Samstarfsvettvangur um framlag til loftslagsmála á alþjóðlegum vettvangi skipaður
Ríkisstjórnin hefur kynnt metnaðarfulla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem tekur einkum til aðgerða sem miða að því að draga úr losun og auka kolefnisbindingu úr andrúmslofti, þannig að Ísland geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og áform um kolefnishlutleysi 2040. Samkvæmt áætluninni óska stjórnvöld eftir samstarfi á breiðum grunni við að koma áætluninni í framkvæmd. Samtök iðnaðarins gripu þann bolta á lofti og óskuðu eftir samstarfi á því sviði sem hér er greint frá.
Meginmarkmið samstarfsvettvangsins verður að hefja markaðssamstarf atvinnulífs og stjórnvalda tengt loftslagsmálum. Undirliggjandi markmið eru að efla ímynd Íslands á grundvelli framlags til loftslagsmála, samræma og markaðssetja skilaboð Íslands um lykilmarkmið og aðgerðir í loftslagsmálum og markaðssetja íslenskar lausnir á sviði orkuþekkingar og grænna lausna.
Með sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa getur Ísland orðið fyrirmynd í loftslagsmálum og hjálpað öðrum ríkjum við að ná árangri við að draga úr útblæstri án þess að það bitni á hagsæld.
Samstarfsvettvangurinn er í samræmi við áherslur stjórnvalda, sbr. aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, orkuskipti í samgöngum, kolefnisbindingu og vinnu við gerð langtíma orkustefnu og nýsköpunarstefnu. Samstarfsvettvangurinn verður skipaður fulltrúum ráðuneyta, SA, SI, Orkuklasans og Íslandsstofu.