Fundur vestnorrænna heilbrigðisráðherra í Nuuk
Heilbrigðisráðherrar Færeyja, Grænlands og Íslands hittust í Nuuk á Grænlandi dagana 29. og 30. ágúst á reglubundnum fundi heilbrigðisherra þessara landa.
Ráðherrarnir ræddu almennt um stöðu og breytingar í heilbrigðisþjónustu landanna frá síðasta ráðherrafundi. Af einstökum málefnum sem voru rædd bar hátt umræða um geðheilbrigðisþjónustu og forvarnir á sviði geðheilbrigðismála með áherslu á þverfaglegt samstarf heilbrigðisstétta og annarra sem tengjast málaflokkinum á einhvern hátt. Grænlendingar kynntu á fundinum hvernig þeir nýta tæknina til að sinna geðheilbrigðisþjónustu með fjarskiptum og rafrænum hætti og vakti kynningin mikla athygli viðstaddra. Af fleiri umfjöllunarefnum ráðherrafundarins má nefna stöðu áfengisvarna og forvarnir gegn þeim og almennt um skipan þessara mála samkvæmt áfengisslöggjöf landanna.
Sjúkrahús Ingiríðar drottningar í Nuuk var heimsótt og skoðaðir nýjustu hlutar þess ásamt nýrri heilsugæslustöð sem er áföst sjúkrahúsinu. Þar voru einnig kynntar breytingar á skipulagi heilbrigðismála í Grænlandi sem og skipulag lyfjamála, en kostnaður og neysla lyfja í Grænlandi er minni en á Íslandi og Færeyjum.
Ráðherrarnir voru sammála um gagnsemi fundarins og mikilvægi áframhaldandi samstarfs. Bauð Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra samráðherrum sínum til næsta fundar á Íslandi að ári.