Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 57/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. janúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 57/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23100144

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 24. október 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Gana ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. október 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verð veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 16. mars 2020 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir börn, sbr. 1. mgr. 71. gr. laga um útlendinga, en þeirri umsókn var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. september 2020. Kærandi sótti því næst um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið 8. nóvember 2022. Hinn 25. ágúst 2023 kvartaði faðir kæranda til Umboðsmanns Alþingis vegna tafa á afgreiðslu málsins og lauk málinu með bréfi Umboðsmanns, dags. 26. september 2023, sbr. mál nr. 12349/2023. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. október 2023, var umsókn kæranda synjað.

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að heildarmat á aðstæðum kæranda leiddi ekki til þess að veita bæri henni dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, og þá væru aðstæður hennar ekki með þeim hætti að bersýnilega ósanngjarnt yrði að synja henni um dvalarleyfi, sbr. 1. og 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 20. gr. reglugerðar um útlendinga. Meðal atriða sem fram koma í ákvörðuninni er skjalarannsóknarskýrsla lögreglu á fæðingarvottorði kæranda, dags. [...], þar sem fram kom að vottorðið væri að forminu til traust en ekkert væri fullyrt um innihaldið. Þá væru tiltekin atriði í fæðingarvottorðinu í ósamræmi við upplýsingar sem fram komu í framburði föður kæranda, þegar skýrsla var tekin af honum vegna umsóknar um alþjóðlega vernd. Benti Útlendingastofnun á að ekki væri sýnt fram á, með staðfestum hætti, að kærandi hafi notið framfærslu aðstandenda sinna með peningamillifærslum og þá taldi stofnunin ekkert benda til þess að umönnunarsjónarmið, önnur en framfærsla, styddu við veitingu umbeðins dvalarleyfis.

Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 10. október 2023 og kærð til kærunefndar útlendingamála 24. október 2023. Með tölvubréfi, dags. 8. nóvember 2023, lagði kærandi fram greinargerð og önnur fylgigögn vegna málsins.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess að kærandi eigi foreldra og fimm systkini hér á landi en í heimaríki sé kærandi ein eftir, fjarri öllum náskyldum ættingjum sínum. Vísað er til þess að kærandi uppfylli skilyrði 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga vegna fjölskyldutengsla við landið en nánustu ættingjar hennar búi hér. Hvað menningarleg tengsl varðar búi kærandi yfir góðri þekkingu á íslenskri menningu og siðum, tali auk þess örlitla íslensku og hafi hug á því að skrá sig í nám, læra tungumálið og geti því orðið virkur meðlimur í íslensku samfélagi. Kærandi telur grunnskilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis fyrir hendi og að foreldrar hennar hafi ávallt séð henni fyrir farborða frá fæðingu og hyggist framfleyta henni áfram.

Kærandi gerir margvíslegar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og telur bersýnilega ósanngjarnt að veita henni ekki dvalarleyfi. Þá telur kærandi Útlendingastofnun ekki hafa uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga varðandi fjölskyldutengsl hennar og gerir kærandi athugasemdir við að fjölskyldumeðlimir hennar séu nefndir meintir fjölskyldumeðlimir en fyrirhugað væri að leggja fram skjal frá Hæstarétti Ghana, samhliða viðbótargreinargerð, þar sem fram komi að kærandi sé dóttir foreldra sinna. Kærandi gerir einnig athugasemd við 20. gr. reglugerðar um útlendinga og telur hana ganga lengra en lög áskilja varðandi kröfu um umönnunarsjónarmið og brjóti þannig í bága við lögmætisregluna. Þvert á móti telur kærandi umönnunarsjónarmið vera nefnd í dæmaskyni en ekki sé skylda að slík sjónarmið séu fyrir hendi. Kærandi tekur fram að sérstaklega verði vikið að umönnunarsjónarmiðum í viðbótargreinargerð sem kærandi áskilji sér rétt til að leggja fram.

Meðal fylgigagna sem lögð voru fram á kærustigi eru upplýsingar um millifærslur á tímabilinu 11. maí til 3. október 2023, samtals að fjárhæð 320.570 krónur en viðtakandi þeirra er ýmist [...]eða [...]. Auk þess eru upplýsingar um eina ódagsetta millifærslu að fjárhæð 13.000 krónur.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. sömu laga kemur fram að til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verður ekki endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika.

Fyrir liggur að kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og af gögnum málsins verður ráðið að hún hafi aldrei ferðast hingað til lands. Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Þetta getur t.d. átt við þegar einstaklingur er einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnast umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búa hér á landi. Samkvæmt 9. mgr. 78. gr. laga um útlendinga getur ráðherra sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 78. gr., m.a. hvenær geti komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr. ákvæðisins.

Í 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært við hvaða aðstæður getur komið til veitingar dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur ekki búið á Íslandi. Kemur þar fram að útgáfa slíks dvalarleyfis sé heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem búi á Íslandi og sé íslenskur ríkisborgari eða hafi ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem geti myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þurfi að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu- og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Þá kemur fram að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfi að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.

Dvalarleyfisumsókn kæranda grundvallast einkum á fjölskyldutengslum en hún kveðst eiga foreldra og fimm systkini hér á landi. Af fylgigögnum verður ráðið að faðir kæranda hafi reglulega millifært peninga á aðila í Gana. Móttakandi greiðslnanna var ýmist kærandi sjálf, móðir hennar eða föðurbróðir. Í því samhengi lítur kærunefnd einkum til millifærslukvittana sem lagðar voru fram á kærustigi og sýna fram á greiðslur á tímabilinu 11. maí til 3. október 2023, samtals að fjárhæð um 320.000 krónur.

Í greinargerð vísar kærandi til þess að lög og greinargerð nefni umönnunarsjónarmið í dæmaskyni en þrátt fyrir það geri reglugerðarákvæðið ráð fyrir að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfi að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis. Telur kærandi framangreint brjóta í bága við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Er það mat kærunefndar að efni umrædds reglugerðarákvæðis rúmist innan þeirrar heimildar sem löggjafinn veitti ráðherra, sbr. 9. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og telur nefndin umönnunarsjónarmið, önnur en framfærsla, vera meðal þeirra atriða sem leggja ber mat á við meðferð stjórnsýslumála sem lúta að sérstökum tengslum við landið, sbr. til hliðsjónar úrskurði nefndarinnar nr. 266/2023, dags. 10. maí 2023, og nr. 311/2022, dags. 19. ágúst 2022. Verður því ekki fallist á með kæranda að um brot gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins sé að ræða.

Þrátt fyrir þau fjölskyldutengsl sem kærandi vísar til benda gögn málsins þó til þess að hún hafi búið í heimaríki alla sína ævi, og eigi sterk tengsl við heimaríki. Þar eigi hún nána vini, sem henni séu nauðsynlegir, auk þess að hafa lokið námi á framhaldsskólastigi og hafið starfsþjálfun í hársnyrtiiðn. Verður ekki annað lagt til grundvallar en að kærandi ætli að sjá sér farborða með atvinnu, og eftir atvikum með aðstoð annarra aðstandenda, hvort sem þau séu foreldrar eða föðurbróðir kæranda. Þá benda gögn málsins ekki til þess að umönnunarsjónarmið, önnur en fjárhagsleg framfærsla, séu fyrir hendi í málinu eða að öðru leyti séu fyrir hendi slík félagsleg-, menningarleg- eða önnur sambærileg tengsl að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga. Þvert á móti er kærandi heilsuhraust og vinnufær og nýtur stuðnings skyldmenna og vina í heimaríki. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita henni ekki dvalarleyfi hér á landi, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. og 20. gr. reglugerðar um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 78. gr. laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis og verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta