Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 204/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 204/2024

Fimmtudaginn 22. ágúst 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með erindi, dags. 11. júlí 2024, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 204/2024 þar sem staðfest var ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. apríl 2024, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar á grundvelli 4. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hefði ekki tilkynnt stofnuninni um tilfallandi tekjur eða vinnu. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 90.840 kr., að meðtöldu 15% álagi, sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 5. maí 2024 vegna þeirrar ákvörðunar. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu 10. júlí 2024. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála hina kærðu ákvörðun.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni um endurupptöku kemur fram að kærandi hafi í október 2023 verið í starfsþjálfun sem aðstoðarmaður ungs manns í hjólastól og að reynslutíminn hafi byrjað í lok októbermánaðar. Kærandi hafi ekki verið á samningi á reynslutímanum og kveðst hafa skilið það þannig að hann fengi laun í nóvembermánuði. Kærandi hafi því fyrst afskráð umsókn um atvinnuleysisbætur þann 31. október 2023 þegar honum hafi verið tilkynnt að hann fengi fastráðningu sem aðstoðarmaður  mannsins. Þetta komi fram í gögnum hjá Vinnumálastofnun. Kærandi hafi því miður fengið greitt fyrir reynslutímann í október á meðan hann hafi enn þegið atvinnuleysisbætur. Að mati kæranda gæti það stafað af tungumálaörðugleikum og því að hann hafi ekki skilið ferlið að fullu. Kærandi hafi aldrei ætlað sér að svindla á kerfinu og hafi á sínum tíma þurft á fullum bótum að halda eftir að hafa verið atvinnulaus í meira en tvö ár.

Kærandi ítreki að hann hafi hvorki verið á raunverulegum samningi né haft raunverulega vinnu. Hann hafi skilið það svo að laun yrðu ekki greidd fyrr en í nóvember 2023. Kærandi spyrji hvernig hann hafi átt að tilkynna tekjur sem hann hafi ekki vitað af. Þá velti kærandi fyrir sér, með hliðsjón af því að hann tali ekki íslensku, hvort unnt sé að vita fyrir víst að kærandi hafi í raun verið upplýstur um gildandi reglur á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Í því samhengi vísar kærandi til 9. gr. laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Bæði Vinnumálastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála hafi eingöngu notað íslensku í samskiptum við kæranda, án þess að reyna að aðstoða hann við að skilja málið. Kærandi spyrji hvort það sé ekki brot á framangreindri 9. gr.

Kærandi óski eftir því að mál hans verði tekið til meðferðar á ný og að skuldin verði látin niður falla.

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 10. júlí 2024. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. apríl 2024, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngum lagagrundvelli, rangri túlkun lagaákvæða eða röngu mati.

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að kærandi hafi ekki verið á raunverulegum samningi. Hann hafi skilið það svo að laun yrðu ekki greidd fyrr en í nóvember 2023. Kærandi spyrji hvernig hann hafi átt að tilkynna tekjur sem hann hafi ekki vitað af. Þá hefur kærandi gert athugasemd við að bæði Vinnumálastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála hafi eingöngu notað íslensku í samskiptum við hann sem hann skilji ekki.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið úrskurð nefndarinnar með tilliti til athugasemda kæranda. Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993, enda eru athugasemdir kæranda í endurupptökubeiðni efnislega samhljóða þeim sem fram komu í kæru til nefndarinnar. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Að endingu verður ekki séð að þeir tungumálaörðugleikar sem kærandi hefur vísað til hafi haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins en líkt og fram kemur í úrskurði nefndarinnar er ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 204/2024 synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 204/2024 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta