Lög til að sporna við lyfjaskorti
Lyfjastofnun fær heimild til að leggja bann við því að tilteknar birgðir lyfja séu fluttar úr landi ef nauðsyn krefur til að tryggja framboð tiltekinna lyfja sem stofnunin telur mikilvæg. Frumvarp til breytinga á lyfjalögum þessa efnis hefur verið samþykkt á Alþingi. Um varúðarráðstöfun er að ræða og eru sambærileg ákvæði liður í löggjöf margra þjóða.
Heildarendurskoðun lyfjalaga er í undirbúningi og mælti heilbrigðisráðherra fyrir frumvarpi að nýjum lyfjalögum í nóvember síðastliðnum. Í því frumvarpi er gert ráð fyrir heimild til Lyfjastofnunar líkt og hér um ræðir. Ákveðið var að flýta innleiðingu þessa ákvæðis í lög til samræmis við löggjöf annarra þjóða. Er þetta liður í margþættum varúðarráðstöfunum stjórnvalda þótt ekkert liggi fyrir um hvort nauðsynlegt verði að grípa til þessarar heimildar af hálfu Lyfjastofnunar.