Hoppa yfir valmynd
16. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 430/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 430/2021

Fimmtudaginn 16. september 2021

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. júlí 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 19. júní 2021, um endurreikning húsnæðisbóta B, vegna ársins 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), dags. 19. júní 2021, var B, sambýliskonu kæranda, birt lokauppgjör vegna húsnæðisbóta ársins 2020 þar sem fram kom að hún hefði fengið vangreiddar húsnæðisbætur að fjárhæð 23.757 kr. Í bréfinu kom fram að HMS myndi greiða út inneignina 1. júlí 2021 með millifærslu á reikning X.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 30. júlí 2021. Í kærunni gerir kærandi meðal annars athugasemd við að inneignin hafi verið lögð inn á reikning B, sem hafi látist þann X. Kærandi hafi annast fjármál þeirra og það hefði verið hennar vilji að inneignin yrði lögð inn á hans reikning. 

Með bréfi, dags. 30. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir að kærandi legði fram yfirlit sýslumanns um framvindu skipta dánarbús B. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 3. september 2021, var óskað eftir þeim upplýsingum frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Umbeðið yfirlit barst samdægurs.

II.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 19. júní 2021, um endurreikning húsnæðisbóta B.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur er heimilt að kæra ákvarðanir framkvæmdaraðila sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Þá segir að um málsmeðferð hjá nefndinni gildi ákvæði laga um úrskurðarnefnd velferðarmála og stjórnsýslulaga.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Hugtakið aðili máls er ekki sérstaklega skilgreint í stjórnsýslulögunum en við það mat hefur verið litið til þess hvort hlutaðeigandi eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn máls.

Í III. kafla laga nr. 75/2016 er kveðið á um skilyrði húsnæðisbóta en samkvæmt 8. gr. laganna eru húsnæðisbætur mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda. Í 1. mgr. 9. gr. segir að hver sá sem leigi íbúðarhúsnæði eigi rétt til húsnæðisbóta að uppfylltum tilteknum skilyrðum laganna. Samkvæmt bréfi HMS, dags. 19. júní 2021, var B umsækjandi húsnæðisbóta og kærandi skráður heimilismaður. Í yfirliti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um framvindu skipta samkvæmt dánarskrá sýslumanns, dags. 3. september 2021, eru erfingjar B tilgreindir en kærandi er ekki þar á meðal. Samkvæmt yfirlitinu lauk skiptum dánarbúsins þann 21. janúar 2021, en um eignalaust bú var að ræða.

Með vísan til framangreinds verður ekki talið að kærandi eigi aðild að kærumáli þessu og er kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta