Hagnaður hjá Isavia á síðasta ári
Aðalfundur opinbera hlutafélagsins Isavia var haldinn í gær og kom þar meðal annars fram að árið hefði einkennst af breytingum. Umferð um Keflavíkurflugvöll hefði vaxið um 18% frá fyrra ári sem styrkt hefði fjárhag félagsins en rekstur innanlandsflugs væri erfiður meðal annars vegna fjölda flugvalla og fárra farþega.
Fjármálaráðuneytið fer með eignarhald félagsins fyrir hönd ríkissjóðs. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra var viðstaddur aðalfundinn og kvaðst hann í ávarpi sínu í lok fundar taka undir með Þórólfi Árnasyni, formanni stjórnar, og sagði vel hafa tekist til með rekstur Isavia. Félagið væri reiðubúið að takast á við aukin verkefni og rík innistæða virtist fyrir þeirri bjartsýni sem einkenndi málflutning forráðamanna þess.
Fram kom í máli stjórnarformanns að sameiningin félaga í Isavia árið 2010 hefði reynst heillaspor. Félagið hefði náð að hagræða og spara í rekstri fyrir hundruð milljóna króna. Það hafi styrkst fjárhagslega og faglega og sé nú eitt af 40 stærstu fyrirtækjum landsins miðað við veltu.
Í stjórn félagsins var endurkjörin á aðalfundinum en hana skipa: Arnbjörg Sveinsdóttir, Ásta Rut Jónasdóttir, Jón Norðfjörð, Ragnar Óskarsson og Þórólfur Árnason.
Í varastjórn voru kosin: Jóhanna Harpa Árnadóttir, Ólafur Sveinsson, Sigrún Pálsdóttir, Hjörtur M. Guðbjartsson og Sigurbjörn Trausti Vilhjálmsson.