Fundaði með framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna
Á fundinum var rætt um mikilvægi þess að tryggja að fólk sem þarfnast alþjóðlegrar verndar þurfi ekki að leita á náðir smyglara og leggja líf sitt og limi í hættu til þess að komast til Evrópu. Móttaka kvótaflóttafólks sé þar mikilvægur farvegur sem tryggi öryggi berskjaldaðra einstaklinga. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna leggur áherslu á að þau ríki sem taka á móti kvótaflóttafólki haldi áfram þeirri vinnu en jafnframt sé þörf fyrir að fleiri ríki hefji skipulagða móttöku kvótaflóttafólks. Flóttamannastofnunin áætlar að á næsta ári verði um 1.200.000 einstaklingar frá 35 ríkjum í brýnni þörf fyrir að komast í öruggt skjól sem kvótaflóttafólk en samkvæmt fyrirliggjandi skuldbindingum móttökuríkja munu þau taka á móti 93.000 manns á næsta ári.
Á fundinum ítrekaði Þorsteinn áætlanir íslenskra stjórnvalda um árlega móttöku kvótaflóttafólks og þá stefnu að taka á móti fleira fólki á næstu árum en gert hefur verið til þessa. Ráðherra sagði jafnframt íslensk stjórnvöld reiðubúin að deila reynslu sinn af móttöku flóttafólks til þeirra ríkja sem eru að íhuga að hefja móttöku kvótaflóttafólks.
Rætt var um hvernig framlag Íslands nýtist sem best í því neyðarástandi sem ríkir, en fólk á flótta vegna stríðsátaka hefur aldrei verið fleira en nú, að heimsstyrjöldinni síðari undanskilinni. Auk þess að sinna móttöku kvótaflóttafólks var rætt um að opna einnig fyrir þann möguleika að tekið sé sérstaklega móti flóttafólki sem er í bráðri lífshættu með skömmum fyrirvara.
Framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar lýsti yfir þakklæti fyrir þann stuðning sem íslensk stjórnvöld hafa veitt stofnuninn á síðustu árum, bæði í formi fjárstuðnings til stofnunarinnar og með aukinni áherslu á móttöku flóttafólks.