Hoppa yfir valmynd
8. maí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 215/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 8. maí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 215/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18040038

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 12. desember 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. október 2017, um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Líbíu (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Sviss. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 18. desember 2017. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 25. desember 2017. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 29. janúar 2018.

Þann 20. apríl 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins með beiðni þess efnis. Greinargerð kæranda, ásamt fylgigögnum, barst kærunefnd þann sama dag. Krafa kæranda um endurupptöku máls hans er byggð á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem að íþyngjandi ákvörðun í máli hans hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærandi byggir kröfu sína á því að með beiðni sinni hafi kærandi nú lagt fram skjal frá lögreglunni í Líbíu. Í skjalinu megi finna upplýsingar þess efnis að þeir aðilar sem hafi ráðist á hann á sínum tíma hafi komið á heimili hans og hitt þar fyrir bróður hans. Hafi aðilarnir ógnað bróður kæranda og fengið upplýsingar frá honum um að kærandi hafi flúið til Sviss. Skjal þetta hafi því mikla þýðingu að því leyti að umræddu glæpahópur sé með ítök víða í Evrópu og hafi því kærandi ástæðu til að ætla að lífi hans sé ógnað í Sviss komi til endursendingar þangað. Þá gerir kærandi kröfu um að kærunefndin hafi milligöngu um að láta löggiltan skjalaþýðanda þýða ofangreint skjal yfir á íslensku en kærandi hafi ekki fjárráð til að standa straum af slíkri þýðingu.

III.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Kærandi hefur lagt fram nýtt gagn í málinu, þ.e. skjal frá lögreglunni í Líbíu.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 12. desember 2017, var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kæranda til Sviss bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í máli kæranda, þ.e. að kærandi hefði ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Við meðferð málsins sem kærandi óskar endurupptöku á bar kærandi m.a. fyrir sig þá málsástæðu að glæpahópar sem kærandi flúði frá í heimaríki hafi ítök í Sviss og því sé lífi hans ógnað. Í úrskurði kærunefndar frá 12. desember 2017 komst nefndin m.a. að þeirri niðurstöðu að af fyrirliggjandi gögnum um aðstæður í Sviss verði ráðið að verði kærandi fyrir hótunum eða ofbeldi þar í landi geti hann leitað ásjár svissneskra lögregluyfirvalda vegna þessara atvika. Samkvæmt skýringum kæranda fjallar skjalið, sem kærandi hefur lagt fram til stuðnings endurupptökubeiðni sinni, um áreiti glæpahópa gagnvart honum í heimaríki. Að mati kærunefndar hefur frekari rannsókn á innihaldi skjalsins ekki þýðingu enda breytir það ekki fyrri afstöðu kærunefndar til þess að kærandi geti leitað ásjár svissneskra lögregluyfirvalda vegna áreitis sem hann óttast. Er það því mat kærunefndar að skjalið bendi ekki til þess að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð í málinu

Það er því niðurstaða kærunefndar að úrskurður kærunefndar frá 12. desember 2017 hafi ekki verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða á atvikum sem breyst  hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Beiðni kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Ívar Örn Ívarsson                                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta