Fjárlagafrumvarp 2016
- Hallalaus ríkissjóður þriðja árið í röð
- Tollar afnumdir, tekjuskattur einstaklinga lækkar
- Elli- og örorkulífeyrir hækkar
- Framlög til húsnæðismála aukin
- Skuldahlutföll ríkissjóðs lækka
- Velferðarkerfið styrkt, heilsugæsla efld
- Aukin framlög til nýsköpunar og þróunar
- Betri horfur efnahagslífs með áætlun um losun hafta
Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 hefur verið lagt fram á Alþingi. Gert er ráð fyrir 15,3 mia.kr. afgangi og er þetta þriðja árið í röð sem frumvarp til fjárlaga er hallalaust. Afgangur af frumjöfnuði verður áfram verulegur, eða um 73 mia.kr sem er meira en í flestum öðrum löndum um þessar mundir.
Kaupmáttur hefur aukist hratt, með lítilli verðbólgu, hækkandi launum, niðurfærslu verðtryggðra húsnæðisskulda og lækkun skatta og gjalda. Áfram verður haldið á þessari braut. Afnám tolla, lækkun tekjuskatts einstaklinga og niðurgreiðsla skulda ásamt vaxandi rekstrarafgangi er meðal þess sem hæst ber. Einnig er gert ráð fyrir nýju 2,6 mia.kr framlagi til húsnæðismála og minni skattbyrði leigutekna til að hvetja til langtímaleigu. Þá hækka framlög til heilbrigðismála, menntamála og almannatrygginga.
Afnám tolla
Breytingar á skattkerfinu á árinu 2016 miða að því að bæta enn frekar lífskjör á Íslandi og auka um leið skilvirkni kerfisins. Stærsta breytingin snýr að tekjuskatti einstaklinga og afnámi tolla á fatnað og skó.Stefnt er að því að tollar á fatnað og skó verði afnumdir við næstu áramót. Þá er jafnframt áformað að allir aðrir tollar en þeir sem leggjast á tiltekin matvæli verði lagðir af 1. janúar 2017.
Niðurfelling tolla hefur umtalsverð áhrif á smásöluverð og ætla má að vísitala neysluverðs geti lækkað um allt að 0,5% á árinu 2016 og nái 1% lækkun árið 2017. Ráðstöfunartekjur heimila hækka með þessu en aðgerðinni er jafnframt ætla að stuðla að að samkeppnishæfari verslun á Íslandi. Alls lækkar bein álagning af hálfu ríkisins á innfluttar vörur um 4,4 milljarða króna.
Smásöluverð¹ m. vsk., kr. | |||||
Vara² | Tollur | Nú | Eftir br. | Lækkun | % |
---|---|---|---|---|---|
Peysa ....................................................... | 15% | 4.929 | 4.286 | -643 | -13,0 |
Barnaúlpa ................................................. | 15% | 10.590 | 9.209 | -1.381 | -13,0 |
Íþróttabúningur ........................................ | 15% | 11.980 | 10.417 | -1.563 | -13,0 |
Fótboltasokkar ........................................... | 15% | 1.990 | 1.730 | -260 | -13,0 |
Gúmmístígvél ............................................ | 15% | 10.849 | 9.434 | -1.415 | -13,0 |
Pollagalli ................................................... | 15% | 10.500 | 9.130 | -1.370 | -13,0 |
Snjógalli .................................................... | 15% | 25.000 | 21.739 | -3.261 | -13,0 |
Kuldaskór ................................................. | 15% | 14.624 | 12.717 | -1.907 | -13,0 |
Samtals .................................................... | 90.462 | 78.663 | -11.799 | -13,0 |
¹Til einföldunar er miðað við að heildsölu- og smásöluálagning sé sú sama fyrir allar tegundir, eða 75%.
²Miðað er við að umræddar vörur séu fluttar inn frá ríki sem ekki hefur fríverslunarsamning við Ísland.
Lækkun tekjuskatts - hækkun bóta
Tekjuskattur einstaklinga lækkar í tveimur áföngum og við þann síðari fækkar skattþrepum úr þremur í tvö. Skattprósenta í lægra þrepi verður lækkuð úr 22,86% í 22,68% 1. janúar 2016 og í 22,50% við ársbyrjun 2017. Álag í milliþrepi verður lækkað um helming frá ársbyrjun 2016 og fellur það saman við neðsta þrepið um áramótin 2016/2017.
Greiðslur barnabóta halda áfram að hækka, en frumvarpið gerir ráð fyrir 3% hækkun bótafjárhæða. Þá er gert ráð fyrir 9,4% hækkun á bótum elli- og örorkulífeyrisþega og atvinnuleysisbóta.
Til að hvetja til langtímaleigu er lagt til að frítekjumark fjármagnstekjuskatts af leigutekjum einstaklinga af íbúðarhúsnæði verði hækkað úr 30% í 50%. Virk skattbyrði leigutekna mun þar með lækka úr 14% í 10%.
Heildar- og frumjöfnuður ríkissjóðs
Í milljörðum króna á verðlagi hvers árs |
Reikningur
2014
|
Fjárlög
2015
|
Áætlun
2015
|
Frumvarp
2016
|
---|---|---|---|---|
Tekjur .......................................................... | 685,5 | 653,7 | 680,1 | 696,3 |
Gjöld ............................................................ | 642,5 | 650,1 | 659,0 | 681,0 |
Heildarjöfnuður ........................................... | 43,0 | 3,6 | 21,1 | 15,3 |
Heildarjöfnuður, hlutfall af VLF (%) ..... | 2,2 | 0,2 | 1,0 | 0,7 |
Frumtekjur ................................................... | 667,4 | 635,5 | 662,6 | 679,7 |
Frumgjöld .................................................... | 563,9 | 567,6 | 582,2 | 606,6 |
Frumjöfnuður .............................................. | 103,5 | 67,9 | 80,4 | 73,1 |
Frumjöfnuður, hlutfall af VLF (%) ........ | 5,2 | 3,1 | 3,7 | 3,1 |
Betri skuldastaða - lægri vaxtagjöld
Skuldahlutfall ríkissjóðs af landsframleiðslu hefur lækkað ört síðustu ár. Skuldaþróunin verður enn þá hagstæðari en samkvæmt stefnumiði voráætlunar þessa árs. Áætlað er að nafnvirði heildarskulda lækki um 15% á tímabilinu í stað um 10% og að hlutfall heildarskuldanna af VLF lækki um 21% í stað 18%.
Í lok þessa árs er gert ráð fyrir að skuldahlutfallið verði 62% af landsframleiðslu og um 50% í lok árs 2016, en hlutfallið fór hæst í 85% í lok árs 2011. Vaxtagjöld ríkissjóðs lækka um 8,1 mia.kr. á næsta ári miðað við gildandi fjárlög. Mestu munar um uppgreiðslu skuldabréfs vegna endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands eftir fjármálahrunið.
Ennfremur er ljóst að áætlun um losun fjármagnshafta gefur möguleika á að lækka skuldir og skuldbindingar ríkissjóðs umtalsvert á næstu misserum. Áætlun um losun hafta hefur þegar stuðlað að bættu lánshæfismati ríkissjóðs og þar með betri vaxtakjörum á fjármálamörkuðum.
Ýmis framlög
Engar aðhaldsráðstafanir eru gerðar vegna almanna- og atvinnuleysistrygginga, menntamála og heilbrigðisstofnana.
Framlög til heilbrigðismála aukast um 1,6 mia.kr., s.s. með styrkingu á rekstrargrunni sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, auknum framlögum til heilsugæslunnar og til framkvæmdaáætlunar um byggingu nýrra hjúkrunarheimila. Jafnframt er gert ráð fyrir framlögum til að ljúka hönnun meðferðarkjarna Landspítala og byggingu sjúkrahótels.
Stutt er við nýsköpun og vísindi með verulega auknum framlögum til þessara mála. Aukningin nemur 2 mia. kr á næsta ári, á grundvelli stefnu Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2014–2016. Framlög til framhaldsfræðslu og starfsmenntunar eru aukin samhliða því að ný framlög eru veitt til átaks til að efla lestrarkunnáttu barna.
Næstu fimm árin verður stutt við verkefnið Matvælalandið Ísland og átak gert til að efla skógrækt og landgræðslu.
Sérstök framlög eru veitt til að stofna embætti héraðssaksóknara sem miðar að því að skjóta styrkari stoðum undir ákæruvald í landinu og auka málshraða.
Vakin er athygli á því að allt efni fjárlagafrumvarpsins, talnayfirlit og greinargerðir, er birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins um leið og frumvarpið hefur verið lagt fram á Alþingi. Vefslóð efnisins er www.fjarlog.is (http://www.fjarlog.is).