Nr. 225/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 18. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 225/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20030046
Kæra [...]
og barna hennar
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 31. mars 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Tyrklands (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 16. mars 2020 um að synja kæranda og börnum hennar, [...], fd. [...], ríkisborgari Tyrklands (hér eftir A) og [...], fd. [...], ríkisborgari Tyrklands (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd ásamt þremur börnum sínum, þar af einu uppkomnu.
Þess er aðallega krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og kæranda veitt alþjóðleg vernd hér á landi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og kæranda veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 24. janúar 2019. Kærandi og börn hennar komu í viðtöl hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 10. júlí, 16. júlí og 11. september 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 16. mars 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda og börnum hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 31. mars 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 20. apríl 2020, ásamt fylgigögnum. Kærandi óskaði eftir því í greinargerð að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún og börn hennar séu í hættu í heimaríki vegna ofbeldis og hótana af hálfu fyrrverandi eiginmanns hennar og skorts á lögregluvernd.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kæranda, kom fram að tekið hafi verið viðtal við A og B þann 11. september 2019 ásamt talsmanni þeirra. Í ákvörðun móður hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli móður þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að börnum kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja móður sinni til heimaríkis. Börnum kæranda var vísað frá landinu.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hún sé fædd og uppalin í bænum [...] í [...] í vesturhluta Tyrklands og þar hafi hún búið áður en hún hafi flúið heimaríki ásamt þremur börnum sínum. Áður hafi kærandi búið í [...] í austurhluta Tyrklands ásamt fyrrum eiginmanni sínum í 23 ár. Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd fyrst og fremst á því kynbundna ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir af hálfu fyrrum eiginmanns síns. Greindi kærandi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að ofbeldið hafi byrjað í kringum 2008-2009. Kærandi kveður að fyrrverandi eiginmaður hennar hafi sparkað, kýlt, lamið og beitt hana andlegu ofbeldi. Í eitt sinn hafi hún sloppið undan ofbeldi hans á hlaupum. Á hlaupunum hafi hún hitt lögreglumenn sem hafi ekkert gert jafnvel þó fyrrverandi eiginmaður hennar hafi beitt hana ofbeldi fyrir framan þá. Kærandi kveður að ofbeldið hafi versnað mikið í kringum árin 2011-2012 þar sem fyrrverandi eiginmaður hennar hafi m.a. keyrt yfir hana viljandi, togað hana á hárinu, slegið hana í framan og brotið í henni tennur og bein. Í framhaldinu hafi hún svo kært hann og mál verið höfðað gegn honum. Kærandi kveður að eiginmaður hennar hafi verið með börnin á þeim tíma og hótað henni að hún fengi aldrei að sjá þau framar ef hún myndi ekki draga frásögn sína til baka. Kærandi hafi því ekki séð annan kost í stöðunni en að draga framburð sinn til baka. Dómarinn hafi þó séð að hún var með áverka og því hafi fyrrverandi eiginmaður hennar fengið nokkurra mánaða skilorðsbundinn dóm.
Kærandi kveðst hafa reynt að fá skilnað en fyrrverandi eiginmaður hennar hafi komið í veg fyrir það þar til árið 2015 en þá hafi þau skilið. Í nóvember 2016 hafi hann þó viljað þvinga hana til að koma aftur til sín og reynt að drepa hana. Hún hafi kært hann og standi enn yfir dómsmál vegna þessa atburðar. Kærandi kveður að fyrrverandi eiginmaður hennar hafi eitt sinn komið til sín vopnaður skotvopni eftir að sonur þeirra hafi flúið til hennar í kjölfar barsmíða föður hans. Hann hafi beint skotvopninu að kæranda og sagt að ef sonur þeirra kæmi ekki með honum myndi hann skjóta. Í kjölfarið hafi fjölskyldan flúið land, þau hafi fyrst reynt að fara til Grikklands en ekki komist frá landinu. Nokkrum mánuðum síðar hafi kærandi farið ásamt börnum sínum til Svíþjóðar þar sem þau hafi farið huldu höfði í tæpan mánuð áður en þau hafi komið hingað til lands. Kærandi telji að eiginmaður hennar fyrrverandi muni drepa hana verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis og að þekkt sé að eiginmenn drepi fyrrverandi eiginkonur sínar þar í landi. Kærandi lýsir því að fyrrum eiginmaður hennar hafi einnig beitt börn þeirra ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu. Kærandi ber að fyrrum eiginmaður hennar sé áhrifamikill viðskiptamaður í Tyrklandi, meðlimur stjórnmálaflokksins AKP, vinni við vopnasölu og sé vel efnaður. Þá selji hann yfirvöldum, lögreglu, hernum og stjórnmálamönnum skotvopn og hafi því sterk tengsl við þessa aðila. Segist kærandi margoft hafa reynt að leita til lögreglu en ekki getað fengið viðeigandi vernd.
Í greinargerð kæranda er vísað til alþjóðlegra skýrslna þar sem fjallað er um helstu mannréttindabrot sem viðgangist í Tyrklandi. Þar komi fram að ofbeldi gagnvart konum sé alvarlegt og útbreitt vandamál þar í landi. Þá telur kærandi að yfirvöld í landinu veiti konum ekki tilhlýðilega vernd gegn ofbeldi og að aðstoð við konur sem séu þolendur ofbeldis sé takmörkuð.
Aðalkrafa kæranda er að henni verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, þar sem hún og börn hennar sæti ofsóknum í heimaríki sínu af hálfu fyrrum eiginmanns og föður þeirra og grundvallarmannréttindi þeirra séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi telji að sem kona tilheyri hún tilteknum þjóðfélagshópi og hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir eða að hljóta alvarlegan skaða af hálfu fyrrum eiginmanns hennar. Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga komi fram að ofsóknir geti m.a. falist í andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi og löggjöf og aðgerðum stjórnvalda, lögreglu eða dómstóla, sem feli í sér mismunun að efni eða vegna þess hvernig þær eru framkvæmdar. Þá telji kærandi að ekki leiki vafi á því að konur í Tyrklandi myndi tiltekinn þjóðfélagshóp sem falli innan skilgreiningar Flóttamannasamnings þar sem þær deili ákveðnum sameiginlegum einkennum sem ekki verði breytt. Þá tilheyri börn K jafnframt tilteknum þjóðfélagshóp sem börn sem orðið hafi fyrir ofbeldi, í samræmi við athugasemdir við 38. gr. frumvarps að lögum um útlendinga. Kærandi telji að það andlega og líkamlega ofbeldi sem þau hafi orðið fyrir falli undir ofsóknir skv. 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og að þær séu á ábyrgð tyrkneskra stjórnvalda sem veiti tyrkneskum konum ekki tilhlýðilega vernd. Kærandi vísi til þess að í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna komi fram að ástæðuríkur ótti geti byggst á huglægum og hlutlægum þáttum. Ótti kæranda við áframhaldandi ofbeldi af hálfu fyrrum eiginmanns hennar sé ástæðuríkur með tilliti til fyrri ofbeldissögu, rótgróinna og íhaldssamra viðhorfa til kvenna í tyrknesku samfélagi og skorts á vernd.
Til vara krefst kærandi þess að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga en ákvæðið heimili að veita viðkomandi dvalarleyfi t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi. Í greinargerð með frumvarpi til útlendingalaga komi fram að taka skuli mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans, s.s. almennra aðstæðna í heimalandi eða því landi sem útlendingur yrði sendur til, þar á meðal hvort grundvallarmannréttindi séu tryggð. Þá komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum viðkomandi sé vísað til þess að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimalandi og sérstaklega tekið sem dæmi aðstæður kvenna sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi, sem leitt geti til erfiðrar stöðu þeirra í heimalandi eða aðstæður kvenna sem ekki felli sig við kynhlutverk sem sé hefðbundið í heimaríki þeirra og eigi því hættu á útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Loks segi í athugasemdum við greinina að sérstakt tillit skuli taka til barna, fylgdarlausra og annarra barna, því komi til greina að gera minni kröfur þegar um börn sé að ræða.
Þá leggur kærandi áherslu á að í tengslum við kröfu þeirra um dvalarleyfi af mannúðarástæðum skuli sérstaklega horfa til barna hennar. Þau hafi upplifað alvarlegt andlegt og líkamlegt ofbeldi. Börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd, hvort sem þau eru fylgd umönnunaraðila sinna eða ekki. Er þess krafist sérstaklega fyrir hönd barnanna að tekið verði tillit til þeirrar verndar sem þau eigi rétt á samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum og öðrum reglum sem íslensk stjórnvöld eru skuldbundin samkvæmt þjóðarétti að virða.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað tyrkneskum vegabréfum fyrir sig og börn sín. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar séu tyrkneskir ríkisborgarar.
Réttarstaða barna kæranda
Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.
Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.
Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.
Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd móður sinnar og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Tyrklandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- Country policy and information note: background note: Turkey (UK Home Office, september 2019);
- Country Policy and Information Note – Turkey: Women fearing gender-based violence (UK Home Office, maí 2018);
- EASO Country of Origin Information Report. Turkey. Country Focus (EASO, nóvember 2016);
- Education at a Glance 2019 - Turkey. (OECD, 10. september 2019);
- Education Policy outlook: Turkey. (OECD, október 2013);
- Freedom in the World 2019 – Turkey (Freedom House, 4. mars 2020);
- The World Factbook (Central Intelligence Agency, 3. mars 2020);
- Turkey 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
- Turkey’s Constitution of 1982 with Amendments through 2017 (https://www.constituteproject.org/constitution/Turkey_2017.pdf?lang=en, skoðað 14. maí 2020);
- Is justice failing women survivors of violence? – Action-Oriented Recommendations for Effective Prevention, Protection and Prosecution in The Western Balkans and Turkey (Center of Women’s Rights, Zenica , nóvember 2019)
- UN Women - Ending Violence against women (https://eca.unwomen.org/en/where-we-are/turkey/ending-violence-against-women, skoðað 13. maí 2020);
- Women Face Rising Violence in Male Dominated Turkey (BalkanInsight, 2. september 2019) og
- World Report Turkey 2019 (Human Rights Watch, 17. janúar 2019).
Tyrkland er lýðveldi með rúmlega 82 milljónir íbúa. Ríkið er aðili að Evrópuráðinu og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Ríkið er jafnframt aðili að m.a. flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. og alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis. Þá hefur ríkið fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi.
Í skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2019 kemur fram að í alþingis- og forsetakosningum árið 2018 hafi Recep Tayyip Erdogan verið endurkjörinn forseti landsins og réttlætis- og framfaraflokkurinn (AKP) hafi haldið áfram að leiða ríkisstjórn landsins. Kosningarnar í júní 2018 hafi farið fram á meðan neyðarástand og neyðarlög hafi verið í gildi í ríkinu í kjölfar valdaránstilraunar í júlí 2016 og margt fjölmiðlafólk, alþingismenn og forsetaframbjóðandi kúrdísku andstöðuhreyfingarinnar hafi setið í fangelsi. Þá sé stjórnkerfið með þeim hætti að valddreifing sé lítil, áhrif þingsins takmörkuð og forseti ríkisins fari aðallega með stjórn ríkisins. Til að bregðast við valdaránstilrauninni hafi neyðarástandi verið lýst yfir í landinu og neyðarlög hafi gilt, yfirlýst neyðarástandi hafi verið framlengt ítrekað en 18. júlí 2018 hafi því verið aflýst. Þá hafi verið tekin í gildi hryðjuverkalöggjöf í ágúst 2018 sem m.a. hafi víkkað út valdsvið yfirvalda til að takmarka fundafrelsi og segja upp opinberum starfsmönnum m.a. dómurum. Lögregla geti samkvæmt framangreindri löggjöf hneppt einstaklinga í allt að 12 daga varðhald. Þá séu u.þ.b. einn fimmti hluti fanga í ríkinu í fangelsi vegna ákæra fyrir brot tengd hryðjuverkum á grundvelli framangreindra laga samkvæmt dómsmálaráðuneyti ríkisins. Ríkisstjórnin hafi jafnframt beitt þvingunaraðgerðum gegn þjóðkjörnum alþingismönnum, bæjarstjórum og embættismönnum stjórnmálaflokka sem styðji Kúrda. Þrátt fyrir ofangreint hafi kúrdíski lýðræðisflokkurinn (HDP) tryggt sér 67 þingsæti í kosningunum 2018.
Samkvæmt stjórnarskrá Tyrklands skulu allir borgarar landsins vera jafnir fyrir lögunum óháð tungumáli, kynþætti, litarhafti, kyni, stjórnmálaskoðunum, trúarskoðunum eða öðrum sjónarmiðum. Þá kveði lög á um bann við mismunun, m.a. á grundvelli stjórnmálaskoðana, kyns og trúar. Ákvæði séu í stjórnarskrá og löggjöf sem heimili jákvæða mismunun til að auka jafnrétti kynjanna. Jafnframt hafi verið sett lög með það að markmiði að auka hlut kvenna á atvinnumarkaði. Mannréttindasamtök hafi þó talið að lögin hafi ekki náð markmiði sínu þar sem atvinnuveitendur hafi frekar dregið úr ráðningum á konum auk þess sem lögin hafi takmarkað möguleika kvenna á stöðuhækkun í starfi.Samkvæmt tyrkneskum lögum er spilling refsiverð en þó bera ofangreindar heimildir með sér að spilling sé útbreitt vandamál í Tyrklandi. Dæmi séu um að embættismenn hafi tekið þátt í spillingu án þess að hljóta viðeigandi refsingu. Af gögnunum má ráða að ekki sé fullnægjandi eftirlit með spillingu í Tyrklandi og mál tengd spillingu séu ekki rannsökuð nægjanlega vel eða gefnar út ákærur í þeim. Jafnframt hafi óhlutdrægni dómstóla verið dregin í efa í meðferð mála um spillingu.
Í ofangreindum skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 og breska innanríkisráðuneytisins frá maí 2018 kemur fram að ofbeldi gagnvart konum sé útbreitt vandamál í Tyrklandi. Fram kemur að lög þar í landi leggi bann við ofbeldi gegn konum og geti refsing við slíkum brotum varðað allt að 12 ára fangelsisvist. Jafnframt sé nauðgun innan hjónabands refsiverð. Lög í Tyrklandi kveði á um vernd af hálfu lögreglu og annarra stjórnvalda fyrir þolendur ofbeldis en yfirvöld hafi verið gagnrýnd fyrir ófullnægjandi framfylgni laganna og vernd þolenda. Fram kemur að í landinu séu starfræktir fjölskyldudómstólar sem geti beitt gerendur þvingunaraðgerðum. Heimild sé í tyrkneskum lögum til að brottvísa geranda af heimili auk þess sem dómari geti dæmt geranda til að greiða þolanda heimilisofbeldis framfærslueyri. Löggjöfin hafi verið bætt til muna árið 2012 og nái lögin nú til allra kvenna hvort sem þær séu giftar eða ekki. Þá hafi lögreglu verið veitt heimild í ákveðnum neyðartilfellum til að beita þvingunaraðgerðum án aðkomu dómstóla. Jafnframt hafi dómstólum verið veitt heimild til að skylda gerendur að gangast undir rafrænt eftirlit til að fylgjast með ferðum þeirra. Þó beri heimildir með sér að dómstólar hafi í einhverjum tilvikum beitt vægari viðurlögum en lög kveði á um í málum tengdum kynbundnu ofbeldi t.a.m. með vísan til góðrar hegðunar gerandans meðan á réttarhöldum hafi staðið eða vegna þess að hegðun þolanda hafi þótt ögra geranda. Ofangreindar heimildir bera með sér að heimilisofbeldi sé oft ekki tilkynnt til lögreglu m.a. vegna þess að þolendur séu efnahagslega háðir gerendunum, þá skorti traust til yfirvalda eða óttist hefndaraðgerðir af hálfu gerandans. Þá sé í boði sérstök neyðarlína sem þolendur geti hringt í auk snjallforrits, þar sem hægt sé að tilkynna heimilisofbeldi.
Fram kemur að settar hafi verið á laggirnar móttökumiðstöðvar þar sem boðið sé upp á fjárhagslegan og sálfræðilegan stuðning við þolendur heimilisofbeldis auk þess sem boðið sé upp á lögfræðiráðgjöf og félagslega þjónustu. Miðstöðvarnar séu 81 talsins og starfræktar í öllum héruðum landsins. Þá séu 144 kvennaathvörf rekin víðsvegar um landið. Kvennaathvörfin eigi að veita konum fjárhagslegan stuðning, ráðgjöf og sálfræðiþjónustu. Vegna öryggissjónarmiða og sjónarmiða um friðhelgi einkalífs geti þolendur ekki leitað beint til athvarfanna og þurfi því að fá tilvísun frá lögreglu, dómstólum, heilbrigðisstofnunum eða móttökumiðstöðvum til að fá pláss í kvennaathvörfum. Konur geti þó leitað til ákveðinna fyrsta stigs athvarfa sem rekin séu af móttökumiðstöðvunum meðan þær bíði eftir svari.
Í skýrslu miðstöðvar fyrir réttindi kvenna (e. Center for Women‘s Rights) frá árinu 2019 kemur fram að þrátt fyrir að framfarir hafi orðið á stefnu Tyrklands í jafnréttismálum og lagalegum úrræðum til að vernda konur hafi stjórnvöld sætt gagnrýni um að framfylgni laganna sé verulega ábótavant. Skortur á pólitískum vilja, karllæg gildi og viðhorf og fókus á vernd fjölskyldueiningarinnar standi í vegi fyrir raunverulegum framförum. Gagnrýnt hafi verið að ekki séu nægilega mörg kvennaathvörf til að mæta eftirspurn auk þess sem athvörfin hafi ekki í öllum tilfellum veitt fullnægjandi þjónustu. Þó dómstólar geti beitt úrræðum á borð við nálgunarbönn til að vernda þolendur heimilisofbeldis hafi mannréttindasamtök talið að lögregluyfirvöld beiti ekki úrræðinu með nægjanlega skilvirkum hætti. Jafnframt hafi viðbrögð stjórnvalda og lögregluyfirvalda verið gagnrýnd þar sem þolendur heimilisofbeldis hafi verið hvattir til að halda áfram í ofbeldissamböndum til að stía ekki fjölskyldunni í sundur. Ofbeldi gagnvart börnum sé einnig vandamál í Tyrklandi og hafi stjórnvöld sett aukna áherslu á aðgerðir til að koma í veg fyrir það. Lög kveði á um aðgerðir af hálfu yfirvalda til að veita börnum sem séu þolendur ofbeldis og börnum sem eigi ofbeldi á hættu viðeigandi vernd. Sérfræðingar í málefnum barna hafi greint frá því að með aukinni áherslu stjórnvalda síðustu ára á málaflokkinn hafi orðið vitundarvakning meðal almennings og fleiri tilkynningar um ofbeldi hafi borist yfirvöldum.
Í skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands kemur fram að grunnheilbrigðisþjónusta sé endurgjaldslaus í Tyrklandi þó greiða þurfi fyrir lyf og aðra sérfræðiþjónustu. Tyrknesk stjórnvöld hafi ráðist í miklar endurbætur á heilbrigðiskerfinu árið 2003 þar sem aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu hafi verið aukið til muna. Því sé öll bráðaþjónusta og krabbameinsmeðferðir endurgjaldslausar fyrir ríkisborgara Tyrklands, bæði á opinberum og einkareknum sjúkrahúsum. Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að öll börn í Tyrklandi eigi rétt á að ganga í skóla. Árið 2012 hafi skyldubundin menntun barna verið aukin frá 8 árum upp í 12 ár og ljúki því skólaskyldu barna við 18 ára aldur.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir kröfu sína á því að hún hafi í mörg ár sætt líkamlegu og andlegu ofbeldi af hálfu fyrrverandi eiginmanns síns. Þá hafi A og B einnig orðið fyrir ofbeldi af hálfu föður síns. Kærandi hafi skilið við eiginmann sinn árið 2015 en hún og börn hennar óttist frekara ofbeldi af hálfu hans. Hann hafi t.a.m. reynt að myrða kæranda í nóvember 2016 og beint skotvopni að henni í mars 2017.
Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 10. og 16. júlí 2019. Þá mættu A og B einnig til viðtals þann 11. september 2019. Kærandi lagði fram afrit af dómsskjölum frá heimaríki. Í enskri þýðingu gagnanna kemur fram að dómsmál hafi verið höfðað á hendur fyrrum eiginmanni hennar vegna atviks sem hafi átt sér stað árið 2016. Kærandi greindi frá því í viðtali að hún væri hrædd um að fyrrverandi eiginmaður hennar myndi drepa hana, yrði henni gert að snúa aftur til heimaríkis. Frásögn kæranda af því ofbeldi sem hún kveðst hafa sætt er að mati kærunefndar trúverðug og fær jafnframt stoð í þeim gögnum sem hún hefur lagt fram sem og frásögnum A og B. Verður því lagt til grundvallar að kærandi og börn hennar hafi sætt því ofbeldi sem hún hefur lýst af hálfu fyrrverandi eiginmanns hennar.
Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hún óttist ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Í framangreindum gögnum um aðstæður í heimaríki kæranda kemur fram að til staðar séu úrræði fyrir konur sem hafi sætt heimilisofbeldi eða óttist ofbeldi af hendi núverandi eða fyrrum maka. Þrátt fyrir gagnrýni á skilvirkni og vinnubrögð lögreglu í málum er varði ofbeldi gegn konum er það mat kærunefndar að ofangreind gögn bendi til þess að almennt sé um raunhæf úrræði að ræða.Kærandi hefur haldið því fram að þrátt fyrir að eiginmaður hennar hafi í eitt sinn verið dæmdur til skilorðsbundinnar refsingar vegna ofbeldis sem hann hafi beitt hana muni hún ekki geta fengið vernd hjá lögreglu verði henni gert að fara aftur til heimaríkis. Fyrrverandi eiginmaður hennar sé áhrifamikill viðskiptamaður sem hafi tengsl við yfirvöld og stjórnmálamenn. Kærandi lagði fram gögn sem hún kveður sýna fram á stöðu fyrrverandi eiginmanns síns og tengsl hans við AKP stjórnmálaflokkinn. Verður af gögnunum og framburði kæranda og barna hennar lagt til grundvallar að fyrrverandi eiginmaður kæranda eigi og reki verslun sem selji m.a. skotvopn og vörur til veiða og hafi lýst yfir stuðningi við innlenda vopnaframleiðslu og Erdogan forseta. Kærunefnd leitaði á veraldarvefnum að frekari upplýsingum um fyrrverandi eiginmann kæranda en gat ekki fundið neinar upplýsingar um hann. Verður því ekki lagt til grundvallar að fyrrverandi eiginmaður kæranda hafi slík tengsl innan yfirvalda í heimaríki kæranda eða sé það valdamikill að kæranda sé ómögulegt að leita aðstoðar lögreglu og annarra yfirvalda óttist hún að hún eða börn hennar verði fyrir ofbeldi af hans hálfu. Fær sú niðurstaða stuðning í gögnum sem kærandi lagði fram um sakfellingu fyrrverandi eiginmanns hennar og um yfirstandandi dómsmál gegn honum vegna atviks sem átti sér stað árið 2016.
Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að stjórnvöld í Tyrklandi geti ekki eða vilji ekki veita kæranda og börnum hennar vernd gegn ofbeldi af hálfu fyrrverandi eiginmanns hennar, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal, við mat skv. 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Útlendingastofnun tók viðtal við A og B þann 11. september 2019. Að mati kærunefndar var sjónarmiðum A og B nægilega komið á framfæri með fyrrgreindum viðtölum, skv. 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum málsins og framangreindum aðstæðum í heimaríki þeirra. Við það mat horfir kærunefnd m.a. til þess að börn þau sem um ræðir eru í fylgd með móður sinni og njóta stuðnings hennar. Þá benda gögn til þess að lög í Tyrklandi banni ofbeldi gegn börnum og að þeim sé tryggð vernd og aðstoð yfirvalda í heimaríki. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til annars en að kærandi sé við góða heilsu og sé vinnufær. Eru því ekki forsendur til annars en að telja að framfærsla A og B sé nægilega tryggð í heimaríki. Þá hafa börnin A og B greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að þau hafi gengið í skóla í heimaríki og að B hafi gengið til sálfræðings í tvö ár. Þá bera gögn með sér að A og B muni jafnframt hafa aðgang að heilbrigðiskerfinu í heimaríki.
Með vísan til þess sem fram hefur komið er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún og börn hennar hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður kæranda og barna hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi en ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geti leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls. Þá segir í ákvæðinu að því verði ekki beitt nema skorið hafi verið úr því að útlendingur uppfylli ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Með reglugerð nr. 122/2020 var tímaviðmið ákvæðisins stytt úr 18 mánuðum í 16 mánuði ef um er að ræða umsókn barns. Kærandi og börn hennar sóttu um alþjóðlega vernd þann 24. janúar 2019. Kærandi og börn hennar hafa ekki enn fengið niðurstöðu í málum sínum hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að A og B sóttu fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, þann 18. júní 2020, eru liðnir rúmir 16 mánuðir. A og B teljast því ekki hafa fengið niðurstöðu í málum sínum innan þeirra tímamarka sem getið er um í 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020. Er því heimilt að veita A og B dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins að uppfylltum öðrum skilyrðum 2. mgr. 74. gr. laganna.
Tekið var viðtal við börnin A og B hjá Útlendingastofnun þann 11. september 2019. Er það mat nefndarinnar að A og B uppfylli skilyrði a- til d-liða 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að ákvæði 3. mgr. 74. gr. laganna eigi við. Með vísan til framangreinds verður A og B veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 122/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga.
Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar verður kæranda einnig veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Að öllu framangreindu virtu, er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsóknir kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda og börnum hennar dvalarleyfi skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar varðandi umsókn um alþjóðlega vernd er staðfest.
The Directorate of Immigration is instructed to issue residence permits for the appellant and her children based on paragraph 2 of Article 74 of the Act on Foreigners. The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her children related to their application for international protection are affirmed.
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir
Bjarnveig Eiríksdóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir