Nr. 534/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 14. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 534/2019
í stjórnsýslumálum nr. KNU19080009 og KNU19080008
Kæra […],
[…]
og barna þeirra
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 6. ágúst 2019 kærðu einstaklingar er kveðast heita […], fd. […], (hér eftir K) og […], fd […], (hér eftir M) og vera ríkisborgarar Íraks, ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 17. júlí 2019, um að synja kærendum og börnum þeirra, […], fd. […], […], fd. […], […], fd. […], (hér eftir A, B og C) um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. útl. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að kærendum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. útl. Til þrautavara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að kærendum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. útl. Til þrautaþrautavara krefjast kærendur þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málin til meðferðar á ný.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 29. ágúst 2018. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 27. júní 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 17. júlí 2019, synjaði Útlendingastofnun kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 6. ágúst 2019. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 22. ágúst 2019. Kærunefnd bárust viðbótargögn frá kærendum þann 24. og 29. október 2019. Kærendur komu til viðtals hjá kærunefnd þann 17. október 2019 ásamt talsmanni sínum.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki sínu vegna hótana bræðra K.
Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kærenda, B og C, kom fram að þau væru svo ung að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við þau. Útlendingastofnun taldi þó tilefni til þess að taka viðtal við elsta barn kærenda, A, og fór viðtalið fram þann 2. júlí 2019, að talsmanni A viðstöddum. Fram kom að umsóknir barna kærenda væru grundvallaðar á framburði foreldra þeirra og að þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að hagsmunum barna kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Börnum kærenda var vísað frá landinu.
Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kærenda
Í greinargerð kærenda kemur fram að þau séu Kúrdar og að þau hafi verið búsett í […] í Kúrdistan áður en þau hafi neyðst til að flýja heimaríki sitt í maí 2018. Kærendur hafi greint frá því að hjónaband þeirra hafi verið eins konar samningur á milli tveggja fjölskyldna um „konuskipti“. Kærendur hafi gifst á meðan bróðir K, […], hafi gifst systur M. [...] hafi aftur á móti skilið við systur M í apríl 2018 og í kjölfarið hafi hann krafist þess að kærendur myndu skilja svo að hann og bræður hans fengu K aftur til fjölskyldunnar. Kærendur hafi ákveðið að flýja þar sem þau hafi vitað að þetta myndi enda illa en faðir og frændi K hafi verið myrtir vegna sams konar vandamála vegna konuskipta. Bræður K hafi hótað kærendum lífláti í apríl 2018 en K hafi talið að lögreglan myndi ekki aðstoða þau þar sem hún hafi enga stjórn á bræðrum K. Þá hafi verið skotið á hús þeirra í […] í apríl 2018 þegar þau hafi ekki verið heima en kærendur telji að […] sé sá eini sem hafi komið til greina sem gerandi. Þegar kærendur hafi flúið heimaríki sitt hafi bræður K litið svo á að M hafi rænt systur þeirra þar sem þeir telji hana vera eign þeirra. Þeir hafi leitað til lögreglu og handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur M þann 9. júlí 2018. M telji fullvíst að hann yrði handtekinn ef hann yrði sendur aftur til heimaríkis. […] sé handrukkari og hafi hótað kærendum vegna málsins og margsinnis beitt K og A ofbeldi. […] þekki marga háttsetta einstaklinga innan lögreglu og stjórnmálaflokka og vinni fyrir þá. Kærendur hafi ekki þorað að leitað til lögreglu þar sem […] sitji aldrei lengur í fangelsi en í einn til tvo daga og að hann myndi myrða þau þegar hann yrði látinn laus. Þá yrði M einnig handtekinn þar sem gefin hafi verið út handtökuskipun á hendur honum.
Í greinargerð kærenda er fjallað almennt um sögu Íraks, stjórnarfar og skiptingu þjóðernisbrota í landinu. Fram kemur að öryggisástandið í landinu hafi verið afar ótryggt frá því að bandaríski herinn og bandamenn þeirra hafi ráðist inn í Írak í mars 2003. Þá hafi óöld ríkt í landinu undanfarin ár og hafi hryðjuverkasamtökin ISIS og aðrir hryðjuverkahópar brotið gegn alþjóðlegum mannréttindalögum. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir Írak árið 2018 komi fram að meðal helstu mannréttindabrota í landinu séu morð, mannshvörf og kúganir af hálfu öryggissveita ríkisins. Refsileysi viðgangist víða í Kúrdistan, m.a. gagnvart lögreglu og öryggissveitum Asayish. Þá skorti löggæslu víða á yfirráðasvæði Kúrda í Írak og séu heimildir um að það hvort yfirvöld geti veitt vernd fari eftir því hver það sé sem standi að baki ofsóknum. Aðgengi að réttarkerfinu velti á því hvaða þjóðernis- eða trúarhópa sé um að ræða, hvaða ættbálki viðkomandi tilheyri og tengslum viðkomandi. Þá sé tíðni aftaka í Írak með því hæsta sem gerist í heiminum. Hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatt ríki til að snúa ekki Írökum sem komi frá svæðum sem séu undir áhrifum stríðsátaka eða teljist óörugg sökum áhrifa ISIS aftur til heimaríkis gegn vilja sínum.
Þá er í greinargerð fjallað almennt um aðstæður á yfirráðasvæði Kúrda í Írak. Fram kemur að með breytingu á stjórnarskrá Íraks árið 2005 hafi yfirráðasvæði Kúrda í Írak (e. the Kurdistan Region of Iraq (KR-I)) verið viðurkennt sem sjálfstjórnarsvæði með eigin stofnanir, svo sem svæðisbundin stjórnvöld, þing, forsetaembætti og öryggissveitir. Vísað er til þess að með atkvæðagreiðslu, í september 2017, um stofnun sjálfstæðs ríkis á yfirráðasvæði Kúrda í Írak hafi magnast upp á ný spenna á milli kúrdíska minnihlutans og yfirvalda í Bagdad og hafi átök átt sér stað í kjölfarið. Samkvæmt heimildum eigi íröksk og kúrdísk stjórnvöld í viðræðum um ágreiningsefni sín. Einnig sé efnahagsástandið í Kúrdistan á niðurleið og þar ríki í raun fjármálakreppa. Þá stafi Kúrdum nú hætta af Tyrkjum.
Í greinargerðinni segir að heiðurstengt ofbeldi sé algengt meðal Kúrda í Írak og er vísað í alþjóðlegar skýrslur því til stuðnings. Beri heimildir með sér að ætla megi að tilvik sem varði heiðurstengt ofbeldi séu á bilinu 300 til 600 á ári. Í skýrslu um heiðurstengt ofbeldi gagnvart karlmönnum í Kúrdistan segi m.a. að karlmenn séu í jafnmikilli hættu og konur að verða fórnarlömb heiðursglæps. Árið 2011 hafi kúrdíska þingið samþykkt lög vegna heimilisofbeldis sem geri ýmis ofbeldisverk saknæm, en lögin taki ekki til heiðursmorða. Þótt almennt sé talið unnt að leita verndar yfirvalda í Kúrdistan þá séu takmarkanir þar á og séu heiðursmál nefnd sem dæmi um slíkt. Heimildir beri vott um að yfirvöld neiti gjarnan að rannsaka slík mál og fari slík mál fyrir dóm hafi gerendur verið dæmdir til mun vægari refsinga, þ.e. ef refsing hafi verið ákveðin á annað borð. Fram kemur að stjórnmálaflokkar grípi oft inn í framgang réttvísinnar og komi í veg fyrir ákærur á hendur gerendum. Þá séu lög ættbálka oft sterkari en lög ríkisins og innleiðing laganna sé erfið í samfélagi sem sé stjórnað af heiðurslögum ættbálka. Heiðurstengt ofbeldi sé ekki tekið alvarlega af lögreglu og hún rannsaki ekki heiðurstengd mál þar sem þau séu álitin fjölskyldumál. Leiti karlmaður sem eigi á hættu heiðursofbeldi eftir aðstoð lögreglunnar muni honum mögulega verið boðin vernd. Hins vegar sé eini möguleikinn á að hann njóti raunverulegrar verndar ef hann væri í vörslu lögreglunnar sem geti aldrei talist raunhæf vernd til lengri tíma. Þá séu engin neyðarskýli fyrir karlmenn í þessari stöðu, sem eigi engan annan möguleika en að flýja land. Loks vísa kærendur til þess að Útlendingastofnun hafi með nýlegum ákvörðunum veitt karlmönnum frá Kúrdistan vernd vegna ástæðuríks ótta við heiðursmorð.
Kærendur fjalla í greinargerð um hagsmuni barna sinna en þau eigi þrjá syni. A hafi orðið fyrir alvarlegu líkamlegu ofbeldi af hálfu ofsóknaraðila fjölskyldunnar auk þess sem hann og B hafi orðið vitni að líkamlegu ofbeldi af hálfu sama aðila á hendur móður þeirra. Börn teljist ávallt til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd og sé íslenskum stjórnvöldum skylt að hafa ávallt það sem barni sé fyrir bestu í forgangi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess. Kærendur vísa til ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, barnalaga nr. 76/2003, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, laga um útlendinga og tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2011/95/ESB. Þá vitna kærendur til þess að í fjölda alþjóðlegra sáttmála sé kveðið á um vernd fjölskyldunnar og rétt barna til að vera með foreldrum sínum. Mikilvægt sé að veita börnunum vernd í öruggu umhverfi þar sem þau þurfi ekki að óttast frekari ofsóknir eða ofbeldi.
Kærendur byggja aðalkröfu sína á því að þau uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í garð þeirra megi rekja til aðildar þeirra að tilteknum þjóðfélagshópi, þ.e. hugsanlegra þolenda heiðurslæpa. Heiðursdeila kærenda eigi rætur að rekja til þess að bróðir K, […], hafi gert þá kröfu að hún myndi skilja við M þar sem hann telji að K sé eign þeirra bræðra. Ótti kærenda við ofsóknir af hálfu bróður K sé ástæðuríkur og telja kærendur að lífi þeirra og frelsi verði ógnað snúi fjölskyldan aftur til heimaríkis. Kærendur telja að lögregluyfirvöld munu ekki aðhafast í málinu, einkum vegna tengsla […] við lögregluna og aðra embættismenn. Þá yrði M jafnframt handtekinn á grundvelli handtökuskipunarinnar. Kærendur telja skilyrði a-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga uppfyllt þar sem ríkið ýti undir heiðursglæpi með ýmsum aðgerðum og aðgerðarleysi. Þá sé réttur fjölskyldna til að verja heiður sinn almennt viðurkenndur í Írak og yfirvöld álíti heiðurstengt ofbeldi einkamál fjölskyldunnar. Því teljist yfirvöld hvorki hafa getu né vilja til að veita þeim vernd, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.
Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefjast kærendur þess til vara að þeim verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem kærendur hafi orðið fyrir alvarlegum skaða innan heimalands síns og eigi á hættu að sæta áframhaldandi ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð verði þau send aftur til heimalands síns. Kærendur geti ekki treyst stjórnvöldum í heimaríki til þess að vernda þau gegn þeirri ógn sem að þeim steðji. Þá vísa kærendur einnig til þess hve óstöðugt ástandið sé í landinu og telja ótímabært að líta svo á að stríðsástandi í landinu sé lokið eða að landið sé í öruggu bataferli, enda eigi átök við ISIS sér ennþá stað í norður- og vesturhlutum landsins auk þess sem vopnaðir hópar séu valdir að mannréttindabrotum.
Hvað varði flutning innanlands telji kærendur sig ekki geta búið annars staðar í heimaríki sínu og verið örugg enda gætu ofsóknaraðilar þeirra haft uppi á fjölskyldunni hvar sem þau væru niðurkomin. Verði að telja þetta mat þeirra raunsætt og rétt með tilliti til almenns ástands í landinu og tengsla og stöðu bróður K. Við mat á möguleika á flótta innanlands beri að líta til þess hvort slíkur flutningur geti talist viðeigandi úrræði og hvort krafan sé sanngjörn. Þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig og almennt séu ekki forsendur til þess að kanna möguleika á flótta innan heimaríkis ef ljóst sé að ríkið skorti vilja eða getu til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum. Við matið þurfi að skoða leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og athugasemdir við 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að hugtakið um raunverulega vernd í öðrum hluta heimaríkis sé ekki meginregla í alþjóðlegri flóttamannalöggjöf. Þá sé þess ekki krafist að einstaklingur sem sæti ofsóknum hafi útilokað alla möguleika í heimaríki áður en hann sæki um alþjóðlega vernd. Máli sínu til stuðnings vísa kærendur í gildandi afstöðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í tengslum við möguleika á innri flutningi í Írak sem og úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 502/2018. Að öllu ofangreindu virtu og með hliðsjón af aðstæðum kærenda verði að telja að krafa um innri flutning geti hvorki talist raunhæf né sanngjörn fyrir þau.
Til þrautavara krefjast kærendur þess að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þeirri kröfu til stuðnings vísa kærendur til almennra aðstæðna í heimaríki, en eins og áður greinir telja kærendur að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum nægilega vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Einnig telja kærendur að þau myndu búa við erfiðar félagslegar aðstæður í ljósi þess að yfirvöld myndu að öllum líkindum ekki veita kærendum vernd. Þá vísa kærendur til alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga um að tekið sé sérstakt tillit til barna. A hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu bróður K og B hafi ítrekað orðið vitni að ofbeldinu. Kærendur eigi ekki eignir í heimaríki og framfærsla barna kærenda yrði ótrygg verði fjölskyldunni gert að snúa aftur til Írak, þá einkum í ljósi þess að kærendur hafa ekki kost á aðstoð eða stuðningi fjölskyldna sinna. Þá sé efnahagsleg og félagsleg staða kvenna almennt bágborin í Írak og atvinnuleysi töluvert.
Kærendur telja að með endursendingu þeirra til Íraks yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telja kærendur að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.
Þrautaþrautavarakröfu sína byggja kærendur á því að það ofbeldi sem kærendur hafi orðið fyrir í heimaríki sé heiðurstengt og að af ákvörðun Útlendingastofnunar megi lesa að hefði trúverðugleikamat stofnunarinnar verið í samræmi við fyrirliggjandi heimildir um heimaríki kærenda hefði kærendum verið veitt vernd. Hefði Útlendingastofnun þurft að rannsaka betur og fjalla um heiðurstengt ofbeldi í ákvörðun sinni.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað afriti af írökskum skilríkjum fyrir sig og börn sín að undanskildum A. Var það mat Útlendingastofnunar að kærendur hefðu ekki sannað hver þau væru með fullnægjandi hætti. Var því leyst úr auðkenni þeirra á grundvelli trúverðugleikamats. Verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærendur séu ríkisborgarar Íraks. Þrátt fyrir fullyrðingar Útlendingastofnunar um annað lögðu foreldrar A fram afrit af skilríkjum hans. Að öðru leyti hefur kærunefnd ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að þau séu írakskir ríkisborgarar.
Réttarstaða barna kærenda og umfjöllun Útlendingastofnunar um aðstæður A – ný gögn
Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.
Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.
Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.
Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.
Óumdeilt er að börn geti átt sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar. Þegar um er að ræða börn í fylgd með foreldrum sínum hefur Útlendingastofnun afgreitt mál hvers einstaklings í sérstakri ákvörðun en í rökstuðningi í málum barna er um ákveðin atriði vísað til rökstuðnings með ákvörðunum foreldra. Þegar þessi leið er farin verða ákvarðanir fjölskyldunnar í heild sinni þó ávallt að uppfylla reglur stjórnsýslulaga um rökstuðning og vera að öðru leyti settar fram á þann hátt að af lestri þeirra megi ráða að í reynd hafi farið fram skyldubundið mat á hagsmunum barnanna á viðhlítandi grundvelli.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi K frá því að A hefði ítrekað orðið fyrir ofbeldi af hálfu bróður síns sem að mati hennar sé hættulegur maður. Þá hafi A reynt í eitt sinn að koma í veg fyrir að móðurbróðir hans myndi beita móður sína ofbeldi með því að reyna að stía þeim í sundur. Í ákvörðun Útlendingastofnun í máli A greinir jafnframt að í viðtali hafi hann verið í augljósu uppnámi þegar hann hafi rifjað upp samskipti sín við móðurbróður sinn. Þá má einnig ráða af viðtali við K að B hafi einnig orðið vitni að ofbeldi bróður K en sú fullyrðing var ekki könnuð frekar af hálfu Útlendingastofnunar. Á grundvelli þessara upplýsinga bar Útlendingastofnun að kanna sérstaklega hvernig sú aðstaða sem börn kærenda voru í horfðu við börnunum með tilliti til hugsanlegrar viðurkenningar á stöðu þeirra sem flóttamenn og rétti þeirra til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða ásamt því að meta jafnframt hvort það væri börnum kærenda fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum til baka til heimaríkis. Í stað þess kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að umsókn A sé byggð á málsástæðum foreldra hans. Að því búnu er komist að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld geti veitt foreldrum hans viðeigandi vernd í heimaríki. Engin sérstök umfjöllun er í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli A um hvernig það ofbeldi sem hann kann að hafa orðið fyrir hafi áhrif á rétt hans til alþjóðlegrar verndar í ljósi sérsjónarmiða um börn. Þá er ekki fjallað sérstaklega um sérsjónarmið um rétt barna til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, en eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga geta skilyrði slíks leyfis verið önnur en þegar fullorðnir eiga í hlut.Að mati kærunefndar verður ekki annað ráðið af ákvörðunum Útlendingastofnunar í máli kærenda og A en að umsókn A um alþjóðlega vernd hafi ekki verið metin sjálfstætt. Af frásögn kærenda og A má engu að síður ráða að atvik hafi verið til staðar sem leiði til þess að sérstök ástæða hafi verið til þess að skoða sérstaklega umsókn A og meta hvort að sérsjónarmið laga um útlendinga er varða börn geti leitt til þess að A hafi sjálfstæðan rétt til verndar hér á landi. Málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunar í máli A er að mati kærunefndar ennfremur ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga.
Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lögðu kærendur m.a. fram afrit af ökuskírteini sem K kvað tilheyra bróður sínum. Kærunefnd óskaði eftir að lögregla kannaði áreiðanleika ökuskírteinisins. Lögregla komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri að sjá að skjalið væri falsað en þar sem um afrit var að ræða væri ekki hægt að komast að skýrri niðurstöðu um skjalið. Þá lágu fyrir ljósmyndir sem K kvað vera af bróður sínum, m.a. mynd af umræddum bróður ásamt háttsettum einstaklingi sem tengist PUK og Peshmerga hernum og var, samkvæmt skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér, ákærður fyrir morð á blaðamanni eftir að hafa haft í hótunum við hann. Við meðferð málsins hjá kærunefnd voru að beiðni kærunefndar lögð fram frekari gögn sem varpa ljósi á tengsl kærenda við þann einstakling sem þau héldu fram að væri bróðir K, þ.m.t. ljósmyndir sem kærendur segja vera af K og bróður hennar. Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að forsendur trúverðugleikamats Útlendingastofnunar kunni að hafa breyst.
Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að málsmeðferðin sé haldin annmarka sem sé verulegur. Þá telur kærunefnd að annmarkinn kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins hjá Útlendingastofnun. Kærunefnd telur jafnframt að ekki verði bætt úr annmarkanum á kærustigi.
Eins og áður greinir ber að fara með mál A í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar og úrskurðir fjölskyldunnar haldast því í hendur.
Með vísan til ofangreinds telur kærunefnd að rétt sé að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra og vísa málunum til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál þeirra til nýrrar meðferðar.
The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their children are vacated. The Directorate is instructed to re-examine their cases.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Bjarnveig Eiríksdóttir Árni Helgason