áfram og líf hans, eiginkonu hans og dóttur þeirra muni verða í hættu.

Til stuðnings aðalkröfu sinni um alþjóðlega vernd vísar kærandi til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, 1. mgr. 40. gr. sömu laga og 2. mgr. 45. gr. sömu laga. Þá vísar kærandi til handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um hugtakið ofsóknir í skilningi 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, sbr. einnig 1. og 2. mgr. og d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi m.a. til lögskýringargagna að baki 38. gr. laganna.

Þá fjallar kærandi um skort á vilja og getu [...] stjórnvalda til að veita honum og fjölskyldu hans vernd. Lögregluofbeldi, refsileysi og spilling viðgangist í [...] og megi í því sambandi vísa til úttektar Transparency International um spillingu í ríkjum heims og umfjöllunar um spillingu í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um [...]. Þá hafi stofnanir og samtök á borð við [...] bent á að skortur sé á gagnsæi í [...] stjórnsýslu. Eftirlitsstofnuninni [...] hafi ekki tekist að sinna hlutverki sínu sem skyldi. Samkvæmt samantekt [...] beri [...]% [...] almennings ekki traust til lögregluyfirvalda og í skýrslu Evrópsku stuðningsskrifstofunnar í hælismálefnum komi fram að [...]% almennra borgara telji spillingu [...] stjórnvalda alvarlegt vandamál. Þá komi fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að ofbeldi gegn konum og börnum sé meðal alvarlegri mannréttindabrota sem viðgangist í landinu. Í skýrslu umboðsmanns borgara komi jafnframt fram að í [...] skorti skjót og árangursrík úrræði við kynbundnu ofbeldi. Ljóst sé að líf kæranda og fjölskyldu hans séu í hættu verði þau send aftur til [...]. Þá geti þau ekki leitað ásjár [...] yfirvalda þar sem spilling og refsileysi loði við yfirvöld. Enn fremur hafi kærandi og eiginkona hans ítrekað leitað til lögregluyfirvalda vegna hótana og ofbeldis, en án árangurs. Með því að senda kæranda og fjölskyldu hans aftur til [...] sé því brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga. Þá myndi slík ákvörðun jafnframt brjóta gegn 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til stuðnings varakröfu sinni um viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vísar kærandi m.a. til lögskýringargagna að baki lögum nr. 115/2010 um breytingu á þágildandi lögum um útlendinga nr. 96/2002, tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2004/83/EB frá 29. apríl 2004, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. alþjóðasamnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Umsókn einstaklings um alþjóðlega vernd eigi að fara fram á einstaklingsgrundvelli og meðal atriða sem beri að hafa í huga við matið séu öll viðeigandi gögn um landið sem um ræði, framlögð gögn umsækjanda og hvort hægt sé með sanngjörnum hætti að ætlast til þess að umsækjandi leiti verndar stjórnvalda í viðkomandi ríki. Kærandi telji augljóst að hann geti ekki leitað verndar yfirvalda í heimaríki sínu. Þá ítrekar kærandi að endursending til [...] myndi brjóta gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings þrautavarakröfu sinni um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vísar kærandi einkum til lögskýringargagna að baki ákvæðinu. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga komi m.a. fram að minni kröfur séu gerðar til þess að börn njóti verndar og fái dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laganna, eigi þau ekki rétt á dvalarleyfi á öðrum grundvelli.

Þá teljist barn kæranda til sérstaklega viðkvæms hóps hælisleitenda. Sé þess óskað að tekið verði tillit til þeirrar verndar sem það eigi rétt á skv. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum og öðrum þjóðréttarreglum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig að þjóðarétti til að virða. Barn kæranda hafi búið við ofsóknir og óöryggi allt frá fæðingu og [...] lögregluyfirvöld hafi aldrei veitt því eða foreldrum þess nokkra vernd.

Að endingu vísar kærandi til þess að í athugasemdum við 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, í greinargerð með frumvarpi til laganna, komi fram að hugtakið um raunverulega vernd í öðrum hluta heimalands (e. internal flight) sé ekki meginregla í alþjóðlegri flóttamannalöggjöf og umsókn um alþjóðlega vernd þurfi ekki að vera lokaúrræði. Með hliðsjón af atvikum í máli kæranda telji hann að krafa um flutning innanlands sé hvorki raunhæf né sanngjörn, en uppfylla þurfi bæði framangreind skilyrði til að slík ráðstöfun komi til greina.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 121. gr. laganna, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum að því leyti sem hún hefur enn lagastoð, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað [...] Choose an item. vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...] Choose an item. ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] Choose an item. m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

· [...]

Samkvæmt ofangreindum gögnum er [...].

Af fyrrgreindum gögnum má þó ráða að nokkuð skorti á að tjáningarfrelsi sé virt, svo og réttindi tiltekinna hópa, þ.á.m. Róma-fólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks. Trúfrelsi ríkir í [...] og stjórnarskráin bannar jafnframt ríkistrú. Réttindi minnihlutahópa eru tryggð með lögum en eftirfylgni er um margt ábótavant.

Þá kemur fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins að refsileysi og spilling innan lögreglunnar hafi verið vandamál en félagasamtök hafi þó bent á að gæði innra eftirlits með lögreglu hafi batnað með tilkomu nýrra sakamálalaga. Frá upphafi árs 2016 og til loka október s.á. hafi 147 ákærur verið gefnar út á hendur lögreglumönnum. Þá reki [...] innanríkisráðuneytið tilkynningarsíma þar sem hægt sé að tilkynna spillingu innan lögreglunnar. Enn fremur hafi yfirvöld, í samstarfi við alþjóðleg samtök, veitt fjármunum í fjölda námskeiða til að takast á við spillingu innan refsivörslukerfisins. Þá kveði stjórnarskrá [...] á um sjálfstæði dómsvaldsins en [...] dómstólar séu þó enn viðkvæmir fyrir spillingu og pólitískum áhrifum.

Í [...] stjórnarskránni er að finna ákvæði um jafnrétti og bann við mismunun á grundvelli kynferðis. Þá hefur [...] fullgilt alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gagnvart konum og valkvæðan viðauka við samninginn. Þó kemur fram í skýrslum opinberra stofnana og frjálsra félagasamtaka að kynbundið ofbeldi sé vandamál í [...]. Samkvæmt skýrslu samtakanna Women against Violence Europe um [...] fyrir árið 2012 hafi [...] kvenna orðið fyrir líkamlegu ofbeldi einhvern tíma á lífsleiðinni en opinber tölfræði um lyktir slíkra mála í [...] refsivörslukerfinu liggi ekki fyrir. Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að [...] yfirvöld bjóði þolendum kynbundins ofbeldis ekki upp á gjaldfrjálsa lögfræðiaðstoð en frjáls félagasamtök bjóði upp á slíka aðstoð. Áætlun hafi verið þróuð til að koma á fót kerfi sem veiti efnalitlum einstaklingum, viðkvæmum hópum og þolendum kynbundins ofbeldis endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð en upplýsingar um árangur verkefnisins liggi ekki fyrir. [...] yfirvöld hafi jafnframt markað sér stefnu um jafnrétti á grundvelli kynferðis, fyrir árin [...]. Þá bjóði [...] yfirvöld upp á hjálparsíma fyrir þolendur heimilisofbeldis og [...] kvennaathvörf sé að finna víðs vegar um [...].

Í [...] er fyrir hendi löggjöf sem tryggir réttindi barna og vernd þeim til handa en fagaðilar hafi bent á að eftirlit og eftirfylgni skorti. Börn sem tilheyri minnihlutahópum séu líklegri til að upplifa jaðarsetningu og fátækt, þ.á.m. Róma-börn, börn með fötlun og HIV-smituð börn.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Krafa kæranda um alþjóðlega vernd byggir á því að hann hafi orðið fyrir ofsóknum af hendi fyrrverandi kærasta eiginkonu sinnar sem sé háttsettur lögreglumaður í heimabæ þeirra.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Líkt og fram hefur komið kveður kærandi að hann og fjölskylda hans sæti ofsóknum af hendi fyrrverandi kærasta eiginkonu hans sem sé lögreglumaður í heimalandi þeirra, [...]. Í greinargerð kæranda er einkum byggt á því að eiginkona hans hafi um árabil sætt kynbundnu ofbeldi af hendi fyrrverandi kærasta síns. Kærandi byggir jafnframt á því að [...] yfirvöld geti ekki veitt honum og fjölskyldu hans aðstoð vegna aðstæðna sinna. Því til stuðnings lagði kærandi fram skjöl sem hann kveður vera skýrslur frá lögreglunni í [...], dags. 28. ágúst 2011 og 31. maí 2015. Í fyrri skýrslunni lýsir kærandi árás sem hann kveður sig og eiginkonu sína hafa orðið fyrir, í brúðkaupsferð þeirra, af hendi fyrrum kærasta eiginkonu hans og aðila honum tengdum. Í síðari skýrslunni lýsir kærandi árás sem hann kveður sig, eiginkonu sína og barn þeirra hafa orðið fyrir í [...], af hendi sama manns. Þá lagði eiginkona kæranda m.a. fram þrjú skjöl sem hún kveður jafnframt vera skýrslur frá lögreglunni í [...], dags. 14. maí 2010, 28. ágúst 2011 og 28. apríl 2012. Í skýrslunum lýsir hún m.a. árásum sem hún kveðst hafa orðið fyrir af hálfu manns sem hún hafi verið í sambandi við, svo og hótunum sem hún og fjölskylda hennar hafi orðið fyrir eftir að hún hafi slitið sambandi við téðan mann. Þá lagði eiginkona kæranda fram annað skjal, dags. 29. apríl 2012, sem samkvæmt fyrirliggjandi þýðingu er niðurstaða frá athvarfi fyrir þolendur heimilisofbeldis í [...]. Þar kemur m.a. fram að fyrrum kærasti hennar hafi, ásamt tveimur óþekktum aðilum, reynt að ræna henni úr athvarfinu þann 27. apríl 2012. Eiginkona kæranda lagði fram þrjú skjöl til viðbótar, dags. 3. júní 2015, 17. september s.á. og 5. september 2016, sem hún kveður vera áverkavottorð vegna aðgerða sem hún hafi þurft að gangast undir í kjölfar árása af hendi fyrrum kærasta síns, sbr. upplýsingar úr viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 21. mars 2017. Samkvæmt þýðingu á framangreindum vottorðum hefur eiginkona kæranda [...] í kjölfar barnsfæðingar en í vottorðunum kemur ekki fram að um sé að ræða áverkavottorð vegna aðgerða í kjölfar líkamsárásar.

Samkvæmt skýrslum og gögnum um aðstæður í [...], sem kærunefnd hefur yfirfarið, eru úrræði fyrir hendi þar í landi til að tilkynna um spillingu og misferli lögreglu. Þá hafa [...] stjórnvöld gripið til aðgerða til þess að ákæra og refsa opinberum starfsmönnum, þ.á m. lögreglumönnum, vegna brota í starfi. Þrátt fyrir að enn sé þörf á úrbótum í þessu efni er það mat kærunefndar að almennt verði að telja að [...] stjórnvöld geti veitt kæranda og fjölskyldu hans viðeigandi vernd gegn ofsóknum þeim sem hann kveður þau sæta af hendi fyrrverandi kærasta eiginkonu hans. Kærandi kveður að hann og eiginkona hans hafi kært framangreint ofbeldi til lögreglunnar í [...], þar sem fyrrverandi kærasti eiginkonu hans starfi sem lögreglumaður. Samkvæmt gögnum málsins hafa þau ekki neytt annarra úrræða sem í boði eru í heimaríki þeirra, s.s. að leita til æðri stjórnvalda og tilkynna um spillingu eða misferli innan lögreglunnar. Þá er það mat kærunefndar að framlögð gögn kæranda og eiginkonu hans upplýsi ekki um það að lögregluyfirvöld í [...] hafi ekki unnið starf sitt sem skyldi. Í ljósi skýrslna um þá vernd sem stjórnvöld veita almenningi í [...] og þau úrræði sem eru kæranda tæk telur kærunefnd að kærandi hafi ekki lagt fram haldbær gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að hann geti ekki notið viðeigandi verndar [...] yfirvalda.

Að mati kærunefndar styðja heimildir ekki við þá staðhæfingu kæranda að [...] stjórnvöld skorti vilja eða getu til að veita kæranda og fjölskyldu hans fullnægjandi vernd gegn þeim ofsóknum sem hann nefnir, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir. Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi raunhæfan möguleika á að leita ásjár stjórnvalda í heimaríki sínu. Að öllu framangreindu virtu telur kærunefnd því ljóst að hann uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu stöðu flóttamanns.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga segir m.a. að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi kveður sig og fjölskyldu sína ekki geta ekki leitað aðstoðar [...] yfirvalda vegna ofsókna sem þau sæti af hendi fyrrverandi kærasta eiginkonu hans. Svo sem fram hefur komið metur kærunefnd það svo, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að kæranda standi til boða úrræði í heimaríki hans sem feli í sér viðeigandi vernd.

Kærandi kom hingað til lands ásamt eiginkonu sinni og barni. Gefa gögn málsins til kynna að kærandi sé við góða heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar með þeirri breytingu að kærandi skal hafa 15 daga til að yfirgefa landið, enda liggur ekki fyrir rökstuðningur fyrir því að beita skuli skemmri fresti í þessu máli.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest með þeirri breytingu að kæranda skal veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed with the amendment that the appellant shall have 15 days to leave Iceland.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta