Hoppa yfir valmynd
3. maí 2024

Evrópuþingskosningar

Að þessu sinni er fjallað um:

  • Evrópuþingskosningarnar í næsta mánuði
  • framkvæmd Græna sáttmálans og samráð við fulltrúa evrópsks iðnaðar og aðila vinnumarkaðarins
  • umbætur á stjórnkerfi ESB í aðdraganda stækkunar
  • tilmæli um þróun og samþættingu barnaverndarkerfa
  • samráð við aðila vinnumarkaðarins um sanngjarna fjarvinnu og um réttinn til þess að aftengjast
  • bandalag til að sporna við skorti á mikilvægum lyfjum

 

Evrópuþingskosningar

Efnisyfirlit umfjöllunar:

  • Inngangur
  • Stjórnmálakerfi ESB
  • Þróun á fylgi stjórnmálaflokkanna
  • Vænt kosningaþátttaka og helstu málefnin sem brenna á kjósendum
  • Oddvitaaðferðin við val á forseta framkvæmdastjórnar ESB
  • Kosningabaráttan, oddvitakappræður og Evrópudagurinn 9. maí nk.
  • Niðurlag

Inngangur

Kosningar til Evrópuþingsins fara fram dagana 6. – 9. júní nk. Síðasti þingfundur fyrir kosningar var haldinn 25. apríl sl. og í framhaldi af honum hófst þinghlé sem mun standa fram yfir kosningarnar. Nýtt þing verður síðan sett um miðjan júlí með kjöri forseta og varaforseta þingsins.

Allt stefnir í spennandi kosningar og mælist áhugi kjósenda á kosningunum miklum mun meiri en áður auk þess sem kosningarnar eru í huga kjósenda mikilvægari nú en áður. Skýrist það án vafa af þeim miklu áskorunum sem Evrópa stendur frammi fyrir vegna árásarstríðs Rússlands á Úkraínu, harðnandi alþjóðlegri samkeppni og baráttunni við loftslagsbreytingar svo eitthvað sé nefnt.

Kosningarnar marka eins og kunnugt er jafnframt lok skipunartímabils núverandi framkvæmdastjórnar ESB. Meðal fyrstu verka nýkjörins þings verður að fjalla um og greiða atkvæði um tillögu leiðtogaráðs ESB um það hver skuli gegna embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB næstu fimm árin en ákvörðun um það er háð samþykki meirihluta þingsins. Þegar kjör forseta liggur fyrir mun þingið jafnframt fjalla um og greiða atkvæði um tilnefningar í önnur embætti innan framkvæmdastjórnarinnar. Að þessu sinni er gert ráð fyrir að atkvæðagreiðsla um kjör forseta fari fram í september, eða þegar þing kemur saman að nýju að loknu sumarleyfi í ágúst. Eftir kosningarnar árið 2019 tókst að ljúka kjöri á forseta framkvæmdastjórnarinnar í júlí en þess ber að gæta að þá fóru kosningarnar fram nokkru fyrr en nú er. Því er fremur gert ráð fyrir að niðurstaða um þetta muni ekki liggja fyrir fyrr en í september að þessu sinni, enda þótt það sé ekki útilokað að þetta náist fyrir sumarleyfi í júlí. Niðurstaðna um skipan í aðrar stöður innan framkvæmdastjórnarinnar er síðan að vænta síðla árs, í nóvember líklega, og mun núverandi framkvæmdastjórn gegna störfum þar til gengið hefur verið frá skipun nýrrar framkvæmdastjórnar í heild sinni.

Eins og nánar er rakið í umfjöllun Vaktarinnar 29. september sl. hafa áhrif Evrópuþingsins og hlutdeild í lagasetningarferli ESB aukist umtalsvert á umliðnum árum. Áður var það einungis ráðgefandi þing en með Lissabon-sáttmálanum árið 2007 er staða þess sem eins handhafa löggjafarvalds (e. co-legislator) innsigluð. Auk þess veitir þingið framkvæmdarvaldsarmi ESB mikilvægt aðhald og gegnir að því leyti áþekku hlutverki og þjóðþing aðildarríkjanna gera gagnvart handhöfum framkvæmdarvalds í hverju ríki um sig.

Til að gefa nánari innsýn inn í kosningarnar sem fram undan eru verður hér á eftir fjallað stuttlega um stjórnmálakerfi ESB, þ.e. um stjórnmálaflokkanna og samtök þeirra, um þróun á fylgi flokkanna samkvæmt skoðanakönnunum, um helstu málefni sem brenna á kjósendum fyrir kosningarnar, hvert stefnir með kosningaþátttöku, um oddvitaaðferðina og um kosningabaráttuna, oddvitakappræður og um Evrópudaginn 9. maí nk.

Stjórnmálakerfi ESB

Stjórnmálakerfi ESB byggist á fjölflokkakerfi og má segja að það sé tvískipt. Í grunninn byggist það annars vegar á þeim stjórnmálaflokkum sem eru starfræktir í hverju aðildarríki um sig og hins vegar á samevrópskum stjórnmálasamtökum eða -flokkum sem virka í raun sem regnhlífarsamtök skyldra flokka í aðildarríkjunum. Um stofnun og rekstur samevrópskra stjórnmálasamtaka ESB gildir reglugerð ESB nr. 1141/2014 (e. Regulation on the statute and funding of European political parties and European political foundations - APPF) og hafa þeir flokkar sem stofnað hefur verið til á grundvelli reglugerðarinnar rétt til að heyja sameiginlega kosningabaráttu fyrir hönd sinna aðildarflokka þvert á aðildarríkin.

Framkvæmd kosninganna í hverju aðildarríki um sig fer fram í samræmi við kosningalöggjöf sem þar gildir og eru það stjórnmálaflokkarnir sem þar starfa sem bjóða fram lista í kosningunum. Val kjósenda í hverju ríki stendur því að jafnaði á milli sömu flokka og þegar kosið er í öðrum kosningum innan ríkisins. Hins vegar má kjósendum að jafnaði vitaskuld vera ljóst hvaða samevrópsku stjórnmálasamtökum flokkarnir tilheyra og þar með, með hvaða hætti fulltrúar þeirra munu skipta sér í þingflokka innan Evrópuþingsins að afloknum kosningum, nái þeir kjöri. 

Skráð stjórnmálasamtök ESB, skv. APPF-reglugerðinni, eru nú tíu talsins, þ.e. eftirtalin (talin upp eftir styrk þeirra á Evrópuþinginu nú):

  • EPP (European People‘s Party): Flokkurinn er skilgreindur hægra megin við miðju (e. centre-right) og er óhætt að segja að flokkurinn sé og hafi verið mesti valdaflokkurinn í stjórnmálakerfi ESB á umliðnum árum. Ursula von der Leyen (VDL), núverandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, tilheyrir þessum flokki, líkt og flokkssystkini hennar í Kristilega demókrataflokkunum í Þýskalandi þar sem hún á pólitískar rætur. Samtals koma 10 af 27 framkvæmdastjórum í framkvæmdastjórn ESB úr röðum stjórnmálaflokka sem tilheyra EPP. Þá koma13 leiðtogar aðildarríkja í leiðtogaráði ESB nú úr röðum stjórnmálaflokka sem tilheyra EPP. VDL hefur nú verið útnefnd sem oddviti flokksins í kosningunum og til áframhaldandi setu í embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar af hálfu flokksins. Hún mun þó ekki verða í framboði til setu á Evrópuþinginu fyrir hönd EPP í komandi kosningum. EPP myndar þingflokk með ECPM, sbr. umfjöllun um þann flokk hér að neðan, og telur þingflokkurinn nú samtals 177 þingmenn af þeim 705 sem nú eiga sæti á Evrópuþinginu. (Þingmönnum mun fjölga um 15 í komandi kosningum samkvæmt ákvörðun leiðtogaráðs ESB og verða þingmenn samtals 720 eftir kosningarnar.)
  • PES (Party of European Socialists): Flokkurinn er skilgreindur vinstra megin við miðju (e. Centre-left) og myndaði flokkurinn ásamt EPP og ALDE meirihluta á þinginu þegar atkvæði voru greidd um VDL og skipan framkvæmdastjórnar hennar árið 2019. Átta framkvæmdastjórar í framkvæmdastjórn ESB koma nú úr röðum PES. Þá koma níu af leiðtogum aðildarríkja í leiðtogaráði ESB nú úr röðum stjórnmálaflokka sem heyra til PES. Nicolas Schmit hefur verið útnefndur sem oddviti flokksins fyrir komandi kosningar. Schmit er núverandi framkvæmdastjóri félags- og atvinnumála í framkvæmdastjórn ESB. Flokkurinn myndar þingflokk undir nafninu Group of the Progressive Alliance of Socialists and Democrats in the European Parliament (S&D) og telur þingflokkurinn samtals 140 þingmenn.
  • ALDE (Alliance of Liberals and Democrats for Europe Party): Flokkurinn er skilgreindur sem miðjuflokkur (e. Centre) og myndaði hann eins og áður segir meirihluta með EPP og S&D við kjör núverandi framkvæmdastjórnar ESB eftir kosningarnar 2019. Sex fulltrúar í núverandi framkvæmdastjórn ESB koma úr röðum flokka sem tilheyra ALDE. Þrír af leiðtogum aðildarríkja í leiðtogaráði ESB koma nú úr röðum stjórnmálaflokka sem tilheyra ALDE. Sandro Gozi, Marie-Agnes Strack-Zimmermann og Valérie Hayer hafa verið útnefnd sem oddvitar ALDE og EDP. Gozi er frá Frakklandi og núverandi þingmaður á Evrópuþinginu. Strack-Zimmermann er frá Þýskalandi og er núverandi þingmaður á þýska sambandsþinginu. Hayer er frá Frakklandi og núverandi þingmaður á Evrópuþinginu og formaður þingflokks Renew Europe. Þingmenn flokksins sitja saman í þingflokki með þingmönnum European Democratic Party (EDP), sbr. umfjöllun um þann flokk hér að neðan, undir nafninu Renew Europe og telur þingflokkurinn nú 102 þingmenn. 
  • ECR (European Conservatives and Reformists): Flokkurinn er skilgreindur sem hægriflokkur (e. Right-wing) og öfugt við það sem á við um framangreinda þrjá flokka, og fleiri, þá gætir tiltekinnar gagnrýni og efasemda um frekari samþættingu aðildarríkjanna innan ESB í málflutningi talsmanna flokksins (e. Soft Euroscepticism). ECR á einn fulltrúa í framkvæmdastjórn ESB. Einn leiðtogi aðildarríkis í leiðtogaráði ESB kemur úr röðum stjórnmálaflokka sem heyra til ECR, þ.e. Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, en hún er jafnframt formaður stjórnmálasamtakanna. ECR hefur ákveðið að útnefna ekki sérstakan oddvita fyrir komandi kosningar. (Þess má geta að grundvallar stefnuskrá flokksins var samþykkt í Reykjavík 21. mars 2014 á ráðsfundi flokksins sem þar var haldinn og nefnist Reykjavík Declaration.) Þingflokkur ECR telur nú 68 þingmenn.
  • ID (Identity and Democracy): Flokkurinn er skilgreindur lengst til hægri af þeim flokkum sem fulltrúa eiga á þinginu (e. Right-wing to far-right). Líkt og á við um ECR hefur flokkurinn uppi efasemdir og gagnrýni á samþættingu aðildarríkjanna innan ESB. Afstaða talsmanna ID er þó mun harðari í þessum efnum en afstaða ECR og vill flokkurinn í raun hverfa til baka á sviði samþættingar innan ESB á ýmsum sviðum (e. Euroscepticism). ID hefur útnefnt Anders Vistisen sem oddvita fyrir komandi kosningar. Vistisen er frá Danmörku og núverandi þingmaður á Evrópuþinginu. Þingflokkur ID telur nú 59 þingmenn.
  • EGP (European Green Party): Flokkurinn er skilgreindur vinstra megin við miðju (e. Centre-left to left-wing). EGP hefur útnefnt Terry Reintke og Bas Eickhout sem oddvita flokksins fyrir komandi kosningar. Reintke er frá Þýskalandi og er núverandi þingmaður á Evrópuþinginu og einn af varaforsetum þingsins. Eickhout er frá Hollandi og er einnig núverandi þingmaður á Evrópuþinginu og varaformaður þingflokks Greens/EFA. EGP myndar þingflokk með European Free Alliance (EFA) undir nafninu Greens /EFA og telur þingflokkurinn samtals 72 þingmenn.
  • EL (Party of the European Left): Flokkurinn er skilgreindur lengst til vinstri af þeim flokkum sem fulltrúa eiga á þinginu (e. Left-wing to far-left). Líkt og á við um ECR þá gætir gagnrýni á frekari samþættingu aðildarríkjanna innan ESB enda þótt hún bygg á öðrum forsendum (e. Soft Euroscepticism). Walter Baier hefur verið útnefndur sem oddviti. Baier er frá Austurríki og er núverandi formaður flokksins. Flokkurinn myndar þingflokk undir nafninu The Left group in the European Parliament - GUE/NGL (The Left) og telur þingflokkurinn nú 37 þingmenn.
  • EDF (European Democratic Party): Flokkurinn er skilgreindur sem miðjuflokkur líkt og ALDE og myndar flokkurinn þingflokk með ALDE undir merkjum Renew Europe, og tefla flokkarnir fram oddvitum sameiginlega, sbr. umfjöllun að framan um ALDE. 
  • EFA (European Free Alliance): Flokkurinn er hvorki skilgreindur til hægri né vinstri á hinum pólitíska skala heldur lítur flokkurinn svo á að hann rúmi breitt mengi skoðana þvert á hið pólitíska litróf (e. Big tent). Flokkurinn hefur útnefnt Maylis Roßberg annars vegar og Raül Romeva hins vegar sem oddvita flokksins fyrir komandi kosningar. Roßberg er frá Þýskalandi og er hún formaður ungliðahreyfingar flokksins. Romeva er frá Spáni og er fyrrverandi þingmaður á Evrópuþinginu en hefur einnig gegnt ráðherraembætti í stjórn Katalóníu á Spáni. EFA myndar þingflokk með EGP (European Green Party), undir nafninu Greens /EFA, sbr. umfjöllun hér að framan
  • ECPM (European Christian Political Movement). Flokkurinn er skilgreindur hægra megin við miðju (e. Centre). Flokkurinn hefur útnefnt Valeriu Ghilețchi sem oddvita flokksins fyrir komandi kosningar. Ghilețchi er frá Moldóvu og er fyrrverandi þingmaður á moldóvska þinginu. Flokkurinn myndar þingflokk með EPP, sbr. umfjöllun að framan.
  • 50 þingmenn, eða um 7% þingmanna, eru sem stendur utan þingflokka, þar með taldir eru fulltrúar flokks Viktors Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, Fidesz.

Þróun á fylgi stjórnmálaflokkanna

Skoðanakannanir á fylgi stjórnmálaaflanna eru að jafnaði ekki framkvæmdar þvert á aðildaríki ESB, heldur er heildarstaða stjórnmálasamtaka ESB metinn á grundvelli margvíslegra kannana sem gerðar eru á stöðu stjórnmálaflokkanna í hverju aðildarríki fyrir sig. Á grundvelli þeirra eru kosningaspár um fylgi stjórnmálasamtaka ESB unnar. Þær kosningaspár sem nú liggja fyrir sýna að fylgið hefur á undanförnum misserum leitað nokkuð til hægri. Þannig hefur fylgi EPP verið á uppleið að undanförnu og stefnir í að EPP haldi stöðu sinni örugglega sem stærsti flokkurinn á þinginu. ID hefur einnig bætt töluverðu fylgi við sig í könnunum á umliðnu ári. Á allra síðustu vikum hefur fylgið þó dalað aðeins en er þó enn mikið í sögulegu samhengi og mælist það t.d. meira en fylgi ECR sem er breyting frá því sem verið hefur að undanförnu. Fylgi ECR hefur þó einnig vaxið á kjörtímabilinu.

Að sama skapi hefur fylgi þeirra flokka sem skilgreina sig til vinstri dalað í könnunum. Á það við um PES (S&D), EGP (Greens/EFA) og EL (Left). Sömu sögu verður sagt um miðjuflokkana ALDE og EDF (Renew Europe) en þar hefur fylgið heldur dalað.

Sjá nánar í kosningaspá Politico (e. Poll of Polls).

Vænt kosningaþátttaka og helstu málefnin sem brenna á kjósendum

Kosningaþátttaka jókst umtalsvert í síðustu kosningum árið 2019 miðað við kosningarnar þar á undan, var tæp 51% árið 2019 samanborið við einungis 43% árið 2014. Væntingar eru um þessi þróun haldi áfram, sbr. niðurstöður vorkönnunar, Eurobarometer 2024, um stöðu lýðræðismála í ESB, þar sem fram kemur að 60% kjósenda hafi áhuga á komandi kosningum, en það er aukning um 11% frá árinu 2019.  Þá telur 71% kjósenda líklegt að þeir muni nýti atkvæðisréttinn í komandi kosningum, en þetta hlutfall var 10% lægra í vorkönnuninni 2019. Það eru því sterkar vísbendingar um að kjörsókn muni aukast talsvert í komandi kosningum.

Helstu málefni sem kjósendur vilja fá umræðu um í kosningabaráttunni eru samkvæmt skýrslunni aðgerðir gegn fátækt og félagslegri einangrun og heilbrigðismál. Þar á eftir koma stuðningsaðgerðir við atvinnulífið, sköpun nýrra starfa, varnar- og öryggismál, aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, málefni flótta- og farandsfólks og svo mætti áfram telja.

Þegar kjósendur eru beðnir að horfa til stöðu ESB á alþjóðasviðinu og hvaða áherslur beri að leggja til að tryggja áhrif og stöðu ESB til framtíðar nefna flestir varnar- og öryggismál sem fyrsta forgangsmál. Þar á eftir koma orkumál og svo fæðuöryggis- og landbúnaðarmál. Stóraukin áhersla kjósenda á varnarmál er vitaskuld rakin beint til árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu.

Mikill meiri hluti kjósenda, 73%, eru þeirra skoðunar að aðgerðir ESB hafi áhrif á þeirra daglega líf. Áþekkt hlutfall kjósenda, 71%, telur að heimalönd þeirra hafi hag af Evrópusambandsaðildinni.

Eftirfarandi gildi skora hæst þegar kjósendur eru beðnir um tilgreina hvaða gildi ESB skuli helst standa vörð um: friður, lýðræði og mannréttindavernd.

Oddvitaaðferðin við val á forseta framkvæmdastjórnar ESB

Eins og vikið er að í inngangi fer Evrópuþingið með veigamikið hlutverk er kemur að skipan framkvæmdastjórnar ESB, sbr. 7. mgr. 17. gr.  sáttmála um Evrópusambandið (The Treaty on European Union – TEU), sbr. einnig nánari umfjöllun í Vaktinni 29. september sl. Í samræmi við þessar valdheimildir hefur vilji þingsins lengi staðið til þess að tryggja að með nýtingu kosningaréttar í kosningum til Evrópuþingsins séu kjósendur ekki aðeins að hafa áhrif á skipan þingsins sjálfs heldur einnig á það hver muni leiða framkvæmdarvaldsarm ESB sem forseti framkvæmdastjórnar ESB. 

Til að ná framangreindu markmiði hefur hugmyndin um oddvitaaðferðina við val á forseta framkvæmdastjórnar ESB fest rætur í stofnanakerfi ESB á umliðnum árum. Aðferðin svipar til þeirrar aðferðar sem notuð er í þingræðisríkjum eins og á Íslandi við myndun ríkisstjórnar. Er þannig gert ráð fyrir að forseti framkvæmdastjórnarinnar komi úr röðum oddvita flokkanna sem bjóða fram til Evrópuþingsins og að sá oddviti verði fyrir valinu sem meiri hluti þingsins nær samstöðu um. Enn sem komið er hefur þessi aðferð þó ekki skilað oddvita neins af flokkunum sem sæti eiga á Evrópuþinginu í stól forseta framkvæmdastjórnarinnar.

Þessi aðferð, oddvitaaðferðin, (þý. Spitzenkandidaten process eða e. lead candidate process), á sér ekki beina stoð í sáttmálum ESB. Leiðtogaráð ESB tilnefnir eftir sem áður í stöðu forseta og er ekki bundið af að velja hann eða hana úr röðum oddvita flokkanna. Það var einmitt það sem gerðist eftir síðustu Evrópuþingskosningarnar árið 2019. Manfred Weber hafði þá háð langa kosningabaráttu sem oddviti EPP og jafnvel þótt flokkur hans fengi langflesta menn kjörna á Evrópuþingið 2019 og flokkarnir skiptu bróðurlega með sér helstu embættum gerði leiðtogaráðið ekki tillögu um hann í embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB heldur Ursulu von der Leyen (VDL), en hún hafði hvorki verið í kjöri til Evrópuþingsins fyrir kosningarnar árið 2019 né hafði hún verið útnefnd sem oddviti einhvers af flokkunum fyrir kosningarnar. Þrátt fyrir þetta samþykkti þingið tillögu um kjör hennar í embættið, þó með nokkuð naumum meirihluta atkvæða.

Jafnvel þótt oddvitaaðferðin hafi ekki enn sem komið er ekki skilað tilætluðum árangri virðist hugmyndin lifa góðu lífi fyrir komandi kosningar enda byggist hún á sterkum  lýðræðislegum grunni. Öll stjórnmálasamtök í aðildarríkjum ESB að frátöldum flokki ECR hafa nú útnefnt oddvita úr sínum röðum, þ. á m. hefur EPP valið sitjandi forseta sem sinn kandídat jafnvel þótt hún sé sjálf ekki í kjöri til Evrópuþingsins. Með þessu móti er ekki útilokað að oddvitaaðferðinni vaxi með tímanum ásmegin.

Kosningabaráttan, oddvitakappræður og Evrópudagurinn 9. maí nk.

Kosningabaráttan er löngu hafin og er hún háð á mörgum vígstöðvum. Á hinu opinbera stjórnmálasviði er hún háð á tvennum vígstöðvum. Í samræmi við uppbyggingu á stjórnmálakerfis ESB er hún annars vegar háð á vettvangi stjórnmálaflokkanna í hverju aðildarríki fyrir sig og hins vegar á vettvangi stjórnmálasamtaka ESB þar sem baráttan fer fram þvert á aðildarríkin og þar eru oddvitar stjórnmálasamtakanna mest áberandi.

Fyrstu kappræður oddvitanna fóru fram í Maastricht í Hollandi 29. apríl sl. (Maastricht debate). Í kappræðunum, sem eru sérstaklega stílaðar inn ungt fólk, voru þrjú megin málefni til umræðu, þ.e. loftslagsbreytingar, utanríkis- og öryggismálastefna ESB og lýðræðismál. Umræður voru fjörugar og var á köflum hart tekist á. Horfa má á upptöku af kappræðunum hér.

Stóru kappræður oddvitanna fyrir kosningarnar, svonefndar Eurovision Debate, fara fram 23. maí. Kappræðurnar eru skipulagðar af Samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) í samstarfi við Evrópuþingið og stjórnmálaflokka ESB.

Eins og staðan er nú er talið langlíklegast að VDL verði tilnefnd af leiðtogaráðinu til áframhaldandi setu sem forseti framkvæmdastjórnar ESB. Grunnforsenda þess er þó sú að hún njóti stuðnings síns heimaríkis, þ.e. stuðnings ríkisstjórnar og kanslara Þýskalands, Olaf Scholz, en í því sambandi er til þess að líta að Scholz fer fyrir flokki sósíaldemókrata (SPD) í Þýskalandi en sá flokkur tilheyrir PES, en ekki EPP. Að þessu leyti er staða VDL ólík því sem var árið 2019 þegar flokkur hennar, Kristilegir demókratar, fóru með völd í Þýskalandi. Þrátt fyrir þetta þykir flest benda til að hún muni njóta stuðnings Scholz og ríkisstjórnar hans innan ráðsins. Gangi kjör VDL ekki eftir virðast samningar milli stjórnarflokkanna í Þýskalandi ganga út á að Græningjar muni tilnefna fulltrúa Þýskalands í næstu framkvæmdastjórn, en eins og kunnugt er þá hefur hvert aðildarríki rétt á að tilnefna einn fulltrúa í framkvæmdastjórnina, sem aftur er háð samþykki ráðsins og þingsins. Fái VDL stuðning Scholz þá þykir næsta víst að hún muni njóta stuðnings nægilega margra leiðtoga í leiðtogaráðinu til að hljóta tilnefningu. Að jafnaði hefur samstaða tekist um tilnefningu í embætti forsetans af hálfu leiðtogaráðsins, en reglur um það gera þó ráð fyrir að ákvörðun um það megi taka með auknum meirihluta í ráðinu. Einn leiðtogi hefur þegar lýst andstöðu við áframhaldandi setu VDL í stóli forseta, þ.e. forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orbán. Jafnframt er talið líklegt að meirihluti þingsins muni styðja kjör hennar þar sem allt bendir til að stjórnmálasamtök hennar, EPP, fái mest fylgi og flesta þingmenn í komandi kosningum. Þá þykir hún almennt hafa staðið sig vel í embætti á umliðnum fimm árum á þeim miklu ólgutímum sem verið hafa. Loks þykir frammistaða hennar í framangreindum Maastricht kappræðum hafa styrkt stöðu hennar en hún var vitaskuld jafnframt lang þekktust þeirra sem þar öttu kappi.

Evrópudagurinn, 9. maí, er haldin hátíðlegur ár hvert af hálfu stofnana og aðildarríkja ESB þar sem undirritun Schuman-yfirlýsingarinnar 9. maí árið 1950 er minnst. Dagskrá í tilefni dagsins er viðamikil í ár og hefst hún í raun á morgun, laugardaginn 4. maí, þegar almenningi gefst kostur á því að heimsækja stofnanir ESB í Brussel og víðar í aðildarríkjunum. Af hálfu Evrópuþingsins er lögð áhersla á að dagurinn í ár verði nýttur til að minna kjósendur á kosningarnar framundan, mikilvægi þeirra og mikilvægi þess að kjósendur nýti atkvæðarétt sinn og rekur þingið nú auglýsingaherferð undir yfirskriftinni: Use your vote. Or others will decide for you. Hefur þingið m.a. birt tilfinningahlaðið myndband sem ætlað er að leggja áherslu á mikilvægi lýðræðislegra kosninga, sbr. einnig kosningavef þingsins þar sem finna má margvíslegar upplýsingar um kosningarnar og framkvæmd þeirra.

Niðurlag

Fyrir liggur að úrslit Evrópuþingskosninganna geta haft mikil áhrif á þróun sambandsins á komandi árum, og þar með einnig á þróun EES-samningsins og þeirrar Evrópulöggjafar sem tekin er upp í samninginn. Þannig kunna úrslit kosninganna nú m.a. að hafa mikil áhrif á hvernig haldið verður áfram með innleiðingu og framfylgd Græna sáttmálans og sama er að segja um með þróun innri markaðarins almennt. Brussel-vaktin mun fylgjast áfram með þróun kosningabaráttunnar á næstu vikum og leitast við að greina úrslitin og framvindu mála í kjölfar þeirra þegar þar að kemur.

Framkvæmd Græna sáttmálans - samráð við fulltrúa evrópsks iðnaðar og aðila vinnumarkaðarins

Í upphafi skipunartímabils núverandi framkvæmdastjórnar ESB árið 2019 kynnti framkvæmdastjórnin stefnumörkun á sviði umhverfis- og loftlagsmála undir merki Græna sáttmálans (e. Green deal) með það fyrir augum að umbreyta ESB í hreint, auðlindahagkvæmt, sanngjarnt og samkeppnishæft hagkerfi. Græna sáttmálanum hefur verið fylgt eftir með fjölda aðgerða og löggjafartillögum sem að mestu hafa nú verið teknar upp í löggjöf ESB, eins og ítarlega hefur verið fjallað um í Vaktinni á umliðnum misserum. Áherslan nú lítur að innleiðingu og framkvæmd þeirrar löggjafar sem sett hefur verið. Fyrir liggur að atvinnulífið og aðilar vinnumarkaðarins munu gegna lykilhlutverki er kemur að þeirri framkvæmd, sbr. meðal annars umfjöllun í Vaktinni 24. mars sl. þar sem fjallað er um framfylgd framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans.

Í fimmtu stefnuræðu (e. State of the Union Address) Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, á Evrópuþinginu 13. september sl. tilkynnti hún um upphaf samráðsferlis við fulltrúa evrópsks iðnaðar og aðila vinnumarkaðarins með það fyrir augum að skilja betur þær áskoranir sem iðnaðurinn stendur frammi fyrir við innleiðingu Græna sáttmálans og hvernig hægt er að styðja við þá innleiðingu.

Þann 10. apríl sl. sendi framkvæmdastjórn ESB frá sér orðsendingu þar sem greint er frá stöðu framangreindra viðræðna og samráðs. 

Níu viðræðulotur hafa átt sér stað það sem af er. Samkvæmt orðsendingunni liggur fyrir skýr vilji aðila til að vinna að því að móta og innleiða Græna sáttmálann. Aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að tryggja félagslega sanngirni við umskiptin og að sköpuð séu vönduð störf. Viðræðurnar hafa m.a. beinst að vetnisframleiðslu, orkufrekum iðnaði, hreinni tækni, orkuinnviðum, mikilvægum hráefnum, sjálfbærri skógrækt og timburframleiðslu til að styðja við græn umskipti og sjálfbært hagkerfi, borgarþróun, umhverfisvænar samgöngur og stálframleiðslu.

Í framangreindri orðsendingu er lögð áhersla á tiltekna lykilþætti sem hafa verið ofarlega á baugi í viðræðunum, þ.e. einföldun regluverks, aðgerðir til að stemma stigu við háu orkuverði, innviðauppbyggingu, bættu aðgengi að fjármagni og innri markað sem stenst alþjóðlega samkeppni, sbr. nánari umfjöllun í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar um málið.

Sjá til hliðsjónar í þessu samhengi umfjöllun Vaktarinnar 1. mars sl. um ákall atvinnulífsins í ESB um aukna samkeppnishæfni og framfylgd Græna sáttamálans, eða svonefndaAntwerpen yfirlýsingu, en aðilum sem skrifað hafa undir yfirlýsinguna hefur fjölgað ört frá því að yfirlýsingin var birt í upphafi. Yfirlýsingin og ákallið sem í henni felast hafa einnig verið áberandi í þeirri málefnaumræðu sem nú fer fram í aðdraganda Evrópuþingskosninganna.

Umbætur í aðdraganda stækkunar ESB

Hinn 20. mars sl. sendi framkvæmdastjórn ESB frá sér orðsendingu til Evrópuþingsins, leiðtogaráðs ESB og ráðherraráðs ESB um ýmsar innri umbætur á stjórnskipulegi ESB sem hún telur þörf á að að ráðast í áður en fleiri aðildarríki bætast í hóp þeirra sem fyrir eru. (e. communication on pre-enlargement reforms and policy reviews).

Eins og nánar er rakið í umfjöllun Vaktarinnar 10. nóvember sl. um stækkunarstefnu ESB hafa nú tíu ríki leitað eftir aðild að ESB, þ.e. Albanía, Bosnía og Hersegóvína, Kósovó, Svartfjallaland, Norður-Makedónía, Serbía, Tyrkland, Úkraína, Moldóva og Georgía.

Jafnvel þótt viðbúið sé að svo mikil stækkun ESB muni hafa miklar breytingar í för með sér innan sambandsins og á það samstarf sem þar fer fram, er framangreind stefnumörkun af hendi ESB til marks um að eindreginn stuðning hennar við stækkun sambandsins sem einu leiðina fram á við. Í takt við hana er nú unnið markvisst að því að aðildarumsóknir flestra framangreindra ríkja fái framgang í samræmi við þann árangur sem næst í viðræðum við umsóknarríkin og aðlögun þeirra að regluverki ESB. Blandast engum hugur um að aflvakinn þar er árásarstríð Rússlands á hendur Úkraínu og sú þróun sem orðið hefur í alþjóðamálum í kjölfarið þar sem virkt lýðræði og réttarríkið á í auknum mæli undir högg að sækja.

Enda þótt kostir stækkunar séu um margt augljósir þá er eftir sem áður að mörgu að hyggja. Ekki þarf einungis að tryggja að umsóknarríkin uppfylli skilyrði og gildi ESB um virkt lýðræði, réttarríkið og mannréttindavernd (Kaupmannahafnarviðmiðin). Jafnframt þurfa þau að uppfylla pólitísk, efnahagsleg og lagaleg skilyrði aðildar áður en til inngöngu kemur. Ennfremur þarf að vera tryggt að sambandið sjálft ráði við það aukna umfang og flækjustig sem fjölgun aðildaríkja hefur óhjákvæmilega í för með sér og er orðsendingunni ætlað að leggja grunn að umræðu um slíkar umbætur.

Umbæturnar sem fjallað er um snúa í megindráttum að fjórum málefnasviðum. Í fyrsta lagi að því hvernig efla megi úrræði til að framfylgja gildum sambandsins. í öðru lagi hvernig tryggja megi að stefnumótun á helstu málefnasviðum raskist ekki og mæti áskorunum sem stækkun fylgja. Í þriðja lagi að hugað sé að nægjanlegri fjármögnun ESB og samstarfsáætlana á vegum þess til að standa straum af útgjöldum sem óhjákvæmilega fylgja stækkun og aðlögun nýrra ríkja að ESB. Og loks í fjórða lagi að hugað verði að umbótum á stjórnsýslu og starfsháttum sambandsins og þá einkum því hvernig ákvarðanir eru teknar með það að markmiði að fækka þeim ákvörðunum sem krefjast samhljóða samþykkis í ráði ESB þar sem aðildarríkin sitja. Bent er á að svigrúm sé til staðar í núgildandi sáttmálum ESB til breytinga á atkvæðagreiðslureglum, náist samstaða um slíkt. Reynist svigrúmið í þá veru ekki nægjanlegt lýsir framkvæmdastjórnin sig reiðubúna til að skoða breytingar á grundvallarsáttmálum ESB til að ná fram nauðsynlegum umbótum.

Gert er ráð fyrir að vinnu við útfærslu umbótatillagnanna verði framhaldið að afloknum Evrópuþingskosningum og á vettvangi nýrrar framkvæmdastjórnar ESB á fyrri hluta árs 2025.

Tilmæli um þróun og samþættingu barnaverndarkerfa

Hinn 23. apríl sl. gaf framkvæmdstjórn ESB út ráðleggingar og tilmæli til aðildaríkjanna um hvernig megi þróa, styrkja og samþætta barnaverndarkerfin í aðildarríkjunum.

Um 80 milljónir barna eru búsett í aðilarríkjum ESB. Þrátt fyrir að talsvert hafi áunnist á undanförnum árum í bættum aðbúnaði og öryggi barna er ofbeldi gegn börnum enn veruleg áskorun bæði innan og utan ESB. Þannig sýna kannanir að nær 14% fullorðinna kvenna hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku og að 13-29% 15 ára barna í aðilarríkjunum telja sig oft verða fyrir einelti. Af þessum tölum er ljóst að það er mikilvægt efla barnavernd með hagsmuni og velferð barna að leiðarljósi, en í því felst jafnframt mikilvæg fjárfesting til framtíðar fyrir samfélagið.

Tilmælunum er ætlað að styðja við regluverk aðildarríkjanna á sviði barnaverndar sem tryggi velferð og réttindi barna. Lögð er áhersla á að barnaverndarkerfi séu löguð að þörfum barna og að börn hafi aðkomu og áhrif á ákvarðanir sem snerta hagsmuni þeirra. Þá hyggst ESB nýta betur þau úrræði sem sambandið hefur til þess að styðja við aðildarríkin í þessu skyni.

Gert er ráð fyrir að aðildarríkin setji sér aðgerðaráætlun sem miði að því að binda enda á ofbeldi gegn börnum, og að þau komi sér upp samþættu regluverki á sviði barnaverndar með þverfaglegri samhæfingu og samvinnu. Gert er ráð fyrir samræmdum stuðningsaðgerðum til að bregðast við ofbeldi gegn börnum, allt frá forvörnum til snemmtækra inngripa og þverfagslegs stuðnings. Í tilmælunum er einnig gert ráð fyrir aðgerðum til þess að bæta öryggi barna í netheimum með bættri fræðslu og aðgerðum gegn hvers konar einelti. Að lokum eru aðildarríkin hvött til að þróa geðheilbrigðisáætlanir þar sem börn og geðheilbrigði þeirra eru sett í forgang.

Tilmælin byggjast m.a. á sáttmála ESB um grundvallarréttindi og á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna auk þess sem þau eru liður í innleiðingu stefnuáætlunar ESB um réttindi barna.

Samráð við aðila vinnumarkaðarins um fjarvinnu og réttinn til þess að aftengjast

Hinn 30. apríl sl. tilkynnti framkvæmdastjórn ESB að hafið hefði verið samráðsferli við aðila vinnumarkaðarins um sanngjarnt fyrirkomulag fjarvinnu og um rétt launþega til að aftengjast. Hefur framkvæmdastjórn ESB í þessu skyni birt samráðsskjal þar sem áskoranir á þessu sviði eru reifaðar. Tilefni samráðsins er sú stórfellda aukning sem orðið hefur í fjarvinnu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru en kannanir Eurostat um evrópska vinnumarkaðinn leiða m.a. í ljós að hlutfall fólks í fjarvinnu hafi aukist mjög frá því sem áður var. Þar kemur jafnframt fram að yfir 60 prósent svarenda séu hlynntir því að eiga möguleika á því að vinna hluta vinnuvikunnar í fjarvinnu.

Þrátt fyrir að kostir fjarvinnu séu fjölmargir þá fylgja slíku vinnufyrirkomulagi áskoranir. Til að mynda hefur reynst erfitt að tryggja að réttindi starfsfólks séu virt í stafrænu vinnuumhverfi. Álitið er að hið sveigjanlega fyrirkomulag geti leitt til þess að sú vinnumenning þróist að það sé ætíð gert ráð fyrir því að hægt sé að ná í starfsmann til bregðast við hinum ýmsu verkefnum. Hefur þetta vakið upp umræðu um rétt fólks til þess að aftengjast og draga þannig skýr mörk á milli vinnu og einkalífs.

Samráðsskjalið sem birt hefur verið á rætur sínar að rekja í ályktun Evrópuþingsins frá 2021 þar sem ályktað var að framangreind atriði skyldu tekin til skoðunar og að brugðist yrði við þeirri þróun sem að framan er rakin. Gert er ráð fyrir að samráðið sem hafið er standi til 11. júní nk. og hafa aðilar vinnumarkaðarins þann tíma til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og hugmyndum. Um er að ræða fyrsta fasa samráðs þar er farið er yfir helstu álitaefnin í breiðu samhengi en á síðari stigum þess verður sjónum beint nánar að einstökum efnisþáttum málsins.

Bandalag til að sporna við skorti á mikilvægum lyfjum

Í síðustu viku birti framkvæmdastjórn ESB fréttatilkynningu um stofnun bandalags opinberra aðila og einkaaðila sem hefur það markmið að sporna gegn skorti á framboði mikilvægra lyfja (e. Critical Medicines Alliance). Bandalagið er svar framkvæmdastjórnarinnar við ákalli 23 aðildarríkja um að tryggja afhendingaröryggi lyfja, m.a. með eigin lyfjaframleiðslu, og sjá þannig til þess að Evrópa verði sem mest sjálfbær er kemur að framboði lyfja og óháð öðrum ríkjum. Þessi stefnumörkun er hluti af því að tryggja efnahagslegt öryggi og hagvarnir Evrópu undir merkjum strategísks sjálfræðis ESB (e. EU strategic autonomy). Það var að frumkvæði Belga, sem nú gegna formennsku í ráðherraráði ESB, að hugmyndin um bandalag af þessu tagi var kynnt á óformlegum fundi heilbrigðisráðherra ESB sem haldinn var í Stokkhólmi í byrjun maí á síðasta ári.

Með samstarfi HERA (e. Health Emergency Preparedness and Response Authority) og ráðherraráðs ESB er gert ráð fyrir að framangreint bandalag verði hluti af aðgerðum til að byggja upp öflugt evrópskt samstarf á sviði heilbrigðismála (e. European Health Union). Formleg stofnun bandalagsins átti sér stað í kjölfar óformlegs fundar heilbrigðisráðherra ESB sem haldinn var í Brussel í síðustu viku. Heilbrigðisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna auk Sviss var einnig boðið að sitja fundinn og sótti Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu fundinn fyrir Íslands hönd.

Síðastliðið ár hefur framkvæmdastjórn ESB unnið að margvíslegum aðgerðum bæði til skemmri og lengri tíma sem hafa það að markmiði að vinna gegn lyfjaskorti og tryggja afhendingaröryggi nauðsynlegra lyfja en lyfjaskortur er vaxandi áhyggjuefni meðal ESB og ESS/EFTA ríkja. Um þær aðgerðir og ýmislegt sem þeim tengist hefur verið fjallað í Vaktinni að undanförnu, sbr. m.a. umfjöllun Vaktarinnar 26. maí sl. þar sem fjallað var um tillögur að endurskoðuðum lyfjalögum ESB en meginmarkmið þeirra er að stuðla að auknu framboði og jöfnu aðgengi að öruggum og áhrifaríkum lyfjum á sanngjörnu og viðráðanlegu verði fyrir íbúa óháð búsetu. Þær tillögur eru nú til umfjöllunar hjá ráðherraráði ESB og á Evrópuþinginu. Þá var í Vaktinni 21. júlí sl. fjallað um aðgerðir til að sporna gegn skorti á sýklalyfjum sérstaklega, sbr. einnig umfjöllun um aðgerðir til að sporna gegn lyfjaskorti almennt og til að auka afhendingaröryggi lyfja í Vaktinni 27. október sl. Loks var fjallað um útgáfu lista yfir mikilvæg lyf sem framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út í Vaktinni 19. janúar sl. 

Því bandalagi sem nú hefur verið efnt til er ætlað að leiða saman hópa sérfræðinga af vettvangi stjórnvalda aðildarríkjanna og stofnana ESB, lyfjaiðnaðarins og úr heilbrigðisstofnunum og almenna borgara með það sameiginlega markmið að tryggja sjúklingum aðgengi að þeim lyfjum sem þeir þarfnast á hverjum tíma.

Bandalaginu er ætlað að vera ráðgefandi gagnvart framkvæmdastjórninni og aðildarríkjunum. Því er ætlað að greina veikleika í aðfangakeðjum og þróa bestu mögulegu leiðir til að bregðast við og forða skorti á mikilvægum lyfjum. Þá er því einnig ætlað að leggja áherslu á eflingu evrópsks lyfjaiðnaðar.

Þátttaka í bandalaginu er valkvæð og er opin nýjum meðlimum hvenær sem er. Íslensk stjórnvöld hafa enn sem komið er ekki tekið afstöðu til aðildar að bandalaginu en möguleg þátttaka er nú til skoðunar. Listi þátttakenda telur nú 250 aðila og má þar m.a. finna íslenska lyfjafyrirtækið Alvotech S.A.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta