Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Starfshópur endurmeti kerfi framlengdar framleiðandaábyrgðar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að endurmeta kerfi framlengdrar framleiðendaábyrgðar hér á landi.

Úrvinnslusjóður hefur frá árinu 2002 séð um umsýslu og ráðstöfun úrvinnslugjalds og ber sjóðnum að beita hagrænum hvötum til að koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs í því skyni að stuðla að hringrásarhagkerfi. Hlutverk starfshópsins verður að meta árangur þess kerfis sem Úrvinnslusjóður byggir á, kortleggja kosti þess og galla, gera samanburð við fyrirkomulagið hjá þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við og hvort kerfið styðji nægilega við innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Við vinnu sína ber starfshópnum einnig að taka mið af niðurstöðum stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar um Úrvinnslusjóð sem væntanleg er síðar í mánuðinum.

„Mikilvægt er að innleiðing á hringrásarhagkerfinu hér á landi gangi sem hraðast fyrir sig og til að svo megi verða er mikilvægt að úrvinnslukerfið sé sem einfaldast, styðji við nýsköpun og bjóði upp á heildstæðar lausnir. Kerfið sem Úrvinnslusjóður byggir á er orðið 20 ára og því tímabært að endurmeta það og árangur þess heildstætt og bera við þá vinnu saman við þær leiðir sem önnur ríki hafa farið,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Starfshópinn skipa:

Halldór Árnason, formaður,

Bryndís Skúladóttir

Brynhildur Pétursdóttir

Jón Viggó Gunnarsson

Sveinn Margeirsson

Guðmundur B. Ingvarsson og Trausti Ágúst Hermannsson, hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, munu starfa með starfshópnum.

Starfshópurinn á að skila skýrslu til ráðherra fyrir 1. nóvember.


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta