Hoppa yfir valmynd
18. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Hjúkrunarheimili fyrir 40 íbúa rís á Seltjarnarnesi

Samningurinn handsalaður
Samningurinn handsalaður

Í dag var tekin skóflustunga að fyrsta hjúkrunarheimilinu sem byggt er á Seltjarnarnesi. Samhliða undirrituðu Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, samning um fyrirkomulag og fjármögnun framkvæmdanna sem jafnframt var staðfestur með undirritun Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Áætlað er að taka heimilið í notkun haustið 2016.

Nýja hjúkrunarheimilið mun rísa við Norðurtún þar sem nú heitir Safnatröð. Byggingin verður á einni hæð með góðu aðgengi og þægilegri aðstöðu til útiveru. Skipulag heimilisins byggist á viðmiðum velferðarráðuneytisins um hjúkrunarheimili með áherslu á heimilislegar aðstæður sem jafnframt mæta sem best þörfum fólks með skerta getu til athafna og stuðla að vellíðan íbúanna og starfsfólksins.

„Kærkomið og tímabært“

„Bygging þessa heimilis er kærkomin og tímabær,“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra við undirritun samningsins í dag. „Seltjarnarnes er rótgróið og fjölmennt sveitarfélag en hefur til þessa mátt reiða sig á nágrannasveitarfélögin til að mæta þörfum aldraðra íbúa sinna sem þurfa á hjúkrunarheimili að halda. Það er því augljóst að heimilið mun renna styrkari stoðum undir mikilvæga þjónustu bæjarfélagsins við þá sem eldri eru og skipta miklu máli fyrir íbúana alla.“

Reiðubúin fyrir skóflustunguSamkvæmt samningi velferðarráðuneytisins og Seltjarnarnessbæjar mun bæjarfélagið sjá um hönnun og byggingu hjúkrunarheimilisins og leggja til lóðina. Bærinn annast jafnframt fjármögnun framkvæmdarinnar en þegar heimilið er fullbúið og verður afhent til notkunar mun velferðarráðuneytið greiða mánaðarlega húsaleigu samkvæmt samningi til fjörutíu ára og reiknast hún sem ígildi stofnframlags samkvæmt lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra.

Árið 2010 gerðu Seltjarnarnesbær og félagsmálaráðuneytið sambærilegan samning um byggingu 30 rýma hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi en ekki varð af framkvæmdum. Samningurinn sem undirritaður var í dag miðast við stærra heimili og sem fyrr segir er stefnt að því að taka það í notkun haustið 2016.

Margar hendur vinna létt verk

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta