Rætt um margar hliðar hatursáróðurs og viðbrögð við honum á morgunverðarfundi
Hatursáróður var umfjöllunarefni fimmta fundarins í fundaröð innanríkisráðuneytisins um mannréttindamál í tengslum við mótun landsáætlunar í mannréttindum. Fjallað var um hatursáróður í víðu samhengi og meðal annars með hliðsjón af samfélagslegri umræðu og athugasemdum alþjóðlegra eftirlitsaðila með mannréttindaskuldbindingum.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra setti fundinn með ávarpi og vitnaði í upphafi til orða Lao Tse: Gættu hugsana þinna, þær verða að orðum. Gættu orða þinna, þau verða að gjörðum. Gættu gjörða þinna, þær verða að vana. Gættu að vananum, hann verður innræti þitt. Gættu að innræti þínu, það ræður örlögum þínum.
Ráðherra gat þess að Ísland hefði fengið athugsemdir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins og tilmæli um að gera þyrfti betur í að sporna gegn hatursfullri umræðu. Væri þar einkum nefnd fordómafull umræða gegn útlendingum og að íslensk stjórnvöld væru hvött til þess að grípa til aðgerða til að sporna gegn henni. Hann sagði fundinn lið í því að bregðast við þessum áskorunum en einnig tilraun til að ná saman ólíkum aðilum til að fjalla um stöðuna og enn frekar að ræða hvernig hún best gæti verið.
,,Allt leiðir þetta hugann að því, að ekki verður allur vandi leystur með lögum. Né reglugerðum. Ef til vill trúum við of mikið á lög og reglur. Allar heilbrigðar manneskjur hafa meðfæddan og innra með sér siðferðisáttavita, sem vísar í rétta átt, burtséð frá lögum og stundum á móti lögunum. Siðferðisbrestur verður ekki lagaður með lagasetningu. Siðferðisleg áttavilla verður aðeins bætt með uppeldi. Gott siðferði er einsog ávöxtur sem þroskast með ræktun og umhyggju,” sagði ráðherra.
Réttindi og skyldur fjölmiðla og yfirvalda
Á fundinum fluttu framsöguerindi þau Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, Logi Kjartansson, lögfræðingur hjá stjórnsýslusviði Ríkislögreglustjóra, og Íris Ellenberger sagnfræðingur. Fulltrúar þingmanna sem eiga sæti í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, þau Skúli Helgason og Þorgerður Katrín Gunnardóttir, tóku þátt í pallborðsumræðum. Fundarstjóri var Karl Blöndal, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins.
Í erindi sínu fór Björg Thorarensen yfir íslenskrar lagareglur um bann við hatursáróðri og um sérstakar takmarkanir við tjáningarfrelsi, íslenska dómaframkvæmd og niðurstöður mannréttindadómstóls Evrópu, meðal annars nýlegan dóm dómstólsins um tjáningu hatursáróðurs í garð samkynhneigðra í sænskum menntaskóla. Í framhaldinu ræddi hún um hlutverk fjölmiðla, réttindi þeirra og skyldur, og um skyldur ríkja til þess að grípa til aðgerða gegn hatursáróðri á grundvelli alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga.
Margrét Steinarsdóttir sagði hatursáróður litinn alvarlegum augum í nágrannalöndum og ræddi hún spurninguna hvort breyta ætti hegningarlögum þannig að sækja mætti menn til saka vegna hatursáróðurs á grundvelli almannahagsmuna og lýðræðissjónarmiða. Sagði hún nauðsynlegt að aðgerðir gegn hatursáróðri yrðu forgangsverkefni.
Logi Kjartansson fjallaði um hatursáróður og hlutverk og heimildir lögreglu vegna brota á því sviði og sagði hann vandmeðfarið hvernig lögregla gæti brugðist við slíkum brotum. Sagði hann fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnir þýðingarmiklar á þessu sviði sem og öðrum sviðum löggæslu. Hann taldi jafnframt að möguleikar lögreglu til þess að bregðast við hatursáróðri í netheimum væru of óljósir til þess að hægt væri að beita þeim.
Íris Ellenberger rakti dæmi um málflutning sem telja mætti til hatursáróðurs þar sem annars vegar var lýst andstöðu við innflytjendur frá ríkjum í austurhluta Evrópu og umræðu þar sem samkynhneigð væri fordæmd.
Í framhaldi af erindinum sköpuðust meðal annars umræður um athugsemdir ECRI, nefndar Evrópuráðsins gegn kynþáttafordómum, um að stjórnvöld skyldu beina því til Blaðamannafélagsins að setja ákvæði í siðareglur félagsins um hvort og þá hvernig greina skuli frá þjóðerni einstaklinga í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun.
Innanríkisráðuneytið hóf fyrir áramót fundaröðina um mannréttindamál í tengslum við mótun landsáætlunar í mannréttindum. Fundaröðin er liður í viðleitni ráðuneytisins til að tryggja að stefnumótun í svo margþættum og mikilvægum málaflokki sem mannréttindi eru eigi sér ekki aðeins stað innan veggja ráðuneyta heldur í samstarfi og í beinum tengslum við hagsmunaaðila, fræðasamfélag og almenning.