Fleiri aðgerðir - styttri bið
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðstafa auknum fjármunum til hjartaþræðinga og liðskiptaaðgerða á Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akranesi. Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að kaupa 80 hjartaþræðingar og 41 liðskiptaaðgerð af Landspítalanum og stytta með því bið eftir þessum læknisverkum. Þessari ákvörðun er ætlað að stytta bið eftir hjartaþræðingum þannig að hún verði ekki lengri en þrír mánuðir og stytta bið eftir liðskiptaaðgerðum. Um þessi verk var sömuleiðis samið við Sjúkrahúsið og heilsugæsluna á Akranesi (SHA) samtals 25 liðskiptaaðgerðir. Liðskiptaaðgerðum fjölgar þannig um 66 í allt. Heildarkostnaðurinn er tæpar 55 milljónir króna vegna þessara verka, en heilbrigðisráðuneytið fór fram á það við stofnanirnar tvær í maí að þær byðu í þessi tilteknu læknisverk eftir nákvæma faglega athugun á biðtíma og þörf fyrir að stytta hann. Heilbrigðisráðuneytið hefur um 55 milljónir króna til ráðstöfunar til að stytta bið eftir aðgerðum á árinu 2008.